LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiSvæshefill
Ártal1850-1920

ByggðaheitiSiglufjörður
Sveitarfélag 1950Siglufjörður
Núv. sveitarfélagFjallabyggð
SýslaEyjafjarðarsýsla
LandÍsland

GefandiKristján Sigurðsson 1902-1999
NotandiAndreas Christian Sæby

Nánari upplýsingar

Númer1-7
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá
Stærð47 x 3,5 x 2,9 cm
EfniJárn

Lýsing

 Svæshefill, notaður til að hefla tunnustafina að utan.

Eitt af áhöldum Andreas Christian Sæby sem starfaði sem beykir á Siglufirði. Kom ásamt öðrum verkfærum hans og verkfærakistu. A. Sæby fæddist í Danmörku árið 1851 og dó á Siglufirði 1928. Hann byggði fyrsta hluta húss síns, Sæby-húss, árið 1886. Sæby húsið stendur enn og er annað elsta hús Siglufjarðar. Það stendur við Norðurgötu 3. Þar býr nú Örlygur Kristfinnsson safnstjóri Síldarminjasafnsins ásamt fjölskyldu sinni. Kona hans var Kristín Stefánsdóttir (1858-1901). Börn þeirra: Andrea, Björg, Ágúst, Rúdolf, Johandine, Pálína, Vilhelm. (Sigurjón Sigtryggsson, 1986: 875).) A. Sæby var einn af fáum lærðum beykjum á Íslandi. Margir störfuðu sem díxilmenn en voru ekki lærðir í beykisiðn.  Gerðar voru strangar kröfur um efnisþekkingu og verkkunnáttu beykjanna. Beykjastéttin á Íslandi varð aldrei mjög fjölmenn, enda var lítið um nýsmíði. Fyrst og fremst var um að ræða samsetningu og frágang á tunnum. Líklega hefur beykjarastéttin verið stærst um 1930, en þá voru samkvæmt manntali 117 sjálfstæðir beykjar, sveinar og nemar í iðninni (Benedikt Sigurðsson. Samtíningur um tunnusmíðar á Íslandi). A. Sæby kom fyrst til Siglufjarðar fyrir tilstilli Snorra Pálssonar verslunarstjóra, sem vildi ráða til sín útlærðan danskan beyki frá Kaupmannahöfn. Til að byrja með dvaldist hann hér einungis á sumrin, en festi svo rætur og giftist Kristínu Stefánsdóttur. Talið er að A. Sæby hafi flust til Siglufjarðar 1880 (Ingólfur Kristjánsson, 1988: 142, 510). A. Sæby og Kristín eignuðust stóran hóp afkomenda og er Kristján Siguðsson, betur þekktur sem Stjáni á Eyri, afabarn þeirra. Kristján gaf hefilinn ásamt fleirum verkfærum afa síns. Kristján var sonur hjónanna Andreu Ólafar Kristínar, sem var elsta barn A. Sæby og Kristínar, fædd 1883 og Sigurðar Jónssonar á Eyri. Kristján var húsasmiður að mennt en var mikilvirkur í bátasmíðum á Siglufirði. Á sumrin starfaði hann sem stöðvarstjóri á söltunarstöð Ísfirðinga, þar sem nú er Róaldsbrakki, í 30-40 ár. En á veturna byggði hann báta sína í síldarhúsi, Þrónni svokallaðri, við hlið Róaldsbrakka. Auk fiskbáta smíðaði hann fjölmarga nótabáta til síldveiða og vann mikið að viðgerð þeirra.


Heimildir

Sigurjón Sigtryggsson. 1986. Frá Hvanndölum til Úlfsdala, þættir úr sögu Hvanneyrarhrepps, 3. bindi. Reykjavík: Sögusteinn.

Ingólfur Kristjánsson. 1988. Siglufjörður 1818 - 1918 -1988. Reykjavík: Myllu Kobbi.

Þetta aðfang er í Síldarminjasafni Ísland. Safnkosturinn nær til alls sem tengist sögu síldarútvegs og síldariðnaðar Íslendinga, ásamt munum sem snerta líf hins venjulega manns í hinum dæmigerða síldarbæ. Ógerlegt að telja gripi, um slíkan fjölda er að ræða. Ætla má að um helmingur safnskostsins sé skráður í aðfangabók eða í spjaldskrá en hinn helmingurinn er algjörlega óskráður. Skráning í Sarp er á byrjunarstigi.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.