LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÁheit, Átrúnaður, Heitgjöf, Kirkja, Kirkjugarður, Kirkjugripur, Trúariðkun, Þjóðtrú
Ártal1925-2009
Spurningaskrá111 Áheit og trú tengd kirkjum

ByggðaheitiMjóifjörður
Sveitarfélag 1950Mjóafjarðarhreppur
Núv. sveitarfélagFjarðabyggð
SýslaS-Múlasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1914

Nánari upplýsingar

Númer17219/2009-2
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.9.2009/12.11.2009
TækniSkrift
Nr. 17219

Heimildarmaður: Vilhjálmur Hjálmarsson, f. 20.09.1914, Brekku Mjóafirði.

s1
Svör við nr. 111

Áheitin, ég get litlu svarað um þau. Vafalaust hef ég heyrt fólk tala um áheit, varla þó hér heima því mér er nú ekkert í minni um þá hluti umfram það sem ég hef lesið á bókum. Það þarf þó ekki að vera að sveitungar mínir hafi upp til hópa verið fráhverfir áheitum. Og fyrrum formaður sóknarnefndar segir mér núna að hann muni eftir áheitum á kirkjuna, þar á meðal þremur frá sama aðila. Mun áheita vera getið í gerðabók. En ég man harla lítið eftir tali sveitunga um dulræn efni. Virðist allt annað uppi hjá næstu nágrönnum Norðfirðingum sbr. nýútkomna bók Hálfdanar Haraldssonar. Þrátt fyrir framansagt get ég greint frá því að eitt sinn hét ég á Strandarkirkju, ég held þó fremur í gamni en alvöru. En það var eins og við manninn mælt og auðvitað stóð ég við áheitið. En um áheit og trú á þau er ég hreinlega ekki viðræðuhæfur. Aftur á móti ætla ég að reyna við kirkjuþáttinn. Kirkja Mjófirðinga var þúsund ár í Firði. Fjörður var landnámsjörð, víðlendust og vísast besta jörðin þrátt fyrir annmarka, sólarleysi og ofanflóð. Þegar svo byggð þéttist á Brekku sem er nærri miðsvæðis í sveitinni og kirkja í Firði orðin hrörleg tókst samstaða um að reisa nýja kirkju á Brekku 1892. Miðlega staðarins réði flutningnum. Fundargerðir sóknarnefndar sýna að tveir staðir hafa komið til álita þegar velja skyldi land fyrir kirkju og kirkjugarð. Var valinn staður þar sem grafstæði var hentugra og þar sem kirkjuhúsið sómir sér betur að allra dómi.

s2
Síðustu áratugi hefur kirkjan verið ólæst á sumrin svo hverjum sem er sé frjálst að líta þar inn. Enginn sérstakur tilgangur annar. Ég veit ekki til að sérstök trú sé á verndarmætti kirkjunnar. Um tvö mestu atriði hef ég ekkert markvert að segja. Ég hygg að í hugum margra sé kirkjan og grafir forfeðra þeirra og annarra ættingja nátengd. Á hinn bóginn eru margir legstaðir frá fyrstu áratugum kirkju og grafreits óþekktir. Uppdráttur að garðinum var fyrst gerður á 5. áratugnum. Fátt hefur verið aðhafst í Mjóafjarðarkirkju umfram kirkjulegar athafnir. Nokkrum sinnum voru flutt þar erindi fyrrum. Og í seinni tíð hefur kirkjan og stundum byggðin verið kynnt þar fyrir ferðafólki, innlendu og erlendu. Í sumar voru haldnir tónleikar í kirkjunni og þá var klappað. Veit ég ekki til þess að það hafi verið gert áður. Og ég hygg að ekkert hafi verið talað um það sérstaklega. Kirkjubyggingin sjálf held ég að hafi skipt flesta verulegu máli og að flestum sé ljóst að þar fara fram athafnir sem skipta marga miklu, verða eftirminnilegar. Nú er það aftur orðin venja að skíra og gifta í kirkju. Og nokkrir burtfluttir koma, jafnvel frá öðrum löndum til þess að njóta slíkra athafna hér í kirkjunni. Aldrei hef ég heyrt getið um trú manna á einstökum gripum kirkjunnar. Mjóafjarðarkirkju og kirkjugarði hafa borist ýmsar gjafir á liðnum árum og skulu nokkrar nefndar.

s3
Ljósahjálmur, fimm arma kertastjaki, peningar upp í kostnað við raflýsingu, skírnarfontur, Guðbrandarbiblía ljósprentuð, altarisklæði, höklar, sálmabekkur, blómavasar og helgimynd. Varðandi grafreitinn má nefna sáluhlið, fánastöng og fána. Ennfremur nafnplötur á fótum á marga legstaði, amk. legsteina og annarra grafarmerkja aðstandenda. Gefið er við ýmis tækifæri, afmæli kirkju til minningar um látin skyldmenni og svo framvegis. Um væntingar í því sambandi hef ég aldrei heyrt. Og ég veit engan átrúnað á náttúrufyrirbærum né heldur um vígða staði. Jafnvel Guðmundur góði sem reisti tjöld sín á „Gvendarbala“ á túninu í Firði, nýkominn af hafi, lét undir höfuð leggjast að vígja staðinn. Svo bið ég forláts á fáfræði minni. En mér er tamt að svara bréfum þó lítið sé um fréttir eins og þrátt var sagt í gömlu bréfunum.

Brekku 11.11.2009
Vilhjálmur Hjálmarsson.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana