LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Kreppan; hrunið og Búsáhaldabyltingin

ÞMS
Spurningaskrá 2010-1
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Skrá 112. Kreppan, hrunið og búsáhaldabyltingin

Spurningaskrá þessi fjallar um bankahrunið haustið 2008, kreppuna sem fylgdi í kjölfarið og svo kallaða Búsáhaldabyltingu.

Þú ert fyrst og fremst beðin(n) um að segja frá þinni eigin reynslu en einstaka sinnum eru spurningarnar þó almenns eðlis. Lestu vandlega í gegnum þær áður en þú byrjar að svara, en ekki er nauðsynlegt að gera það í réttri röð. Frásögnin má því vera í samfelldu máli og algerlega frjáls ef að þér finnst það þægilegra. Þannig má líta á spurningarnar sem eins konar viðmið. Allar upplýsingar eru mikils virði jafnvel þótt svör fáist ekki við öllum atriðum. Ýmis fróðleikur sem ekki er spurt um sérstaklega mætti gjarnan fá að fljóta með.

Flestar spurninganna eru almenns eðlis þótt nokkrar eigi fyrst og fremst við um Reykjavík og nágrenni. Þú svarar þá eingöngu þeim spurningum sem við eiga.

Bankahrunið

Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu fyrir bankahrunið (lífsstíll,

viðhorf, hugsunarháttur t.d.)?

Árin fyrir hrunið einkenndust af miklum framkvæmdum og gríðarlegri þenslu. Hvenær

finnst þér að þú hafir séð einhverjar vísbendingar um hvað væri í vændum?

Mikið var um gagnrýni á íslenska banka í útlöndum og jafnvel innanlands fyrir hrunið.

Að hvaða leyti tókst þú mark á þessari gagnrýni og hvaða áhrif hafði hún á þig?

Segðu frá því sem þú upplifðir (tilfinningar, atburðir) þegar tilkynnt var um

bankahrunið. Hvernig leið þér daginn eða dagana á eftir og hvernig líður þér núna?

Finnst þér að þú skiljir/skiljir ekki orsök og afleiðingar hrunsins og hvernig ástandið er

í þjóðfélaginu í dag? Geturðu lýst þessu?

Margir hafa orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að skuldir þeirra hafa margfaldst

eða tapað fjármunum vegna hrunsins. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf

viðkomandi, þitt eða annarra sem þú þekkir til?

Íslendingar sem bjuggu erlendis lentu margir í fjárhagsörðugleikum og sumir

ferðamenn gátu ekki notað íslensk greiðslukort í útlöndum. Þekkir þú einhver dæmi

um þetta sem þú getur sagt frá?

Talað var um að æðstu stjórnendur banka bæru gríðarlega ábyrgð og ættu þess

vegna að hafa laun í samræmi við það. Hvaða skoðun hafðir þú á þessu fyrir hrunið?

En í dag?

Hvað fannst þér um hina svo kölluðu útrásarvíkinga fyrir hrunið? En í dag?

Meðan allt lék í lyndi héldu ýmsir því fram að tala ætti ensku í stórfyrirtækjum hér á

landi. Hvað fannst þér um þetta á sínum tíma? En í dag?

Mótmælin - Búsáhaldabyltingin

Hvernig fréttir þú af mótmælunum? Hvenær fórst þú að taka mark á mótmælunum og

skipuleggjendum þeirra eða gerðirðu það kannski alls ekki?

Tókst þú þátt í mótmælunum og hvers vegna? Ef þú tókst þátt hvað var kornið sem

fyllti mælinn?

Hefur þú mótmælt áður (fyrir hrunið) og ef svo er hvenær og af hvaða tilefni?

Hvernig fannst þér að stemningin eða andinn hafi verið á mótmælunum?

Hvaða skoðun hefur þú á átökunum við lögregluna? Áttu þau fullan rétt á sér eða

e.t.v. alls ekki? Fannst þér mótmælin ganga of langt, vera passleg og réttlát eða hafa

gengið of skammt?

Hvað finnst þér um frammistöðu lögreglunnar?

Telur þú að mótmælin hafi skipt máli eða skilað einhverjum árangri? Hvernig þá?

Segðu frá slagorðum og orðatiltækjum í tengslum við mótmælin sem þér er kunnugt

um.

Hefur þú tekið þátt í öðrum mótmælum nýverið, t.d. gegn Icesave? Viltu segja frá

þessu?

Kreppan

Finnst þér að það sé eða hafi verið kreppa á Íslandi sl. 12-14 mánuði? Hvernig hefur

þú orðið var við hana?

Hefur þú upplifað kreppu áður? Að hvaða leyti er núverndi kreppa sambærileg eða

ekki sambærileg við aðrar kreppur sem verið hafa í landinu að þínu mati?

Hvernig hefur kreppan haft áhrif á neysluvenjur þínar (innkaup, akstur, munaðarvörur

t.d.)?

Hver eru helstu áhrif kreppunnar á fjölskyldulíf þitt (streita, heilsufar, samvera t.d.)?

Hver telur þú að sé upplifun barna almennt af kreppunni? Hafa þau verið upplýst um

hana og ef svo er á hverju hefur það helst oltið (aldri t.d.)?

Upplifir þú að löngun þín til að taka þátt í félagslífi og grasrótarstarfsemi hafi breyst á

undanförnu ári? Geturðu lýst þessu?

Hefur kreppan haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ef svo er hvaða

ráð hefur þú notað til að takast á við þetta?

Hvaða áhrif hefur kreppan haft á trúarlíf þitt (fer oftar/sjaldnar í kirkju t.d.)?

Í hvaða mæli hefur þú tekið upp „þjóðleg“ gildi eða siði í kjölfar hrunsins (ísl. matur,

vel íslenskt, ferðast innanlands t.d.)?

Hefur lífsviðhorf þitt hugsanlega breyst á einhvern hátt eftir hrunið og þá hvernig?

Hefur viðhorf þitt gagnvart því að búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi breyst á

undanförnu ári og hvers vegna?

Hefur þú misst vinnuna? Ef svo er hvaða áhrif hefur það haft á þig og þína nánustu?

Hvernig hefur kreppan með tilheyrandi niðurskurði haft áhrif á vinnustað þinn?

Hvaða nýsköpun er þér kunnugt um eða annað jákvætt sem gæti komið út úr

kreppunni?

Hefur þú eða fólk sem þú þekkir leitað til hjálparsamtaka sem afleiðing af hruninu eða

kreppunni? Viltu segja frá þessu?

Hefur þú íhugað að flytja úr landi? Hvers vegna og hvert þá helst? Þekkirðu aðra sem

hafa gert það, til hvaða landa og hvers vegna?

Áhrif kreppunnar á framtíðaráform ungs fólks eru margvísleg, t.d. í sambandi við

húsnæðiskaup. Hver er reynsla þín af þessu?

Finnst þér að þú hafir orðið var/vör við óraunhæfar væntingar fólks í sambandi við

björgunaraðgerðir frá hinu opinbera? Hvernig lýsir þetta sér?

Annað sem tengist kreppunni og þú vilt segja frá, t.d. hvaða lærdóm má draga af

henni.

Fjölmiðlun, umræða og upplýsingagjöf

Hvernig finnst þér að fjölmiðlar hafi staðið sig við að upplýsa almenning um ástandið

og ákvarðanir stjórnvalda? Hefur umræðan verið nægilega lýsandi eða skilvirk?

Hafa upplýsingar frá stjórnvöldum verið fullnægjandi að þínu mati? Ef ekki hvað finnst

þér að helst skorti?

Hvað finnst þér um hina pólitísku umræðu í sambandi hrunið og Icesave? Hefur hún

t.d. verið skiljanleg/óskiljanleg?

Hafa skoðanir þínar hugsanlega fremur mótast af viðræðum við annað fólk, bloggi,

spjallrásum eða Facebook og þá hvernig?

Facebook var mikið notað við að skipuleggja mótmæli og fjöldi hópa stofnaðir um hitt

og þetta. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um í hvaða hópa þú skráðir þig og hvers

vegna.

Annað

Þekkirðu sögur af jákvæðum eða neikvæðum viðhorfum erlendis í garð Íslendinga

eftir hrunið? Segðu frá!

Hvaða brandara, vísur og sögusagnir um spillingu, klíkuskap, forréttindi, óhóf, mútur

og svindl hefur þú heyrt í tengslum við bankahrunið, kreppuna og Icesave?

Skemmtilegt væri að fá þetta sett á blað.

/