LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiBarn, Sumardvöl, Sveitalíf
Ártal1940-1951
Spurningaskrá109 Sumardvöl barna í sveit

StaðurHvallátur
Sveitarfélag 1950Flateyjarhreppur A-Barð.
Núv. sveitarfélagReykhólahreppur
SýslaA-Barðastrandarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1932

Nánari upplýsingar

Númer2007-2-81
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið15.8.2012/4.1.2013
TækniTölvuskrift

[Tölvupóstur frá heimildrmanni, dagsettur 4. janúar 2013]:

Heimildarmaður: Karl, f. 1932, búsettur í Reykjavík.

Blessaður Ágúst.

Meðfylgir í viðhengi útfylltur spurningalistinn varðandi sumardvöl barna í sveit. Þar eru tilvitnanir í greinar, sem Bergsveinn Skúlason hefur ritað um Vestureyjar á Breiðafirð og skýra betur þær aðstæður, sem verið er að fjalla um. Mest er þó mín eigin upplifun og reynsla. Ég lét fljóta með tvo frásagnarþætti, sem ég ritaði fyrir alllöngu síðan, en hef hvergi birt. Mér fannst þeir varpa nokkru ljósi á störf okkar unglinganna og aðstæður.

Þeim, sem vilja kynna sér nánar Vestureyjar á Breiðafirði, aðstæður, líf og störf fólksins þar, vísa ég til dæmis á rit Bergsveins Skúlasonar um þetta efni, Vestlendinga Lúðvíks Kristjánssonar, sögu Snæbjarnar Kristjánssonar í Hergilsey og síðast en ekki síst á Eylendu, en þar er t.d. að finna fjölda mynda, sem m.a. lýsa mörgu af því, sem ég get um í svörum mínum.

Því miður er þetta horfinn heimur, sem þó er enn þá ljós lifandi í huga mínum. Þarna hefur enginn fasta búsetu lengur og þeim fækkar óðum, sem þekkja þá búskaparhætti og það verklag, er þar tíðkaðist.

Eyjarnar standa fastar á sínum stað þótt fólkið hverfi á braut. Æðurin saknar mannsins og ef til vill selurinn forvitni líka, þótt sambúð manns og sels hafi ekki verið jafn friðsöm.

Mér þætti vænt um að heyra frá þér hvað þér finnst um þetta og ég er fús til að svara þeim spurningum, sem kunna að vakna hjá þér við lesturinn, ef ég get.

Ég sendi svo hitt skjalið undirritað til þín með Póstinum.

Bestu kveðjur og nýársóskir.

[..1..]

 

 

[Hér að neðan kemur svo frásögn heimildarmanns]:

 

 

Send í sveit

Á hvaða árum varst þú í sveit á sumrin? Hve gamall/gömul varstu? Hvert fórst þú og hve oft? Varstu hjá venslafólki eða vandalausum?

 

Ég var í sveit á sumrin á sama bæ frá árinu 1940 til ársins 1951.  Þegar ég fór fyrst í sveit var ég sjö ára gamall. Ég var þar hjá uppeldisbróður föður míns (og frænda), Jóni Daníelssyni og konu hans Jóhönnu Friðriksdóttur, en þau bjuggu í Hvallátrum, sem er ein af vestureyjum Breiðafjarðar. [Flatey, Hergilsey, Svefneyjar, Hvallátur, Skáleyjar og Sviðnur. Til þess að lýsa aðeins betur þessum eyjum og umhverfi þeirra, ætla ég að vitna í grein Bergsveins Skúlasonar í tímaritinu ‚Óðinn‘, 1. Janúar 1935. Hann segir svo um Vestureyjar á Breiðafirði í mjög styttu máli og á lýsing hans vel við eyjarnar og aðstæður þar eins og þær voru er ég kom þar fyrst:

„Landsigið hefur orðið minnst norðaustan til í [Breiða}-firðinum. Þar er nú krökkt af eyjum og skerjum, og grunnsævi svo mikið, eftir að kemur inn fyrir ystu eyjarnar, að ekki er siglandi um stór svæði 10—20 tonna mótorbát, nema fyrir hina kunnugustu menn.— Og alltaf grynnir. Þarna mynda nokkur hundruð eyjar sjerstakan eyjaklasa eða þorp. Það heita Vestureyjar. Þar er sjerstök sveit eða hreppsfjelag, og dregur hreppurinn nafn af stærstu og merkustu eynni og heitir Flateyjarhreppur. Hann er ótvírætt sjerkennilegasti hreppur á íslandi. — Að eins sjö af þessum eyjum eru byggðar: Bjarneyjar, Flatey, Hergilsey, Svefneyjar, Hvallátur, Skáleyjar og Sviðnur. Allar hinar eyjarnar — fleiri hundruð að tölu — liggja undir þessar sjö byggðu eyjar og eru nytjaðar af íbúum þeirra.......“. „....Flatey er merkust allra eyja á Breiðafirði og fegurst. Hún er stór og má rækta hana sem aldingarð. Undir hana liggja 34 eyjar og hólmar, allar frjósamar og auðugar af fugli. Flatey er höfuðstaður Flateyjarhrepps....“

Sá hjet Þrándur mjóbeinn, er fyrstur nam Vestureyjar og byggði í Flatey. Árið 1172 var sett þar klaustur, en flutt þaðan 1184 að Helgafelli á Snæfellsnesi. Klaustrið stóð hátt á eyjunni og heita þar síðan Klausturhólar. Hin fræga Flateyjarbók er kennd við þessa eyju.  Kirkja er í Flatey og eiga eyjamenn þangað kirkjusókn. Þar situr og læknir hjeraðsins. Í Flatey er margbýli og hefur svo jafnan verið....“  „..Dálítið kauptún er í Flatey, og sækja þangað verzlun eyjamenn og menn úr miðhreppum Barðastrandarsýslu og hefur svo verið síðan 1777. Góð höfn er í Flatey fyrir báta og smærri mótorskip...“  „....Bjarneyjar, Flatey og Hergilsey, eru í daglegu tali manna nefndar Úteyjar.En eyjarnar austur af Flatey, Svefneyjar, Hvallátur, Skáleyjar og Sviðnur, Inneyjar.

Svefneyjar er stór og mikil jörð. Þær hafa að ýmsu leyti sjerstöðu meðal eyja á Breiðafirði. Af 66 hólmum og eyjum, sem liggja undir Svefneyjar, eru ekki fleiri en 2—3 hólmar sem ekki má ganga í um fjöru frá heimaeyjunni. Heimaeyjan er stór og grösug og er á henni fenginn mestur hluti heyskapar í Svefneyjum, sem á hverju ári er um 20 kýrfóður. Í Svefneyjum fæddist 1726, svo sem kunnugt er, Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld. Fram um miðja síðustu öld bjó þar með mikilli rausn Eyjólfur ríki Einarsson. Hann var um langt skeið hreppstjóri þeirra eyjamanna og rjeðu þá ekki aðrir í hreppnum. Eyjólfur var harðger karl, skapbráður og einkennilegur um margt. Ótal sagnir ganga nú um Eyjólf og er kominn ærin þjóðsagnakeimur að sumum. Um Eyjólf Einarsson hefur ekkert verið skrifað, svo mjer sje kunnugt um, sem nokkurt gagn er að. En vel væri hann þess verður að minningu hans væri haldið á lofti. Eftir Eyjólf bjó í Svefneyjum Hafliði sonur hans, prúðmenni mikið og öðlingur, en ekki fór eins mikið fyrir honum sem föður hans.

Hvallátureru ólíkar Svefneyjum. Heimaeyjan er lítil og aðskilin frá meginþorra eyjanna, sem undir hana liggja. Eyjar og hólmar, sem tilheyra Hvallátrum, er um 300 að tölu og venjulega nefnd Látralönd. (Jeg hef enn ekki getað fengið eyjarnar, sem tilheyra Hvallátrum, taldar nákvæmlega; talan styðst við gömul munnmæli og mun fara mjög nærri rjettu lagi.) Hvallátur eru stór jörð, engu síður en Svefneyjar, en stórum erfiðari til búskapar. Vegna þess, hve heimaeyjan er lítil og hrjóstrug, hefur búfje verið haft í seli þar í löndunum fram á síðustu ár. — Bæjarhús standa enn í selinu. Ýmsar drauga og kynjasögur eru tengdar við þetta sel og huldufólk kvað vera þar í hverjum kletti. — Ein hin fegursta og besta bátalending í öllum Breiðafjarðareyjum er í Hvallátrum, að mestu gjörð af náttúrunni, en Ólafur bóndi hefur þó bætt hana að mun. — Oftast hefur verið fleirbýli í Hvallátrum, því heyskapur er þar mikill og beitilönd góð. En síðan laust fyrir síðustu aldamót hefur búið þar af miklum dugnaði og myndarskap Ólafur Bergsveinsson Ólafssonar frá Sviðnum.

Skáleyjarliggja næst landi af eyjum í Flateyjarhreppi. Það er allmikil jörð. Heimaeyjan er stór og vogskorin og þar hygg jeg að finnist fjölbreyttastur jurtagróður í Vestureyjum. Margbýli er í Skáleyjum, enda liggja 108 eyjar og hólmar undir, og eru margar eyjarnar stórar, en allar hrjóstrugar og snöggslægar. En hlunnindi eru þar mikil, bæði æðarvarp og selveiði.

Sviðnur. Útsuður af Skáleyjum, en þó skammt frá, eru Sviðnur. Litlar eyjar, en einkar snotrar og sjerkennilegar hvar sem á þær er litið. Sviðnur eru minnsta býlið í Flateyjarhreppi, en þó notagott og farsælt. Heimaeyjan er lítil og eyjarnar, sem fylgja — 24 að tölu — flestar litlar. En hlunnindi eru í Sviðnum svo sem annarsstaðar í Breiðafjarðareyjum.  — Á síðari hluta 19. aldar bjó í Sviðnum Ólafur Teitsson, ættaður úr Reykhólasveit, tengdasonur Eyjólfs í Svefneyjum. Hann var framfaramaður, í ýmsu á undan sínum tíma og einkennilegur um margt. Sviðnur bera enn þá ljós merki framtakssemi hans og verkhyggni, þó nokkuð vanti á, að verkum hans hafi verið haldið við svo vel sem skyldi.......“

Það, sem tíundað var hér að framan, eru aðeins slitrur úr mjög fróðlegri og áhugaverðri grein Bergsveins Skúlasonar um Vestureyjar á Breiðafirði, er birtist í tímaritinu ‚Óðinn‘ 1. Janúar 1935.

Bergsveinn var fæddur í Hvallátrum 3. apríl 1899, en ólst upp í Skáleyjum. Hann var búfræðingur að mennt, stundaði búskap m.a. í Skáleyjum frá 1928 til 1931 og á Skálmanesmúla og í Ögri við Stykkishólm. Líklega er hann þó þekktastur fyrir ritstörf sín m.a. um eyjar Breiðafjarðar og mannlífið þar. Bergsveinn lést 21. ágúst 1993.]. 

Jafnframt var ég í skjóli Önnu Ólafsdóttur, föðursystur minnar, sem leit eftir mér og annaðist mig þetta fyrsta sumar. Hún var þá ógift og til heimilis hjá Jóni uppeldisbróður sínum.  Á þessum árum var búið í öllum vestureyjunum, tvíbýli eða fleirbýli í þeim flestum, nema Sviðnum, þar var einbýli. Á því ellefu ára tímabili, sem ég var í sveit í Hvallátrum, voru ábúendur í vestureyjum svo sem hér segir:

Hergilsey: Þar bjuggu: Guðmundur Jóhann Einarsson (f.2/4 1893) frá 1925-1942 með sína fjölskyldu; Magnús Einarsson (f.2/6 1906) frá 1932-1942 með sinni fjölskyldu; Þórður Valgeir Benjamínsson (f.2/8 1896) frá 1924-1946 ásamt fjölskyldu.

Svefneyjum: Sveinbjörn Daníelsson (f. 29/3 1907) frá 1939-1958 ásamt fjölskyldu; Gestur Vilmundur Gíslason (f.13/4 1912) frá 1942-1946 með fjölskyldu.

Hvallátrum: Jón Daníelsson (f.25/3 1904) frá 1937-1967 ásamt fjölskyldu; Sveinn Pétursson (f.6/8 1920) frá 1942-1947 ásamt fjölskyldu.

Skáleyjum: Skúli Bergsveinsson (f. 16/6 1869) bjó þar frá 1899-1941 ásamt fjölskyldu sinni; Gísli Einar Jóhannesson(f.1/9 1901) frá 1930-1967 ásamt fjölskyldu sinni; Sigurður Ólafsson (f.1/11 1917) bjó þar frá 1940-1943 með sinni fjölskyldu; Sveinn Jónsson (f.15/10 1874) þar frá 1940-1944; Guðmundur Guðmundsson (f. 15/5 1906) frá 1945-1962 með sína fjölskyldu.  Auk þess voru þar í húsmennsku Sveinbjörn Pétursson og Anna Björnsdóttir.

Sviðnur: Jens Elías Nikulásson (f.21/5 1899) frá 1931-1956 ásamt fjölskyldu sinni.

Talsvert fjölmenni var því í flestum eyjunum, ekki síst yfir sumarið, þegar þar var aðstreymi af sumardvalarbörnum og kaupafólki.

Ég átti frændfólk í Flatey, Svefneyjum, Hvallátrum og Skáleyjum þ.e.a.s. á flestum nágranna bæjunum.  Föðurafi minn, Ólafur Bergsveinsson, hafði lengi búið í Hvallátrum og faðir minn, Bergsveinn Ólafsson, augnlæknir, var fæddur þar og ólst þar upp.  Ég hafði því ýmislegt heyrt um eyjarnar og lifnaðarhætti þar áðu en ég kom þangað fyrst.

 

Hve lengi var dvöl þín í hvert skipti (t.d. nokkrar vikur, allt sumarið)?

 

Ég man ekki lengur hve löng dvöl mín var í Hvallátrum þetta fyrsta sumar, en hún var að minnsta kosti nokkrar vikur.  Sumrin eftir þetta fyrsta sumar fór ég yfirleitt af stað vestur í eyjar nánast um leið og skóla lauk á vorin og kom yfirleitt ekki til baka úr sveitinni fyrr en seint í september.

 

Segðu frá undirbúningi, brottför og kveðjum. Hafðir þú farið áður að heiman?

 

Ég man nú ekki sérstaklega eftir undirbúningi að brottförinni þetta fyrsta sumar.  Móðir mín hefur tekið til föt handa mér og pakkað í ferðatöskuna eins og hún gerði alla tíð.  Mér finnst ekki ósennilegt að Anna, föðursystir mín, hafi verið með henni í ráðum um hvernig útbúa skyldi drenginn, enda hún þaul kunnug öllum aðstæðum. Svo hef ég kvatt foreldra mína, yngri systkini, móður- afa minn og ömmu, frændur mína, frænkur og frændsystkini og minn eina jafnaldra og vin af Hávallagötunni með nokkrum söknuði.  Reyndar man ég þetta ekki vel. Þannig háttaði til að einmitt þetta vor vorum við að flytja búferlum norður yfir Landakots-hæðina frá Hringbraut 83 að Ránargötu 20, en það leiddi m.a. til þess, að gagnger breyting varð á leikfélagahópnum. Jafnframt hætti ég í Miðbæjarbarnaskólanum þar sem ég hafði hafið skólagöngu mína  og flutti í Landakotsskóla þar sem ég síðar lauk fullnaðarprófi. [Orsökin að þessum flutningi milli barnaskóla var sú, að ég hafði orðið fyrir einelti í Miðbæjarskólanum.  Leið hins vegar ágætlega í Landakoti og undi mér vel]. Það má því segja, að ríkjandi hafi verið nokkuð millibils ástand hvað félaga- og vinahópinn áhrærði.  Því færri til að kveðja, en síðar varð.

Ég get varla sagt að ég hafi áður farið að heiman til þess að dvelja nætursakir fjarri foreldrum mínum. Þó var það svo, að vegna búsetu flutninga, fyrst af Hávallagötu 47 að Hringbraut 83 [Þar bjuggum við eitt ár] og síðan þaðan  að Ránargötu 20, svo og vegna fæðingar yngri bróður míns og yngri systur minnar, veikinda og dauða Ólafs föðurafa míns, en hann lá banaleguna og dó heima hjá okkur á Hringbraut, þurfti ég að dvelja langtímum saman hjá móður ömmu og móður afa í Suðurgötu 4.

 

Lýstu fyrsta ferðalagi þínu í sveitina. Hve langan tíma tók það? Var farið í rútu eða einkabíl? Fórstu einn/ein eða var hugsanlega einhver með þér ? Hver? Hvað geturðu sagt um eftirvæntingu, kvíða eða söknuð?

 

Satt að segja man ég lítið eftir ferðinni í sveitina. Anna, föðursystir mín, var mér samferða, gætti mín og annaðist mig á leiðinni. Ekki hef ég neina hugmynd um hve langan tíma ferðin tók. Við ferðuðumst með strandferðarskipinu Súðinni, að því er ég held alla leið, a.m.k. man ég eftir að við höfðum viðkomu í Stykkishólmi.  Komum til Flateyjar að nóttu til í myrkri og vorum ferjuð í land í uppskipunarbáti.  Þegar til Flateyjar kom gengum við stuttan spöl upp í “plássið” að Ásgarði.  Þar vöktum við upp og fengum að bíða hjá frú Jónínu Eyjólfsdóttur, fjarskyldri frænku okkar, þar til Jón Daníelsson og fóstursonur hans, Aðalsteinn Aðalsteins-son, komu innan úr Hvallátrum að sækja okkur á heimilisbátnum “Björg”.  Ég efast ekki um að ég hafi verið fullur eftirvæntingar að komast á leiðarenda í sveitina, því ég man að mér þótti biðin í Flatey nokkuð löng. Vafalaust hefur ævintýraþráin og eftirvæntingin verið blandin nokkrum kvíða og söknuði, þótt ég muni ekki eftir því lengur.

 

Ástæður sumardvalar

Af hverju varst þú sendur/send í sveit? Sóttist þú eftir því eða var það að frumkvæði foreldra þinna? Hefðir þú frekar viljað vera í þéttbýlinu? Hvers vegna?

 

Ástæður þess að ég var sendur í sveit voru ósköp einfaldar.  Faðir minn var sem læknir í tengslum við Loftvarnanefnd Reykjavíkur.  Þar á bæ mun hafa verið ríkjandi nokkur ótti um að Þjóðverjar kynnu að nýta bjartar og stuttar sumarnætur til þess að senda hingað langdrægar sprengjuflugvélar frá Noregi til þess að gera árásir á birgðaflutningaskip breska hersins í Reykjavíkurhöfn. Undir slíkum kringumstæðum gat verið varasamt að dvelja norðan í Landakotshæðinni, sem var mjög nálægt höfninni. Við höfðum um vorið flutt á Ránargötuna og því nágrannar hafnar og hafnarmannvirkja. Það varð því að ráði að senda mig með Önnu vestur í Breiðafjarðareyjar, en móðir mín fór með yngri systkini mín tvö til sumardvalar austur að Ásólfsstöðum. Sú spurning, hvort ég vildi frekar verða eftir í þéttbýlinu, kom því ekki til álita.  Faðir minn og móðurforeldrar mínir ásamt ömmusystur minni, Guðrúnu L. Blöndal urðu hins vegar eftir heima á Ránargötu og buðu flugher Görings byrgin.

 

Er þér kunnugt um hvers vegna önnur börn eða unglingar voru send í sveit? Lágu hugsanlega efnahagslegar ástæður að baki, t.d. að létta á heimilinu eða að vinna fyrir sér?  

 

Flestir vinir mínir, jafnaldrar og leikfélagar fóru, á þessum árum, í sveit að sumrinu. Ég held að ástæðurnar hafi verið svipaðar, þ.e.a.s. að koma þeim af götum Reykjavíkur að sumrinu meðan skólarnir störfuðu ekki og forða þeim frá hersetuliðinu og öllu sem því fylgdi. Sjálfsagt hafa ástæðurnar verið fleiri og margvíslegri í öðrum tilfellum.

 

Var einhverjum vandkvæðum bundið að komast í sveit á sumrin? Hvaða máli skipti skyldleiki eða kunningsskapur í þessu sambandi?

 

Hvað mig varðaði var leiðin í sveitina greið vegna skyldleika og kunningsskapar svo sem að framan greinir.  Það komu þó fleiri börn og unglingar til sumardvalar í Látrum samtímis mér þar sem bein skyldleika- eða kunningjatengsl voru engin eða minni.

 

Sóttust bændur eftir sumarbörnum? Hvers vegna?

 

Ég veit það nú ekki.  Það þurfti talsvert að hafa fyrir sumarbörnum hvað mat og þjónustu áhrærði. Vinnukraftar þeirra nýttust helst þegar þau komust á unglingsár.  Nokkuð fór það þó eftir aðstæðum, verkefnum og vinnubrögðum.

 

Kannast þú við að til væru neikvæð viðhorf gagnvart kaupstaðarlífi en að sama skapi jákvæð gagnvart sveitalífi og að það hefði áhrif á hvort börn færu í sveit? Nefndu dæmi. 

 

Þegar ég er barn og fer fyrst í sveit er Reykjavík ekki stór og mörk hennar og sveitanna í kring ekki alltaf greinileg. Sveitabýli t.d. við Kaplaskjólsveg, á Klambratúni svo ekki sé minnst á kleppsholtið og Sogamýrina. Margra alda gamalt bændasamfélag að taka sín fyrstu skref í þá átt að verða blanda af dreifbýli með þéttbýliskjörnum og smá þorpum. Yfirleitt fylgja öllum breytingum frá einhverju, sem er gamalgróið, í nýlundu ákveðin tortryggni og mótstaða, ekki síst ef aðstæður knýja á um að slíkar breytingar gerist mjög hratt.  Það var einmitt það, sem gerðist við hernámið og þær miklu tæknilegu framfarir, sem urðu á næstu árum. “Bretavinnan” kallaði á vinnuafl og hærri laun, en henni fylgdi líka “sollur”. Það lá því í hlutarins eðli að ýmsum væri í nöp við kaupstaðarlífið og gerðu mikið úr spillingunni og “sollinum” sem því fylgdi, en dásamaði hið gamalreynda líf í sveitinni, “í faðmi náttúrunnar”. Hin góðu og göfgandi áhrif, sem umgengnin við dýrin og aðrar lifandi verur hennar hefðu á þroska barn og unglinga. 

Þótt sumum finnist slík viðhorf lykta af gamalli rómantik, sem ekki sé lengur í tísku, þá held ég samt að ég verði að taka undir þau.  Sjálfur er ég borgarbarn, fæddur og að mestu uppalinn hér í Reykjavík, búið hér og starfað lengst af .  Samt finnst mér ég enn þann dag í dag sækja sálarstyrk og hugarró til kynna minna og samskipta við hið fjölbreytta dýralíf og náttúru Breiðafjarðareyja. Þangað leitaði hugurinn ætíð þegar streitan varð yfirþyrmandi í amstri dægranna og leitar enn.

 

Hvaða börn

Er þér kunnugt um frá hvers konar heimilum börnin komu? Voru börn send í sveit á vegum stofnana og hjálparsamtaka eins og t.d. Mæðrastyrksnefndar? Hversu algengt var þetta?

 

Börnin sem fóru til sveitardvalar að sumrinu komu frá ýmiskonar heimilum.  Mörg komu frá venjulegum heimilum, en einhver komu frá heimilum þar sem eitthvað var að.  Ég veit svo sem ekkert hvernig þetta skiptist. Þar sem ég þekkti til voru sum, eins og ég, venjuleg  börn frá heimilum þar sem ekkert sérstakt bjátaði á. Önnur höfðu lent í einhverjum hegðunar-örðugleikum, sem gerðu það að verkum, að heppilegt þótti að þau skiptu tímabundið um umhverfi. Sumum líkaði svo vel breytingin á umhverfi að þau sóttu eftir því að fá að koma aftur í sveitina.

 

Voru einhverjir sem sáu um að skipuleggja slíka sumardvöl? Hverjir? Hvað með ráðningarþjónustur eða auglýsingar?

 

Vei það ekki svo gjörla.

 

Á hvaða aldri telur þú að sumardvalarbörn hafi yfirleitt verið?

 

Þar sem ég þekkti til voru börnin á svipuðum aldri og ég, þ.e.a.s. 7 – 18 ára, en ég býst þó við að ég hafi verið orðinn óvenju gamall þegar ég hætti að fara í sveit. Ég var þá kominn í menntaskóla og eyðslusamari. Þurfti hærri laun en hægt var að greiða í sveitinni.

 

Hvar og hvenær

Frá hvaða þéttbýlisstöðum voru börnin einkum? Í hvaða sýslur eða landshluta fóru þau helst?

 

Tveir helstu félagar mínir og grannar fóru í sveit, annar austur á býlið Eskifjörð við samnefndan fjörð, en hinn að Neistastöðum í Árnessýslu. Í öðru tilvikinu var um ættartengsl að ræða (til föðurbróður) í hinu tilfellinu um kunningjatengsl. Þau börn, sem mér voru samtíða í sveit í Látrum, komu flest úr Reykjavík, en nokkur úr þorpum á Vestfjörðum.

 

Á hvaða árum telur þú að byrjað hafi verið að senda börn í sveit? Hversu algengt var þetta, einnig á síðari árum til dagsins í dag?

 

Ég veit það ekki með vissu, en veit þó að móðir mín var send í sveit sem barn til föðursystur sinnar, sem var prestsfrú í Hruna. Ekki veit ég með vissu hvenær þetta var, en hún flutti til Reykjavíkur frá Seyðisfirði 1918 svo það hefur a.m.k. ekki verið fyrir þann tíma.

 

Hve algengt var að börn væru fleira en eitt sumar á sama bæ? Var skipt um bæi og ef svo var hvers vegna?

 

Mér er ekki kunnugt um það, en sjálfur var ég í Hvallátrum í 11 sumur og yngri bróðir minn heldur fleiri, en yngri systir mín nokkru færri. Báðir félagar mínir, sem ég hef minnst á hér að framan, voru nokkur sumur í sveit á sama bæ. Síðan fór annar til sjós að sumrinu sem léttadrengur, en hinn að vinna sem sendill hjá verslun.

 

Hvað réði því hve lengi og hve oft börn fóru í sveit?  Kom fyrir að dvölin væri stytt sökum vanlíðunar eða af öðrum ástæðum?

 

Hvað sjálfan mig áhrærir held ég, að mestu hafi um það ráðið sú staðreynd að mér leið vel og líkaði vel í sveitinni.  Einnig það, að með vaxandi aldri og þroska varð meira gagn að mér til vinnu. Ég kunni orðið til verka við flest störf og hafði eflst að kröftum og þreki. Það var aldrei raunverulegur leiði hjá mér í sveitinni, en auðvitað hlakkaði ég til að koma heim að haustinu, hitta fjölskyldu, foreldra, systkini [reyndar voru yngri systkini mín lengst af samtímis mér í sveitinni á sama bæ], frændur, félaga og vini. Ég held að ég sé ef til vill ekki að segja satt, ef ég bæti við að ég hafi hlakkað til að hefja aftur skólagönguna, en það margt annað sem heillaði t.d. skátastarfið.

 

Vinnuframlag

Hvaða störf varstu látinn vinna? Voru sum störf aðeins ætluð stelpum og önnur strákum? Hvaða?

 

Við krakkarnir, bæði þeir sem heimilisfastir voru í Látrum og þeir, sem voru sumargestir eins og ég, vorum látin vinna þau bússtörf sem við réðum við.  Með vaxandi aldri og þroska urðu þau að sjálfsögðu fleiri og fleiri uns við gengum í störfin til jafns við þá fullorðnu.

Það yrði löng upptalning ef allt yrði talið, sem við unnum að krakkarnir. Eyjabúskapurinn var mjög fjölbreytilegur, bæði vegna hlunninda, svo sem æðarvarpa, selveiði, kofnatekju og  þess, að jörðin Hvallátur er talin ná yfir 300 grasivaxnar eyjar og hólma. [Ja hérna. Þrjú hundruð eyjar og hólmar. Hverjum datt í hug að telja þetta? Og varla hafa allir þessir hólmar haft nafn? Ó, jú, karl minn, víst höfðu þeir nafn. Þegar varpið var gengið og ‚farið undir‘ kollurnar, þurfti að telja þær svo samanburður fengist milli ára og þá þurfti sá sem verkstjórn hafði á hendi að skrá þetta hjá sér og staðsetja kollurnar t.d. í Jónssona-sunda-flögu-langa-tanga-tá. Þannig var nú það, karl minn. Fjórar kollur þar.].

Mikill hluti heyöflunar fór því fram í tjaldútilegum á þessum eyjum. Þær voru gjarnan mjög þýfðar og því ekki véltækri heyöflum viðkomið á þeim. Orfið, ljárinn [frekar Torfaljár (kenndur við Torfa í Ólafsdal), en Eylandsljár notaður. Torfaljáinn, sem var ljáblað fest við ljábakka með hnoðum, var hægt að dengja þegar skörð komu í hann og losna þannig við þau, en Eylandsljáinn, sem var einjárnungur með hörðum stálfleini inni í blaðinu, varð að leggja á hverfisstein til þess að ná úr honum skörðum. Oft var grjót á sjávargrundum og því vildu skerðast ljáirnir þegar þær voru slegnar. Dengingar steðjinn var ferhyrndur járnhnallur, um þumlungur á hverja hlið. Neðan úr honum gekk  stilkur með yddum enda, er gekk niður í þúfuna, sem notuð var sem vinnuborð. Út úr tveim hliðum gengu svo eyru eða vængir sitt til hvorrar hliðar til þess að hamla því að steðjinn gengi of langt ofan í þúfuna. Með fylgdi svo léttur hnoðhamar með ferhyrndum haus og meitillaga hala, dengingarhamarinn.] og hrífan voru helstu amboðin við úteyjaslátt, að reipunum ótöldum. Reipin, fléttuð úr togi og hrosshári með tré- eða hornhögldum voru notuð til að binda heyið í sátur, sem bornar voru á herðum á skip og flutt heim. Stundum þurrt hey, en stundum hálf- eða grasþurrt til frekari þurrks heima í túni, eða þá í súrheystóftina. Þetta gat verið erfiður burður stundum yfir þangvaxna og skreipa fjörusteina. Að sjálfsögðu tókum við krakkarnir ekki þátt í honum fyrr en við vorum farin að stálpast. Konur sem karlar, stúlkur sem drengir, tóku þátt í honum, þó þannig að karlarnir lyftu bagganum á konurnar og snöruðu síðan sjálfir bagganum á sínar herðar. Okkur strákunum var það keppikefli að ná þeim áfanga að geta axlað sáturnar sjálfir. Ég hef ekki verið bakveikur um dagana og þakka það ekki síst heyburðinum og róðrinum á Breiðafirði.

Fljótlega eftir að komumst á unglingsár fengum við strákarnir orf og ljái. Þetta voru minni orf en fullorðnu karlarnir notuðu og ljáirnir styttri Torfaljáir. Brýni fengum við líka og tilsögn um hvernið þeim skyldi beitt til að hvetja ljáinn.  Það tók þó nokkurn tíma að læra að brýna svo biti. Þar býst ég við að meiru hafi um ráðið lagni en það, hversu lygnir menn voru. Sagan sagði þó, að lýgnir brýndu best og bitið brygðist síst hjá þeim! Við unglings strákarnir vorum svo ýmist notaðir í sláttinn, eða raksturinn allt eftir því hve þurrkur var góður og hve mikið gras lá flatt í ljá. Stöku stúlkur eða konur gripu orf þegar þannig stóð á, en oftast voru það þó karlar, eða strákar, sem stóðu í slætti.

Í Látrum tíðkaðist það og hafði verið gert frá dögum Ólafs afa míns að verka hey í súrhey. Þetta var gert í gryfjum (súrheys tóftum) en ekki turnum og var heyið pressað saman með grjótfargi. Megin reglan var sú, að seinni sláttur af túnunum og eitthvað af úteyja heyi fór í súrhey. Út af þessu var þó stundum brugðið þegar hann lagðist í rigningar á túnaslætti. Þá var stundum hluti af töðunni settur í súrhey til þess að bjarga henni frá því að spretta úr sér, eða hrekjast til stór skaða.

Eins og ég sagði, þá voru störfin ótal mörg.  Eftir að sauðfé hafði verið flutt til lands að loknum sauðburði var tekið til við að undirbúa túnið fyrir grassprettu og slátt.  Húsdýraáburður hafði verið borinn á túnið og kindurnar, sem gengu á túninu meðan á sauðburði stóð höfðu líka borið á túnið.  Það þurfti því að slóðadraga túnið til þess að mylja allan þennan húsdýraáburð svo hann gengi niður í svörðinn.  Því sem eftir var, var svo rakað saman í hrúgur.  Þessar hrúgur hreinsuðum við krakkarnir upp, settum í poka, sem við losuðum úr jafnharðan og þeir fylltust í stíu í eldiviðargeymslunni.  Afraksturinn af túninu var síðan notaður sem eldsmatur í eldavélinni, ásamt klíning og sauðataði, svo og mó, eða kolum.  Mér skilst að konurnar, er um matseldina sáu, hafi spilað af mikilli list á blöndun þessa eldsmatar til þess að fá réttan eldshita undir pottana líkt og þær gera á stillingar takkanna á rafmagns eldavélum í eldhúsum nútímans.

Ég minntist á ‚klíning‘ sem eldsneyti. Eitt af störfum okkar krakkanna var að moka flórinn í fjósinu, setja mála mykjuna á börur, bera hana út á hóla þar sem jarðvegur var grunnur og gras lágvaxið. Þar skiptum við henni niður í smá hrúgur með tæplega eins fets millibili og sléttuðum úr þeim með sérstökum spaða svo þær urðu að þunnum, hringlaga flögum tæplega eitt fet að þvermáli, þynnstar út til jaðranna. Spaðinn, sem notaður var til verksins, var gerður úr sléttum hvalbeins bút, en á hann fest skaft úr birkilurk, hæfilega bognum svo auðvelt væri að beita spaðanum við verkið. Þegar klínings flögurnar voru orðar þurrar voru þær rifnar upp úr grassverðinum, hlaðið upp í hrauka og þess gætt að milli þeirra væru nægar loftraufar svo vel gæti blásið um þær. Þegar klínings flögurnar í hrauknum voru orðnar vel þurrar voru þær settar í stóra strigapoka og þeir fluttir heim í eldiviðargeymslu og hlaðið þar upp í stæðu.

Sauðfé stóð á grindum í flestum fjárhúsum á bænum og kom það í hlut okkar krakkanna að hreinsa sauðataðið, sem sat fast milli rimlanna í grindunum.  Verkfærið, sem við notuðum til þess, var skaft með vinkil beygðum gaddi á endanum. Þegar lömb tóku að fæðast var sett þurrt þang ofan á grindurnar svo þau festu ekki fæturna milli rimla. Eftir það þurftum við ekki að sinna þessu starfi lengur og var, satt að segja, ekki mikil eftirsjá eftir því.

Eitt af vorverkunum var að annast um æðarvarpið. Það var mikið starf og fjölbreytilegt. Þar höfðum við krakkarnir ýmsum hlutverkum að gegna og störfuðum með fullorða fólkinu og nutum leiðsagnar þess. Oftast var varpið gengið a.m.k. þrisvar sinnum: Fyrsta leit, önnur leit og svo hroðaleit. Fyrsta leit var farin þegar fuglinn var vel sestur upp, farinn að verpa og sumar kollurnar byrjaðar að liggja á. Þá var varpið gengið, eggin skyggð og hjá þeim kollum, sem búnar voru að reita sig, var hreiðrinu lyft upp og hreinsað burt blautt, eða rakt, gras og rusl úr botni hreiðurskálarinnar, en reitt þurr sina, sett í botninn og löguð snyrtilega til. Teknir voru dúnviskar, mis stórir eftir því hve unguð eggin voru. Við nutum leiðsagnar hinna fullorðnu og reyndu meðan við vorum að læra að skyggna eggin og átta okkur á því hvort þau væru: ný, stropuð, unguð, kolunguð eða komin að ábroti. Væru eggin í hreiðrinu fimm, eða fleiri tókum við eitt eða fleiri egg. Hver æðarkolla ræður illa við að halda utan um fleiri unga og þá hætt við að hún missi þá í gogginn á svartbaknum. Þegar farin var önnur leit var orðið ungað hjá flestum kollum og kolungað hjá sumum. Þá tókum við stærri skerf af dúni úr hreiðrunum, en bættum upp með þurri sinu. Við hroðaleit var orðið kolungað hjá flestum kollunum og margar voru búnar að unga út og leiða út, þ.e. farnar burt með ungana úr hreiðrinu. Þá var allur dúnn hirtur, sem mest af grófasta ruslinu hreinsað frá dúninum, og eggjaskjóðurnar skildar eftir í hreiðurskálinni. Ef til vill til þess að vísa fuglinum á hreiðurskálina sína næsta vor? Dúnninn var settur í léreftspoka, sem hver leitarmaður bar með sér.  Egg, sem voru tekin voru einnig sett í pokann, en þá þurfti að gæta þess að bera hann varlega og leggja frá sér með gát svo ekkert kæmi fyrir þau. Pokann varð að bera með sér þar til þar til maður komst aftur í bátinn, stundum lungað úr deginum.

Eitt af því, sem gat verið hvimleitt voru styggar kollur, sem flugu af hreiðrum sínum með látum og drituðu um leið yfir dún og egg. Þá þurfti að byrja á því, að skeina eggin og þurrka dritið úr dúnhreiðrinu með því að hvolfa því ofan á grasið og tína svo blautu hnoðrana úr hreiðrin og leggja þá til hliðar svo þeir næðu að þorna, en klesstust ekki niður í hreiðrið. Það borgaði sig að fara varlega að kollunum og styggja þær sem minnst þegar þeim var stuggað af hreiðrinu, þá skitu þær siður yfir egg og hreiður. Ganga þurfti um hvert hreiður af kostgæfni, natni og snyrtimennsku. Dúnninn var verðmæt vara og mikilvægt að halda til haga hverjum dúnhnoðra. Hinir reyndu kennarar okkar lögðu mikla áherslu á að innræta okkur það.

Eftir að búið var að ganga varpið og ná dúninum heim, tók við hreinsunar ferli, en að því komum við krakkarnir og unglingarnir á ýmsum stigum. Fyrst var að þurrka dúninn og var það gert með því að breiða hann á gömul segl af bátum þegar sól skein glatt og láta hana þurrka hann og baka. Þurfti þá snúa honum og hagræða á seglunum. Jafnframt var allra grófasta ruslið hrist og tínt úr honum. Næsta stig var að grófhreinsa dúninn, “hrista hann upp” svo sem það var kallað. Var það gjarnan gert í fjósinu, eftir að kýr voru komnar í sumarfjós utan túns. Sátu þá tveir og tveir á meisum í hvorum bás og höfðu þurran torfusnepil undir sitjandanum. Á milli sín höfðu þeir gamla dúngrind [gömlu dúngrindurnar voru ekki með tvöföldum kjálka til þess að strekkja færisstrengina og því léttari. Strengina þurfti að strekkja hvern fyrir sig með höndunum og urðu þeir því ekki eins strammir og strengir nýju dúngrindanna, sem lýst er hér síðar]og hvíldi hún á lærunum, en á henni hvíldi svo dúntínan sem ruslið var tínt og hrist úr. Þarna sáldraðist niður þurr sinustrá, þurrt þang, eggjaskurn og fiðurfjaðrir svo og annað rusl, sem með góðu móti var hægt að ná úr dúninum.  Ekki var þetta beint erfitt verk, en nokkuð óþrifalegt. einkum vegna ryks. Oft var glatt á hjalla við þessi störf, sögur sagðar og skipst á gamanyrðum. Að þessu unnu bæði ungir og gamlir, en mest bar þar á eldri konum. Í fyrri frásögninni, er fylgir með hér fyrir aftan í viðauka er getið nokkuð um vinnu við slíka dúnhreinsun. Seinna var svo dúnninn, sem hafði verið grófhreinsaður, hreinsaður að fullu og var þá tilbúinn til sölu. Slík hreinsun var kölluð: að „krafsa“ dúninn. Það var gert með því að hita hann í potti yfir hlóðum þar til hann var orðinn það heitur, að gnast í staf fiðurfjaðrar þegar bitið var í hann. Þegar dúnninn hafði náð þessu hitastigi var heyruslið í honum orðið svo stökkt, að það molnaði og sáldraðist úr honum þegar dúntínan nuddaðist yfir þræl þanda færisstrengi dúngrindarinnar. Þeir voru strengdir með því að þvinga sundur tvöfalda kjálka dúngrindarinnar þar sem ytri kjálkinn var þvingaður frá hinum innri með skrúfþvingum, sinni til hvorrar handar. Strengirnir voru þræddir í gegn um göt á báðum kjálkunum og þriðja kjálka á hinum enda grindarinnar. Til þess að mylja enn betur heit, þurr og stökk stráin var stundum  notað tæki, breið, elipsulagað tréstykki með vel fingurbreiðri rauf í gegnum sig mitt, þynnt til jaðranna og afrúnnað til beggja enda. Var kallað “þræll” og sett inn í miðja tínuna meðan verið var að nudda henni yfir strengina og mylja mesta ruslið í heitri tínunni. Þegar dúnhitunarkonan var búin að fullhita dúninn, sem hún var með í pottinum tók hún tínuna og vafði henni þétt saman og kom henni fyrir í kistu með loki til þess að varðveita hitann. Það var ábyrgðar og vandaverk að hita dúninn mátulega svo stráin yrðu stökk og gengju greiðlega úr honum og gæta þess að hann brynni eða sviðnaði ekki.

Það var ekki fyrr en við vorum orðnir stálpaðir unglingar að við tókum þátt í þessu stigi dúnhreinsunarinnar, enda allerfitt verk og reyndi mjög á handleggi, einkum framhandleggi og vildi valda bólgu í sinaskeiðum. Við henni dugði best, að nudda handlegginn með Andanefju-lýsi. Auk þessa var verkið ekki hollt öndunarvegum sakir mikillar rykmyndunar.

Þessi hluti dúnhreinsunarinnar fór að mestu fram í húsi niður við lendinguna. Það var dags daglega nefnt “Smiðjan”, enda var það byggt sem eldsmiðja. Þar var líka voldugur steðji, öflugur físibelgur, afl, gott skrúfstykki og önnur tæki, er til eldsmiðju þurfti, sleggjur, hamrar, eldtangir, meitlar og annað slíkt. Í þessu húsin var og reykt kjöt, lundabaggar, rúllupylsur að ógleymdum rauðmaga. Stundum fengum við krakkarnir reyktan rauðmaga að launum fyrir vel unnin verk og þótti ekki verra, en bónusar bankamanna nú til dags.

Síðar komu til sögunnar vélar til dúnhreinsunar, en það var ekki fyrr en eftir mína tíð í Látrum. Nú mun og farið að þvo dúninn eftir hreinsun.

Talsvert var ræktað af kartöflum í nokkrum kálgörðum og einnig rófur með. Það kom í hlut okkar krakkanna að reita arfa úr þessum görðum, en nóg var af honum. Þetta var starfi, sem mér leiddist ógurlega. Ég held að hann hafi svæft hjá mér alla löngun til garðyrkju síðar á ævinni. Víst er um það, að ég hef látið öðrum eftir að rækta garðinn við húsið mitt og ekki komið þar nærri. En góðar voru rófurnar á haustin.

 

Hve langur var vinnudagurinn, hvenær hófst hann og hvenær lauk honum? 

 

Vinnudagurinn var oft langur þegar miklar annir voru, en þær voru það nánast alltaf yfir sumartímann. Enginn reis þó fyrr úr rekkju en húsbóndinn. Hann var oftast kominn til verka sinna fyrir allar aldir meðan nóttin var björt.  Meðan við krakkarnir vorum yngri láum við þó lengur í bólinu, einkum ef rigndi. Við vorum þó ekki gömul þegar við fengum það verkefni að rölta á eftir kúnum í hagann, en það þurfti að gera strax að loknum morgunmjöltum. Nokkuð eldri vorum við orðin nægilega stálpuð til að moka líka flórinn.

 

Leist þú hugsanlega fremur á sumardvölina sem frí en vinnu? Hvað fannst þér þá um að þurfa að vinna?

 

Nei. Ég leit á hana sem vinnu. Jón Daníelsson, fóstri minn var með afbrigðum vinnusamur maður, árrisull og lítt gefinn fyrir hangs og slæpingshátt. Hann leit svo á, að hvert það starf, sem vert væri að vinna, bæri að vinna vel. Hann hafði sjálfur ánægju af að starfa og vanda til verka. Með fordæmi sínu dreif hann okkur áfram því við vildum ógjarnan vera eftirbátar, jafnvel þegar letin ásótti okkur. Leti kerling var sjaldan langt undan landi hjá mér, því ég held að ég sé eðlislatur.  Ég hafði því mjög gott af þessu uppeldi hjá frænda mínum og naut þess að geta unnið og lagt nótt við dag seinna í erfiðu háskólanámi. Hefði sjálfsagt ekki lokið því ef ekki hefði komið til þetta uppeldi hjá frænda mínum, því ekki voru nú gáfurnar meiri en Guð gaf og stutt hefði ég flotið á þeim einum.

Fyrir mig, sem var læknissonur í Reykjavík, en slíkir sjá nú ekki mikið til feðra sinna, var það mikils virði að vinna með fullorðnu fólki og kynnast því og lífsviðhorfum þess í dagsins önn.

 

Var greitt fyrir dvöl þína eða var litið svo á að þú ynnir fyrir þér?

 

Ekki veit ég hvort greitt var fyrir dvöl mína sem barns í Látrum og efast mjög um það.

 

Voru þér greidd einhver laun? Hve mikil og hvernig (með einhverju öðru en peningum t.d. lambi)? Tók kaupið mið af aldri eða hækkaði eftir ákveðinn tíma? Hvernig nýttirðu kaupið?

 

Þegar ég fór að stálpast og orðið meir að gagni vann ég fyrir uppihaldi mínu, fékk lamb að launum, vann fyrir fóðri þess og fékk arð af því, að því er mig minnir sem saltkjöt að hausti og innlegg hjá kaupfélaginu í Króksfjarðarnesi. Stundum leysti Jón frændi minn mig út með einhverri fjárhæð að hausti er ég hvarf til heimaslóða. Þessa peninga nýtti ég yfirleitt sem vasa- peninga að vetrinum. Satt að segja hafði ég ekki miklar áhyggjur af launum á þessum tíma. Ég leit á Látraheimilið sem mitt annað heimili og vildi hag þess sem mestan og bestan. Vildi að skepnurnar, ekki síst kýrnar, sem voru sérstakir vinir mínir, hefðu gott og nægilegt fóður fyrir veturinn. Ég held að það hafi verið ágæt lexía í því að horfa ekki síður á hag heildarinnar en eigin hag og bera hann líka fyrir brjósti. Nefndi kýrnar sérstaklega því ég kynntist kindunum ekki mikið og var ekki glöggur á þær og þekkti fár þeirra. Hvorki verið fjárglöggur, né mannglöggur um dagana! Kýrnar þekkti ég prýðilega í sundur og áttaði mig á lundarfari þeirra, hverrar fyrir sig og ættareinkennum.

Ég var eitt haustið ný kominn úr sveitinni og hafði fengið greitt kaup hjá Jóni frænda mínum við brottför. Lagði af stað heiman af Ránargötunni með fúlguna til að leggja hana inn í banka niðri í Kvosinni. Af einhverjum ástæðum lagði ég leið mína um Bröttugötuna. Þegar ég kem lengra niður eftir götunni sé ég að stór hópur fólks hefur safnast saman framan við verslun Brynjólfs Bjarnasonar fyrir enda götunnar. Ég slæst í hópinn og áður en varist hef ég borist með straumnum inn í búðina og hrekst með honum alla leið upp að búðarborðinu. “Hvað eruð þið nú að selja áhugavert hér?” spyr ég afgreiðslumanninn innan við búðarborðið. “Bollapör með diskum”, svarar hann. “Hvað ger ég fengið mörg”? spyr ég. “Hvað villtu mörg?” spyr hann á móti. “Hvað kosta tólf pör?” spyr ég. Hann nefnir töluna. Ég sé að ég á fyrir þeim, svo ég segist ætla að fá tólf bollapör og tólf diska. Þetta fæ ég, borga út í hönd og rogast heim með tvo kassa. Hitti móður besta vinar míns þegar ég kem á hornið á Ægisgötu og Ránargötu. “Hvað ert þú að rogast með í þessum tveim kössum?” spyr hún. “Tólf pör af bollum með diskum”. svara ég og sé hana hverfa eins og blátt strik niður alla Ránargötu. Hún náði í sex pör af bollum, en allir diskar voru búnir þegar hún slapp í gegn um biðröðina. Móðir mín var heldur glöð að fá alla þessa bolla og diska, endi lengi búin að kvarta yfir skorti á bollum. Ekki minnist ég þess að hafa þurft að gera mér aðra ferð í bankann. Líklega lítið eftir af sumarhýrunni. Seinna þegar ég gifti mig sjálfur og stofnaði heimili, afhenti móðir mín mér alla bollana og diskana óbrotna og heila. Þannig eru þeir til enn þann dag í dag, svo segja má, að ekki hafi ég sóað allri sumarhýrunni í sælgæti og bíómiða það haustið. Svona voru þessi stríðs- og eftirstríðsár vöruskorts, hafta og skömmtunar.

 

Hvenær fóru börn almennt að vinna í þínu ungdæmi? Var einhver munur á kaupstaðarbörnum og sveitabörnum hvað þetta snerti svo þér sé kunnugt um?

 

Börn fóru að vinna strax og þau höfðu getu til að valda léttum verkefnum. Líklega hafa sveitabörn byrjað að vinna fyrr en kaupstaðabörn m.a. af því að til sveita féllu til fleiri störf við þeirra hæfi, svo og að til reksturs búsins þurfti gjarnan fleiri hendur. Börn byrjuðu oft snemma að vinna sér inn aura hér í Reykjavík með blaðburði, blaðasölu á strætum borgarinnar svo og að sendast með vörur fyrir kaupmanninn á horninu.

 

Var börnum misboðið með of miklu vinnuálagi svo þér sé kunnugt um? Nefndu dæmi.

 

Ekki er mér kunnugt um það. Ekki hafði ég slæmt af vinnunni í sveitinni, nema síður sé. “Það er ekki vinnan sem drepur manninn”, heyrði ég föður minn stundum segja, en hann vann alla tíð sjálfur mikið. Satt að segja held ég að börnum þessa lands sé fremur misboðið með löngum innisetum yfir tölvum (tölvuleikjum) og ómarkvissri skólagöngu, ítroðslu fræðsluefnis án samhengis við lífsbaráttu og lífsstrit hinna fullorðnu. Að fá ekki að umgangast þá sem fullorðnir eru og fylgja þeim eftir og leggja lið í dagsins önn. Læra af þeim á vettvangi daglegs lífs og daglegrar lífsbaráttu. Eins því, að fá ekki tækifæri til að kynnast náttúrunni og upplifa sig sem hluta af henni. Í starfi mínu sem læknir sjúklinga af völdum misnotkunar vímuefna kynntist ég einstaklingum, sem mér virtust vera fórnarlömb þess, að hafa farið á mis við þessa reynslu og voru svo firrtir eðlilegu lífi og eðlilegum tilfinningum að mér næstum um megn að skilja þá. Það var sár reynsla.

 

Á hvaða stigi voru búskaparhættir meðan á dvöl þinni stóð? Var t.d. notað orf og ljár við heyskapinn eða hestar? Hvað með tæknivæðingu og vélakost?

 

Hér að framan hef ég að nokkru lýst búskaparháttum í Látrum rétt fyrir miðja síðustu öld. Fyrst þegar ég kynntist þeim voru þeir lítt breyttir frá því sem var fyrr á árum og öldum. Smátt hóf þó vélvæðingin innreið sína þar eins og annarsstaðar. Vindrafstöð kom og leysti olíulampana af hólmi. [Áður höfðu reyndar komið vélar í bátana, þótt enn væru þó seglbátar í heimilisflotanum.] Síðar kom tvíhjóla”traktor” frá Kanada? sem breytt var svo hann tók greiðu af hestasláttuvél og var þá hægt að slá með honum túnið. Einnig átti að vera hægt að plægja með honum garða, en ekki minnist ég þess, að hann hafi verið notaður til slíks. Þá kom dísilknúin rafstöð. Hana átti Aðalsteinn frændi minn, fóstursonur Jóns Daníelssonar. Aðalsteinn var alltaf vélstjóri á mótorbátum heimilisins, enda þúsundþjalasmiður á tré og málma. Hafði lært bátasmíði af Valdemar heitnum, föðurbróður okkar beggja og eignaðist smíðaverkstæðið að honum látnum. Aðalsteinn keypti rafstöðina til þess að knýja nauðsynlegustu trésmíðavélar, sem hann keypti sér einnig. Síðar var keypt stærri heimilisrafstöð til að rafvæða bæði heimilin á jörðinni og verkstæðið einnig. Hlaða var byggð ný og í henni höfð súgþurrkun, sem var til mikilla bóta. Reyndar var hún upphaflega sett í gömlu hlöðuna, en þá voru erfiðleikar með drifkraftinn er leiddu til ofhita í heyinu og brunahættu.

 

Frístundir

Fékkst þú eða önnur aðkomubörn að sofa lengur á morgnana en fullorðna fólkið? En heimabörnin? Klukkan hvað fórst þú að sofa og hvenær á fætur?

 

Meðan við vorum krakkar fengum við að sofa lengur á morgnana en fullorðna fólkið, ef við gátum. Þetta gekk jafnt yfir okkur aðkomubörnin og heima börn. Þau kunnu hinsvegar betur til ýmissa verka, sem vinna þurfti árla dags, t.d. mjalta og þurftu því að fara fyrr á fætur. Þegar við hinsvegar stálpuðumst fórum við að ganga til verka með fullorðna fólkinu og fylgdum þá fótaferðatíma þess. Vildum heldur ekki vera neinir eftirbátar annarra. Þegar ég lít yfir bréf frá móður minni og ömmusystur, er þær skrifuðu mér í sveitina, þá eru þar stöðugar hvatningar til mín um að vera duglegur að hjálpa til, vinna og verða að gagni. Ég býst við að þessi hvatning hafi líka skilað einhverju, þótt ég væri eðlislatur, en það taldist til lasta, sem bæri að venja sig af. Ég hef líka alla æfi verið á flótta undan letikerlingu.

Við fórum, að því er mig minnir, á fætur milli 7 og 8 að morgni. Borðuðum morgunmat með hraði og drifum okkur út til vinnu eftir því hvað mikið lá fyrir og hvernig veður var. Unnið var fram til mjalta á kvöldin (kl.20), en eftir það var borðaður kvöldverður. Síðan yfirleitt drollað eitthvað við spjall og ef til vill litið í blöðin, en þau bárust strjált og í slumpum. Tíminn og Ísafold voru keypt af heimilinu, en ég fékk gjarnan send blöð að heiman með póstinum, Morgunblaðið, Vísir og Alþýðublaðið. Þessi blöð bárust mér í pakka með póstinum ásamt ýmsu smávegis, sem ég bað um að fá sent og svo sælgæti, sem við bræður áttum að deila með hinum börnunum á heimilinu og gerðum yfirleitt samviskusamlega.

 

Hvernig varðir þú frítíma þínum og hve mikill var hann? Hvaða úti- og innileiki var farið í. Kom fyrir að fullorðnir tækju þátt? Hvar voru helstu leiksvæðin?

 

Frítíminn var meiri á fyrstu árum mínum í sveitinni, enda var ég þá krakki. Fjaran var okkar helsti leikvöllur. Við undum þar langtímum saman, ýmist við að skoða ýmislegt skrítið, sem þar var að finna, skeljar ýmiskonar, kuðunga og fleira sjávarkyns. Við sigldum bátum á vogunum og fluttum hey og kindur (gimburskeljar), milli staða, allt í miklum þykjustuleik. Bátana, ýmist tálguðum við sjálf úr tilfallandi spýtnakubbum, eða þeir voru smíðaðir handa okkur af bátasmiðnum Aðalsteini Aðalsteinssyni, frænda mínum. Aðalsteinn Aðalsteinsson, eða ‘Steini stóri’ eins og við kölluðum hann, var fóstursonur Jóns Daníelssonar. Við vorum bræðrasynir. Steini stóri var mín mikla fyrirmynd. Hann hafði lært bátasmíði hjá Valdemar Ólafssyni, föðurbróður okkar, og keypti smíðaverkstæði hans í Hvallátrum þegar hann lést úr lungnabólgu langt fyrir aldur fram. Þetta smíðaverkstæði, ‘Skemman’, en það var nafnið sem það gekk undir, var okkar helsta frístundaheimili. Þar eyddum við tíma okkar gjarnan þegar við áttum frí og tegldum  okkur báta úr spýtukubbum og öðrum úrgangsvið. Þetta voru ekki merkilegir smíðisgripir, en þeim mátti sigla um voga, með stöndum fram, undir þverseglum úr pappa. Ímyndunaraflið gerði svo sitt. Stundum urðu svo þessi skip fyrir árásum (það geisaði jú heimstyrjöld). Smásteinum rigndi yfir þau frá ströndinni, oft með mjög damatískum afleiðingum. Dags daglega held ég þó að heimstyrjöldin hafi verið fjarlæg huga okkar.

Ég man líka vel eftir fallegum seglbát, sem Aðalsteinn, frændi minn tegldi handa mér. Hann smíðaði hann á sjóferð, líklega upp í Djúpafjörð, en þar áttu Látramenn upprekstur fjár. Þetta var löng sigling, hátt í þrjár klukkustundir, ef ég man rétt. Hann var vélstjóri Bjargar, en það var vélbátur Jóns Dan í Látrum. Hann sat því á aftari skammþóftunni milli vélarhúss og borðstokka stjórnborðsmegin í bátnum, en Jón sat við stýrið á stýrisþóftu í skut. Á þessari löngu leið stytti hann sér stundina með að tálga til seglbát handa mér úr vænum spýtukubbi. Ég man enn eftir beittum ‘dálknum’, sem hann notaði við verkið. Hann var með nokkuð breiðu blaði og skaftið, ef ég man rétt, gert úr skífum af horni og leðri, sem víxluðust. Það er enginn trésmiður, sem ekki kann að brýna eggjárn svo bíti. Aðalsteinn frændi minn var þjóðhagasmiður. ‘Dálkurinn’ beit og brátt fékk kubburinn á sig hið kunna breiðfirska bátslag. Svo var hann holaður að innan með bjúgjárni, fékk, stýri, mastur og þversegl með breiðfirska laginu. Því miður verð ég að segja eins og skáldið: “Nú er ég búinn að brjóta og týna.”

Aðalsteinn frændi minn, var mikill sögumaður. Sagði svo vel frá ýmsum skoplegum atvikum, að við, í orðsins fyllstu merkingu, urðum afvelta af hlátri í sag- og spónahrúgunni í ‘Skemmunni’. Það átti ef til vill svo að heita, að við værum að hjálpa honum við bátasmíðina með því að ‘halda við’ meðan hann hnoðaði nagla, eða saumaði byrðing. Þá voru ekki skilin skörp milli starfs og skemmtunar. Reyndar var það oftar svo, t.d. þegar við vorum áhafnarmeðlimir á aftaníbáti á langri siglingu í góðu veðri, skiptumst á að stýra og rifum harðan þorskhaus samkvæmt kúnstarinnar reglum okkur til dægrastyttingar.

Við fórum í ýmsa leiki þegar tími gafst til, t.d. á sunnudögum. Fyrir utan fjöruna og ‘Skemmuna’ var helsti leikvöllur okkar túnið. Sá var hængur á, að ekki mátti bæla þar grasið, hvorki meðan taðan var að spretta né meðan háin var óslegin. Eftir seinni slátt varð þarna til mikill leikvöllur, sem við krakkarnir gátum nýtt meðan ekki var neitt þarfara að gera. Þá var farið í Stórfiskaleik, kýlóbolta, brennibolta, eða einhverja slíka leiki. Stundum var farið í ‘Fallin spýta’, eða ‘Yfir’. Stundum tók fullorðna fólkið einnig þátt í þessum leikjum með okkur krökkunum.

Vinsæt tómstundagaman var hjá krökkunum, að dorga fyrir ufsaseyði í ‘Vörinni’ (lendingunni) þegar hásjávað var og ‘Vörin’ fylltist af þessum sílum. Veiðarfærin voru: prik, en við annan endann var bundinn tvinnaspotti (sterkur tvinni) og í hinn endann á tvinnanum var bundinn frumstæður öngull gerður úr títuprjóni, sem beygður var í krók. Ekkert agnhald var á honum og þurfti því veiðimaðurinn að vera snöggur að kippa á móti þegar nartað var í beituna. Beitan var yfirleitt sæsnigill úr kuðungi, eða maðkur t.d. úr möðkuðum skarfshömum. Fengjust mörg síli voru þau kverkuð eins og síld, velt upp úr hveiti og heilsteikt í feiti á pönnu. Herramannsmatur.

Stundum fengum við léða skektu, fjögra manna far, sem Ólafur afi minn hafði smíðað handa sér einhvern tíma kringum aldamótin 18 og 19 hundruð. Hinn snotrasti bátur, happafleyta. Valdemar Ólafsson, föðurbróðir minn, hafði borðhækkað hann, ef ég man rétt.. Hún hét ‘Sendlingur’. Hana hefur síðan endursmíðað Aðalsteinn Aðalsteinsson, að mestu úr nýjum viðum, en þó úr einhverju gömlu svo sálin flyttist með. Við fengum hana lánaða til þess að róa út í þarann og reyna fyrir þaraþyrskling. Reyndar hófust þessar veiðar á fjörunni með því að grafa upp sandmaðk í fjörunni norðan við Flathólmana til að hafa í beitu. Það var næstum eins spennandi og að renna síðan fyrir þaraþyrsklinginn á Bæjarsundinu, rétt suð-austan við Festarskerið, rétt fyrir háflæði. Sjaldan veiddum við svo nokkru næmi og varla í eitt mál. Aflinn, sem við fengum var blanda af þaraþyrsklingi og smá ufsa og að sjálfsögðu komu oftast með nokkrir marhnútar. Þeir voru yfirleitt fullir af hringormum og ekki beint girnilegir til að hafa í sussi nútímans.

Þá má nefna sundspretti í sjónum. Góð hressing á heitum degi. Verst að hafa ekkert ferskvatn til að skola af sér saltið á eftir. Ýmist syntum við í Bæjarsundinu. Þar var sjórinn kaldari, enda sundið sæmilega djúpt og hröð skipti þar á sjó. Eða við syntum í flæðivogum, þar sem sólin bakað sker og steina (reyndar vatnið líka) meðan lágsjávað var og hitaði svo vatnið, sem inn í þá féll á aðfallinu. Þar var grynnra að synda heldur en í Bæjarsundinu, en sjórinn aftur á móti hlýrri.

Eftir því sem við urðum eldri fórum við að geta tekið meiri þátt í daglegum störfum með fullorðna fólkinu og réðum við fleiri verkefni hins daglega lífs. Um leið fækkaði þeim stundum, sem við höfðum til leikja. Reyndar voru sum þessara starfa spennandi og ævintýri fyrir mig t.d. sá veiðiskapur (selveiði, kofnatekja, skarfafar), er hlunnindabúskapnum fylgdi.

 

Hverjir voru helstu leikfélagar þínir? Var leikið sér við húsdýr, t.d. hunda?

 

 Helstu leikfélagarnir voru hin börnin á bænum og sjálfsagt þá fyrst og fremst jafnaldrarnir. Engir hundar voru á bænum því hunda var talið að ekki væri hægt að hafa vegna varpsins. Mýs voru í Látrum og því hafðir kettir á vetrum, en þeir fluttu upp á meginlandið að vorinu og komu ekki aftur út fyrr en seinni hluta sumars t.d. þegar farið var í land til að smala til rúnings, rýja féð og flytja ullina út í eyjar. Meðan kettirnir voru í landi áttu því hagamýs góða daga.

 

Hvað geturðu sagt um útreiðartúra eða aðrar skemmtiferðir? Var t.d. farið í heimsókn á aðra bæi? Hverjir fengu að koma með?

 

Útreiðartúrar voru ekki farnir í Hvallátrum. Þar var bara einn hestur, vagnhestur, rauður, og tekinn að eldast. Þegar ég man til var hann lítt notaður nema sem vagnhestur, fyrir mykjuvagninn, forarvagninn, en mest fyrir heyvagninn. Þá var hann stundum látinn draga ýtu þegar ýtt var saman heyi til hirðingar, eða göltunar. Við kúasmalarnir notuðum hann líka stundum til að sundríða eftir kúnum þegar þær höfðu flætt yfir í eyjum, kominn var mjaltatími. Bæði hann og kýrnar syntu með ágætum í sjónum og gerðu það oft ótilkvödd.

Stundum var farið í heimsóknir t.d. inn í Skáleyjar og reyndar aðrar eyjar líka. Allir, sem vettlingi gátu valdið og heimangengt áttu, fóru með. Til slíkra ferða voru yfirleitt valdir sunnudagar og hyllst til að velja góðviðrisdaga með góðu sjóveðri svo enginn yrði nú sjóveikur. Gestum var tekið með kostum og kynjum, enda hvarvetna frændum og vinum að mæta. Allskonar góðgæti var á borðum, t.d. hangikjöt. ‘Hnallþórur’ og rjómapönnukökur á kaffiborðum, ásamt hálfmánum, kleinum og ástarpungum, svo eitthvað sé talið. Farið var í algenga hópleiki, svo sem að framan er talið. Reyndar voru slíkar heimsóknir ekki algengar yfir sumartímann, enda tímafrekar. Mönnum veitti heldur ekki af hvíld eftir eril hinna virku daga vikunnar.

Unga fólkið lét þetta þó ekki aftra sér, þegar í boði voru sveitaböll í Bjarkarlundi eða Króksfjarðarnesi. Þá var stundum lagt af stað upp yfir flóann, inn Þorskafjörðinn, en síðan gengið að Kinnastöðum og þaðan í Bjarkarlund. Þetta var um 4-5 klukkustunda ferð. Síðan var dansað, jafnvel fram yfir miðnætti, og síðan farið öfugt sömu leið til baka. Reynt að leggja sig í bátnum á útleið, þeir, sem þess áttu kost, og ná kríublundi. Svo var mætt í heyskapinn að morgni við orf, eða hrífu, og raulaðir slagarar dagsins í gær. Ég skal viðurkenna, að ekki fór ég á mörg sveitaböll á þessum árum. Aldrei verið mikill selskapsmaður. Sumir létu sig þó hafa það, að leggja á sig ómæld ferðalög og erfiði til þess, að komast á ball. Oft var þá farkosturinn ‘Konráð’ úr Flatey notaður.

Ég býst við því, að ég hafi orðið heldur langleitur þegar sonur minn sagði eitt sinn við mig: “Þú veist það pabbi, að maður verður stundum að skemmta sér.” Satt að segja hafði þetta lögmál aldrei runnið upp fyrir mér. Störf og skemmtun runnu oft svo þægilega saman á þeim árum, sem ég var sumarstrákur í Látrum og störf mín síðar á ævinni hafa blessunarlega verið áhugaverð og skemmtileg.

 

Var haldið upp afmæli sumarbarna? Hvernig? Hverjum var boðið?

 

Hvorki ég, né systkini mín, áttum afmæli á sumarmánuðum og ég man ekki eftir afmælum annarra.

 

Hvaða bækur, blöð eða tímarit voru til á bænum? Nefndu dæmi. Gafst þér eða öðrum börnum tækifæri til að lesa og hvenær?

 

Ég hef hér að framan nefnt þau fréttablöð, sem ég man að keypt voru á heimilinu í Látrum. Þau voru gjörnýtt, því eftir að þau höfðu verið lesin enduðu þau sem salernispappír á kamrinum og fengu þar líka stundum sinn lokalestur, ef maður við þetta síðasta tækifæri uppgötvaði eitthvað, sem manni hafði áður yfirsést. Af því sem ég las í Tímanum á þessum árum þótti mér sagan af Ráðskonunni á Grund skemmtilegust. Mest af henni las ég í rigningar- og óþurrkatíð í tjaldútilegum við heyskap. Þrátt fyrir það hló ég mikið. Mig minnir að barnablaðið Æskan og landbúnaðarritið Freyr væru líka keypt af heimilinu, en þau enduðu ekki á kamrinum. Talsverður bókakostur var til á heimilinu og fyrir mig bar þar hæst fuglabók Bjarna Sæmundssonar, en ég hafði mikinn áhuga á náttúrufræði, sérstaklega allt er varðaði fugla.  Þessi bók var ekki til á heimili foreldra minna, þótt þar væri allstórt og gott bókasafn. Þrátt fyrir ellefu sumra dvöl mína í Látrum komst ég ekki yfir að lesa hana alla. Þótti ég þó bókabéus og lestrarhestur hinn mesti á þessum árum. Sýnir það best, að lítill tími gafst til að liggja yfir bókum.

 

Voru kenndar þulur, kvæði og sagðar sögur? Hvaða? Hver sagði frá/kenndi og við hvaða tækifæri?

 

Ég hef eiginlega svarað þessu hér að framan.

 

Aðbúnaður og hreinlæti

Hvernig var húsnæðið í sveitinni (gott, slæmt, steinhús, timburhús, torfbær)? Lýsið húsakynnum í stórum dráttum.

 

Húsakynni voru ágæt miðað við kröfur upp til sveita á Íslandi á þeim tíma.

Þegar ég kom fyrst í Hvallátur voru þar fyrir  hendi tvö íveruhús, bæði tvílyft timburhús, járnvarin. Hið eldra, HÚSIÐ, byggt alveg í byrjun 20. aldar, að mig minnir. Það var stærra. Yngra húsið, BÆRINN, var innréttað og eitthvað stækkað um 1937 og þá tekið til nota sem íbúðarhúsnæði, en hafði verið byggt einhverjum árum fyrr sem geymsluhús. Þetta var fremur lítið hús, sneri göflum til norðurs og suðurs. Frá norðri til suðurs var húsaskipun: Lítið búr, rúmgott eldhús, sem jafnframt var notað sem borðstofa, og sæmilega rúmgóð setustofa á neðri hæð. Á efri hæð var í tilsvarandi röð: Lítið ‘kames’ (þar svaf ég fyrstu sumrin ásamt föðursystur minni, sem annaðist mig), miðloft, að stærð svarandi til eldhússins niðri. Þar var á gólfinu, austanvert í herberginu, gólfhleri og neðan við hann stigi niður í eldhúsið. Loks var framloft þar sem hjónin sváfu með börn sín. Einnig var sofið á miðloftinu. Seinna var byggt þvottahús við norðurenda hússins. Síðan var húsið stækkað um meir en helming þannig að byggður var jafn stór hluti við austur hliðina og þakinu lyft þannig að þakhallinn var brotinn til hliðanna. Gamla íbúðarhúsið var notað að mestu af hinum ábúanda jarðarinnar og hans fjölskyldu. Síðar var það rifið og byggt einlyft timburhús í staðinn.

[Í ritverkinu Eylenda I. Reykjavík 1996, bls. 292 og 293, er mynd af Bænum, eins og hann var þegar ég kom fyrst í Hvallátur. Á bls. 318 í sama riti er svo mynd af bænum eftir að hann var stækkaður. Á bls. 312 er svo mynd af Húsinu. Eylenda I. & II. geyma reyndar fjölda mynda af flestu því fólki, er nefnt er í þessari ritsmíð, og ýmsu, er varðar aðstæður, búnaðarhætti og mannlíf í vestureyjum Breiðafjarðar.]

 

Varst þú í einn í herbergi eða með öðrum? Hverjum?

 

Ég var yfirleitt í herbergi með öðrum, enda heimilið oftast mannmargt. Fyrstu árin var ég í herbergi með Önnu föðursystur minni, eins og að framan getur. Seinna deildi ég herbergi með húsbændum og einhverjum af börnum þeirra. Síðar deildi ég herbergi með Daníel frænda mínum, en seinustu sumrin svaf ég einn á dívan í dagstofunni.

 

Sváfu fleiri en einn í hverju rúmi? Hverjir og hve margir? Var það algengt? Þekktist að strákar og stelpur svæfu í sama rúmi? 

 

Hver svaf í sínu rúmi þótt fleiri svæfu saman í herbergi.

 

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir? Hvað var helst á boðstólum? Nefnið gjarnan einhverja rétti eða kaffibrauð ef unnt er. Hjálpaðir þú eða önnur börn til við matargerðina eða frágang á eftir?

 

Lengst af var borðað þrímælt. Borðaði og drakk allt heimilisfólk saman á matmálstímum. Heitur hafragrautur með súru slátri (blóðmör, lifrapylsu, lundabagga) var etinn kvölds og morgna, en jafnframt brauðmatur (heimabökuð hveitibrauð, seydd rúgbrauð og stundum flatkökur), með viðbiti (smjöri, bræðing eða hangifloti, ef það var til. Bræðingurinn var gerður úr tólg og sellýsi). Álegg var t.d. kæfa, reyktur rauðmagi, egg og misostur. Jafnframt var borðaður harðfiskur, mest hertur þorskur, en stundum steinbítur og stundum hertir þorskhausar. Þeir voru þó frekar teknir með í útilegur, þegar legið var við í tjöldum við úteyjaheyskap, og í lengri bátsferðir. Þá gafst gjarnan betri tími til að dunda við að rífa þá eftir kúnstarinnar reglum. Sem viðbit við harðfisknum var gjarnan notað saltað, soðið selspik. Kaffi var drukkið klukkan 12 og klukkan 18 og hafðir með því t.d. ‘ástarpungar’ eða eitthvað slíkt. Aðal máltíðin var etin klukkan 15 og var það yfirleitt saltmeti, saltaður selur, saltaður skarfur og saltaður þorskur. Söltuð svið, eða hangikjötsspað var oft haft í sunnudagsmat. Einstaka sinnum var höfð til hátíðabrigða niðursoðin smásteik, en hún var þó oftast höfð handa gestum, sem ekki þekktust eyjamatinn, eða voru ekki vanir honum.. Þegar lundi var tekinn, var hann etinn, nýr, reittur og sviðinn. Sama máli gegndi með teistu- og lundakofu. Hún var etin ný og reitt í súpu. Reynt var að hafa skarfakál í súpunni því það tók brækjubragðið, sem gat verið af kofunni. Skarfakál óx sumstaðar í klettum á eyjunum. Mjólk var mikið drukkin af okkur krökkunum, en kaffi gjarnan af fullorðna fólkinu. Skyr var búið til úr mjólkinni og stundum soðinn misostur úr misunni, en hún var jafnframt notuð til drykkjar og til þess að geyma í mat. Rjómi var strokkaður í gamaldags bullustrokk og haft til viðbits. Áfirnar voru drukknar nýjar og þóttu mér þær góðar. Ekki má gleyma eggjum sjófugla, en af þeim var gnógt og mikið borðað af þeim soðnum: Æðaregg, svartbaksegg, kríuegg, eitthvað af stokkandareggjum og svo auðvitað hænuegg, en þau voru meira notuð í bakstur því flestum fannst sjófuglaeggin betri til átu.

Fiskmeti, bæði hert og saltað var að mestu heimafengið. Steinbítur var fenginn frá Vestfjörðum með vöruskiptum, saltaður hnoðmör móti steinbít samkvæmt gömlu verðlagi. Selur, dílaskarfur, lundi, lundakofa og teistukofa, var líka heimafengið. Allur súrmatur, viðbit álegg og mjólkurvörur voru líka afurðir heimilisins. Kartöflur og rófur, ríflega til heimabrúks voru ræktaðar í allmiklum görðum heima við.

Það var engin kæli, eða frystigeymsla heima við á þeim tíma, sem ég var í sveit í Látrum, en eftir að stærri rafstöð var tekin í notkun var innréttaður stór og vandaður frystiklefi.

 

Segðu frá klæðnaði sem þú notaðir í sveitinni, einnig fóta- og höfuðbúnaði. Var hann e.t.v. að einhverju leyti frábrugðinn þeim fötum sem þú notaðir í þéttbýlinu?

 

Um tíma voru vinsælir kaki litir samfestingar frá VIR. Þoldu illa sterka heimagerða sápu og vildu upplitast. Voru að mörgu leyti ágæt vinnuföt. Hlýjar peisur voru nauðsynlegar á sjónum. Annars gekk maður í þeim vinnufatnaði, sem hentaði best og hægt var að fá. Úrvalið var nú ansi takmarkað á þessum árum, vöruskorts og hafta. Það kemur berlega í ljós af þeim bréfum móður minnar til mín, er varðveist hafa fram á þennan dag. Gúmmískór, gúmmístígvéli (lág og klofhá) voru helsti fótabúnaður okkar í sveitinni, en ekki eins mikilvæg í Vesturbænum, þótt ekki væru þá götur og gangstéttar lagðar hellum og bundnu slitlagi og stundum þyrfti að krækja fyrir drullupolla þar.

 

Þurftir þú að fata þig upp að einhverju leyti áður en þú fórst í sumardvölina eða var það hugsanlega gert eftir á?

 

Maður reyndi að fata sig upp áður en farið var vestur, a.m.k. hvað helstu ígangsföt varðaði og fótabúnað, en eins og að ofan getur var það ekki alltaf auðvelt.

 

Var rennandi vatn, rafmagn, hiti eða ljósamótor þann tíma sem þú varst í sveit?

 

Rennandi vatn var aldrei og þurfti að sækja allt vatn með fötum í brunna, er grafnir voru yfirleitt þar sem lægst var og þá ansi nærri sjó. Vatnið var slæmt og helst ekki drukkið nema soðið og þá í kaffi. Regnvatni var safnað af húsum í tunnur og notað til þvotta en ekki manneldis. Öll sumur, sem ég var í Látrum, utan eitt eða tvö hin fyrstu, voru rafljós þar. Fyrst var vindrafstöð, en síðan komu díselrafstöðvar, er fóru stækkandi. Hiti var fyrst frá Sóló-eldavél, en seinna held ég frá einhverskonar miðstöð, en ekki man ég lengur hvernig því var háttað, enda ekki kulsækinn á því tímabili ævi minnar.

 

Hve oft var skipt um á rúmum meðan á dvölinni stóð? En nærföt og ytri föt? Hversu oft í mánuði voru þrifin gólf og lagað til?

 

Ég man þetta nú ekki nákvæmlega, en hreinlæti og þrifnaður var þarna í góðu lagi.

Var aðstaða til að fara í bað? Hvernig og hve oft var það gert? Ef ekki var aðstaða til að fara í bað hve reglulega gastu þvegið þér um allan líkamann? Hve oft þvoðu menn sér um andlit og hendur?   

 

Aðstaða til ferskvatnsbaða var engin, en að sumrinu var hægt að baða sig í sjónum, ekki síst þegar sól var og veður gott. Nýttum við krakkarnir okkur það óspart. Til þess, að þvo sér vel um allan líkamann þurfti maður að nota bala og velgja vatnið. Fara þurfti sparlega með vatn, því mjög minnkaði vatn í brunnum í miklum þurrkum. Þetta, ásamt vilja og nenningu, hafði áhrif á hve tíð ferskvatnsböðin voru. Menn skoluðu af höndum áður en gengið var til borðs, a.m.k. ef verið var að vinna óþrifalega vinnu. Sömuleiðis þvoðu menn sér um andlit og hendur áður en farið var í háttinn oftast úr köldu vatni í vaskafati.

 

Hvernig var salernisaðstöðu háttað? Hvað fannst þér um að nota kamar, ef hann var fyrir hendi? Kynntist þú því að notuð væru dagblöð í stað salernispappírs? 

 

Ég hef getið um salernisaðstöðu hér að framan, en hún var lengst af þokkalega gerður kamar, byggður yfir safnþró í haughúsi. Í stað salernispappírs notuð dagblöð. Mér fannst allt í lagi að nota kamar þótt ég væri vanur vel búnu baðherbergi og vatnssalerni heimafyrir og hentaði það betur. Það verður að segjast eins og er, að versti ljóðurinn á eyjabúskapnum var ferskvatns-skorturinn og það sem af honum leiddi. Þetta fannst mér sjálfum og þetta fannst líka kúnum, sem keyptar voru sem kvígur ofan af landi. Þær þjáðust fyrstu dagana eftir að þær komu úr vetrarfjósinu og þurftu að drekka það vatn, er gafst í kúahögunum. Hinar innfæddu virtust hins vegar ekkert finna fyrir því. Sjálfur hef ég alla tíð verið mesti vatnsköttur.

 

Samskipti og viðhorf

Hvernig var að koma í fyrsta skipti í sumardvöl? Var vel tekið á móti þér? Hvernig? Fannstu mikið/lítið fyrir eiðraðleysi, óyndi eða heimþrá?

 

Ég hef lýst því hér að framan hvernig var að koma í sveitina. Þar átti ég frændum og vinum að mæta og var vel tekið. Var einn af fjölskyldunni, og fann það og naut þess alla tíð. Eignaðist þar vini og hefur sú gagnkvæma vinátta enst alla tíð. Aldrei fann ég til óyndis, en heimþrá, eða öllu fremur eftirvæntingu fann ég fyrir að hausti þegar heimferðardagur nálgaðist.

 

Hvernig líkaði þér dvölin?

 

Ákaflega vel. Eyjarnar mínar, náttúra og mannlíf þar er vafið töfraljóma, sem ætíð bregður birtu yfir dimma daga, ef ég leita þangað í huganum.

 

Hvernig kom aðkomubörnum saman við heimilisfólkið? Nefnið bæði jákvæða og neikvæða þætti. Mynduðust hugsanlega sterk tengsl sem héldust eftir að sumardvöl lauk, í mörg ár eða jafnvel allt lífið? Hvernig lýstu þessi tengsl sér?

 

Ég held að aðkomubörnum hafi yfirleitt komið vel saman við heimilisfólkið, þótt í einhverjum tilfellum kunni að hafa orðið misbrestur á, en ekki þekki ég þess dæmi. Um tengslin, sem mynduðust hef ég getið hér að framan.

 

Við hverja hafðir þú mest samskipti meðan á dvölinni stóð? Tilgreinið gjarnan bæði börn og fullorðna. Í hverju voru þau samskipti aðallega fólgin?

 

 Í svona litlu samfélagi, þar sem maður er hluti af heimilisfólkinu, og gengur að störfum með því, jafnt fullorðnum sem börnum, er í raun ógerlegt að segja til um hverja maður hafði mest samskipti. Líklega voru það þó helst jafnaldrarnir á heimilinu enda eru það þau, sem maður hefur helst haldið sambandi við á síðari árum.

 

Kom fjölskylda þín í heimsókn meðan á dvöl þinni stóð? Hve löng var heimsóknin?

 

Foreldrar mínir, einkum þó faðir minn kom oft að haustinu að sækja mig og yngri bróður minn í sveitina að haustinu og stansaði þá 2-3 daga. Það voru sjálfsagt heimahagarnir, sem drógu hann líka til sín svo og frændgarðurinn.

 

Fékkst þú eða önnur sumarbörn sendingar eða pakka að heiman? Hve oft og um hvað var einkum að ræða?

 

Yfirleitt fengum við bræðurnir pakka og bréf að heiman á 1-2ja vikna fresti með póstinum. Þetta voru blöð, einhverskonar sælgæti (jafnvel sítrónur og tómatar), en ekki var um auðugan garð að grisja hvað áhrærði úrval var af munaðarvörum á þessum árum. Eitt sinn man ég að við fengum sendar, líklega tvær vínarbrauðskringlur til að gæða okkur á og heimilisfólkinu. Ætíð fylgdu með fyrirmæli um, að við ættum að muna að deila sælgætinu með hinum börnunum, enda gættum við þess ætíð. Stundum var eitthvað fatakyns í pökkunum, jafnvel skófatnaður, enda aðeins með höppum og glöppum að slíkt fékkst á þessum árum vöruskorts og skömmtunar. Þá var eitt og annað sem ég hafði verið að kvabba um svo sem vasahnífur, sirkill, áttaviti, gráðubogi, plástrar, græðandi smyrsli, Skátabókin og hjálp í viðlögum. Oft fylgdu með skrifpappír, umslög  og frímerki, ásamt hvatningu um að vera duglegur að skrifa heim. Þetta er það helsta, sem ég man eftir að kom í sendingum að heiman, en án efa er margt sem ég man ekki eftir.

 

Ef fjölskylda þín átti ættingja í sveit í hverju voru samskipti við hana aðallega fólgin og hve mikil? 

 

Báðir  foreldrar mínir áttu ættingja, sem búsettir voru úti í sveit. Margt af þessu fólki heimsótti þau þegar það kom til Reykjavíkur og sumt gisti hjá þeim stundum dögum saman. Foreldrar mínir höfðu gott húsrými eftir að þau fluttu á Ránargötu 20 árið 1940. Þau voru bæði alin upp við gestrisni og þótti þetta sjálfsagt. Þau heimsóttu líka þessa ættingja sína þegar þau voru á ferð um landið. Sennilega hefur það þó verið fjölskylda föður míns við Breiðafjörðin, sem mest samskipti voru við.

 

Kannast þú við að sumarbörn hafi verið beitt áminningum eða refsingum af einhverju tagi? Geturðu nefnt dæmi? Við hvaða aðstæður var það gert og af hverjum?

Varðst þú eða einhver sem þú þekktir beitt(ur) harðræði eða jafnvel ofbeldi? Í hverju var það fólgið og við hvaða aðstæður?

 

Nei.

 

Hvað með stríðni eða áreitni, hverju nafni sem það nefnist?

 

“Leikskólar” á sveitabæjum

Á sumum sveitaheimilum voru reknir eins konar “leikskólar” á sumrin. Hefur þú reynslu af að hafa verið í slíkum “skóla” eða einhver sem þú þekkir? Ef svo er, greindu frá þeirri starfsemi sem þar fór fram og hvað einkum var boðið upp á. Hversu mikið fengu börnin að vera innan um skepnur og búskapinn? Hve löng var dvölin? 

 

Hef hvorki reynslu af slíkum “leikskólum” á sveitabæjum, né þekki til slíkra.

 

Hvar og hvenær voru slíkir “leikskólar” starfræktir? Unnu einhverjir aðrir þar en fjölskylda bóndans? Hverjir? Var eitthvað eftirlit með þessari starfsemi?

 

Hvernig líkaði þér vistin? Teljið gjarnan upp bæði jákvæða og neikvæða þætti. 

 

Hver heldur þú að hafi verið aðalástæða þess að foreldrar kusu að senda börn sín í “leikskóla”í sveit? Var einhver munur á frá hvaða þéttbýlisstöðum þessi börn og önnur sumardvalarbörn komu? 

 

Voru börn send í “leikskóla”í sveit á vegum stofnana eða hjálparsamtaka eins og t.d. Mæðrastyrksnefndar? Hversu algengt var þetta?

 

Hvernig komst á samband við bændur eða rekstraraðila “leikskólanna”? Hvaða skipulag var á flutningum barna úr þéttbýli í sveit? 

 

Þekkirðu einhver dæmi um að sveitaskólar hafi verið leigðir undir “leikskóla” eða sumarbúðir. Segðu frá þeirri starfsemi sem þarna fór fram. Í hvaða mæli gafst börnunum kostur á að kynnast sveitalífinu? Hve löng var dvölin?

 

Hverjir stóðu fyrir slíkum rekstri skólahúsa að sumarlagi (bændur, sveitarfélög t.d.)? Hvaða menntun hafði starfsfólkið og hvaðan kom það? Telur þú að það hafi verið eitthvað eftirlit með þessari starfsemi? Á hvaða stöðum og tímabili var starfsemi sem þessi í gangi?

 

Persónulegar upplýsingar um heimildarmann.

Nafn og heimilisfang

 

[..2..]

 

Hvar ertu fædd(ur) og uppalin(n), hvar hefur þú einkum dvalist á fullorðinsárum og við hvað hefur þú starfað?

 

Ég er fæddur í Suðurgötu 4, 101-Reykjavík.  Ég bjó þar og ólst upp fyrstu æviárin hjá foreldum mínum og móður afa og móður ömmu.  Síðan flutti ég með foreldrum mínum að Hávallagötu 47, þar sem þau leigðu hjá ekkjufrú Jósefínu Hobbs til fardaga 1939. Þá fluttu foreldrar mínir ásamt mér og yngri bróður mínum í leiguíbúð að Hringbraut 83. Þar fæddist yngri systir mín. Á fardögum vorið 1940 fluttum við svo ásamt móðurafa mínum og móður ömmu í tíu ára gamalt hús, er þau höfðu keypt að Ránargötu 20, 101-Reykjavík.  Þar ólst ég síðan upp og bjó mín fyrstu búskaparár meðan ég stundaði nám í læknisfræði við Háskóla Íslands.  Að því loknu fór ég til sérnáms í geðlæknisfræði, fyrst tvö ár í London [bjó þá í Sutton, Surrey], síðan þrjú ár í Danmörk og bjó þá í Glostrup, Vejle og Odense. Fluttist þá heim til Íslands og hóf störf við Kleppsspítala. Fyrsta eitt og hálft árið bjó ég í Eskihlíð 16, en flutti þá aftur á fornar slóðir í Vesturbænum og settist að á Bárugötu 35. Hef búið þar síðan ásamt eiginkonu minni, sem einnig er vesturbæingur, fædd og alin upp á Vesturgötu 58.  Ég starfaði allan minn starfsferil við Kleppsspítala og geðdeild Landspítalans þar sem ég var yfirlæknir áfengisdeilda í 28 ár til ársins 2002 er ég settist í helgan stein.

 

Nöfn, fæðingarár, fæðingarstaðir og atvinna foreldra.

 

Foreldrar mínir voru: Bergsveinn Ólafsson, augnlæknir, fæddur árið 1901 og uppalinn í Hvallátrum á Breiðafirði. Móðir mín Elín Jóhannesdóttir, fædd árið 1909 á Seyðisfirði og ólst upp þar og síðar í Reykjavík. Hún var stúdent frá MR og hóf nám í læknisfræði þar sem hún hitti föður minn, giftist honum og starfaði eftir það sem húsmóðir.

 

Viðauki:

 

Ég er að hugsa um að lofa þessum tveim frásögnum, sem eitt sinn hrutu úr penna mínum og fylgja hér aftan við, að fljóta með. Í þeim felast nokkrar lýsingar á staðháttum og verkefnum krakkanna í Látrum, bæði þeirra, er heima áttu þar, og hinna, sem þar voru sumarlangt í sveit.

 

Hvítklæddi strákurinn.

            Ég var á áttunda ári þegar Bretar hernámu Ísland í maí 1940. 

            Fljótlega eftir hernámið tók að bera á ótta við að Þjóðverjar myndu nota hinar björtu sumarnætur til þess að senda hingað flugvélar að varpa sprengjum á skipakost Breta í Reykjavíkurhöfn. 

            Foreldrar mínir höfðu þá um vorið keypt hús við Ránargötu, en hún er í Landakotshæðinni norðanverðri og því ekki ýkja langt frá höfninni.  Þess vegna mun foreldrum mínum hafa þótt öruggara að fjarlægja okkur systkinin úr þessu umhverfi yfir sumartímann meðan nætur voru bjartar. 

            Móðir mín fór með yngri systkini mín austur að Ásólfsstöðum, en ég var sendur með Önnu föðursystur minni vestur í Hvallátur til frænda míns Jóns Daníelssonar og Jóhönnu Friðriksdóttur eiginkonu hans.  Hjá þeim sæmdarhjónum og fjölskyldu þeirra átti ég svo eftir að eyða ellefu sumrum og njóta hins besta atlætis.  Fyrir það er ég eilíflega þakklátur því það voru bestu sumur æfi minnar.

            Þegar ég kom í Hvallátur bjó Jón frændi minn með fjölskyldu sinni í “Bænum”, sem svo var í daglegu tali nefndur til aðgreiningar frá “Húsinu”, er Ólafur afi minn hafði byggt og búið í sín búskaparár í Hvallátrum.  Bærinn stóð dálítið vestar á heimaeynni en Húsið, sem var austar og sunnar á eynni og nær lendingunni.

            Bærinn var timburhús ekki ýkja stórt, ein hæð og ris.  Við húsið höfðu þá verið byggðar tvær skúrbyggingar og var önnur forstofa að vestanverðu, en hin eldiviðarskúr að austanverðu.  Við norðurgaflinn var hlaðinn  veggur úr torfi og grjóti.

            Herbergjum var þannig skipað, að á neðri hæðinni var stofa syðst, þá eldhús sem jafnframt var borðstofa og lítið búr að norðanverðu.  Í risinu var hjónaherbergið syðst uppi yfir stofunni.  Þar sváfu þau hjónin með yngri börn sín.  Þá var miðloftið með tveim eða þrem rúmstæðum að því er mig minnir og þar í gólfinu stigaop og lá frá því brattur stigi niður í eldhúsið.  Nyrst í risinu var svo afþiljað lítið herbergi og var lengd þess aðeins eitt rúmstæði.  Þar bjó Anna föðursystir mín og með henni deildi ég herbergi fyrstu tvö eða þrjú sumrin í Hvallátrum.

            Nokkrum árum seinna var bærinn svo rúmlega tvöfaldaður að stærð, en áður hafði verið byggt við hann þvottahús og geymsla að norðanverðu. 

            Um leið og bærinn var stækkaður breyttist herbergjaskipan þannig í risinu á gamla hlutanum, að loftsgatinu á miðloftinu var lokað, stiginn færður yfir í nýja hlutann og þar gerður nýr og góður stigi, sem lá úr gangi á neðri hæðinni í nýja hlutanum upp í gang á efri hæðinni, er lá á milli tveggja rúmgóðra herbergja.  Þessi gangur lá svo að dyrum, sem gerðar voru á austurvegg miðloftsins gamla rétt við dyrnar inn í hjónaherbergið á framlofti gamla hlutans.

            Eitt sumarið, eftir að bærinn hafði verið stækkaður, svaf ég á framloftinu hjá hjónunum ásamt einhverjum af frændsystkinum mínum.  Rúmið mitt stóð við vesturvegginn næst þilinu, er aðskildi framloftið og miðloftið. 

            Á miðloftinu svaf gömul kona, sem vann að deginum með okkur krökkunum að frumhreinsun æðardúns og fór hún fram í fjósinu.  Hún var í daglegu tali nefnd “Stína gamla”.  Reyndar hef ég ekki hugmynd um hve gömul hún var þegar hér var komið sögu, en nokkuð mun þó aldurinn hafa verið farinn að færast yfir hana.  Hún var að ýmsu mæðumanneskja.  Hafði aldrei gifst, en alla tíð verið í vinnumennsku.  Heilsan oft verið léleg m.a. vegna lifrarsulls, sem hún hafði fengið og fjarlægður hafði verið.  Eftir það mun hún hafa átt erfitt með að liggja útaf í rúminu og svaf jafnan sitjandi upp við dogg.  Sagðist sakir þess eiga óhægt um svefn og kvartaði gjarnan undan svefnleysi, sagðist eiginlega aldrei sofa nokkurn dúr.  Ekki notaði hún þó svefnmeðöl, en þótti gott að eiga glas af Hofmanns-dropum til að dreypa á sykurmola og taka inn sér til hressingar.  Taldi þá allra meina bót, þótt ekki læknuðu þeir svefnleysið.  Nokkuð lýtti það þessa gömlu konu í andliti, að einhver skurðlæknir, sem greinilega hefur ekki verið lýtalæknir, hafði skorið fleyg úr efrivörinni á henni, að því er hún sagði, vegna krabbameins, og saumað sárið saman heldur groddalega og skilið eftir ljótt ör og lýti á efri vörinni.

            Kýrnar voru komnar í sumarfjósin, er stóðu utan túns svo ekki væri hætta á að þær spörkuðu upp túnið og tröðkuðu niður töðuna.  Vetrarfjósið stóð því autt svo við gátum haft þar afdrep við dúnhreinsunina.  Þarna sátum við á meisum, tvö og tvö í bás með dúngrindina á hnjánum á milli okkar og “hristum upp” dún, en svo var það kallað þegar búið var að sólþurrka dúninn og ruslið var grófhreinsað úr honum fyrir hina endanlegu hreinsun.

            Hin endanlega hreinsun fór hins vegar fram þannig, að dúnninn var hitaður í stórum potti yfir eldi þar til heyrusl í honum var orðið stökkt.  Þá var hann “krafsaður” á dúngrind með stíft strengdum færisstrengjum þannig að ruslið molnaði og sáldraðist úr honum.  Stundum var notað við þetta verk áhald úr tré, sporöskjulaga með aflöngu gati í miðjunni og þynntist út til jaðranna.  Þetta áhald nefndist “þræll” og var gert úr hörðum, seigum við, líklega oftast úr eik.  Það var sett inn í dúntínuna, sem verið var að hreinsa í byrjun meðan mesta ruslið var að molna úr henni.

            Á þessum árum var ég ekki vel góður í maga og þoldi illa kjarngóðan eyjamatinn.  Eina nóttina gerðist það sem oftar að ég vaknaði upp með magaverki og óróleika í görnunum.  Fann að ég varð að fara og ganga örna minna.  Engin voru vatnssalerni í bænum, en góður kamar innbyggður í haughúsið.  Ég snaraðist því úr rúminu og brá mér í samfestinginn, er ég klæddist daglega.  Hann hafði upphaflega verið ljós-brúnn á litinn, en margendurtekinn þvottur með sterkri heimatilbúinni sápu hafði aflitað hann svo að nú var hann orðinn nánast hvítur.  Ég reyndi að fara eins hljóðlega og ég mögulega gat.  Opnaði hurðina inn á miðloftið ofur varlega og læddist yfir gólfið fram á ganginn.  Stína gamla var steinsofandi sitjandi upp við dogg í rúminu sínu.  Sú skyldi nú fá að heyra það í fjósinu á morgun, þegar hún færi að kvarta undan svefnleysinu, að hún hefði sofið eins og steinn.  Það hefði ég séð með eigin augum.  Þegar stiginn tók við fór gamanið að kárna.  Þessi stigi, sem var sveinsstykki smiðsins, var óvenju hljómelskur.  Hvert þrep brást við með sínu sérstaka ískri og marri þegar fæti var tyllt á það og lét því hærra sem reynt var að stíga léttar til jarðar.  Næturrölt um þennan stiga var því fremur taugatrekkjandi. 

            Á kamarinn komst ég um síðir og lauk mér af svo sem vera bar.  Ferðin til baka var tíðindalaus, nema hvað stiginn lék hljómkviðu í nokkuð öðrum dúr þegar upp var læðst.  Þegar ég kom á miðloftið sá ég að Stína gamla var vöknuð.  Líklega hafa hljómkviður stigans vakið hana.  Ég lét sem ekkert væri og læddist sem hljóðlegast yfir gólfið og inn á framloftið, afklæddist samfestingnum í snatri, skreið í rúmið, sofnaði og svaf í einum dúr til morguns.

            Næsta morgun þegar við sátum öll á meisunum okkar í fjósinu með grindurnar á hnjánum og dúntínu milli handanna, sagði Stína gamla allt í einu upp úr eins manns hljóði:

            “Nú kemur hann Gestur minn áreiðanlega í dag. Ég sá hvítklædda strákinn, sem fylgir honum í nótt. Hann fór inn á framloftið til hjónanna.  Það bregst aldrei að hann Gestur komi þegar ég sé hvítklædda strákinn”.

            Ég sagði auðvitað ekki neitt. 

            Gestur var póstur og bjó í Flatey, en kom reglulega póstferðir inn í eyjar, en aðeins stöku sinnum þess á milli.  Góður drengur og ætíð aufúsu gestur.  Þennan dag átti ekki að vera nein póstferð samkvæmt öllum reglum, enda kom Gestur hvorki þennan dag né hinn næsta.  Aumingja Stína gamla skildi ekkert í þessu.

            “Það hefur aldrei áður brugðist að hann Gestur minn kæmi þegar ég hef séð strákinn í hvítu fötunum. Ég skil ekkert í þessu því ég sá hann eins greinilega og ég sé ykkur hér í fjósinu, ef ekki betur”, sagði Stína gamla og var þungt hugsi yfir þessum duttlungum hinna dulrænu fyrirbrigða daglegs lífs.

 

 

 

Þegar við Dani sáum fjörulalla.

Skammdegismyrkrið hér norður á hjara veraldar getur verið æði þrúgandi.  Þess gætti ekki síst fyrr á tímum þegar ekki voru aðrir ljósgjafar til þess að vinna bug á því en kertaljós og grútar- eða olíutírur.

Þegar ég kom fyrst vestur í Breiðafjarðareyjar árið 1940 var þar ekkert rafmagn og því engin rafljós.  Nokkrum árum seinna komu vindrafstöðvar og ljósin frá þeim brugðu birtu inn í skammdegismyrkrið meðan vindar blésu mátulega, hvorki of veikt, eða of sterkt, og rafmagn entist á rafgeymunum.  Seinna komu til sögunnar heimilisrafstöðvar knúnar díselvélum.  Þær réðu við stærri ljósaperur, sem gáfu frá sér meira og stöðugra ljósmagn.

Neysluvatn hafði ekki verið leitt í bæinn og þurfti að sækja það í brunn og bera heim í fötum.  Brunnurinn var grafinn niður í smá hallanda, undir lágu barði rétt ofan við flæðarmál, um 70-80 metra vegalengd frá bænum.  Frá barðinu og heim undir bæ var sléttur túnblettur þar sem brunnstígurinn lá.  Strax og við krakkarnir höfðum burði til kom það í okkar hlut að sækja vatn í brunninn og bera heim í fötum.  Til þess að létta okkur vatnsburðinn og halda frá okkur fötunum notuðum við trégrind.  Heima í þvottahúsi stóð stór trétunna.  Henni þurftum við að halda fullri og bera heim það vatn, sem notað var daglega.  Þetta var hvorki létt verk né skemmtilegt að því er okkur strákunum fannst, og vildi því oft sitja á hakanum.

Þannig vart það einmitt þetta haustkvöld þegar við Daníel frændi minn sáum fjörulallann. 

Við höfðum gleymt að sækja vatnið.  Tunnan var næstum tóm þegar við komum heim frá öðrum verkum.  Stúlkurnar höfðu lokið kvöldmjöltum, vantaði vatn til þess að þvo mjólkurföturnar og voru ergilegar yfir þessari yfirsjón okkar. 

Við fengum þó að borða áður en við vorum drifnir í vatnsburðinn og tókum rösklega til matar okkar, því ekki veitti okkur af orku til þess að rogast margar ferðir með fleyti fullar fötur heim og vera hraðstígir svo við kæmumst sem fyrst í bólið að hvíla lúin bein.

Veðri var þannig háttað, að skýjað var, lygnt niður við jörð, en í háloftunum blésu vindar, sem sigldu skýjabólstrum hraðan byr um loftin.  Fullt hausttungl óð í skýjum, er deyfðu birtu þess um stundar sakir, en við og við skein það skært milli bólstranna.  Svona skýjafar er nefnt gluggaþykkni, ef ég man rétt.  Flöktandi tunglsljósið sveipaði Hauður og haf töfraljóma, er á dularfullan hátt lífgaði allt umhverfið og gæddi jafn vel dauða skuggana lífi.

Við Dani gripum sinn hvora fötuna og annar smeygði trégrindinni yfir öxlina.  Síðan lötruðum við í hægðum okkar vatnsstíginn inn eftir flötinni í áttina að brunninum og reyndum að láta vel útilátinn matinn sjatna í maganum á leiðinni.  Töfrabirta tunglsins hreif okkur ekki fyrr en við komum fram á barðið yfir brunninum.

Ha?  Hvað var nú þetta?

Neðst í brekkunni, spölkorn frá þeim stað, sem við höfðum stansað og stirðnað upp, var einhver annarleg þúst.  Það var eins og einhver ókunnugleg og undarleg skepna lægi þarna rétt ofan við hliðið á sjávargarðinum.  Ég verð að viðurkenna, að ég sá hana ekki greinilega.  Bæði var birtan ekki mikil þessa stundina því tunglið fól sig að baki þykkum skýjabólstra, ég nærsýnn og gleraugun mín líklega ekki eins hrein og best verður á kosið. 

Ég sá ekki betur en ókindin hreyfði sig aðeins.  Hún gerði sig þó ekki líklega til þess að leggja í okkur, heldur lá þarna og bylti sér lítið eitt til.  Ég sá ekki betur en hún viki aðeins í átt til okkar stórum en fremur snubbóttum haus með örstuttu trýni.  Um leið fannst mér ég sjá að glitta í auga um það bil í miðjum hausnum..  Bolurinn var stuttur og kubbslegur, en upp úr bakinu virtist hún hafa eitthvað er líktist þríhyrndum uggum með stórum göddum upp úr.  Aftan úr skepnunni virtust mér vera tvö grönn bægsli, eða mjóir fætur.

Hvaða skepna gat þetta verið? 

Stærðin gat passað við fullorðna kind, en ekki lögunin.  Hausinn var hlutfallslega allt of stór og svo voru það uggarnir upp úr bakinu. 

Nei, ekki var þetta kind, enda engar kindur heima við.  Þær voru flestar uppi á landi ennþá í sumarhögum.  Fáeinar voru í úteyjum langt frá og gátu ekki komist hingað. 

Nei, þetta var ekki kind.  Og hvorki var það kýr né hestur.  Kýrnar voru allar komnar í fjós og hvíldu sig þar eftir erfiði dagsins og mjaltirnar.  Hestur var bara einn í Hvallátrum, hann Rauður gamli.  Til að sjá var þessi skepna ekkert lík honum.  Það sá ég strax því svo oft hafði ég þurft að svipast um eftir honum.  Hann var líka ívið stærri. 

Gæti þetta verið selur? 

Varla.  Of lítið til þess að vera útselur og líktist á engan hátt landsel.  Hausinn hlutfallslega allt of stór og skrokkurinn of kubbslegur.  Skepnan hafði ekki heldur þann gljáa, sem selir eru vanir að hafa.  Hún virtist til að sjá fremur brúnleit en svört og mött á skrokkinn, jafnvel klepruð eins og hún væri til dæmis vaxin þangi.

Nei.  Þetta var ekki selur. Kannski rostungur?  Nei.  Rostungur var stærri en útselur og svo hafði hann hvítar, eða gulleitar, skögultennur.  Engar slíkar hafði þessi skepna. Nei.  Ekki heldur rostungur.

Hvað gat þetta eiginlega verið? 

Skyndilega skaut hinu skelfilega svari upp í hugann. Fjörulalli. Já, fjörulalli hlaut það að vera. Bolstuttur með snubbóttan haus og lága fætur. Vaxinn þangi, eða öðrum sjávargróðri. Það gat alveg passað.

Ég mundi eftir ýmsum frásögnum, sem ég hafði lesið, um fjörulalla. Meir að segja mundi ég eftir einni slíkri úr þjóðsögunum, er greindi frá viðskiptum Bergsveins langafa míns af fjörulalla í Sviðnum. 

Samkvæmt lýsingunni var sá mun minni en þetta skrímsli.  Aðrir voru sagðir mun stærri t.d. sá, sem elti Ingibjörgu í Þernunesi.  Sá var á stærð við tvo hesta.

Sæskrímsli, sem sást í Flatey á Skjálfanda, vaxið skeljum svo hringlaði í, braut þrjú borð í súðinni á bænum Útey og skildi eftir sig kringlótt spor á stærð við kvartilabotna. 

Þá var nú aldeilis kraftur í skepnunni, sem tætti sundur Arnodd frá Flautagerði í Stöðvarfirði svo ekkert var eftir annað en dreif af beinum, sem holdið hafði verið rifið af?  Hve stórt ætli það hafa verið?  Ef ég mundi rétt var talið að þetta skrímsli hafi verið á stærð við sauð og fótfrátt í besta lagi.  Því var reyndar lýst þannig, að það hafi verið hálslangt, en fjörulallinn, sem hér var mættur til leiks, virtist hálsstuttur, nánast hálslaus.

Allar þessar frásagnir, sem ég hafði á síðkvöldum lesið með athygli í ýmsum söfnum þjóðsagna, flugu gegn um hugann á örskotsstund. 

Samt var ég ekki mjög hræddur.  Bilið milli okkar og lallaðs var allnokkuð, stutt til bæjar, ég léttur á mér og fótfrár.  Við höfðum líka vinninginn því hann átti á brattan að sækja, en við gátum hlaupið skeiðið á sléttri grundinni. 

Ekkert gat hafði ennþá gert á skýjaflókann, sem virtist samfelldur, en mis þykkur.  Birtan var því breytileg, en aldrei nægilega mikil til þess, að við gætum skoðað skepnuna almennilega úr fjarlægð.  Sjálfur var ég alinn upp í birtu rafljósa borgarinnar svo skammdegismyrkrið með öllum sínum óljósu skelfingum hafði ekki náð á mér þeim tökum, sem það hafði tekið Daníel frænda minn.  Ógnir þjóðsagna, sem lesnar eru af blaðsíðum bókarinnar, verða einhvern veginn ekki eins lifandi og magnaðar og þær, sem heyrðar eru af vörum sögumannsins í rökkrinu.

Ætli það sé ekki óhætt að fikra sig aðeins nær skepnunni til þess að sjá hana betur? 

Dani vildi ekki heyra á það minnst.  Við skulum bara koma okkur heim strax.  Vatnið getum við sótt á morgun.  Lífinu er ekki hættandi fyrir það.  Hann var þyngri á sér en ég og ekki eins fljótur að hlaupa.

Nú þykknaði og þéttist skýjaslæðan.  Það var rétt að ég gat grillt í skepnuna.

Hún hafði áreiðanlega orðið vör við okkur.  Betra að gæta sín og nálgast hana með gát.  Var það annars þorandi?  Var ekki öruggast að snúa við strax og leita skjóls í bænum? 

Hvað, ef hún elti okkur þangað? 

Myndi hún brjóta sér leið inn í húsið?  Eða liggja í leyni við bæinn í alla nótt til þess að hremma þann, sem hætti sér út úr húsi í myrkrinu? 

Líklega er engin byssa heima.  Skotvopnin, þar á meðal gamall, öflugur herriffill úr löngu gleymdu stríði, voru öll geymd í skemmu niður við lendinguna.  Einhver yrði að hætta sér þangað og nálgast þau svo hægt yrði að vinna á skepnunni ef hún léti ófriðlega.  Nú væri gott að eiga silfurkúlu.  Slíkar kúlur eru hið mesta þing þegar þarf að bægja frá draugum, en ekki eins víst að þær dugi á sjóskrímsli.

Nú þynntist skýjahulan aftur og betur sást til skepnunnar.  Hún virtist ekki hafa hreyft sig úr stað.  Ég tók ákvörðun um að sýna áræði og þoka mér eftir barðinu aðeins nær henni, viðbúinn að taka á rás til bæjar með augnabliks fyrirvara. 

Aftur þykknaði skýjaflókinn og dimmdi svo að ég missti næstum sjónar á Lallanum.

Hvað ef ég sæi ekki þegar hann legði af stað í áttina til mín og allt í einu stæði hann frammi fyrir mér uppi á barðinu? 

Ég fann næstum af honum sjávarfýlu eins og af úldinni þanghrönn, eða einhverju miklu verra.  Ég ímyndaði mér hvernig slímið myndi slettast af honum í hverju spori.  Það lá við að ég missti kjarkinn, en forvitnin varð yfirsterkari.  Hægt og varlega þokaði ég mér nær.  Daníel frændi minn stóð í sömu sporum albúinn þess, að taka á rás til bæjar á næsta augnabliki.

Skyndilega kom rof í skýjaþekjuna.  Hinn fulli haustmáni náði að senda geisla sína óhindrað til jarðarinnar og baða hana björtu skini sínu. Hið torkennilega sæskrímsli, fjörulallinn, sem lá þarna fyrir neðan mig í brekkunni, myndbreyttist skyndilega og varð að gömlu hjólbörunum, sem við frændurnir notuðum oftast til að aka málamykjunni úr fjósinu á túnið, taði úr fjárhúsunum, eða öðru tilfallandi skarni á hóla. 

Þær lágu þarna á hvolfi rétt eins og við frændur höfðum skilið við þær alllöngu áður, þegar við höfðum lokið við að flytja á þeim skarfshami til þerris á sjávargarðinum.  Hausinn var tréhjólið og bakuggarnir lappirnar með skástífunum. 

Auðvitað sögðum við ekki nokkrum lifandi manni frá þessu ævintýri okkar og sálarkvölum.  Ég bið þig lesandi góður lengst allra orða, að gera það ekki heldur.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana