LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLoftslagsbreytingar
Ártal2018
Spurningaskrá125 Loftslagsbreytingar og framtíðin

Sveitarfélag 1950Borgarneshreppur
Núv. sveitarfélagBorgarbyggð
SýslaMýrasýsla (3600) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1952

Nánari upplýsingar

Númer2018-1-114
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.10.2018/17.12.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Almennt

Hvað tengir þú helst við loftslagsbreytingar af mannavöldum? Hér getur þú látið hugann reika.

Spurningin um orsakir og afleiðingar. Nenni ekki lærðri rirtgerð um orsakir en ef við tölum um afleiðingarnar þá er hækkun hitastigsins að valda því að hafísbreiðan bæði á norður og suðurpól fer hratt minnkandi sem hefur áhrif á veðurfar í heiminum, sjávarborð hækkar og landsvæði munu fara undir sjó,-  hversu mikið fer eftir hvort tekst að snúa þróuninni við. Áhrif á veðurfar hafa valdið og eiga eftir að valda alvarlegum tjónum og náttúruhamförum gerist ekki eitthvað í hvelli til að snúa þróuninni við. Hætta á að svæði verði óbyggileg mönnum vegna þurrka eða jafnvel votviðris.  Kafli 2 af 8 - Eigin upplifun

Loftslagsbreytingar eru hnattrænar en hækkað hitastig á jörðinni getur einnig haft miklar staðbundnar afleiðingar. Hefur þú upplifað einhverjar afleiðingar af loftslagsbreytingunum? Hvaða afleiðingar, hvar og hvernig? Hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á líf þitt? Á hvaða hátt?

Mér finnst rigningin á Íslandi hafa breyst á síðustu árum, það koma þessar hellidembur sem maður upplifði ekki hér áður fyrr nema í útlöndum og við kölluðum „útlandadembur“ þegar þær fóru að koma hér fyrir ca. 25 árum. Þá eru jöklar okkar hér á landi að minnka mikið og mjög breytt að horfa á þá – Okið sem var jökull í mínu héraði er t.d. horfinn og hefur breyst í hæð/fjall. Þá má nefna að ég er að koma frá Sikiley og upplifði þar mestu rigningu sem ég hef séð ( hef þó verið í Asíu á rigningartímabili) með stanslausum þrumum og eldingum í hátt í 3 klukkustundir. Hélt að þetta væri eitthvað þekkt á svæðinu, en heimamenn sögðust aldrei hafa upplifað annað eins.Kafli 3 af 8 - Hvað get ég gert?

Hefur þú gert eitthvað sjálf(ur) til að draga úr loftslagsbreytingum? Hvaða máli telur þú að daglegt líf þitt eða lífstíll skipti fyrir loftslagsbreytingar?

Ég hef ekki gert nóg þó ég geri mér grein fyrir að allir þurfa að leggja af mörkum til að hamla gegn þessu. Ég hef þó skipt út bensínbíl fyrir „hybrid“ bíl og reyni að forðast vörur sem koma langt að ( hafa verið fluttar milli heimsálfa ), safna öllum pappír til endurvinnslu til að vernda skógana og eitthvað þannig smávegis,- kanski mest að kaupa aldrei neinn óþarfa!!. Verð þó að játa að ég nota flug og skil þannig eftir mig nokkuð stórt kolefnisfótspor, en kann ekki ráð til að ferðast til erlendra landa án þess að fljúga.Kafli 4 af 8 - Upplýsingagjöf

Hvar hefur þú helst fengið upplýsingar um loftslagsbreytingar (sjónvarp, netmiðlar t.d.)?

Útvarpi, sjónvarpi og með lestri blaðagreina.  Kafli 5 af 8 - Úrræði

Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Hvernig? Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni?

Já, svo segja þeir sem vitið eru taldir hafa og ég treysti vísindunum. Þó skiptir miklu máli hvernig rafmagnið er framleitt, þarf að vera vistvæn framleiðsla vatns- eða vindafl eða sjávarföll, en ekki kol eða olía. Spurningin líka með metan og ætla þeir ekki að prófa rapsolíu sem á að vera umhverfisvænni en olía. Miklu skiptir einnig útblástur frá allskyns iðnaði sem er nauðsynlegt að taka á.Kafli 6 af 8 - Aðrar ógnir

Eru einhverjar aðrar samfélagslegar ógnir að þínu mati sem eru uggvænlegri en loftslagsbreytingar? Ef svo er, hvaða?

Ég veit ekki alveg hvort það á við en ég hef verulegar áhyggjur af að helstu framámönnum heimsins sé verr treystandi þessa dagana en verið hefur um nokkuð langa hríð og á ég þá við Trump og Pútín. Þeim gæti tekist að setja allt á hvolf bara á næstu árum meðan loftlagsbreytingarnar taka nokkur ár/ áratugi áður en þær gera út af við okkur. Græðgin, þ.e. græðgi mannskepnunnar, aðallega þó þeirra ríku,  er þó kanski það allra hættulegasta því að þar sem hún ræður för verður allt undan að láta, - ef er hagnaður í dag þá skítt með lífið á jörðinni í framtíðinni.  Kafli 7 af 8 - Framtíðin

Flestir eða allir reyna að gera sér einhverja grein fyrir hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Við viljum gjarnan að þú segir frá hugmyndum þínum um framtíðina, væntingum, óskum eða áhyggjum. Frásögnin má bæði vera um nærumhverfi þitt og framtíð jarðarinnar, eða annað hvort, og hún þarf ekki endilega að vera um loftslagsbreytingar. Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér?

Er hrædd um að lítið breytist til batnaðar. Mundi óska eftir að sjá meiri jöfnuð milli allra manna hvar sem er í heiminum og frið,  engin hernaðarátök, já, og enga heri. Ég er ekki bjartsýn fyrir hönd heimsins,- gildismat virðist í allt of ríkum mæli taka mið af efnislegum þáttum og það virðist hægt að kaupa allt, m.a. forsetastóla í valdamestu ríkjum heimsins. Vinkonurnar heimska og græðgi ráða allt of miklu og fátt finnst mér benda til að þar verðiu breyting á.  Kafli 8 af 8 - Viðbætur og athugasemdir

Hér hefur þú pláss fyrir viðbætur eða athugasemdir við spurningaskrána.

Læt ofannskrifað nægja. 


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana