125 Loftslagsbreytingar og framtíðin
Kafli 1 af 8 - Almennt
Hvað tengir þú helst við loftslagsbreytingar af mannavöldum? Hér getur þú látið hugann reika.
Hræsni, skilningsleysi og „meinta“ fáfræði má tengja við allar afleiðingar mannlegrar tilveru. Ég hygg svo dæmi sé tekið að allir og þá meina ég allir tvífættlingar af tegundinni homo sapiens geri sér grein fyrir því að hægt væri að ráða hraða ökutækja og takmarka hann við þann löglega með tölvubúnaði. Það er auðvitað einfaldara mál en bjarga okkur frá loftslagsvánni en væri hluti af því, dragi úr mengun. Svo ég fari bara örlítið lengra með þetta. Vafalaust hefur einhverjum dottið það í hug að á Íslandi væri nú kannski ekki úr vegi að lækka líka lögleyfðan hámarkshraða. Þó aldrei væri nema vegna ferðamannanna.
Átti ég kannski að skrifa hér laxeldi, lúpína, sauðkind og flugvöllur í Vatnsmýri. Eða átti ég að telja hér upp „snillinga“ á pólitíska sviðinu; nei, þá þarf ég að „gúgla“. Enda þarf þess ekki, alla vega ekki ég. Ég „stal“ á dögunum bréfi sem endanlega gerði út um veika von mína til þess að okkur tækist að láta stjórnsýsluna okkar hafa eitthvað með hlutina að gera. Henni mun ekki takast að gera það, kannski mest vegna minnimáttarkenndar sem hefur það í för með sér að samfélagið snýst gegn henni, og í tilfelli þessa bréfs, sem einn maður. Ég set um þetta bréf hér neðan við en held á með að svara þessari spurningaskrá.
Kafli 2 af 8 - Eigin upplifun
Loftslagsbreytingar eru hnattrænar en hækkað hitastig á jörðinni getur einnig haft miklar staðbundnar afleiðingar. Hefur þú upplifað einhverjar afleiðingar af loftslagsbreytingunum? Hvaða afleiðingar, hvar og hvernig? Hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á líf þitt? Á hvaða hátt?
Það vill svo til að ég er með töflureiknisskjal, þau eru víst enn í tísku, sem sýnir mér hlýnunina en það hefur stöðugt hlýnað á Stöðvarfirði frá 1981, komið auðvita köld ár og kaldir mánuðir, en þróunin er öll í eina átt. Þetta eru orkunotkunar tölur í húsinu mínu sem að auki svara að hluta næstu spurningu. Ég setti upp varmadælu 2010 og hún er búin að boga sig.
Kafli 3 af 8 - Hvað get ég gert?
Hefur þú gert eitthvað sjálf(ur) til að draga úr loftslagsbreytingum? Hvaða máli telur þú að daglegt líf þitt eða lífstíll skipti fyrir loftslagsbreytingar?
Ég er ekki með bíl en á tvennar hjólbörur og er ekki í hópi þess helmings samborgara minna hér sem flýgur utan eftir áramót.
Kafli 4 af 8 - Upplýsingagjöf
Hvar hefur þú helst fengið upplýsingar um loftslagsbreytingar (sjónvarp, netmiðlar t.d.)?
Ef mér hefði tekist að ala upp eitthvað af jarðarbúum hefði matarsóun lengi verið minni, mest af fóðrinu hefði verið úr nágrenninu. Ég sem sé ét til að lifa en ekki öfugt og þykir allur matur góður og þar af leiðandi sama hvað ég borða. Ég á sem maður segir, erfitt með að samsama mig með þeim sem dettur í hug að það þurfi að flytja inn nautalundir úr fimmföldum kúastofni Íslendinga, á ári, til að þjóna markaðnum.
Bara svo það sé á hreinu, þá værum við ekki stödd þar í dag sem við erum ef innkaup mín af tæknibúnaði væru „norm“. Ég gæti ímyndað mér að það vantaði 20 til 30 ár af þróun sem væri auðvita slæmt í mörgu tilliti. Kannski ætti ég ekki einu sinni gamla „nókía“ farsímann minn ef mér hefði ekki verið gefinn hann og pottþétt ekki æ-pöddu ef ég hefði ekki fengið hana í arf.
Kafli 5 af 8 - Úrræði
Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Hvernig? Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni?
Vitaskuld, en allar tilraunir til þess renna jafnóðum út í sandinn. Það er auðvitað þess vegna sem ég held að ég sé ekkert að lista þetta upp, hluti eins og að leggja niður útlendingastofnun og leyfa fólki að koma sér fyrir á landinu sem við erum hvort eð er ekki að nota. Það eru mestar líkur til að flestir gætu látið fara betur um sig en á vegum „starfsmannaleigna“ svona svo dæmi sé tekið.
Kafli 6 af 8 - Aðrar ógnir
Eru einhverjar aðrar samfélagslegar ógnir að þínu mati sem eru uggvænlegri en loftslagsbreytingar? Ef svo er, hvaða?
Ég stenst það ekki að gera verulega athugasemd við þessa spurningu. En fyrst vil ég taka það fram að ég er ekki að „þykjast vera“ og vil gera grein fyrir því að mjög svo takmörkuð þekking mín er að færa mér myndina sem getur ekki verið annað en svört úr því mitt brot er svona dökkt.
Loftslagsbreytingar eru bara ekki samfélagslegar ógnir. Þarna liggur svo djúpur hagsmunatengdur misskilningur eða möguleg orðanotkun að það hálfa væri nóg. Það að „samfélagið“ okkar á jörðinni eigi ekki séns stafar af mannlegri grimmd og græðgi. Ég ber Guðmund Sigvaldason jarðfræðing fyrir því að náttúran muni sjá um sig og spurningin bara hvort hún kæri sig um að hafa manninn í sér.
Kafli 7 af 8 - Framtíðin
Flestir eða allir reyna að gera sér einhverja grein fyrir hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Við viljum gjarnan að þú segir frá hugmyndum þínum um framtíðina, væntingum, óskum eða áhyggjum. Frásögnin má bæði vera um nærumhverfi þitt og framtíð jarðarinnar, eða annað hvort, og hún þarf ekki endilega að vera um loftslagsbreytingar. Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér?
Ég tek undir með Claude Lévi-Strauss mannfræðingi í því sem mér skilst að hafi verið hans síðasta viðtal og hans loka orð í því. „Ég ætla ekki að segja neitt um framtíðina“. Ástæðan var mannfjölgunin og ég reyni ekki að fara með tölurnar hans Lévi. Hann var níræður og átti ólifuð tíu. En ég gríp til Gúggla sem færir mér umsvifalaust tölur dagsins.
Current World Population
7,658,641,810
Population Growth today
110,834
Árið 1955, segir sama heimild, vorum við jarðarbúar 2,772,242,535-, og þá var ég níu ára nú að verða sjötíu og tveggja.
Kafli 8 af 8 - Viðbætur og athugasemdir
Hér hefur þú pláss fyrir viðbætur eða athugasemdir við spurningaskrána.
Það var nú gott.
Brasílíumenn kusu sér lýðskrumara fyrir forseta sem ætlar sko ekki að láta sitt fólk líða fyrir þetta „loftslagsbull“. Því er haldið fram að það sem gerir að fólk kaus Jair Bolsonaro sé klúður vinstraliðsins. Nú ætla ég ekkert að skipta mér af málum Suður-Ameríku eða reyna að draga þau inn í þetta nema að því marki sem það er augljóst að ef stór hluti ríkja þar og einhver fylkja Bandaríkjanna ganga sem sagt er úr skaptinu er búið að sparka stórum hluta mannkyns fram af brúninni í loftslagslegu tilliti.
Nei, ég er ekki á leiðinni að setja hér: „þá skiptir nú litlu hvað við gerum“. Nei, ég ætla að fjalla hér um lítið bréf sem ég „stal“ í þeim tilgangi að reyna að vekja athygli á innihaldi þess og afleiðingum með kannski örlítilli von um að einhversstaðar gæti einhver kippt í spotta að fólk sæi sóma sinn í að biðjast afsökunar. Nokkuð sem auðvitað tókst ekki. Þar sem mér tekst ekki að flytja úr Adobe í Word hengi ég skjalið við. En fréttir af listsköpun í sjónvarpinu urðu að bréfinu frá Umhverfisstofnun dagsettu 5. september 2018 þar sem verið er að benda Kevin Sudeith á að hann hafi framið lögbrot og það varði sektum.
71. gr. náttúruverndarlaga.
„Áletranir á náttúrumyndanir.
Hvers konar áletranir á náttúrumyndanir eru óheimilar og varða refsingu skv. 90. gr.“
Og er snúið svona á ensku: „any marking whatsoever of natural phenomena is prohibited and shall be liable to penalty as provided for in Article 90.“
Sem heimilar 350 þúsund króna sekt sem auðvitað er langt yfir því sem fátækur listamaður hefur trúlega ráð á eftir að hafa verið vikum saman úti á Íslandi og austur á Stöðvarfirði.
Nú er nokkuð ljóst að ef það hefði þótt nauðsynlegt að taka þarna klettana og setja þá í höfnina þá hefðu þeir farið þangað án verulegs ágreinings. Það hafa klettar kringum Stöðvarfjörð iðulega gert. Lögin skilgreina ekki hvað sé áletrun en skilgreina náttúrumyndanir í 5. grein.
„Náttúrumyndun: Einstakt fyrirbrigði í náttúrunni sem að jafnaði sker sig úr umhverfinu, t.d. foss, eldstöð, hellir, drangur, einstakt tré eða gamall skógarlundur.“
Og 3. gr. hljóðar.
„Verndarmarkmið fyrir jarðminjar, vatnasvæði, landslag og víðerni.
Til að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni landsins og fjölbreytni landslags skal stefnt að því:
að varðveita skipulega heildarmynd af jarðfræðilegum ferlum og fyrirbærum sem gefa samfellt yfirlit um jarðsögu landsins, að vernda jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu, að vernda vatnsfarvegi, fossa og stöðuvötn svo sem kostur er, að varðveita landslag sem er sérstætt eða fágætt eða sérlega verðmætt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis, að standa vörð um óbyggð víðerni landsins.“
Svo eru til önnur lög.
„I. kafli. Almenn ákvæði um sveitarfélög.
1. gr. Sjálfstjórn sveitarfélaga.
Landið skiptist í sveitarfélög sem sjálf ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð.“
Og frétt í Fréttablaðinu.
„Skamma Fjarðabyggð fyrir steinristur á Stöðvarfirði.
Fimmtudagur 4. október 2018
Fjarðabyggð fór út fyrir valdmörk sín þegar listamaðurinn Kevin Sudeith fékk leyfi til að gera listaverk í kletta á Stöðvarfirði.
Þegar Sudeith óskaði eftir leyfinu benti umhverfisstjóri sveitarfélagsins á að fyrir því þyrfti framkvæmdaleyfi sem meðal annars væri háð samþykki Umhverfisstofnunar (UST). Við meðferð málsins kvað skipulagsstjóri Fjarðabyggðar hins vegar upp úr með að ekkert slíkt leyfi þyrfti. Umhverfisnefndin gerði enga athugasemd við erindið í apríl og fékk Sudeith grænt ljós á listgjörninginn.
Eftir bréfaskipti UST og Fjarðabyggðar um málið hefur stofnunin nú undirstrikað í nýju bréfi að sveitarfélagið hafi farið út fyrir valdmörk sín og veitt leyfi sem ekki sé unnt að veita samkvæmt lögum. Sveitarfélagið er sagt hafa brugðist leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart Kevin Sudeith sem framið hafi refsiverð brot á náttúruverndarlögum með „áletrunum í náttúrumyndanir“. Algerlega er hafnað þeim rökum Fjarðabyggðar að umræddir klettar séu ekki náttúrumyndanir.
„[UST] lítur svo á að skortur á vönduðum stjórnsýsluháttum sveitarfélagsins hafi stuðlað að því að umræddur listamaður skrapaði í og málaði á umræddar náttúrumyndanir.“
Þá vill UST að vafaatriði verði framvegis borin undir stofnunina. „Um nauðsyn þess stendur nú varanlegur minnisvarði í klettunum í landi Landa í Stöðvarfirði.“
Ekki náðist í Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóra Fjarðabyggðar.“
---.
Nú veit ég ekki betur en að málinu sé að mestu eytt, að Karl Óttar hafi auk lagarakanna degið Þorleif Einarsson upp á dekk sem jarðfræðing. Hér, í þessu samhengi, skiptir það heldur ekki máli heldur hitt að við, Stöðfirðingar, hefðum umsvifalaust gert eins og Brasilíumenn, kosið Bolsonaro.
Nei, ég er ekki sjóð illur en væri það ef Kevin væri ekki hvítur karl. Og ég ætla rétt að vona að hefði þetta verið svört kona hefðu konurnar sem skrifuðu undir bréfið kannað málið betur. Þannig er líka í pottinn búið að það voru tvær konur, Rósa Valtingojer og Una Sigurðardóttir í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði sem báru ábyrgð á veru Kevins á svæðinu og þeirra vegna er þetta líka miður.
Auður Ava Ólafsdóttir hlaut bókmenntaverðlaun fyrir bókina Ör og Benedikt Erlingsson var verðlaunaður fyrir kvikmynd sína Kona fer í stríð, í Osló á dögunum og ég leyfi mér að vona að hróður þeirra berist víðar og betur en fréttirnar af „árás“ Umhverfisstofnunar en hún berst og við Stöðfirðingar kjósum ígildi Trumps þegar og þar sem bíðst.
Örveröld okkar speglar nefnilega heiminn og Beatrice Magalotti, Visual Artist frá Ástralíu fékk lánaðann penna hjá Kevin, á Stöðvarfirði.
Við sjáum á eigin orkunotkun að það er að hlýna; og á öllu því rusli sem tæplega 200 manna samfélag, ekki svo velstæðra, hendir vikulega og á ári; já, og ár eftir ár, sést hvert stefnir. Og þetta er samfélag aldraðra þar sem hart nær helmingur fer árlega utan.
Upp á pallinn við útidyrnar hjá mér kemur sjö ára drengur krímugur í framan. Hann er hálfur Tékki og einn fjórði Austurríkismaður og sá fjórðungur sem rekur sig til Íslendinga er í fimmta lið frá Grönvold sem ég man ekki, og nenni ekki að kanna hvaðan kom. Hann segir flaumósa „grikk eða gott“ og það er ekki fyrr en ég er búinn að hrista hausinn og loka hurðinni að ég tengi þetta við amerískan innflutning á evrópskum heiðindómi sem verið er að kalla hrekkjavöku. Hér er ég líka að hugsa um að setja í þeim anda að ég voni að Dorrit fari ekki að láta klóna annað en seppa og að bætt verði í fóstureyðingarfrumvarpið tilmælum um að konur láti…, já, hér virðist eina raunverulega von mankynsins, eyða hvítum karlkyns fóstrum.