Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLoftslagsbreytingar
Ártal2018
Spurningaskrá125 Loftslagsbreytingar og framtíðin

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavíkurborg
SýslaGullbringusýsla (2500) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1952

Nánari upplýsingar

Númer2018-1-115
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.10.2018/25.10.2018
TækniTölvuskrift

(...)

Upplýsingar og áróður eru mjög víða, í útvarpi (rás 1), sjónvarpi, blöðum, á netinu.  Mér dettur fyrst í hug að það muni hækka í sjónum. Vísindamenn hafa vitað það lengi. Árið 1994/5 fór ég í hópferð á Suðurnes með jarðfræðingi. Keyrt var um miðbæ Hafnarfjarðar. Hann benti á verslunarmiðstöðina Fjörð og önnur nýleg hús þar, og sagði að eftir um 100 ár (man ekki alveg töluna), myndu öldurnar vera farnar að sleikja neðstu hæðina. 

 

Ég flokka plast og pappír í græna og bláa tunnu, eins og nágrannarnir. Það er til mikilla bóta að geta gert þetta án þess að þurfa sjálf að útvega farartæki undir þetta. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til að hætta með plastpoka undir rusl, enda nota allir nágrannarnir þá. Þeir sem ég kaupi eru EKKI einnota, heldur geymdir og endurnýttir. Þeir fjúka ekki út í náttúruna.

 

Sífellt er prédikað um að  “við þurfum öll að leggja okkur fram” - talað eins og við séu öll samsek um að menga, hvort sem fólk á stóran bensínhák, sparneytinn bíl - eða alls engan bíl. Svona var líka talað eftir hrun, að “við værum öll samsek”, jafnvel fólk sem hafði bara keypt sér flatskjá eða annan dýran hlut, þótt það ætti fyrir honum, reyndar voru tölvur aldrei nefndar. 

 

Kolefnisjafna, já. Hvernig á maður að kolefnisjafna strætóferðir? - Allir geta plokkað, var sagt á rás 1 um daginn. Segjum svo að ég fari út að plokka. Þegar ég væri komin með fullan poka, hvað ætti ég þá að gera? Taka upp símann og panta lítinn sendibíl með þetta í Sorpu? Það yrði nú dýrt sport ef ég gerði slíkt oft.

 

Framleiðsla battería í rafbíla er alls ekki umhverfisvæn, og námugröfturinn er framkvæmdur með illri meðferð á fólki. Málmurinn er takmörkuð auðlind, þetta getur ekki verið allsherjarlausn til framtíðar. - Og svo er það úrgangurinn. Hægt er að endurnýta gömul húsgögn, föt/textíl og bækur, en enginn vill nota gömul raftæki, jafnvel þótt þau séu ekki ónýt. Þetta vandamál á bara eftir að versna og það mikið.

 

Ég óttast að þær ráðstafanir sem gerðar verða muni bitna harðast á þeim tekjulægri, það er eins og slíkt sé óumbreytanlegt lögmál, hverjir sem sitja í ríkisstjórnum. Þegar gerð var alþjóðleg samþykkt gegn loftmengun, bitnaði það harðast á þróunarlöndum, því þau voru styst komin í iðnvæðingunni.

 

Aðrar ógnir? Já, vissulega fólksfjölgun, en hún á sér ekki stað hér eða í Evrópu. Er það ósanngjarnt að segja að þær þjóðir sem fjölga sér mest, ættu að taka ábyrgð á því og reyna að stöðva hana? - í stað þess að heimta af okkur hinum að breyta mataræðinu og fara jafnvel að leggja okkur skordýr til munns. Verður ekki næst stungið upp á rottum eða smáfuglum?  Nei takk, fyrr skal ég dauð liggja, og ef einhver segir að maður verði að sætta sig við svona, þá segi ég nei, maður verður ekki að sætta sig við hvað sem er. Ef þau lífsskilyrði sem fólki bjóðast eru óásættanleg, hefur það alltaf svindiltromp upp í erminni, það getur valið að deyja. En það er náttúrulega auðvelt fyrir manneskju á sjötugsaldri að tala svona.

 

Ég skil ekki að sauðféð okkar á hálendinu sé mikið að stuðla að umhverfisvá. Ég borða lambakjöt og mér finnst líka æskilegt að slíkur búskapur sé hér áfram. Það er ekki eins og hægt sé að nota þetta svæði til að rækta annan mat.  Sjálfsagt væri hægt að græða það meira upp, en ekki eru allir sammála um að það sé æskilegt. Á Suðurlandi er nóg pláss fyrir gróðurhús og grænmetisrækt. 

 

Ég veit vel að nautgriparækt er ekki mjög umhverfisvæn, og ég get vel verið án nautakjöts. En ég borða smjör, ost og mjólkurís og þá væri hræsni að vilja ekki kjötið af gripunum. Vegan-útgáfur af þessu get ég ekki borðað, mér verður mjög illt af slíku.

 

Aftur á móti er ég sammála grænkerunum um kjúklinga- og svínarækt, slíkt er ekki landbúnaður heldur verksmiðjuframleiðsla við ömurlegan aðbúnað dýranna. Sjálfsagt mætti bæta hann, en þá yrði kjötið auðvitað dýrara, og alltaf er heimtað að maturinn sé sem allra ódýrastur. Það er reyndar fiskurinn sem hefur hækkað mest í verði undanfarna áratugi, hann var áður fátækramatur.

 

Oft er verið að segja að ástandið í heiminum hafi batnað, sár fátækt minnkað og millistéttarfólki fjölgað. En það hefur ekki gerst hér eða í Evrópu, ekki heldur í Ameríku. Á ég að vera hress með að eitthvert fólk hafi það betra meðan Evrópu hnignar?  Nei, ef ég segði það, væri ég argasti hræsnari. Fleiri hlutar heimsins verða óbyggilegir á næstunni vegna hita og þurrka, og fólkið mun flýja til Evrópu. 

 

Ég óttast um framtíð Íslands og Evrópu, að "hjarðir barbaranna" muni leggja okkur undir sig. Umrótið þegar Germanir steyptu Rómaveldi myndi þá sýnast smáræði í samanburðinum, enda höfðu Germanirnir gömlu þann kost að trúa ekki á einn sannan Guð. Þeir aðlöguðu sig fljótt, lærðu að lesa og skrifa latínu og skriftarkunnáttan var svo notuð til að rita á móðurmálinu.

 

Kvk, f. 1952, Höfuðborgarsvæði. Eins gott að þetta sé nafnlaust.

(...)

 

 

 

 

 


Kafli 1 af 8 - Almennt

Hvað tengir þú helst við loftslagsbreytingar af mannavöldum? Hér getur þú látið hugann reika.

Kafli 2 af 8 - Eigin upplifun

Loftslagsbreytingar eru hnattrænar en hækkað hitastig á jörðinni getur einnig haft miklar staðbundnar afleiðingar. Hefur þú upplifað einhverjar afleiðingar af loftslagsbreytingunum? Hvaða afleiðingar, hvar og hvernig? Hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á líf þitt? Á hvaða hátt?

Kafli 3 af 8 - Hvað get ég gert?

Hefur þú gert eitthvað sjálf(ur) til að draga úr loftslagsbreytingum? Hvaða máli telur þú að daglegt líf þitt eða lífstíll skipti fyrir loftslagsbreytingar?

Kafli 4 af 8 - Upplýsingagjöf

Hvar hefur þú helst fengið upplýsingar um loftslagsbreytingar (sjónvarp, netmiðlar t.d.)?

Kafli 5 af 8 - Úrræði

Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Hvernig? Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni?

Kafli 6 af 8 - Aðrar ógnir

Eru einhverjar aðrar samfélagslegar ógnir að þínu mati sem eru uggvænlegri en loftslagsbreytingar? Ef svo er, hvaða?

Kafli 7 af 8 - Framtíðin

Flestir eða allir reyna að gera sér einhverja grein fyrir hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Við viljum gjarnan að þú segir frá hugmyndum þínum um framtíðina, væntingum, óskum eða áhyggjum. Frásögnin má bæði vera um nærumhverfi þitt og framtíð jarðarinnar, eða annað hvort, og hún þarf ekki endilega að vera um loftslagsbreytingar. Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér?

Kafli 8 af 8 - Viðbætur og athugasemdir

Hér hefur þú pláss fyrir viðbætur eða athugasemdir við spurningaskrána.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana