LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLoftslagsbreytingar
Ártal2018
Spurningaskrá125 Loftslagsbreytingar og framtíðin

Núv. sveitarfélagSeyðisfjarðarkaupstaður
SýslaN-Múlasýsla (7500) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1954

Nánari upplýsingar

Númer2018-1-119
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.10.2018/20.10.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Almennt

Hvað tengir þú helst við loftslagsbreytingar af mannavöldum? Hér getur þú látið hugann reika.

Það er ansi margt sem kemur í hugann, m.a. allur útblástur frá farartækjum, sérstaklega flugvélum/þotum og svo brennsla skóga. En kannski ekki síður öll sú brennsla kola og annarra efna sem fer fram í orkuverum víða um heim.Kafli 2 af 8 - Eigin upplifun

Loftslagsbreytingar eru hnattrænar en hækkað hitastig á jörðinni getur einnig haft miklar staðbundnar afleiðingar. Hefur þú upplifað einhverjar afleiðingar af loftslagsbreytingunum? Hvaða afleiðingar, hvar og hvernig? Hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á líf þitt? Á hvaða hátt?

Það sem ég upplifi helst í mínu umhverfi er óstöðug veðrátta, þ.e. meiri sveiflur og öflugri veður eins og hvassviðri. En á heimsmælikvarða er augljóst að þessar sveiflur eru miklu öfgafyllri, eins og sjá má alltof oft í fréttum nú til dags, t.d. þessir fellibyljir sem hafa verið að rústa heilu svæðunum, sífellt oftar, að því er virðist...?  Kafli 3 af 8 - Hvað get ég gert?

Hefur þú gert eitthvað sjálf(ur) til að draga úr loftslagsbreytingum? Hvaða máli telur þú að daglegt líf þitt eða lífstíll skipti fyrir loftslagsbreytingar?

Það litla sem ég tel mig geta gert er að nota sem minnst bíla og flugvélar. Þar sem ég bý í litlum bæ og stutt að fara, þá hef ég mikið notað hjól til að fara um bæinn, til og frá vinnu, í búðir o.s.frv. alltaf þegar veður og færð leyfir. Ég hef líka lítið þurft að nota flugferðir. Ég hef líka reynt að menga sem minnst í daglegu lífi, nota t.d. ekki uppþvottavél og sápur eru ekki meira notaðar en nauðsyn krefur. Ég hendi aldrei mat, því fuglar fá alla fitu og afganga sem til falla. Ég hef líka notað taupoka til innkaupa í áratugi og hef líka verið með moltugerð m.a. úr grænmetis og ávaxtaflusi, sem er nokkuð mikið um á mínu heimili. Við leitumst líka við að kaupa kjöt beint frá bónda og nærumst á lífrænum mat og sem minnstu af unnum vörum, ekki síst af heilsufarsástæðum, þ.e. sem forvörn. Kafli 4 af 8 - Upplýsingagjöf

Hvar hefur þú helst fengið upplýsingar um loftslagsbreytingar (sjónvarp, netmiðlar t.d.)?

Já, fréttir í hinum ýmsu miðlum eru aðal uppspretta upplýsinga og ekki ástæða til að rengja þær, þó svo að við vitum að náttúran er óútreiknanleg og hefur sannarlega breytt um svip á báða bóga í gegnum árþúsundin hér á jörðu, sbr. ísaldir sem hafa komið og farið án hjálpar mannkynsins og einnig loftsteinar sem hafa lent á jörð okkar með miklum afleiðingum... o.s.frv.... en auðvitað ráðum við engu um slíka hluti !  Kafli 5 af 8 - Úrræði

Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Hvernig? Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni?

Hrein og vistvæn orka er það eina sem ég tel að geti bjargað okkur og hún er allt í kringum okkur um alla jörðina, þ.e. sólarorka, vindorka og vatnsorka og bætt þróun á þessum þáttum er bráðnauðsynleg sem fyrst. Það er raunar merkilegt að ekki skuli vera meira nýtt vatnsorka í sjó, eins og sjávarfallaorka sem nóg er af um alla jörðina. Þó við Íslendingar höfum litla sólarorku, þá höfum við nóg af vindorku sem við ættum að nýta okkur og vatnsorkuna líka og þurfum hreint ekki að skemma landið okkar þó við gerum það. Það hlýtur að vera hægt að finna leiðir til að nýta alla þessa orku á einfaldari og betri hátt á bíla, skip og flugvélar og sömuleiðis vistvænni leiðir til að geyma orkuna, því enn sem komið er vantar mikið uppá að eyðing á rafgeymum sé viðunandi og þann vanda þarf að leysa. (Skv. þeim upplýsingum sem ég hef að svo stöddu)Kafli 6 af 8 - Aðrar ógnir

Eru einhverjar aðrar samfélagslegar ógnir að þínu mati sem eru uggvænlegri en loftslagsbreytingar? Ef svo er, hvaða?

Mér vitanlega eru engar aðrar ógnir verri, þó að mengun á almennu sorpi sé vissulega komin langt út fyrir öll rauð strik og spurning hvort ekki eigi að sekta fólk fyrir að henda umbúðum og rusli á víðavangi og í sjóinn?  Kafli 7 af 8 - Framtíðin

Flestir eða allir reyna að gera sér einhverja grein fyrir hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Við viljum gjarnan að þú segir frá hugmyndum þínum um framtíðina, væntingum, óskum eða áhyggjum. Frásögnin má bæði vera um nærumhverfi þitt og framtíð jarðarinnar, eða annað hvort, og hún þarf ekki endilega að vera um loftslagsbreytingar. Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér?

Við hjónin höfum árum saman farið með ruslapoka og tínt upp rusl (oftast á vorin) og það kemur sífellt á óvart hve mikið rusl maður finnur á víðavangi og hve oft við sjáum rusl þar sem það ætti ALLS EKKI að sjást á fáförnum stöðum. Senda þyrfti stór skip með loðnunætur eða önnur álíka „veiðarfæri“ til að draga saman plastruslið í höfunum og koma því í land til förgunar. Spurning hvort að ekki ætti að greiða smá skilagjald til báta/skipa sem skila inn umbúðum, ónýtum veiðarfærum og öðru sorpi til að reyna að fá fólk almennt til að bregðast við, því græðgin í heiminum er jú flestu öðru almennari, því miður, en skilagjöld gætu hugsanlega virkað, hver veit? Svo þarf að hætta að nota plastumbúðir utan um allar vörur sem þurfa þess ekki, því stór hluti af vörum gæti hæglega verið í bréf/pappírs eða glerumbúðum í staðinn fyrir plast. Við þurfum líka að gera miklu meira að því að kynna vistvænt líferni og kenna unga fólkinu betri siði, því þau læra það sem fyrir þeim er haft. Góðar fyrirmyndir eru því nauðsynlegar allsstaðar !  Kafli 8 af 8 - Viðbætur og athugasemdir

Hér hefur þú pláss fyrir viðbætur eða athugasemdir við spurningaskrána.

Það er auðvitað hægt að rausa endalaust um þessi mál og reyna að finna leiðir sem virka til að laga ástandið. En ég held að flestir viti (eða ættu að vita) hvernig þessi mál eru, þó alltof margir láti eins og þeim komi það ekki við og hlusta ekki á aðra. Ég er hrædd um að það verði seint sem hver og einn sýni heilbrigða skynsemi og gangi ALLTAF vel um nærumhverfi sitt og því mun trúlega ganga hægt að snúa þessari óheillavænlegu þróun við, því miður !  


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana