Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLoftslagsbreytingar
Ártal2018
Spurningaskrá125 Loftslagsbreytingar og framtíðin

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavíkurborg
SýslaGullbringusýsla (2500) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1948

Nánari upplýsingar

Númer2018-1-120
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.10.2018/18.12.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Almennt

Hvað tengir þú helst við loftslagsbreytingar af mannavöldum? Hér getur þú látið hugann reika.

Svar:      Hækkun hitastigs á jörðinni og súrnun sjávar, hvorttveggja staðfest með samanburði við fyrri tímabil sem mælingar og aðrar góðar heimildir eru til um. Upplýsingar um að þessu valdi vaxandi  kolefnismettun í lofthjúpi jarðar, ferli sem hófst með iðnvæðingunni á 18. öld og stórfelldum bruna kola til orkuframleiðslu, síðan bættist olían við á 20. öld og annað svokallað jarðefnaeldsneyti .  Aukinn ofsi í veðurfari verður okkur sem hér búum ljós af fréttum af sífellt hættulegri hvirfilbyljum, stórflóðum og hrikalegum skógareldum víða um heim. Skógareldarnir sem brunnu vikum og mánuðum saman í Svíþjóð í sumar ollu mér persónulega áhyggjum, þar sem ég á marga vini í Svíþjóð og hitabylgjan á Norðurlöndum var sú mesta sem þar hefur orðið frá því mælingar hófust. Framan af voru margir kátir yfir góða veðrinu, en þegar skógareldarnir urðu stjórnlausir þótti ýmsum gamanið kárna. Fyrri hluti svarsins er með öðrum orðum: Dramatískar breytingar á veðurfari, hækkandi hitastig, stormar, flóð og gróðureldar. Ef ég læt hugann reika getur það reik orðið endalaust. En í stuttu máli: Iðnbyltingin hefur orðið til þess að bæta lífskjör manna um víða veröld, mest á þeim svæðum jarðarinnar þar sem hún fór fyrst af stað, í Evrópu og síðan Norður-Ameríku og Ástralíu, þá í Austur-Asíu. En iðnbyltingin hefur reynst mjög frek á ýmis hráefni sem finnast í og á jörðu en eru þó takmörkuð gæði og munu fyrirsjáanlega ganga til þurrðar. Þeim gæðum sem af iðnbyltingunni hlutust hefur frá upphafi verið misskipt milli jarðarbarna. Kapítalisminn, sem knýr þróunina áfram gegnum samkeppni um sífellt fjölbreyttari vörur, byggir að hluta á því að þær endist sífellt skemur svo aðrar nýjar séu keyptar og þeim eldri hent og þannig fyllist jörðin hægt og bítandi af drasli. Batnandi lífskjör fjöldans leiða af sér útbreiddari neyslu sem oft endar í fullkominni ofneyslu. Jörðin er að verða einn allsherjar ruslahaugur. Í alla þessa framleiðslu á nytjahlutum jafnt og drasli þarf óhemjumikla orku. Og nú höfum við komist að því að það þarf álíka mikla orku til þess að eyða öllu draslinu og fór í að framleiða það.



Kafli 2 af 8 - Eigin upplifun

Loftslagsbreytingar eru hnattrænar en hækkað hitastig á jörðinni getur einnig haft miklar staðbundnar afleiðingar. Hefur þú upplifað einhverjar afleiðingar af loftslagsbreytingunum? Hvaða afleiðingar, hvar og hvernig? Hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á líf þitt? Á hvaða hátt?

Svar:      Skógareldarnir í Svíþjóð ollu mér persónulegum áhyggjum eins og ég hef þegar nefnt, þótt enginn vina minna hafi orðið fyrir beinu efnahagslegu tjóni vegna þeirra. Hér á Íslandi eru uppi kenningar um það að bráðnun jökla geti haft þau áhrif að þrýstingur minnki á fornum eldstöðvum undir jökli og búast megi við eldgosum þar sem þau hafa ekki orðið um aldir. Nú hafa menn mestar áhyggjur af Öræfajökli. Öll eldgos hafa háska og mikla efnamengun í för með sér. Það er þó erfitt að hugsa sér að eldgos geti nokkru sinni orðið af „manna völdum“, náttúrukraftar jarðarinnar og geimsins eru enn að mestu utan stjórnsviðs okkar mannanna. Kostir hlýnunar hér á Íslandi eru lengri sumur og aukinn þróttur í vexti skóga, en neikvæðu áhrifin eru þau að jökullinn minn, jökull bernskunnar, Snæfellsjökull er ekki svipur hjá sjón, á nokkrum áratugum fylgist maður með Snæfellsjökli bráðna og kannski hverfa. Það er að gerast beint fyrir framan augun á manni. Hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á líf þitt? Á hvaða hátt? Svar:      Lengri sumur á Íslandi hafa glatt mig. Vorið byrjar fyrr, síðsumarið teygist lengra fram á haustið. Sólarleysið og rigningartíðin í ár varð þó til þess að ber náðu ekki að þroskast á stórum hlutum landsins, því komst ég ekki til berja, sem ég hef mikið yndi af. Kirsuberjatréð í garðinum mínum, sem fyrstu árin stóð í blóma fram yfir afmælið mitt 24. maí, hefur undanfarin ár farið sífellt fyrr af stað. Það hefur blómgast meir og meir en blómin á því hafa síðustu ár að mestu verið fallin fyrir afmælið mitt. Tréð var stórkostlegt í apríl. Ég varð sjötug 24. maí og daginn sem ég hélt upp á afmælið mitt með fjölskyldugöngu um uppvaxtarslóðir mínar á Akranesi, tveim dögum eftir sjálfan afmælisdaginn, féll hundrað ára úrkomumet á Íslandi. Ég man eftir mörgum rigningarsumrum, en sú tilfinning mín að aldrei hefði rignt önnur eins ósköp í maí og einmitt í ár, reyndist rétt samkvæmt mælingum.



Kafli 3 af 8 - Hvað get ég gert?

Hefur þú gert eitthvað sjálf(ur) til að draga úr loftslagsbreytingum? Hvaða máli telur þú að daglegt líf þitt eða lífstíll skipti fyrir loftslagsbreytingar?

Hefur þú gert eitthvað sjálf(ur) til að draga úr loftslagsbreytingum? Svar:      Ég var alin upp við sparsemi og nýtni, einkum framan af ævi minni. Foreldrar mínir þurftu að hafa mikið fyrir lífinu eins og velflestir af þeirra kynslóð. Faðir minn var fæddur 1917, móðir mín 1924. Við erum þrjú systkinin og liðum aldrei skort. En mamma saumaði á okkur fötin og venti því sem var orðið slitið á réttunni, saumaði upp úr gömlu. Mestur hluti matarins var unninn á heimilinu, nánast ekkert keypt tilbúið. Ég hef aldrei sankað að mér miklu dóti, nema bókum, sem nú eru orðnar til vandræða. Ég hef nýtt flest húsgögn þar til þau hafa orðið úr sér gengin, ég á mjög erfitt með að fleygja því sem er nýtilegt, það gildir jafnt um fatnað og annað sem tilheyrir heimilishaldi. Ég er nýtnilöggan á heimilinu. Dætur okkar hjóna, þrjár, eru á vissan hátt undir áhrifum af þessu í sínu heimilishaldi, þó haldnar meiri fatadellu en ég hef nokkru sinni verið. Ein þeirra kaupir þó stundum notuð föt í Rauða-kross-búðum eða gegnum netið. Sjálf fer ég með notaðan fatnað í söfnunargáma Rauða krossins, ekki með allt of góðri samvisku þó, ef mér finnst þau of slitin. Við hjónin búum í hjarta Reykjavíkur og höfum aldrei átt meira en einn bíl, á stundum engan, m.a. þau ár sem við bjuggum í Svíþjóð, þar sem almenningssamgöngur í Stokkhólmi voru og eru til fyrirmyndar. Við göngum mikið um hverfið og notum bílinn ekki nema erindin liggi utan þess. Áður var mikið um skutl með dæturnar, nú tökum við stundum þátt í að skutla barnabörnum. Við ferðumst engin ósköp innan lands, förum þó á hverju ári norður til Akureyrar þar sem maðurinn minn fæddist og ólst upp. Við eigum lítinn hlut í húsi á Hjalteyri, sem við gistum í einu sinni til tvisvar á ári, en engan einkasumarbústað. Við fórum ekkert til útlanda fyrstu árin eftir Hrun, en undanfarin tvö ár hafa ferðirnar orðið þrjár hvort ár. Þegar við keyptum nýjan bíl fyrir tveim árum hugleiddum við að kaupa rafmagnsbíl, en þar sem við eigum hvorki bílskúr né höfum aðgang að einkastæði reyndist hvergi aðstaða til þess að hlaða rafgeymi í bíl. Ég hef einnig frétt að bæði framleiðsla og förgun rafgeyma sé mjög mengandi og lykilefni fengin með rányrkju og hálfgerðu þrælahaldi í Afríku! Þannig að ég set enn sem komið er spurningamerki við rafbílinn. Ég hef lengi verið desperat yfir öllum þeim ósköpum af umbúðum utan um daglegan neysluvarning, einkum matvæli, sem erfitt er að komast hjá að kaupa í venjulegu heimilishaldi. Þetta hefur aukist stöðugt öll mín fullorðinsár og virðist eini þáttur ofneyslusamfélagsins, fyrir utan bílismann, sem einhver vilji hefur skapast til þess að taka á af hálfu stjórnvalda. Ég hef því tekið tímabundna trú á endurvinnslu hvers konar og nú fer mikill tími hjá mér í hverri viku í að sortera umbúðir og koma þeim í tilheyrandi söfnunargáma. Ég er búin að skila áldósum, gler- og plastflöskum í Endurvinnslu Sorpu frá því það fyrirtæki var stofnað. Nýlega fóru þeir líka að taka við rafhlöðum og kertavaxi. Blaðatunnan kom við heimilið fljótlega eftir að kostur varð á henni. Þangað ber ég öll dagblöðin og auglýsingapóstinn sem látlaust dettur inn um blaðalúgu heimilisins og pappahluta allra umbúðanna, mjólkurfernur og aðrar drykkjafernur, pakka utan af hafrakoddum og cheriosi, ég skil með ánægju að pappírinn frá plastinu sem geymir Smjörvann osfrv. osfrv. Ég varð mjög fegin þegar loks varð unnt að skila glerkrukkum sem geyma alls kyns niðursuðuvarning eins og sultur, rauðrófur, síld osfrv. osfrv. Ég fer með lokin í járnaruslgáma í Sorpu og álbikara utan af sprittkertum. Ég þvæ óhreinindi af því plasti sem ég fer með í plastgáminn og hugsa í leiðinni: hvað gerir fólk sem býr við vatnsskort? Getur það pælt í því að skila plastinu hreinu í ruslagámana?   Hvaða máli telur þú að daglegt líf þitt eða lífstíll skipti fyrir loftslagsbreytingar? Svar:      Sorglega litlu.  Það sem ég geri er aðeins dropi í hafið. Auk þess hafa einstaklingarnir litla yfirsýn eða stjórn á því hvað verður um allt sem við skilum, hvað af því fer raunverulega í endurvinnslu, að miklu leyti erlendis. Fyrir stuttu komu fréttir um að Kínverjar væru hættir að taka við öllu þessu plasti sem frá okkur Vesturlandabúum kemur! Ég hef líka séð fréttir um að á endanum sé sorteraða sorpið okkar bara urðað! En minnug þess sem haft var eftir Lúther í tengslum við 500 ára afmæli Siðaskiptanna 2017: „Þótt ég vissi að heimurinn ætti að farast á morgun myndi ég planta eplatré í garðinum mínum í dag.“  Þannig reyni ég að hugsa og missa ekki móðinn frammi fyrir þeim hrikalega vanda sem neysluæði vaxandi hluta jarðarbúa er að valda og blasa mun við komandi kynslóðum að leysa eða farast með ella. En ef mér tekst að draga úr neyslu minni og fjölskyldu minnar og geri það sem ein af fjöldanum, sem hefur sams konar áhyggjur og vill leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir hnattrænar hörmungar eða heimsendi af manna völdum, já, þá vil ég leggja mitt litla lóð á þær vogaskálar. Til þess dugar ekki að treysta á endurvinnslu sem hið eina hjálpræði, endurvinnsla útheimtir mikla orku, heldur erum við tilneydd að bakka, við sem neytum mest. Kannski þurfum við ekki að fara lengra aftur en til lífsskilyrða pabba og mömmu. En ef allir jarðarbúar ættu að búa við sama standard og lífsstíl og við Íslendingar um þessar mundir þá þyrftum við fjölmargar Jarðir, segja þeir sem kunna að reikna. Margar Jarðir standa hins vegar ekki til boða. Jörðin okkar er takmörkuð auðlind. Lofthjúpur hennar og vatn er undirstaða lífs okkar á henni og ef það fer allt úr skorðum, getur mannkynið orðið sú dýrategund sem næst deyr út. Svo gæti líka komið loftsteinn og valdið snöggum og algjörlega ófyrirsjáanlegum afleiðingum.   



Kafli 4 af 8 - Upplýsingagjöf

Hvar hefur þú helst fengið upplýsingar um loftslagsbreytingar (sjónvarp, netmiðlar t.d.)?

Svar:      Ég hlusta mikið á Ríkisútvarpið, Rás 1. Stefán Gíslason líffræðingur er einn þeirra sem þar tala og ég tek mark á. Árni Finnsson annar. Ég var ung móðir og námsmaður í Svíþjóð, þegar ég varð fyrst meðvituð um mengunarvandann sem draslframleiðslan leiðir af sér. Börn í Svíþjóð og foreldrar þeirra fengu m.a fræðslu um ástandið í gegnum Villa, Valla og Viktor, róttækt barnaleikhús, sem kenndi kapítalismanum um ástandið. Mörgum árum síðar bjó ég aftur í Svíþjóð í úthverfi Stokkhólms þar sem ég kynntist í fyrsta skipti fólki sem mátti tala um sem mengunarflóttamenn. Þeir komu frá ríkjum kommúnismans í Austur-Evrópu, sem þá voru á fallanda fæti.  Dagens nyheter fór í mikla úttekt á stöðu mengunarmála í suðurhlutum Póllands í nánd við borgina Katowitze, þar sem ástandið var svo skelfilegt að börn voru farin að fæðast veik og vansköpuð og allur gróður í nágrenni borgarinnar meira og minna að deyja. Í höfuðborginni Warsjá fóru menn út í hvítum skyrtum að morgni en komu heim í gráum af loftmengun. Börn máttu ekki fara út fyrir hússins dyr. Ég held að við lestur þessara greina og kynna af nágrönnum mínum frá slíkum svæðum, hafi ég endanlega orðið afhuga sósíalisma sem samfélagslegri lausn, sem tæki kapítalismanum fram. Kommarnir bjuggu að miklu verri tækni og voru margfallt meiri umhverfissóðar! Það varð mér áfall. Þessi afhjúpun DN átti sér stað tveim-þrem árum eftir kjarnorkuslysið skelfilega í Tjernobil 1986. Áður hafði hrikalegt slys af völdum Union Carbide i Bhopal á Indlandi skekið heiminn. Allt þetta hafði mjög mikil áhrif á mig. EN þessi hrikalegu mengunarslys og vangeta til þess að ráða við iðnaðarúrgang, þar með talinn kjarnorkuúrgang, urðu áður en farið var að tala að ráði um loftslagsbreytingar af völdun mengunar. Ástæðan fyrir því að ég rifja þau upp er að með tímanum skilur maður samhengið þarna á milli. Vitneskjan um háskann af rányrkju hefur sem sagt fylgt mér frá því snemma á áttunda áratug síðustu aldar og skapar grunninn að skilningi mínum á þeirri náttúruvá sem við okkur blasir nú um stundir. Aldalöng ofbeit hefur farið illa með stór svæði á Íslandi og ýtt undir jarðvegseyðingu. Ofveiði og hvarf síldarinnar á Íslandsmiðum og tímabundið hrun fleiri fiskistofna eru kunn íslensk dæmi um of mikla ásókn í gæði jarðarinnar. Í okkar einöngruðu dæmum hefur þó tekist að græða upp hluta landsins og ná betri stjórn á fiskveiðunum, þannig að stofnar hafa rétt úr kútnum. En öllu lífríki hafsins stendur nú ógn af súrnun sjávar og veikingu Golfstraumsins og til að ráða bót á þeim vanda þarf alþjóðasamvinnu, sem er gríðarlega erfitt verkefni, þar sem skammtímahagsmunir ótal ríkja og aðila rekast á. Svarið við því hvaðan ég hafi fengið upplýsingar um loftslagsbreytingar er í strórum dráttum það að ég fylgist vel með umræðunni á hverjum tíma, les blöð, tímarit og bækur, hlusta á útvarp, horfi á sjónvarp, hvar sem ég bý og nú hin síðustu ár bætist einhver fróðleikur við af netinu.  



Kafli 5 af 8 - Úrræði

Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Hvernig? Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni?

Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Svar:      Já, að einhverju leyti. En það verður mjög erfitt af því að svo stór hluti jarðarbúa er orðinn að neyslufíklum. Og eins og Kári Stefánsson og vísindafólk af ýmsu tagi veit og hamrar á um þessar mundir. Fíkn er mjög erfið viðureignar. Fíkn er lífshættulegur sjúkdómur. Mannkyn á valdi neyslufíknar er með öðrum orðum í lífshættu. Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni? Svar:      Ný og betri tækni skiptir einhverju máli, en ekki miklu, því miður. Sagan sýnir að nýrri tækni fylgir ný og aukin neysla. Öll veröld tölvunnar og símanna hefur vissulega leyst eldri tækni af hólmi, en útbreiðslan hefur leytt af sér framleiðslu á svo stórum skala að við blasir yfirgengilegur förgunarvandi.  Tæknin skiptir máli ef hún leiðir til betra skipulags og betri nýtingar á þeim auðlindum sem við höfum úr að spila, endurnýjanlegum auðlindum. Og hún skiptir máli ef hún sættir fólk við að minnka neyslu sína, nota minna, borða minna, drekka minna, ferðast minna. En hún skiptir engu máli ef bílum heldur áfram að fjölga um allan heim í það óendalega, flugvélaumferð eykst stórkostlega þar sem sífellt fleiri vilja fljúga, sífellt oftar og til fjarlægari svæða. Ef skip yrðu á ný knúin með seglum, væri hugsanlega hægt að sjá fyrir sér að þau gætu orðið umhverfisvænni en nú, en það yrði kannski á kostnað stundvísi. Breytt tækni er ekki nóg nema mannkynið breyti lífsháttum sínum og neyslumynstri samtímis.



Kafli 6 af 8 - Aðrar ógnir

Eru einhverjar aðrar samfélagslegar ógnir að þínu mati sem eru uggvænlegri en loftslagsbreytingar? Ef svo er, hvaða?

Svar:      Nei, í raun ekki. En lofslagsbreytingar sem gera stóra hluta Jarðarinnar óbyggilega fólki sem þar hefur búið munu leiða af sér mikla mannflutninga til byggilegri svæða, sem aftur geta leitt til alvarlegra átaka við fólk sem þar býr fyrir.  Ef byggilegir hlutar jarðarinnar dragast verulega saman verður Jörðin kannski á endanum of lítil fyrir mannkyn í stöðugum vexti. Þá munu stríð og plágur fækka fólki á ný.



Kafli 7 af 8 - Framtíðin

Flestir eða allir reyna að gera sér einhverja grein fyrir hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Við viljum gjarnan að þú segir frá hugmyndum þínum um framtíðina, væntingum, óskum eða áhyggjum. Frásögnin má bæði vera um nærumhverfi þitt og framtíð jarðarinnar, eða annað hvort, og hún þarf ekki endilega að vera um loftslagsbreytingar. Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér?

Svar:      Jökull Jakobsson sagði í einu leikrita sinna e-ð á þessa leið: „Maður getur alveg verið hamingjusamur svona prívat, þótt maður þjáist fyrir hönd mannkynsins.“ Jú, víst getur maður verið það og haft húmor fyrir jafnt sjálfum sér og þeim margvíslega tvískinnungi sem oft má sjá í hvers kyns afstöðu manna. Þeir auðkýfingar sem ferðast um heiminn um þessar mundir og tala fjálglega í þágu umhverfisins eru flestir með kolefnisfótspor sem er stærra en heilu þjóðfélagshóparnir. Ég tek mátulega mikið mark á því sem frá þeim kemur persónulega, en aftur á móti má segja að ráðstefnurnar þeirra veki athygli á því vandamáli sem upp er komið vegna þess að of margir lifa eins og þeir eða stefna að því marki. Ég er orðin sjötug eins og þegar er komið fram og ég á ekki von á því að heimurinn farist á meðan ég er á dögum, jafnvel ekki dætur mínar eða barnabörn, nema þá hugsanlega af náttúruhamförum á borð við röð eldgosa eða við árekstur Jarðar við loftstein eða þvíumlíkt. En ef okkur, þessum þrem kynslóðum, minni og næstu tveim, tekst ekki að hægja á þeirri hlýnun í lofthjúp Jarðar sem nú er í gangi, þá kann að vera að afkomendur mínir í þriðja, fjórða eða fimmta lið lendi í meiri vanda en ég get séð fyrir eða hef hugmyndaflug til að ímynda mér. Sjálf lifi ég mjög góðu lífi, meðal annars vegna þeirra margvíslegu þæginda sem ég hef notið og nýt góðs af, þökk sé tækniframförum á ótal sviðum, ég er hamingjukona sem stendur, bæði ég og maðurinn minn erum þokkalega heilsuhraust, dætur okkar þrjár hafa allar notið góðrar menntunar og búa við góð lífskjör, eiga maka, börn og stórfjölskyldur. Ég er ekki sérstaklega frústreruð yfir því að allir draumar mínir hafi ekki ræst, langar ekki til þess að ferðast um allan heiminn, dettur það reyndar ekki í hug með kolefnisfótsporið í huga. Ég er svo heppin að eiga þak yfir höfuðið, vera í góðum tengslum við börn mín og barnabörn, sem ég elska út af lífinu, geta unað mér við bækur, tónlist, leikhús, kvikmyndir og margvíslega fjölmiðlun. Ég vona að ég muni skrimta á eftirlaununum og ekki liggja langa banalegu þegar þar að kemur. Ég er heilluð af landinu mínu, já, ég kalla það ennþá mitt, þótt gestirnir séu orðnir fleiri en við heimamenn, mér finnst Ísland, náttúra þess, hafið umhverfis og himinninn yfir því óendanlega dýrmæt gjöf, sem ég hlaut í arf frá forfeðrum mínum, sem héldu út hér, þegar veðurfar og almenn lífskjör voru svo miklu bágari en nú. Ég ber djúpa virðingu fyrir starfi genginna kynslóða við það að viðhalda og þróa tungu og menningu þeirrar litlu þjóðar sem byggði Ísland og hafa með því lagt fram mjög merkilegan skerf til heimsmenningarinnar. Þrátt fyrir mannfæð og erfið náttúruskilyrði tókst að skrá hér og varðveita heimsbókmenntir á íslenskri tungu. Og kannski er það ástand tungumálsins sem veldur mér mestum áhyggjum og sorg. Ásókn enskunnar, sem fylgir m.a. snjalltækninni og fjöldatúrismanum, sem á örfáum árum er orðinn á kapítalískum stóriðjuskala, virðist vera á góðri leið með að gera út af við íslenska tungu, hugsanlega á fáeinum áratugum. Staða hennar í landinu er að veikjast svo að manneskja á mínum aldri gæti jafnvel orðið vitni að dauðateygjum tungumálsins og yfirvofandi hruni. Þar með glatast hin eðlilegu og lifandi tengsl sem við eigum við meira en 1000 ára sögu þjóðarinnar í gegnum tungumálið. Þjóð, þar sem hver einstaklingur er með nefið ofan í eigin enska síma gæti verið að glata tilfinningunni fyrir því sem fram til okkar daga hefur tengt okkur saman og gert okkur að þjóð. Í mínum huga væri það „ menningarlegur heimsendir“ ef ljóðlína Snorra Hjartarsonar: Land, þjóð og tunga, eining sönn og hrein,“ ætti ekki lengur við. Í mínum huga er þessi háski nær en hrun mannkyns af völdum loftslagsbreytinga.      



Kafli 8 af 8 - Viðbætur og athugasemdir

Hér hefur þú pláss fyrir viðbætur eða athugasemdir við spurningaskrána.

Haustið 2011 dvaldi ég um mánaðartíma í Kaupmannahöfn við rannsóknir. Ég fékk inni í elstu núlifandi kommúnu borgarinnar í Kristjánshöfn, aðeins kippkorn frá sjálfri Kristjaníu. Ég komst inn í kommúnuna fyrir milligöngu sameiginlegrar kunningjakonu minnar og leiðtoga kommúnunnar, sem jafnframt var ein stofnenda hennar í kringum 1970.  Mjög hafði fækkað í kommúnunni í tímans rás og nýlega hafði flutt út karlmaður og þannig hafði losnað pláss. Við vorum ekki nema þrír fullorðnir einstaklingar, leiðtoginn, kona á mínum aldri, ég, og eitthvað yngri karlmaður og sonur hans á unglingsaldri. Móðirin bjó í Kristjaníu. Allir höfðu eigið herbergi en eldhús, snyrting og setustofa voru sameiginleg. Innkaup, matseld og þrif fóru fram eftir föstum reglum. Umhverfisvitund var á háu stigi og mér þótti auðvelt að taka upp venjur sambýlisfólksins. Matarafgangar voru aldrei vafðir í álpappír eða plastfilmu heldur geymdir í plastboxum með loki af ólíkum stærðum. Allt var sorterað sem þurfti að losa sig við. Útvarp var í eldhúsinu en ekkert sjónvarp, blöð voru keypt og fólk var með sína einkasíma. Hvorugt hinna fullorðnu áttu bíl en fóru til vinnu sinnar á hjóli eða í strætó, ég fór fótgangandi um allt. En það sem mér þótti merkilegast var FLUGKVÓTINN sem hinir fullorðnu höfðu skuldbundið sig til þess að fylgja. Það mátti ekki fljúga að óþörfu. Mikil diskussion upphófst um málið þegar karlmaðurinn átti að taka þátt í ráðstefnu í Uppsölum í Svíþjóð. Niðurstaðan varð sú að hann yrði að taka lest þangað því hann hafði farið með kærustunni til Kanaríeyja í eftirjólafrí í byrjun ársins og hafði hug á að endurtaka það eftir hálfanannan mánuð. Hann var búinn með kvótann. Mér eru kynnin af þessu fólki afar eftirminnileg og dýrmæt og sjálfvalinn FLUGKVÓTINN þeirra kemur oft upp í huga minn. Ég tel mig einlægan lýðræðissinna og fylgjanda frelsis einstaklinga til flestra athafna. En ég er sósíaldemókrat að því leytinu að ég vil ekki taumlausan kapítalisma, heldur séu honum settar skorður með lögum og kvótum. Ég er á því að kvótar, einkum tímabundnir kvótar, séu snjalltæki til þess að koma böndum á stjórnleysi í málum sem varða almannaheill. Ég tel að kvótar séu mjög mikilvægir í allri auðlindanýtingu, veiðum jafnt og nytjum á landi og nú síðast lofthjúp Jarðar. Ef svo er komið málum að hann þoli ekki lengur þetta ráp jarðarbúa fram og aftur um plánetuna þá er kannski komið að því að við verðum að setja á okkur ferðakvóta ef við þurfum að notast við farartæki sem knúin eru jarðefnaeldsneyti. 


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana