Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLoftslagsbreytingar
Ártal2018
Spurningaskrá125 Loftslagsbreytingar og framtíðin

Sveitarfélag 1950Selfosshreppur
Núv. sveitarfélagSveitarfélagið Árborg
SýslaÁrnessýsla (8700) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1946

Nánari upplýsingar

Númer2018-1-121
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.10.2018/30.10.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Almennt

Hvað tengir þú helst við loftslagsbreytingar af mannavöldum? Hér getur þú látið hugann reika.

Líklega mun það vera útblástur kolefnis frá þeim vélum sem brenna eldsneyti og einnig sóun alls konar hluta og ofneysla á ýmsum efnum. Skógareldar virðast vera að breiðast mikið út og ég óttast að Íslendingar muni sofna á verðinum hvað varðar t.d. sumarbústaðarbyggðir þar sem gróður er mjög mikill og ekkert gert til þess að hólfa þar af svo erfiðara væri með útbreiðslu elds kynni hann að kvikna. Skógareldar geta því kviknaða af mannavöldum alveg eins og dæmin sanna annars staðar  



Kafli 2 af 8 - Eigin upplifun

Loftslagsbreytingar eru hnattrænar en hækkað hitastig á jörðinni getur einnig haft miklar staðbundnar afleiðingar. Hefur þú upplifað einhverjar afleiðingar af loftslagsbreytingunum? Hvaða afleiðingar, hvar og hvernig? Hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á líf þitt? Á hvaða hátt?

Í raun tel ég að breyting á veðráttu sé það helsta sem ég hef orðið vör við á 70 árum. Þó að það sé tilfinning mín og reyndar staðreynd skv. veðurfræðingum þá er einhver breyting t.d. hvað varðar kulda hér á Suðurlandi þar sem ég hef alltaf átt heima. Í bernsku man ég eftir því að allt var á bólakafi í snjó (íbúðarhús og útihús í sveit) en nú gerist það bara ekki lengur. Held að það hafi ekki orðið jafn ófært innan bæjar á Selfossi síðan veturinn 1980-´81.  



Kafli 3 af 8 - Hvað get ég gert?

Hefur þú gert eitthvað sjálf(ur) til að draga úr loftslagsbreytingum? Hvaða máli telur þú að daglegt líf þitt eða lífstíll skipti fyrir loftslagsbreytingar?

 Ég hef kannske ekki mikið gert en með hækkandi aldri ferðast maður minna, t.d. á einkabílnum, og er ég nú stundum að réttlæta það með „minni bensín-/olíueyðslu – minni mengun“ sem er svo bara eigið dáðleysi en einnig er minna ferðast vegna þess hver dýrt er að ferðast innan lands hvað varðar gistingu og olíu-/bensínhækkun. Ég veit að ég gæti farið færri ferðir innan bæjar og í næsta nágrenni og að við hjónin þyrftum ekki að eiga sinn bílinn hvort. Við höfum reyndar haft yfir að ráða tveimur bílum næstum í 40 ár en börnin eru löngu farin að heiman. Það er að vísu ótrúlegur lúxus. Ég á ársgamlan bíl og vissulega hugleiddi ég vandlega að fá mér rafmagnsbíl en tveir bifvélavirkjar (á mínum aldri) réðu mér frá því að kaupa rafmagnsbíl fyrst og fremst vegna þess hve ófullkomnir þeir væru ennþá. Sumir sögðu að rafmagnsbíll gæti gengið sem bíll nr. 2 á heimili en það þyrfti að huga vel að því hvernig hann væri notaður. Satt að segja treysti ég mér ekki til að fara að læra eitthvað upp á nýtt og hrærast í óvissu um hvort maður kæmist á „tankinum“ alla leið heim. Maður fer ekki með geyminn undir hendinni á næstu hleðslustöð – fyllir og röltir svo til baka að rafmagnslausum bílnum!. Drægni rafmagnsbíla er alls ekki nægjanlegur enn í lengri ferðir og einnig er tímafrekt að hlaða og hvar er maður svo í biðröðinni með að komast næstur að í hleðslustöðina?



Kafli 4 af 8 - Upplýsingagjöf

Hvar hefur þú helst fengið upplýsingar um loftslagsbreytingar (sjónvarp, netmiðlar t.d.)?

Ég held að það sé mest gegnum sjónvarp og dagblöð. Ýmsu er líka deilt á feisbúkk en það myndi ég nú taka með vissum fyrirvara a.m.k. ekki gleypa við öllu.



Kafli 5 af 8 - Úrræði

Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Hvernig? Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni?

Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Það held ég að verði afar erfitt vegna þess að ráðamenn vilja ekki gera það sjálfir. Hvað með allar ráðstefnurnar sem „heldra fólkið“ sækir út um hvippinn og hvappinn án okkurs árangurs eins og t.d. var með hálfs mánaðar ráðstefnunar sem haldin var í Danmörku fyrir nokkrum árum. Allir gestirnir héldu þennan tíma út en niðurstaða ráðstefnunnar lak úr í upphafspartýinu; samkvæmi ráðstefnanna eru að því er virðist mikilvægari en málefnið. Ráðstefnurnar eru náttúrlega uppfinning ferðaþjónustunnar en ekki sprottnar af nauðsyn þess að ræða málin. Nýleg norðurslóðaráðstefna í Reykjavík er skýlaust dæmi um bull „fína fólksins.“ Hvernig ferðaðist fólkið hingað? Jú, með þotum. Flugvélar með fína fólkið virðist nefnilega ekki spúa koltvísýringi. Ekki kom þetta sparilið á seglskipum. Það var ekki einu sinni hægt að brynna þessu fólki með vatnskönnum – nei það drakk úr plasti! Nema hvað? „Það sem höfðingjarnir hafast að – hinir meina sér leyfist það,“ segir máltækið. Og af hverju heldur fólk ekki bara tölvufundi (skype) og hættir að flengjast um allar jarðir til þess eins að þurfa ekki að mæta í vinnuna heima hjá sér?   Hvernig? Það þarf virkilega samstillt átak allra til að kolefnisjafna svo að gagn sé að – ekki bara pöpullin heldur líka fyrirfólkið. Samt sem áður kemur elítan saman og samþykkir einhverjar áætlanir sbr. e-t Parísar-samkomulag og svo kemur bara skömmu seinna: „Nei, ég er hætt-/ur að vera með.“ Þá virðist það bara ekkert mál. Ég veit ekki hvað maður á að segja um aukningu skógræktar og að moka ofan í skurði. Ég væri alveg til í það og á hlut í stóru landsvæði þar sem hvoru tveggja væri hægt að koma fyrir. Að fá aukið áveituvatn er bara ekki til umræðu því að vatnið virðist eiga að fara í laxveiðiárnar frekar en að nýta það eins og gert var áður fyrr og nýtast einnig sem hemill til þess að hjarðir blandist saman (t.d. vegna riðu í sauðfé).    Það á að hætta styrjöldum. Punktur!   Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni? Vindmyllur eru fallegar byggingar. Þær eru eins og pelikanar að sulla í söltu vatni á fjarlægum slóðum. Ég ólst upp við vindmyllu til raflýsingar. Að vísu voru notaðar 12 kerta perur en það var líka alveg ágætt.  Hvers vegna ekki að byggja fleiri svona vindmylluver? Nei, það koma (meintir) náttúruverndarsinnar og afsegja það að þessi vindrass sem við búum við sé virkjaður. Náttúruverndarsinnar eru oft mjög spillandi, öfgafullir og afturhaldssamir. Einnig þegar verið er að byggja háspennulínur ætlar líka allt vitlaust að verða; það er verið að spilla útsýninu fyrir þeim. Háspennulínur eru líka fallegar byggingar og vekja traust þ.e. þarna er rafmagnið að nýtast landsmönnum og einnig má t.d. fylgja línu ef maður villist á heiðum uppi. Ég er þó ekki meðmælt því að virkja eigi hverja sprænu t.d. eins og norður á Ströndum enda virðist jafnvel vera að það séu erlendir aðilar sem eigi að njóta góðs af því. Það virðist nú liggja í loftinu einhver s.k. „orkupakki“ Evrópu sem á að leggja fyrir þingið á næsta ári. Mig grunar sterklega að þar eigi að hleypa erlendum aðilum inn á veitusvæði Íslendinga og það má ekki gerast. Þeir sem ráða öllu hérlendis – peningamennirnir -  eiga sennilega að fá línuna fyrir sig og sína ef bensínið fer að minnka og þá selja þeir okkur rafmagnið á uppsprengdu verði. Forstjóri Landsvirkjunnar (þessi með svörtu gleraugun) kemur ítrekað í fjölmiðla til að reyna að væla þetta út, þ.e. að selja Landsvirkjun. Það er ekki góðmennska sem liggur þar að baki.  



Kafli 6 af 8 - Aðrar ógnir

Eru einhverjar aðrar samfélagslegar ógnir að þínu mati sem eru uggvænlegri en loftslagsbreytingar? Ef svo er, hvaða?

Ég veit það ekki en í kvöld var í sjónvarpinu verið að tala um skordýr sem muni ógna lífríkinu. Já, er það ekki bara næst þegar maður má eiginlega ekki lengur drepa húsflugu?!  Stjórnmálamenn eru líklega mesta ógnin. Þeir ætla að sölsa sem mest undir sig og auðvitað að lifa aðra af – líka þrælana!



Kafli 7 af 8 - Framtíðin

Flestir eða allir reyna að gera sér einhverja grein fyrir hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Við viljum gjarnan að þú segir frá hugmyndum þínum um framtíðina, væntingum, óskum eða áhyggjum. Frásögnin má bæði vera um nærumhverfi þitt og framtíð jarðarinnar, eða annað hvort, og hún þarf ekki endilega að vera um loftslagsbreytingar. Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér?

Það væri nú þunglyndislegt að telja að heimur versnandi færi. Páll Bergþórsson veðurfræðingur hefur nokkrar efasemdir um hlýnun jarðar og mér finnst hann alveg vera þess verður að hlustað sé á hann. Mér finnst hafa orðið mjög mikil tækniþróun frá aldamótunum síðust t.d. hvað varðar alla tölvubyltinguna. Hvað með virkjun sólarorkunnar, sjávarfallanna og vindorkunnar? Af hverju má ekki reyna að nýta þessi öfl betur? Hvort Bónus- pokar hverfi veit ég ekki hverju skilar. Ég tók upp mikla og ítarlega flokkun nýverið en spyr mig stundum þegar ég er að þvo þetta og hitt áður en ég fer með það í ruslið; hversu miklu vatni úr Ingólfsfjalli hef ég eytt í flokkun? Jú, kannske allt í lagi – nóg rignir! Plokkið er alveg ágætt en er ekki fundið upp í Reykjavík. Fólk hefur áður tínt upp eftir sig. Farandi um Þýskaland s.l. haust held ég að Þjóðverjar plokki mest. Auðvitað hefur maður áhyggjur af afkomendum sínum, s.s. barnabörnunum, ef þetta á eftir að hríðversna – hvað verði um þau og svona.   Einn er sá hópur fólks sem ekki virðist gera sér gein fyrir löngu kolefnisspori og eru það veganistar eða grænkerar. Dettur þeim virkilega í hug að allir geti bara verið á beit eins og útigangshestar allan ársins hring? Nei, fólk sem vinnur þarf að borða. Þeir sem reyna mikið á sig (þeir eru jú til) þurfa kannske margfaldan hitaeiningafjölda þeirra sem lítið hafast að. Veganistar gera sér ekki grein fyrir þessu. Hvað ætla þeir að gera við skordýrin sem skríða á grænmetinu þeirra? Lyfta sniglinum bara til hliðar og slíta undan honum blaði eða það sem eftir er af því. Hvðan koma allar möndlurnar og hneturnar o.fl., ofl. sem það borðar? Jú, alla vega mjög langt að með löngu kolefnisspori. En það skiptir vegnaista að því er virðist bara engu máli – trúboðið er ofar öllm rökum.  



Kafli 8 af 8 - Viðbætur og athugasemdir

Hér hefur þú pláss fyrir viðbætur eða athugasemdir við spurningaskrána.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana