118 Samkynhneigð á Íslandi
Ég ólst upp í Hrunamannahreppi, nokkuð fjölmennri sveit með góðum samgöngum og öflugu félagslífi. Var þar að mestu frá fæðingu 1944 - 1965.
Það er sama hvað ég grufla og hugsa, mér tekst ekki að muna, frá þessum árum, eftir umræðu eða öðru er varðar samkynhneigð.
Aðeins örlar þó á orðinu “hómó”, án þess þó að ég hefði hugmynd um hvað það þýddi, en það var flissað þegar það heyrðist og ég gerði það líka.
Ég fór í Skógaskóla 15 ára og var þar í heimavist tvo vetur.
Sama sagan þar, ekkert sem benti til að nokkur manneskja á þeim slóðum hefði áhuga á annarskonar kynhegðun en almennt gerðist og umræðan um slíkt, hafi hún einhver verið, í svo litlum mæli að ég man ekki eftir því.
Það var ekki fyrr en ég flutti á Selfoss 1965, sem ég man eftir að hafa heyrt því fleygt að hinn eða þessi væri “sódómískur” og það skynjaði ég þá fljótlega að átti við karlmenn sem ekki höfðu áhuga á konum.
Ég skynjað jafnframt að þetta væri ekki gott, þeir sem ræddu slíkt gerðu það í niðrandi tón.
Samkynhneigð kvenna man ég ekki eftir að heyra um fyrr en seinna, vissi ekki að slíkt væri til fyrr en umræðan fór að opnast og maður heyrði um konur sem bjuggu saman eins og hjón.
AIDS umræðan galopnaði svo þennan heim fyrir öllum sem á annað borð fylgjast með fréttum.
Sennilega var það á árunum 1970-80.
Frá upphafi hefur mér fundist umræðan um samkynhneigð skiptast í tvö horn.
Allmargt eldra fólk talar niðrandi orðum um þá einstaklinga sem það telur samkynhneigða, en það yngra er umburðarlyndara.
Reyndar er til mjög fullorðið fólk sem varla hefur enn áttað sig á hvað málið snýst um.
Karlmenn finnst mér miklu fordómafyllri og neikvæðari en konur... og þá, ef hægt er, fá lespíur mun harðari dóma en hommar.
Ég held að umræða í dreifbýli verði alltaf vægari en í þéttbýli.
Fólk í sveitum er svo félagslega tengt hvert öðru að það fer síður hörðum orðum um náungann og jafnvel þá sem fjær eru.
Ég held að umræðan hafi opnast og viðhorfið orðið jákvæðara þegar listamenn... söngvarar/leikarar, fóru að flytja efni sem tengdist samkynhneigð og þá gjarnan á jákvæðari nótum en áður þekktist. Þá komu líka fram einstaklingar sem játuðu sína kynhneigð opinberlega og voru vinsælir og flottir.
Það hefur hjálpað mikið. Páll Óskar hefur lyft Grettistaki á þessu sviði.
AIDS umræðan hefur kannski skapað svolitla vorkunn í garð samkynhneigðra, hjá þeim sem á annað borð sýna þeim skilning og jákvæðni.
Undanfarin átján ár hef ég unnið í skóla og þar er fróðlegt að vera fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þessi mál.
Í einum útskriftarárgangi fyrir allmörgum árum, hefur komið á daginn að eru fjórir samkynhneigðir einstaklingar, þar af þrjú tengd fjölskylduböndum.
Það var ekkert hægt að sjá eða skynja “öðruvísi” á meðan þau voru í skólanum. Nokkuð oft kemur fyrir að við sjáum, í yngri bekkjum.. ca. átta til tólf ára, sterkar vísbendingar um framhaldið. Það er þá miklu frekar um að ræða drengi en stúlkur. Til er dæmi um “þráhyggju móður”, sem klæðir og greiðir syni sínum eins og hann væri lítil stúlka. Það endaði með samkynhneigð, þó mér finnist það samt undarlegt, hef haldið að slíkt væri meðfætt og ekki mögulegt að búa til?
Ég hef ekki orðið vör við að þau börn.. aðallega strákar, sem sýna hegðun í þessa átt, verði fyrir meira áreiti eða einelti en önnur börn.
Hef meira að segja séð einstakling á unglingsaldri, sem segist ákveðið vera hommi, fá meiri jákvæða athygli og aðdáun félaganna en almennt gerist.
Það þarf til þess sterka sjálfsmynd og öryggi.
Löggjöf til stuðnings sambúð samkynhneigðra er til góðs og neikvæðni og þvermóðska sumra fulltrúa kirkjunnar til vansa.
Hommar og lespíur eru bara fólk eins og við öll hin og eiga að hafa sama rétt á öllum sviðum.
Kannski er það, í seinni tíð, aðeins til að skemma fyrir þeim hvað fjölmiðlar vilja sumir “velta sér uppúr” þeirra málefnum.
Þeir neikvæðu espast þá allir og vilja meina að “óþarfi sé að hamra á þessu sí og æ” og kannski er nokkuð til í því.
Mjög áberandi atlot samkynhneigðra á almannafæri, eru þeim heldur ekki til framdráttar, en sýnist stundum vera algengara hjá þeim en hjá gagnkynhneigðum.
Ég á nokkra góða vini úr hópi samkynhneigðra og met þá alveg til jafns við aðra vini. Ungur piltur úr minni tengdafjölskyldu var gjarnan í gistingu hjá okkur hjónum þegar hann var svona 5-12 ára.
Ég þekkti reyndar vel til hans úr skólanum líka og vissi að hann hafði aðeins önnur áhugamál en aðrir strákar.
Hann sat ekki í stofunni og horfði á fótbolta með frænda sínum, heldur spurði hvort ég gæti ekki kennt sér að hekla eða prjóna og svo sátum við saman við það í eldhúsinu.
Hann er nú fullorðinn og allir nánir vita í raun um hans kynhneigð, en faðir hans er einn hinna neikvæðu svo ekki er þorandi fyrir 25 ára piltinn að “koma út úr skápnum”.
Hann vinnur að mestu erlendis, en kemur þó heim í fríum.
Ég veit um einn hér í næstu götu sem fór að heiman eftir grunnskóla og sást ekki meir fyrr en faðir hans dó. Hann á svo systurson sem einnig er samkynhneigður.
Það eru þó nokkur dæmi um að samkynhneigð liggi í ættum, svolítið forvitnilegt finnst mér.
Ég þekki ekki áberandi útlitsmun eða klæðnað á samkynhneigðum, nema þá helst að strákar/hommar séu betur til hafðir og betur klæddir en gagnkynhneigðir.
Einstaka eru svolítið pempíulegir í fasi, en ég held að furðuútlit sé sjáldgæfara utan höfuðborgarsvæðisins. Í Rvk. sér maður stundum fígúrulegan útgang á einstaklingum sem jafnframt opinbera sig sem homma.
Konurnar ... lespíurnar, held ég að séu oftast bara í “normal fötum”.
Hátíðir og skrúðgöngur samkynhneigðra hafa virkað jákvætt og allt yngra fólk sem ég hef heyrt í er algerlega með á nótunum þar.
Kannski finnst einhverjum þetta jafnvel”of spennandi” og halda eitthvert tímabil að samkynhnrigð sé bara flott tískufyrirbæri?
Í byrjun var þetta baráttudagur fyrir réttindum og viðurkenningu fjöldans, en nú held ég að dagurinn sé frekar bara hátíð til að fagna því sem áunnist hefur.
Ég þekki lítið til félaga samkynhneigðra, en trúi að þau séu bara af hinu góða og oft hjálp fyrir villuráfandi unglinga, að leita þangað.
Kvikmyndir um samkynhneigða hef ég lítið séð, en hef heyrt um nokkrar góðar, sem ég horfi kannski á seinna. held að þannig myndir hafi lítið heyrst um fyrr en eftir 1980?
Nú held ég að nóg sé komið um þetta málefni, sem ég hef svo sem aldrei haft að áhugamáli, bara tekið eftir því sem fram fer í kringum mig.
Það er langt í frá að ég hafi andúð eða fordóma gagnvart samkynhneigðum.
Einhverntíman heyrði ég sagt “að þeir sem væru neikvæðir, fordómafullir og hefðu hæst um það, væru hræddir við hommann í sjálfum sér”, kannski er eitthvað til í því? En kannski líka ágætt vopn til að fá þá til að spara stóru orðin.
Það eru örugglega fjöldamargt roskið fólk á Íslandi, sem aldrei hefur komið útúr skápnum, þetta bara þekktist ekki á þeirra yngri árum og loksins þegar umræðan opnaðist var allt um seinan.
Kveðja. (..1..)
Kafli 1 af 6 - Viðhorf til samkynhneigðra
Hvenær manst þú eftir að hafa fyrst heyrt talað um samkynhneigð (óháð þinni eigin kynhneigð)? Hvernig var t.d. talað um samkynhneigt fólk á fimmta áratug 20. aldar eða á áttunda áratugnum miðað við það sem síðar varð? Hefur þú tök á samanburði frá áratug til áratugar?
Hvernig minnist þú breytinga á viðhorfum til samkynhneigðra hér á landi? Hvað hefur einkum orsakað þessar samfélagslegu viðhorfsbreytingar að þínu mati?
Voru einhverjir atburðir eða tiltekin tímabil í sögunni þýðingarmeiri en önnur, að þínu mati, þegar þú íhugar þær breytingar sem orðið hafa? Hvernig tengist það réttindabaráttu samkynhneigðra? Hvað hafði tíska, tónlist, bókmenntir og skemmtanalíf að segja? Hvaða máli skiptu erlend áhrif?
Finnst þér að það sé eða hafi verið munur á talsmáta og viðhorfum fólks til samkynhneigðra eftir búsetu, t.d. í dreifbýli og þéttbýli? Hvaða munur?
Ýmis orð hafa verið notuð um samkynhneigða gegnum tíðina. Kynvilla, sódómía og sódómskur voru þekkt orð fyrr á tíð, en orðið samkynhneigð er aðeins rúmlega þrjátíu ára gamalt í íslensku máli. Hvaða orðum manst þú eftir að hafa heyrt um samkynhneigt fólk á ólíkum tímum?
Hefur þú vitneskju um eða persónuleg kynni af samkynhneigðu fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á fjandsamlegum viðhorfum, mætt ofbeldi og niðurlægingu, innan fjölskyldu sinnar eða utan, eða af eigin reynslu? Þekkir þú til fólks sem hefur hrökklast úr heimabyggð sinni eða úr landi eða svipt sig lífi af þeim sökum? Kanntu að rekja örlög þessa fólks í stuttu máli?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 2 af 6 - Konur og karlar
Voru/eru hommar og lesbíur litin sömu augum eða var/er munur þar á? Hvaða munur? Hefur þetta breyst og ef svo er, hvernig og af hverju?
Hvað manstu um þá hugmynd að hommar væru kvenlegir upp til hópa og lesbíur óvenju karlmannlegar? Skipti öðruvísi klæðaburður, ímyndaður eða raunverulegur, hugsanlega einhverju máli í þessu sambandi? Hvernig þá?
Þótti mönnum stafa meiri ógn af öðru kyninu en hinu þegar samkynhneigt fólk átti í hlut? Hvoru kyninu? Var umtal um annað kynið t.d. meira gildishlaðið en umtal um hitt kynið?
Manstu eftir einhverju öðru sem sagt var um samkynhneigðar konur og karla á ýmsum tímum ævi þinnar?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 3 af 6 - Löggjöf
Hvernig telur þú að löggjöf hafi haft áhrif á líf samkynhneigðra og viðhorf til þeirra síðar? Hvað vó þyngst að þínu mati?
Hvaða augum lítur þú þessar lagasetningar, varstu hlyntur þeim eða ósammála á sínum tíma? Höfðu einhverjar af þessum lagasetningum áhrif á þitt persónulega líf, líf fjölskyldu þinnar eða vina? Á hvern hátt?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 4 af 6 - Félög og hreyfingar
Á Íslandi hafa orðið til allmörg félagasamtök eða hreyfingar samkynhneigðra og annars hinsegin fólks á síðustu áratugum. Þeirra elst og áhrifamest eru Samtökin ´78, stofnuð árið 1978, en fleiri hreyfingar hafa haft áhrif á breytt viðhorf og sýnileika samkynhneigðra, t.d. Q – Félag hinsegin stúdenta, FAS – Félag aðstandenda samkynhneigðra, Hinsegin dagar í Reykjavík – Gay Pride og Íþróttafélagið Styrmir svo fáein dæmi séu nefnd.
Hvaða augum lítur þú þessar hreyfingar og hvaða þýðingu telurðu að þær hafi haft fyrir breytt viðhorf gegnum tíðina? Þekkir þú til starfsemi þeirra og stefnumála? Áttu minningar um samskipti þín eða einhverra þér nákominna við þessi félög?
Hefur þú sótt hátíð Hinsegin daga í Reykjavík og hvaða augum lítur þú slíkt framtak?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 5 af 6 - Fjölmiðlar
Hvenær manstu fyrst eftir því að vikið hafi verið að kynhneigð í fjölmiðlum og þá með hvaða hætti? Kanntu að lýsa viðbrögðum við því? Manstu fjölmiðlaefni, viðtöl, greinar eða þætti sem þú telur að hafi skipt sköpum í þessu sambandi?
Hvernig myndir þú bera saman fjölmiðlaumfjöllun fyrri tíma og það sem nú er boðið upp á þegar vikið er að samkynhneigð? Kanntu að nefna dæmi? Hvað er líkt, hvað er ólíkt?
Hver finnst þér vera þáttur fjölmiðla í skoðanamótun þegar samkynhneigðir eiga í hlut?
Manstu eftir því hvenær þú sást í fyrsta sinn kvikmynd á hvíta tjaldinu eða í sjónvarpi þar sem vikið var að samkynhneigð? Kanntu að lýsa áhrifum þess á þig og þitt nánasta umhverfi?
Hvaða vægi telur þú að fjölmiðlar hafi haft þegar meta skal aukið umburðarlyndi í garð samkynhneigðra? Hafa fjölmiðlarnir styrkt félagslega stöðu þeirra og mannvirðingu eða veikt hana?
Hvaða áhrif hafa þekktir einstaklingar sem greint hafa frá samkynhneigð sinni í fjölmiðlum haft á viðhorf þín til hinsegin fólks? Minnist þú einhverra tiltekinna einstaklinga í þessu sambandi sem þú telur hafa haft mikil áhrif?
Hvaða augum lítur þú veraldarvefinn (netið) og áhrif hans á stöðu og réttindabaráttu samkynhneigðra?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 6 af 6 - Minningar um samkynhneigða einstaklinga
Hvaða kynni hefur þú (óháð eigin kynhneigð) haft af samkynhneigðu fólki, meðal vina, vinnufélaga eða í fjölskyldu þinni? Fyrsta samkynhneigða manneskjan sem þú kynntist (nema þú sért hinsegin), hvað er þér minnisstætt við hana? Hvaða áhrif höfðu slík kynni á skoðanir þínar og viðhorf til homma og lesbía?