118 Samkynhneigð á Íslandi
Viðhorf til samkynhneigðra
Hvenær manst þú eftir að hafa fyrst heyrt talað um samkynhneigð (óháð þinni eigin kynhneigð)? Hvernig var t.d. talað um samkynhneigt fólk á fimmta áratug 20. aldar eða á áttunda áratugnum miðað við það sem síðar varð? Hefur þú tök á samanburði frá áratug til áratugar?
Ég man vel hvenær ég heyrði fyrst um samkynhneigð, eða í það minnsta held ég að þetta hafi verið í fyrsta skipti. Ég var krakki þá, þetta gæti hafa verið á fyrri hluta 8. áratugar (ég er fædd 1963). Ég var í heimsókn hjá vinkonu minni og við vorum að horfa á sjónvarpið. Þá segir pabbi hennar um eina karlpersónuna í sjónvarpsþættinum að sé hún sé öfuguggi. Ég hafði aldrei áður heyrt þetta orð svo ég spurði hvað það þýddi. Hann svaraði því til að öfuguggi væri karlmaður sem væri með einhverjum af sama kyni. Ég man að ég velti meira vöngum yfir orðinu sjálfu heldur en meintri merkingu þess. Það fór samt ekki framhjá mér að það var eitthvað miður gott við það að vera öfuguggi, Það var þungi og drungi yfir orðinu. Þetta var löngu áður en ég sjálf varð kynþroska en atburðurinn stóð í mér og ég varð smeyk um að kannski væri ég sjálf kvenkyns öfuguggl. Hræddust var ég um að ég myndi ekki falla að stífum ramma normsins en ég er alin upp í litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla.
Ég þekkti engan samkynhneigðan einstakling þegar ég var á barnsaldri en síðar kom í ljós að skólabróðir minn í grunnskóla er hommi. Grunnskólinn var svo lítill að þar var þremur árgöngum kennt saman. Það þýddi að mikill samgangur var á milli okkar barnanna. Ég frétti ekki af þvíað hann er hommi fyrr en hann var orðin veikur af alnæmi, það hefur verið í kringum 1990. Til allrar hamingju tókst að snúa gangi sjúkdómsins við með lyfjum og nú er hann frískur. Þessi strákur skar sig alltaf úr hópnum, átti enga samleið með strákunum í þorpinu en vildi leika sér með okkur stelpunum. Okkur þótti það svolítið undarlegt en við veltum því ekki mikið fyrir okkur og settum það alls ekki í samband við kynhneigð. Við vorum ekki mörg börnin í þorpinu og eðlilegt að maður léki sér bara við þá krakka sem voru úti í það og það sinnið.
Þegar ég var um það bil hálfnuð með menntaskóla (ca 1981) áttaði ég mig á að annar strákur í þorpinu mínu er hommi. Þá hafði hann tekið upp á því að giftast frænku minni úr sveitinni heima, að ég held svokölluðu sparimerkjabrúðkaupi. Menntskælingum, sem þekktu strákinn vel, þótti hjónabandið svo fyndið að tilkynning um það var hengd upp á auglýsingatöflu skólans. Ég held að það hafi einmitt þótt fyndið vegna þess að þau vissu að hann var hommi. Ég man að mér þótti tilkynningin óþægileg, einkum fannst mér vont hvað nöfnin þeirra og þar með þau sjálf voru berskjölduð og varnarlaus þarna á töflunni. Núna er hann giftur öðrum karli og býr að ég held í láni og lukku í bæ úti á landsbyggðinni. Ég frétti ekki af því fyrr en löngu seinna eða skömmu fyrir aldamótin að stúlkan sem hann giftist er lesbía. Þá var hún farin að búa með konu í vestur í Bandaríkjunum. Það var samt aldrei talað um þetta beint heldur meira undir rós.
Blessunarlega losnaði ég við ótta minn um að vera öfuguggi, sennilega hefur það verið þegar ég var komin í menntaskóla. Annar ótti var aftur á móti farinn að skjóta rótum á Vesturlöndum á þessum tíma, nefnilega óttinn við áður óþekktan sjúkdóm, alnæmi, sem einkum lagðist á homma að því er í fyrstu var talið. Alnæmi var á þessum tíma dauðadómur og það þótti mikil skömm að því að greinast með HIV veiruna, án ef vegna tengingarnnar við samkynhneigð. Mér er minnistætt þegar ég sá fyrstu fréttina af „hommasjúkdómnum“. Líffræðikennarinn minn var vanur að klippa út fréttir, sem tengdust líffræði og festa á korktöflu í skólastofunni. Þarna birtist fréttin fyrst, að mig minnir árið 1981. Þar var sjúkdómurinn tengdur við homma og hommabaðhús í amerískum borgum. Þetta var verulega óhuganlegt. Síðar hefur auðvitað komið í ljós að sjúkdómurinn hafði ekkert að gera með samkynhneigð.
Það er langt síðan ég hef heyrt þetta ömurlega orð, öfuguggi, að minnsta kosti í þeirri merkingu að vera samkynhneigður. Ég er sjálf almennt frekar blind á samkynhneigð og hef a.m.k. tvisvar átt mikið samneyti við fólk sem reyndist svo vera samkynhneigt, allir vissu það en ég hafði ekki hugmynd líklega vegna þess að ég var bara ekkert að spá í það. Ég man þó eftir ákveðinni uppákomu sem hristi dálítið upp í mér. Þetta var á árunum milli 1991 og 1993. Ég fór ásamt kærastanum mínum (núna eiginmanni) og vinkonu hans á tónleika á bar sem þá var á Vitastíg ef ég man rétt. Við borðið við hliðina á okkur sátu tvær manneskjur sem voru greinilega nánar. Það gerist aftur og aftur að ég leit í áttina til þeirra og fannst eins og sú sem sat til vinstri væri konan en hin karlinn en næst þegar ég leit í áttina til þeirra fannst mér sú til vinstri vera karlinn en hin konan. Svona gekk þetta hálft kvöldið og ég man eftir því að það var eittthvað óraunverulegt við þetta og ég var undrandi aðallega á því að það var eitthvað sem ég skildi ekki. Þá hallaði vinkona mannsins míns sér að mér og sagði: Þær eru lesbíur. Mér verður oft hugsað til þessa vegna þess að þetta var á tímum þar sem ég vissi ekki annað en að manneskja væri annað hvort kona eða karl. Löngu seinna áttaði ég mig á að kyn er mun meira fljótandi en svo að allir séu annað hvort.
Tíðarandinn og viðhorf almennt til samkynhneigðar eru til allrar hamingju mjög ólík því sem þau voru þegar mér var fyrst sagt frá henni. Ætli það megi ekki fyrst og fremst þakka það samkynhneigðum sjálfum og baráttu þeirra, einkum í gegnum samtökin 78. Gay Pride göngurnar hafa áreiðanlega skilað sínu líka. Til margra ára fór ég ásamt móður minni og syni niður í bæ til að fylgjast með göngunni og þá smitaðist maður vitaskuld af gleðinni og litadýrðinni. Blótsyrði tengd samkynhneigð eru að ég held óðum að hverfa úr málinu því þau bíta ekki lengur. Þó held ég að enn sé það átak fyrir marga að koma út úr skápnum. Það held ég samt að tengist ekki bara fordómum heldur líka þörf ungs fólks til að falla í hópinn og að norminu sem gildir í samfélaginu enda verður því varla á móti mælt að enn eru samkynhneigðir minnihlutahópur rétt eins og konur, fatlað fólk og hörundsdökkt. Þess vegna fylgir því togstreyta að koma út úr skápnum og þá er betra að hafa gott bakland.
Ég man ekki til þess að ég hafi fyrirlitið samkynhneigð þó svo að ég hefði sem barn haft beyg af henni. Ég held að beygurinn hafi í raun verið óttinn við umtal í litlu samfélagi frekar en að mér hafi staðið stuggur af sjálfri samkynhneigðinni. Ég hef alltaf stillt mér upp við hliðina á þeim sem eru órétti beittir og fyrir það hef ég sjálf orðið fyrir ósanngirni sem ég hef látið yfir mig ganga. Þess vegna held ég að ég hafi frá upphafi haft frekar hlutlaust viðhorf til samkynhneiðgar frá upphafi. Það skiptir líka máli að þekkja og þykja vænt um samkynhneigt fólk á sama tíma og viðhorf manns til samkynhneigðar er að mótast einkum ef maður hefur alist upp í þröngsýnu umhverfi þar sem það að skera sig úr veldur því gjarnan að maður verður fyrir aðkasti.
Hvernig minnist þú breytinga á viðhorfum til samkynhneigðra hér á landi? Hvað hefur einkum orsakað þessar samfélagslegu viðhorfsbreytingar að þínu mati?
Voru einhverjir atburðir eða tiltekin tímabil í sögunni þýðingarmeiri en önnur, að þínu mati, þegar þú íhugar þær breytingar sem orðið hafa? Hvernig tengist það réttindabaráttu samkynhneigðra? Hvað hafði tíska, tónlist, bókmenntir og skemmtanalíf að segja? Hvaða máli skiptu erlend áhrif?
Finnst þér að það sé eða hafi verið munur á talsmáta og viðhorfum fólks til samkynhneigðra eftir búsetu, t.d. í dreifbýli og þéttbýli? Hvaða munur?
Ýmis orð hafa verið notuð um samkynhneigða gegnum tíðina. Kynvilla, sódómía og sódómskur voru þekkt orð fyrr á tíð, en orðið samkynhneigð er aðeins rúmlega þrjátíu ára gamalt í íslensku máli. Hvaða orðum manst þú eftir að hafa heyrt um samkynhneigt fólk á ólíkum tímum?
Öfuguggi, kynvillingur, hommatittur, hommi, lesbía, hinsegin.
Hefur þú vitneskju um eða persónuleg kynni af samkynhneigðu fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á fjandsamlegum viðhorfum, mætt ofbeldi og niðurlægingu, innan fjölskyldu sinnar eða utan, eða af eigin reynslu? Þekkir þú til fólks sem hefur hrökklast úr heimabyggð sinni eða úr landi eða svipt sig lífi af þeim sökum? Kanntu að rekja örlög þessa fólks í stuttu máli?
Konur og karlar
Voru/eru hommar og lesbíur litin sömu augum eða var/er munur þar á? Hvaða munur? Hefur þetta breyst og ef svo er, hvernig og af hverju?
Hvað manstu um þá hugmynd að hommar væru kvenlegir upp til hópa og lesbíur óvenju karlmannlegar? Skipti öðruvísi klæðaburður, ímyndaður eða raunverulegur, hugsanlega einhverju máli í þessu sambandi? Hvernig þá?
Ég man eftir því að hafa lesið að kvenleiki væri búningur sem konur íklæddust. Ég man ekki hvort það var Simone de Beauvoir eða Judith Butler sem sagði þetta. Ég held samt að þetta eigi við rök að styðjast. Maður klæðir sig í samræmi við habitusinn sinn. Sjálfsemd manneskju og samsemd hennar í hópi (identity) birtist meðal annars í því hverju hún kæðist. Það á við um samkynhneigða eins og aðra. Ef hinn hvíti, miðaldra karl er normið þá má vel færa rök fyrir því að kvenleiki sé einmitt búningur sem greinir manneskjuna frá norminu. Þetta sama gæti átt við um homma og lesbíur. Á lífsleiðinni hef ég kynnst nokkrum hommum og lesbíum en það er langt í frá að það gildi um þetta fólk að hommarnir séu kvenlegir og lesbíurnar karlmannlegar enda getum við spurt okkur hvað það er að vera kvenlegur og karlmannleg. Sumir hommar eiga það sameiginlegt að beita röddinni á ákveðinn hátt og sumar lesbíur hafa alltaf mjög stuttan drengjakoll. Ef til vill er þetta partur af „búningi“ sem samræmist habitusnum þeirra og styrkir þrá þeirra til að tilheyra hópi. Stundum klæði ég mig í kvenleg föt, t.d. kjól og nælonsokkabuxur og fer í skó með hækkuðum hæl en oftast er ég í strákalegum fötum, grófum gallabuxum og svörtum bol, en það segir lítið um kynhneigð mína.
Þótti mönnum stafa meiri ógn af öðru kyninu en hinu þegar samkynhneigt fólk átti í hlut? Hvoru kyninu? Var umtal um annað kynið t.d. meira gildishlaðið en umtal um hitt kynið?
Mér er minnistætt að skólabróðir minn (fæddur 1967, þetta var í kringum 1990) sagði mér frá því að hann hefði spurt móður sína (hún var fædd einhvern tíma á 5. áratug síðustu aldar) hvort konum þætti tilhugsunin um að sofa hjá konu eins ógeðfellt og körlum þætti tilhugsunin um að sofa hjá karli. Honum þótti tilhugsunin með öðrum orðum ógeðsleg og gaf sér að svo væri um aðra karla. Hann sagði að móðir sín hefði sagt svo vera. Ég man að ég var ósammála henni og ég skildi ekki vel þessa áherslu á kynhegðunina. Þótt ég laðist ekki að konum sjálf, er tilhugsunin ekki ógeðsleg. Síðar stundaði ég annað nám og þá í listaháskóla (2002-2005). Þá kom kynhneigð til tals og ég varð vör við að viðhorf margra skólasystra minna var mun frjálslegra en ég hafði áður kynnst og þær höfðu sumar gert tilraunir þótt þær teldu sig vera gagnkynhneigðar.
Manstu eftir einhverju öðru sem sagt var um samkynhneigðar konur og karla á ýmsum tímum ævi þinnar?
Löggjöf
Hvernig telur þú að löggjöf hafi haft áhrif á líf samkynhneigðra og viðhorf til þeirra síðar? Hvað vó þyngst að þínu mati?
Hvaða augum lítur þú þessar lagasetningar, varstu hlyntur þeim eða ósammála á sínum tíma? Höfðu einhverjar af þessum lagasetningum áhrif á þitt persónulega líf, líf fjölskyldu þinnar eða vina? Á hvern hátt?
Fjölmiðlar
Hvenær manstu fyrst eftir því að vikið hafi verið að kynhneigð í fjölmiðlum og þá með hvaða hætti? Kanntu að lýsa viðbrögðum við því? Manstu fjölmiðlaefni, viðtöl, greinar eða þætti sem þú telur að hafi skipt sköpum í þessu sambandi?
Ég man ekki mikið eftir fjölmiðlaumfjöllun um kynhneigð en þó rekur mig minni til þess að hafa lesið viðtali við Hörð Torfason og þáverandi kærasta hans í kringum 1979/80. Þá bjuggu þeir áreiðanlega í Danmörku og umræðuefnið var að einhverju leyti fordómar og að þeim hefði þeirra vegna verið óvært á Íslandi. Nú finn ég aftur á móti vel að fólk er stolt af því að vera hommi eða lesbía og það er ófeimið við að tjá það í fjölmiðlum. Þess vegna held ég að núorðið styrki fjölmiðlar stöðu samkynhneigðra fremur en veiki.
Hvernig myndir þú bera saman fjölmiðlaumfjöllun fyrri tíma og það sem nú er boðið upp á þegar vikið er að samkynhneigð? Kanntu að nefna dæmi? Hvað er líkt, hvað er ólíkt?
Hver finnst þér vera þáttur fjölmiðla í skoðanamótun þegar samkynhneigðir eiga í hlut?
Manstu eftir því hvenær þú sást í fyrsta sinn kvikmynd á hvíta tjaldinu eða í sjónvarpi þar sem vikið var að samkynhneigð? Kanntu að lýsa áhrifum þess á þig og þitt nánasta umhverfi?
Hvaða vægi telur þú að fjölmiðlar hafi haft þegar meta skal aukið umburðarlyndi í garð samkynhneigðra? Hafa fjölmiðlarnir styrkt félagslega stöðu þeirra og mannvirðingu eða veikt hana?
Hvaða áhrif hafa þekktir einstaklingar sem greint hafa frá samkynhneigð sinni í fjölmiðlum haft á viðhorf þín til hinsegin fólks? Minnist þú einhverra tiltekinna einstaklinga í þessu sambandi sem þú telur hafa haft mikil áhrif?
Ég er sannfærð um að Páll Óskar og Hörður Torfason hafa báðir haft mikil og góð áhrif á viðhorf fólks til samkynhneigðar. Ég hef þá trú að sjónvarpsþættir Karls Berndsen hafi haft góð áhrif einnig. Jóhanna Siguðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er kona sem nýtur virðingar og aðdáunar og hún hefur áreiðanlega áhrif til góðs á viðhorf fólks til samkynhneigðar.
Hvaða augum lítur þú veraldarvefinn (netið) og áhrif hans á stöðu og réttindabaráttu samkynhneigðra?
Félög og hreyfingar
Á Íslandi hafa orðið til allmörg félagasamtök eða hreyfingar samkynhneigðra og annars hinsegin fólks á síðustu áratugum. Þeirra elst og áhrifamest eru Samtökin ´78, stofnuð árið 1978, en fleiri hreyfingar hafa haft áhrif á breytt viðhorf og sýnileika samkynhneigðra, t.d. Q – Félag hinsegin stúdenta, FAS – Félag aðstandenda samkynhneigðra, Hinsegin dagar í Reykjavík – Gay Pride og Íþróttafélagið Styrmir svo fáein dæmi séu nefnd.
Hvaða augum lítur þú þessar hreyfingar og hvaða þýðingu telurðu að þær hafi haft fyrir breytt viðhorf gegnum tíðina? Þekkir þú til starfsemi þeirra og stefnumála? Áttu minningar um samskipti þín eða einhverra þér nákominna við þessi félög?
Hefur þú sótt hátíð Hinsegin daga í Reykjavík og hvaða augum lítur þú slíkt framtak?
Minningar um samkynhneigða einstaklinga
Hvaða kynni hefur þú (óháð eigin kynhneigð) haft af samkynhneigðu fólki, meðal vina, vinnufélaga eða í fjölskyldu þinni? Fyrsta samkynhneigða manneskjan sem þú kynntist (nema þú sért hinsegin), hvað er þér minnisstætt við hana? Hvaða áhrif höfðu slík kynni á skoðanir þínar og viðhorf til homma og lesbía?
(..1..)
Kafli 1 af 6 - Viðhorf til samkynhneigðra
Hvenær manst þú eftir að hafa fyrst heyrt talað um samkynhneigð (óháð þinni eigin kynhneigð)? Hvernig var t.d. talað um samkynhneigt fólk á fimmta áratug 20. aldar eða á áttunda áratugnum miðað við það sem síðar varð? Hefur þú tök á samanburði frá áratug til áratugar?
Hvernig minnist þú breytinga á viðhorfum til samkynhneigðra hér á landi? Hvað hefur einkum orsakað þessar samfélagslegu viðhorfsbreytingar að þínu mati?
Voru einhverjir atburðir eða tiltekin tímabil í sögunni þýðingarmeiri en önnur, að þínu mati, þegar þú íhugar þær breytingar sem orðið hafa? Hvernig tengist það réttindabaráttu samkynhneigðra? Hvað hafði tíska, tónlist, bókmenntir og skemmtanalíf að segja? Hvaða máli skiptu erlend áhrif?
Finnst þér að það sé eða hafi verið munur á talsmáta og viðhorfum fólks til samkynhneigðra eftir búsetu, t.d. í dreifbýli og þéttbýli? Hvaða munur?
Ýmis orð hafa verið notuð um samkynhneigða gegnum tíðina. Kynvilla, sódómía og sódómskur voru þekkt orð fyrr á tíð, en orðið samkynhneigð er aðeins rúmlega þrjátíu ára gamalt í íslensku máli. Hvaða orðum manst þú eftir að hafa heyrt um samkynhneigt fólk á ólíkum tímum?
Hefur þú vitneskju um eða persónuleg kynni af samkynhneigðu fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á fjandsamlegum viðhorfum, mætt ofbeldi og niðurlægingu, innan fjölskyldu sinnar eða utan, eða af eigin reynslu? Þekkir þú til fólks sem hefur hrökklast úr heimabyggð sinni eða úr landi eða svipt sig lífi af þeim sökum? Kanntu að rekja örlög þessa fólks í stuttu máli?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 2 af 6 - Konur og karlar
Voru/eru hommar og lesbíur litin sömu augum eða var/er munur þar á? Hvaða munur? Hefur þetta breyst og ef svo er, hvernig og af hverju?
Hvað manstu um þá hugmynd að hommar væru kvenlegir upp til hópa og lesbíur óvenju karlmannlegar? Skipti öðruvísi klæðaburður, ímyndaður eða raunverulegur, hugsanlega einhverju máli í þessu sambandi? Hvernig þá?
Þótti mönnum stafa meiri ógn af öðru kyninu en hinu þegar samkynhneigt fólk átti í hlut? Hvoru kyninu? Var umtal um annað kynið t.d. meira gildishlaðið en umtal um hitt kynið?
Manstu eftir einhverju öðru sem sagt var um samkynhneigðar konur og karla á ýmsum tímum ævi þinnar?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 3 af 6 - Löggjöf
Hvernig telur þú að löggjöf hafi haft áhrif á líf samkynhneigðra og viðhorf til þeirra síðar? Hvað vó þyngst að þínu mati?
Hvaða augum lítur þú þessar lagasetningar, varstu hlyntur þeim eða ósammála á sínum tíma? Höfðu einhverjar af þessum lagasetningum áhrif á þitt persónulega líf, líf fjölskyldu þinnar eða vina? Á hvern hátt?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 4 af 6 - Félög og hreyfingar
Á Íslandi hafa orðið til allmörg félagasamtök eða hreyfingar samkynhneigðra og annars hinsegin fólks á síðustu áratugum. Þeirra elst og áhrifamest eru Samtökin ´78, stofnuð árið 1978, en fleiri hreyfingar hafa haft áhrif á breytt viðhorf og sýnileika samkynhneigðra, t.d. Q – Félag hinsegin stúdenta, FAS – Félag aðstandenda samkynhneigðra, Hinsegin dagar í Reykjavík – Gay Pride og Íþróttafélagið Styrmir svo fáein dæmi séu nefnd.
Hvaða augum lítur þú þessar hreyfingar og hvaða þýðingu telurðu að þær hafi haft fyrir breytt viðhorf gegnum tíðina? Þekkir þú til starfsemi þeirra og stefnumála? Áttu minningar um samskipti þín eða einhverra þér nákominna við þessi félög?
Hefur þú sótt hátíð Hinsegin daga í Reykjavík og hvaða augum lítur þú slíkt framtak?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 5 af 6 - Fjölmiðlar
Hvenær manstu fyrst eftir því að vikið hafi verið að kynhneigð í fjölmiðlum og þá með hvaða hætti? Kanntu að lýsa viðbrögðum við því? Manstu fjölmiðlaefni, viðtöl, greinar eða þætti sem þú telur að hafi skipt sköpum í þessu sambandi?
Hvernig myndir þú bera saman fjölmiðlaumfjöllun fyrri tíma og það sem nú er boðið upp á þegar vikið er að samkynhneigð? Kanntu að nefna dæmi? Hvað er líkt, hvað er ólíkt?
Hver finnst þér vera þáttur fjölmiðla í skoðanamótun þegar samkynhneigðir eiga í hlut?
Manstu eftir því hvenær þú sást í fyrsta sinn kvikmynd á hvíta tjaldinu eða í sjónvarpi þar sem vikið var að samkynhneigð? Kanntu að lýsa áhrifum þess á þig og þitt nánasta umhverfi?
Hvaða vægi telur þú að fjölmiðlar hafi haft þegar meta skal aukið umburðarlyndi í garð samkynhneigðra? Hafa fjölmiðlarnir styrkt félagslega stöðu þeirra og mannvirðingu eða veikt hana?
Hvaða áhrif hafa þekktir einstaklingar sem greint hafa frá samkynhneigð sinni í fjölmiðlum haft á viðhorf þín til hinsegin fólks? Minnist þú einhverra tiltekinna einstaklinga í þessu sambandi sem þú telur hafa haft mikil áhrif?
Hvaða augum lítur þú veraldarvefinn (netið) og áhrif hans á stöðu og réttindabaráttu samkynhneigðra?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.
Kafli 6 af 6 - Minningar um samkynhneigða einstaklinga
Hvaða kynni hefur þú (óháð eigin kynhneigð) haft af samkynhneigðu fólki, meðal vina, vinnufélaga eða í fjölskyldu þinni? Fyrsta samkynhneigða manneskjan sem þú kynntist (nema þú sért hinsegin), hvað er þér minnisstætt við hana? Hvaða áhrif höfðu slík kynni á skoðanir þínar og viðhorf til homma og lesbía?