LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiTorfhús
Ártal1954-2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurHrafnseyri, Lindarbakki, Lindarbakki, Núpsstaður
ByggðaheitiArnarfjörður, Borgarfjörður eystri, Breiðdalur, Fljótshverfi, Seyðisfjörður, Skriðdalur, Stöðvarfjörður
Sveitarfélag 1950Auðkúluhreppur, Borgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur, Hörgslandshreppur, Skriðdalshreppur
Núv. sveitarfélagBorgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur, Fljótsdalshérað, Ísafjarðarbær, Skaftárhreppur, Súðavíkurhreppur
SýslaN-Ísafjarðarsýsla, N-Múlasýsla, S-Múlasýsla, V-Ísafjarðarsýsla, V-Skaftafellsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1946

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-116
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/9.8.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Það get ég með engu móti sagt. Fæddur 1946, átti ég einn skólabróðir, Róbert, á Seyðisfirði sem bjó út með firðinum að norðan í húsi sem var að miklu úr torfi og með moldargólf að hluta. Þar sem ég var ekki lengi á Seyðisfirði veit ég ekki hvenær þessi húsakynni voru aflögð.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Þessu er erfitt að svara nema að ég hef ekki komið í híbýli nema þetta hús á Seyðisfirði c.a.1954-. Ég geri mér ekki grein fyrir útihúsafjölda eða hvenær þau lögðust af og hvar þau voru. En ég kom að Keldum vorið 1958, í Víðimýrarkirkju 1974, og að Burstafelli 2005-. Sem svarar næstu.Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Verkmenningu samfélagsins. Hér mundi nú koma babb í bátinn. Ég er, einmitt núna, að koma innan frá Stöð eftir að hafa horft yfir tættur af einhverju stærsta torfhúsi sem mögulega hefur verið byggt í landinu, skála tóft frá sjöhundruð og eitthvað. Svo las ég í Fréttablaðinu í morgun hvernig Eygló Harðardóttir ætlar að hafa þakið á húsinu sínu og Sigurðar. Ég hefði sennilega átt að melda mig frá þessari könnun, enda ekki ennþá nennt að lesa bókina hans Hjörleifs, „Af jörðu“. Hugsanir mínar eru nú oftast „jákvæðar“þegar kemur að því sem okkur tekst að varðveita af þessum svokallaða menningararfi en sýti það þegar farið er með hlutina eins og kútter Sigurfara. Okkur hefði verið óhætt að varðveita aðeins fleiri torfhús og gera ögn betur í að viðhalda handverkinu og skoða betur fjölbreytileika þess. Þess þyrftum við á fleiri sviðum.


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?

Ég hugsa að mér finnist það merkilegast að nokkur skuli spyrja svona, líka um torfhús. Ég held að bókin hans Hjölla sé nokkuð góð og það hafa fleiri tekið saman sitt hvað um fornar byggingar, það er sem sagt allt merkilegt við þær. Eins og auðvita við öll mannanna verk og ef við vildum nú nota nýjustu mælikvarða þá eru þessar fornu byggingar „vistvænar“, „umhverfisvænar“. Það er semsagt ekkert  ómerkilegt við torfhús.


Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Hér verð ég líka að gera athugasemd, ekki síst þar sem búið er að berja það inn í hausinn á mér, að gróft sagt eru í gangi torfhús og torf- og grjót hús.  Nú er skálinn, eða það sem upp er komið í Stöð, torfhús. Tætturnar af fjárhúsunum á Háteigi ca. 70 metra frá, eru úr blöndu af torfi og grjóti.  Líka gróft sagt, Norðmenn byggðu úr torfi, Skotar úr torfi og grjóti. Um það bil 60 metrum sunnan við mig núna er „Samkomuhúsið“og ég er búinn að gera svona um það bil það sem ég nenni og kannski get, til að fá það klætt utan vegna þess að það eru fyrir mörgum árum farin að koma göt á ytrabirgðið. Þetta er tuttugustu aldar „torfhús“, torfið milli tveggja steyptra veggja. Mér hefur enn ekki tekist að fá húsið klætt en það er búið að koma þar upp „eldhúsinnréttingu“ og „malbika“ planið. Svo vítt ég veit, fer lítið fyrir þekkingu á húsum byggðum með þessu hætti á fyrstu áratugum síðustu aldar. Að vísu skal ég taka það fram að ég sé ekki fyrir mér að nokkur muni taka að sér að flytja svona byggingu á Árbæjarsafn, og ég á enn eftir að reyna að heyra í Magnúsi Skúlasyni, ef hann er þá ekki stein hættur að vita nokkuð.


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?

Í mínum huga er það á hreinu að ef einhversstaðar er einhver sem þarf á húsi að halda fyrir sjálfsmynd sína finnst mér að sú sál þurfi kannski á sjúkrahús. Nei, ég er ekki ginkeyptur fyrir því að fara að tína til allt sem ég, sauðurinn, hef hnotið um þegar kemur að hugtakinu þjóðerni og í tilfelli Íslendinga, sem er náttúrlega nánast eina tilfellið sem ég þekki,  finnst mér blátt áfram galið að blanda saman húsum, hvað þá torfkofum, og þjóðerni og spyrja um „gildi“. Aftur, Skotar byggðu úr torfi og grjóti, Norðmenn út timbri og torfi. Hingað komnir byggðu þeir úr reknum spýtum og trjám ásamt hinu tvennu; seinna úr strönduðum skútum. Núna erum við helst til í að varðveita og byggja upp norsk „katalóg“-hús og allara helst í suðurþýskum Alpastíl, Sveitser.


Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?

Auðvitað. Hvað í ósköpunum getur ekki haft gildi á vettvangi stjórnmálanna og einmitt á einn og annan hátt. Í útvarpi og sjónvarpi er gjarnan spurt hvað höfum við langan tíma. Það eitt að „stjórnmál“ eru afskaplega vítt hugtak og þýðir ekki það sama í hugum einstaklinga. Að vísu er hægt að „flokka“ eða draga fólk í dilka eftir mati þess á því hvað teljast stjórnmál fyrir því. Ég hef alltaf túlkað hugtakið vítt og verið slétt sama hvort mistök eru á embættis plani eða vettvangi „kjörinna fulltrúa“.


Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Leifar torfhúsa eru með því algengasta sem við tökum eftir í landslaginu og getum tengt mannvistinni. Þær eru alstaðar og verða um langan aldur enn, eitthvað sem við getum tengt sögu okkar í bráð og lengd.  Ég er nú ekki viss um að „bænhúsið á Núpsstað“ nái „litlu hafmeyjunni“ við Löngulínu að vinsældum, og miðað við höfðatölu, en hvorutveggja er sönnun þess að það þarf ekki alltaf stórt til.Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Merkilegt nokk ég hef enga skoðun á því, þekki ekki til.  


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?

Veit þetta ekki, utan það að ég er hrifinn af því hvernig Færeyingar byggðu upp í Tóftum í Leirvík og vona að það verði gert með svipuðum hætti hér í Stöð þegar rannsóknum er lokið. Það sem fyrst og síðast stendur í vegi fyrir hlutum þessi dægrin er stjórnsýslan okkar og hér set ég eitt ferskt dæmi. „Míla á allan höfundarrétt á sínum gögnum. Gögnin má ekki afhenda þriðja aðila. Þriðji aðili, s.s. verktakar, skal áfram sækja teikningar til Mílu, sjá á www.mila.is. Gögnin má ekki nota í markaðslegum tilgangi.“ Ef einhver skildi nú ekki vita það, þá er Míla dótturfyrirtæki Símans hf. og gögnin sem talað er um er vitneskja um hvar sími er grafinn í jörð og legan ætti auðvita að vera á netinu eins og upplýsingar um legu annarra strengja.  


Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?

Nú held ég að ég hafi misst af einhverju. Standa uppi „torfbæir“ sem ekki er verið að bjarga eða varðveita? Ef svo er ætti auðvita að skoða hvort einhver hafi áhuga og getu til að gera eitthvað.


Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Ef ég væri á Skagfirska efnahagssvæðinu mundi ég segja að Kaupfélagið… Nei, ef það á að fjölga „vernduðu“ eitthvað ættum við krefjast þess að þeir sem heimta verndina standi straum af kostnaðinum. Ef við erum hins vegar að ræða um að rauðlitaða umhverfið hér að ofan skili upplýsingum og láti svo fólk í friði, má hugsa sér að láta það að minnsta kosti óátalið þótt við tækjum upp á því að hlaða upp tættur og refta yfir þær, þess vegna til fastrar búsetu. Kannski er ég að misskilja spurninguna og spurningahöfundur að hugsa um viðhald. Ég held ekki að við eigum að flýta okkur að ákveða hver á yfirleitt að sinna því, að því frátöldu, að áður en við setjum uppbyggingu af stað eigum við að ákveða framhaldið. Torfhús þurfa viðhald ekki verndun. Það þýðir ekki að hægt sé að sleppa því að hugsa.Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?

Munur á byggingum er ekki bara tímatengdur hann er milli landsvæða. Þetta er bara allt of umfangsmikið. Hér hef ég líka dregið inn, eða reynt að draga inn, enn eina gerð torfbyggðra húsa sem ég hef grun um að séu að gleymast, grotna niður, áður en við áttum okkur á. Á Mýrum í Skriðdal (minnir mig) er stórt hús byggt með þessum hætti sem Samkomuhúsið hér, torf milli steyptra veggja.


Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?

Veit of lítið um þetta, þykist samt hafa heyrt að það hafi verið steyptir veggir inn í veggina á Stöng. Á Hrafnseyri var víst líka byggður upp bær eftir minni Ágústar föðurbróður míns. Hann gerði teikningu og ég sá hana hjá honum en hef ekki komið vestur síðan byggt var.


Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Ég hefði sem best getað komið mér upp svona húsi, stungið klömbru og sniddu, rist streng og þökur, hlaðið grjóti. Ég þekki líka marga sem hefðu sagt mér að „svona gerðu menn ekki“. En ég hef ekki hugmynd um fjölda. Hér kom í haust maður, Grétar, Vopnfirðingur, að girða kirkjugarðinn í Stöð, hann hleður grjóti og Breiðdæling man ég eftir, Fjalar, sem er að hlaða vítt um landið. Mér finnst, og ég vona að þeir skili „þekkingunni“.Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Það er í mínum huga ekki aðal atriðið að varðveita húsakostinn, heldur taka ákvörðun um hvernig með skuli fara og reyna að standa við hana. Gera upp, forða frekari hrörnun og hreinlega hreinsa svæðið ef ekkert á að gera. Torfhúsin hafa þann kost að þegar þau eru fallin er lítið mál að husla þekjuna og gróðurinn sér snarlega um rest. Þetta er ekki raunin með Samkomuhúsið mitt. Þótt það hrörni ár frá ári verð ég löngu kominn í kirkjugarðinn í Stöð áður en ég hætti að þurfa að hafa hnignun þess fyrir augunum og það sem mér finnst nú meira miður er að við hliðina er verið að reka gistihús hvar stoppa margir ferðamenn. Svo má bæta því við að þetta er fallegt hús,(gullinsnið) byggt af ungmennafélaginu 1939 og einangrað eins og áður sagði, með torfi. Það er, þrátt fyrir ömurlegt útlit enn í brúki.Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Svona minnugur er ég ekki. Ég held samt að ég muni hafa komið í Lindarbakka í Jórvík í Breiðdal 2013, hús sem Hjörleifur segir „Agli í Kiljunni“ að Sigríður hafi byggt yfir sig og börnin sín 1940 og sé það síðasta sem hann viti um að hafi verið byggt úr torfi til íbúðar.  Skógræktin á húsið í dag, og hefur látið, eða er að láta, gera upp og segir að jarðarparturinn hafi verið í ábúð til 1956-. Sem sumarhús er „nafni“ hans, Lindarbakki á Borgarfirði eystri líka í notkun svo vít ég veit. Svo rétt til gamans. Hinn föðurbróðir minn Bjarni tók þessa mynd sumarið 1946-. Filman er héraðsskjalasafninu á Egilsstöðum.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana