LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiTorfhús
Ártal1946-2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurGlammastaðir, Hvoll 1, Kollafjörður
ByggðaheitiKjalarnes, Mýrdalur, Svínadalur
Sveitarfélag 1950Dyrhólahreppur, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Kjalarneshreppur
Núv. sveitarfélagHvalfjarðarsveit, Mýrdalshreppur, Reykjavík
SýslaBorgarfjarðarsýsla, Kjósarsýsla, V-Skaftafellsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1946

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-161
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/8.8.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Móðir mín heitin sagði oft að eiginlega hafi ég fæðst eða verið lagður í vöggu í torfbæ. Þannig var að ,,gamli bærinn" í Kollafirði á Kjalarnesi var upphaflega torfbær. En á árum fyrra stríðs eða fyrst upp úr því reisti afi minn timburhús á sama stað, ,,ofan yfir" torfbæinn. Undir vestursúðinni var svefnherbergi og þar inni gamalt rúm sem breikka mátti með því að draga það út. Á sama stað var áður sama rúm undir sömu súð undir vesturburstinni á torfbænum. Í þetta rúm var ég lagður eða fæddist þar, og áður móðir mín, faðir hennar og móðir hans. Gamli bærinn brann 1959, (að mig minnir) en rúmið eiga systkini mín. - Ég hef ekki búið í torfbæ, en ég hef verið á bæjum í bernsku þar sem torfhús voru í fullum nytjum sem útihús. Á einum bænum, á Norður-Hvoli í Mýrdal, stóð gamall bær uppi eða góður hluti hans og var notaður sem geymsla.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Það er ekki langt síðan ég kom inn í torfbæ en það var á safni. Líklega hef ég síðast komið inn í upprunalegan torfbæ að Glammastöðum í Svínadal í Borgarfirði, en hann stóð enn þá uppi kominn í eyði og illa farinn að hluta þegar ég var á Draghálsi 11-12 ára. Áður hafði ég margoft komið inn í torfbæ.Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Ég hef ævinlega verið heillaður af torfbæjum og torfhúsum, byggingarlaginu, þeim úrlausnum sem menn fundu við afskaplega fæð efna, aðferða og verkfæra. Ég sé þarna úrræðagetu, smekkvísi oft, gjörnýtni, og fullkomna nánd við móður Jörð.


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?

Um ágæti vísa ég til þess sem segir við síðustu spurningu hér ofar. Sjálfsagt var alger skortur loftræstingar versti ágalli torfbæjanna, og auk þess voru þau þröng og mjög lágreist, en það er galli jafnvel þótt fólkið hafi verið lægra í lofti fyrr á tíð.


Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Ég tel þau hafa mikið menningarsögulegt gildi. Í þeim bjó þjóðin um langt skeið, enda þótt burstabærinn, í beinni merkingu þess orðs, sé þróunarstig síðari alda. Og ég sé í þeim vitni um úrræðagetu, oft smekkvísi, gjörnýtni og fullkomna nánd við móður Jörð. Allt þetta getur skipt máli og hefur fræðslu- og uppeldisgildi, og auk þess eru þau auðvitað hluti þjóðarsögunnar.


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?

Eins og fram kemur í fyrri svörum tel ég það ótvírætt. Og ég tel þau mikilvæg og lærdómsrík.


Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?

Það sé ég ekki beinlínis, en ég veit að margt er notað til að kveikja tilfinningar...


Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Fræðimenn hafa bent á flest af því sem ég hef nefnt hér ofar. Ekki er vafi á því að margt í þessu má vel nýta í menningartengdri ferðaþjónustu. Athyglisvert gæti einnig verið að bera íslensku torfhúsin saman við sams konar hús á vesturströnd Skotlands og á Suðureyjum. Einn vandinn í þessu er sá að þegar Íslendingar fóru að rétta úr kútnum fylltust þeir fyrirlitningu á þessum húsum og skömmuðust sín fyrir þau, rifu þau niður og jöfnuðu þau við jörðu margvíða, og þess vegna standa aðeins fá enn uppi. Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Ég er ekki viss um að ég þekki þetta nógu vel til að geta svarað því. En ég endurtek að ég tel torfbæina geta haft mikið gildi í ferðaþjónustu.


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?

Kunnáttumenn geta reist mjög góða og stöðuga torfveggi, og kunnáttumenn um steinhleðslu ekki síður. Ef við gerum ráð fyrir nútímalegu innra byrði má vafalaust hugsa sér slík hús til margvíslegra nota. Almennt talað held ég að margir hafi fordóma gegn torfhúsum, telji þau til minnkunar, en þessu er ég alveg ósammála.


Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?

Varðveita þá alla ef unnt er yfirleitt, sbr. ofarritað.


Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

- Í þessu sé ég stofnanir á vegum ríkisins, sveitarfélaga og áhugamannasamtaka.Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?

Ég hef svo sem ekki kannað þetta, en tel að mismunandi fjárhagur manna hafi mestu valdið. Auðvitað báru þessi hús merki höfunda sinna, mannanna sem hlóðu veggi, lögðu þök og reistu innviðu, burstir og gafla.


Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?

Engin tvö hús eru eins í þessu, og veldur hver á hefur haldið. Eftirgerðirnar eru ólíkar að því leyti að þær eru ekki gerðar í skorti, þegar notast varð við hvað sem fyrir hendi varð.


Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Ég hef heyrt um slíka kunnáttumenn, en þekki þá ekki sjálfur.Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Það er eins með þau. Þau bera mikilvægu þróunarskeiði vitni og eru verð varðveislu, a.m.k. nokkur þeirra.Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Ég kann ekki skil á þessu.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana