LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiTorfhús
Ártal1963-2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurBustarfell I, Byggðasafn Skagfirðinga, Gröf, Hofskirkja í Öræfum, Keldur, Keldnabærinn, Laufásbær, Litlibær, Núpsstaður, Sunnuhlíð, Víðimýrarkirkja
ByggðaheitiEfribyggð, Fljótshverfi, Höfðahverfi, Höfðaströnd, Langholt, Rangárvellir, Skötufjörður, Vopnafjörður, Ytrihreppur, Öræfi
Sveitarfélag 1950Grýtubakkahreppur, Hofshreppur A-Skaft., Hofshreppur Skag., Hrunamannahreppur, Hörgslandshreppur, Rangárvallahreppur, Seyluhreppur, Vopnafjarðarhreppur, Ögurhreppur
Núv. sveitarfélagGrýtubakkahreppur, Hrunamannahreppur, Rangárþing ytra, Skaftárhreppur, Súðavíkurhreppur, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Skagafjörður, Vopnafjarðarhreppur
SýslaA-Skaftafellsýsla, Árnessýsla, N-Ísafjarðarsýsla, N-Múlasýsla, Rangárvallasýsla, Skagafjarðarsýsla, S-Þingeyjarsýsla, V-Skaftafellsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1963

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-162
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/14.6.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Rétt er að taka fram að satt að segja er ég ekki með skilgreininguna á torfbæ alveg á hreinu (ég veit ekki alveg hvað er „meira eða minna“)!   Ég ólst upp í Sunnuhlíð í Hrunamannahreppi, nýbýli frá Gröf. Foreldrar mínir fluttu úr Gröf skömmu áður en ég fæddist og amma og afi fluttu um svipað leyti í nýtt hús. Gamla húsið stóð alla mína barnæsku og var vinnuaðstaða afa og geymdi minjasafn hans (Minjasafn Emíls í Gröf). Kjallari var undir einni burst og þar var grænmetisforði vetrarins geymdur. Þarna var ég oft með afa, skoðaði gamla dótið, fylgdist með honum laga tól og tæki, auk þess sem maður var sendur hrollvekjandi ferðir í kjallarann að sækja kartöflur. Bærinn var níu burstir þegar mest var, þ.e. tvö íbúðarhús og útihús. Þegar ég man eftir mér voru burstirnar fimm og síðar þrjár.   Þetta var ekki torfbær en kannski frekar blönduð bygging. Á þakinu var bárujárn og þar yfir torf. Hlaðnir veggir úr grjóti sáust en veggir úr torfi, sem voru einhverjir er mér sagt, höfðu verið klæddir. Í kjallaranum var moldargólf. Gaflar burstanna voru klæddar bárujárni.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Ég veit ekki hve oft ég hef komið í torfhús (eða það sem ég held að teljist torfhús). Ég man í fljótu bragði eftir Víðimýri, Hofi í Öræfum, Núpstað, Gröf á Höfðaströnd, Keldum á Rangárvöllum, Litlabæ, Ósvör, Bustarfelli, Glaumbæ, Laufási. Ég er ekki viss um að ég hafi alls staðar komið inn. – Að Keldum kom ég fyrst fyrir mitt minni en þá varð fjölskyldan fyrir þeirri reynslu að vera lokuð inni. Umsjónarmaður áttaði sig ekki á því að fólk væri inni fyrir og lokaði bænum. Ég mun hafa orgað mjög ógurlega þannig að pabbi braut litla rúðu til að við kæmumst út. Mörgum árum síðar komu foreldrar mínir aftur og sáu þá að rúðan hafði enn ekki verið endurnýjuð. Þeim var sagt að þarna hefði auðvitað aldrei átt að vera rúða úr gleri!  Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Mín fyrsta hugsun þegar ég sá spurningaskrána var eiginlega að ég vissi ekki hvað væri torfhús! Hvað þarf mikið torf til að hús sé torfhús? Hvaða byggingarefni önnur mega vera? Mér finnst gaman að koma inn í litlu, gömlu torfhúsin en sum finnst mér nánast óþægilega dimm og þröng til að ég vilji vera þar lengi. Mér finnst áhugaverðara (og þægilegra) að koma inn í stærri bæi þar sem komið hefur verið fyrir munum af heimilum úr héraði.  


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?

Þau eru hluti af sögu okkar og fortíð. Mér dettur ekkert í hug sem gæti talist ómerkilegt við þau.


Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Það er mikilvægt að varðveita ekki aðeins glæsileg merki um fortíðina og lífið áður fyrr. Við þurfum merki um venjulega fólkið og venjulegu heimilin. Fyrir sjálfa mig hafði það ómetanlegt gildi að alast upp með gamalt hús við túnfótinn þó að það hafi varla talist torfhús. Ekki spillti að það var fullt af gömlum munum. Mér finnst eins og ég væri ekki alveg sama manneskjan án þessarar reynslu. Það að heimsækja svona hús getur aldrei gefið það sama en mér finnst minjar úr fortíðinni af þessu tagi hafa svo mikið menntunar- og fræðslugildi að ég á erfitt með að koma því í orð. Mér finnst það bara svo sjálfsagt.


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?

Ég held að fortíðin hljóti af hafa gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga og þar með minjar frá henni, hvort sem það eru torfhús eða annað.


Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?

Það get ég nú ekki séð fyrir mér og stjórnmálin hafa að mínum dómi tilhneigingu til að hafa það sem hentugra reynist úr fortíðinni, stundum á kostnað þess sannara.


Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Kannski má segja að þau hafi sama gildi og kastalar og hallir í útlöndum. Við eigum ekkert slíkt. Þetta er okkar saga sem við getum sýnt ferðamönnum. Torfhús dreifð um landið gefa stöðum aðdráttarafl og þar með atvinnutækifæri fyrir íbúana. Síðast þegar ég kom að Glaumbæ fannst mér til að mynda samspil safns og kaffihúss vel heppnað.Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Ég þekki það ekki nógu vel til að hafa almenna skoðun á því.


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?

Ég hef ekki svar við þessu.


Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?

Mér sýnist sem allmörg torfhús séu varðveitt. Það þarf að huga vel að því að þau séu víða, ég veit ekki alveg hvernig dreifingin er. Þar fyrir utan held ég að fjöldinn skipti ekki öllu máli heldur að vanda til varðveislunnar.


Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Ríkið. Mér finnst að þetta eigi að vera sameiginlegt verkefni okkar allra.Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?

Hér kemur enn og aftur að þessum vanda að ég veit ekki almennilega hvað er torfhús. Mér sýnist þó að elstu húsin séu þrengri og dimmari. Á þeim nýrri eru stærri gluggar og meiri timburklæðning innanhúss. Ég kann því vel, líklega af því að þannig var gamli bærinn heima! Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati? Ég veit ekki svarið við þessu, en svona almennt fæ ég ekki sömu tilfinningu að koma inn í eftirgerð húss og upprunalegt.  


Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?

Ég veit ekki svarið við þessu, en svona almennt fæ ég ekki sömu tilfinningu að koma inn í eftirgerð húss og upprunalegt.


Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Ég held að ég þekki einn núna, en hafi ekki þekkt neinn fyrir 25 árum. Þessi eini er reyndar á námskeiði og hugsanlega mun þeim einmitt fjölga vegna slíkrar kennslu.Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Þetta hefði nú verið gott að sjá fyrr! Ég held að svarið við þessu sé komið. Fyrir mig hafa slík hús mikið gildi og mér finnst mikilvægt að vernda dæmi um þau eins og annað.Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Því miður man ég ekki eftir neinu í augnablikinu.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana