LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiTorfhús
Ártal1954-2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurÁrbæjarsafn, Bustarfell I, Byggðasafn Skagfirðinga, Byggðasafnið á Skógum, Grenjaðarstaður, Laufásbær, Mánárbakki, Miðhúsasel, Möðrudalur
ByggðaheitiAðaldalur, Árbær, Fell, Hólsfjöll, Höfðahverfi, Langholt, Skógar, Tjörnes, Vopnafjörður
Sveitarfélag 1950Aðaldælahreppur , A-Eyjafjallahreppur, Fellahreppur N-Múl., Grýtubakkahreppur, Húsavík, Jökuldalshreppur, Reykjavík, Seyluhreppur, Tjörneshreppur, Vopnafjarðarhreppur
Núv. sveitarfélagAðaldælahreppur , Fljótsdalshérað, Grýtubakkahreppur, Norðurþing, Rangárþing eystra, Reykjavík, Sveitarfélagið Skagafjörður, Tjörneshreppur, Vopnafjarðarhreppur
SýslaGullbringusýsla, N-Múlasýsla, Rangárvallasýsla, Skagafjarðarsýsla, S-Þingeyjarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1954

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-163
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/14.6.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Það vill svo til að lítið gamalt torfhús fylgir húsinu sem ég ólst upp í á Húsavík og hefur því verið haldið við gegnum áratugina. En þar sem æskuheimili mitt er nú aðeins sumarhús í eigu okkar systra, þá er erfitt að halda því við vegna þess að við búum báðar í öðrum landshlutum. Safnahúsið treysti sér ekki til að taka við því vegna kostnaðar, þó vilji væri til þess hjá þeim. Við eigendur erum því enn að melta hvað við eigum að gera, en vitum að bæjarbúar vilja að húsinu verði haldið við, því það setur svip á svæðið sem það stendur á.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Við hjónin höfum oft farið í önnur torfhús gegnum árin, m.a. torfhús á Héraði sem tengdafaðir minn fæddist og ólst upp í (Miðhúsasel). Það hús var gert upp mjög myndarlega, þó það sjáist ekki að utanverðu og hefur verið notað sem gestahús á sumrin. Einnig er gaman að kíkja á önnur gömul hús, eins og Laufás, Grenjaðarstað, Burstarfell, Skógasafnið og Glaumbæ í Skagafirði auk Árbæjar í Rvk, en við kíktum þangað fyrir ca. 3 árum og kíkjum á hin húsin þegar leið liggur þar um.Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Ég hef alltaf verið bókaormur og lesið mikið af minningum fólks sem bjó í torfbæjum og auk þess heyrði ég frásagnir foreldra minna og annarra af lífinu í slíkum húsum. Ég hef oft verið þakklát fyrir að sleppa við þá upplifun og að fá að búa við upphituð hús og góða hreinlætisaðstöðu sem mér finnst hafa verið það versta við lífið í torfbæjum. Hinsvegar þegar við heimsóttum Óbyggðasafnið fyrir 2-3 árum og einnig Miðhúsasel, þá sér maður hvað þessi torfhús geta verið notaleg, ef hægt er að hita þau upp, lýsa þau með rafmagni og hafa rennandi vatn og WC....


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?

Ég veit ekki hvernig ég á að svara þessu, því mér finnst bara verstur skortur á hreinlætis aðstöðu og birtu og hlýju, en vel búin torfhús eru hlýleg og ekkert að því að dvelja þar.


Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Handbragðið, eins og klömbruhleðslur og grjóhleðslur og annað sem er einstakt við þær byggingar. Slík handverk meiga ekki glatast, auk þess sem það eru sögulegt og fróðlegt fyrir yngra fólk að sjá hvað forfeður okkur þurftu að búa við, við þurfum því ekki að kvarta.


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?

Mér finnst þau vera sönnun þess að Íslendingar kunnu og gátu þraukað hér á þessu kalda landi, þrátt fyrir hafís og mikil harðindaár inn á milli.


Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?

Ég treysti mér ekki til að meta hvort torfhús hafi eitthvað með stjórnmál að gera!


Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Ég er sannfærð um að margir erlendir ferðamenn og trúlega íslenskir líka, hafa gaman af og vilja gjarnan skoða gömul torfhús og kynna sér hvernig lifað var hér á landi fyrr á öldum.Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Ég er mjög ánægð með að öll þessi torfhús skuli enn fyrirfinnast hér á landi og vera nýtt, ekki síst í þági ferðamálanna.


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?

Því miður dettur mér engin góð hugmynd í hug varðandi þessa spurningu.


Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?

Mér finnst torfhúsin sem nú eru varðveitt, ekki mega vera færri, en geri mér ekki grein fyrir hvort þörf sé á fleiri húsum. Vafalaust mætti bæta við t.d. fyrir vestan, svo allir landshlutar hefðu slík hús til sýnis fyrir sína gesti. Ég þekki bara ekki nógu vel  til þar !


Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Mér finnst sjálfsagt að ríki og sveitarfélög skiptu kostnaði á milli sín, því öll eigum við sama rétt hvar sem við búum og greiðum gjöld okkar til ríkissjóðs, en sveitarfélög eru misstór og ráða misvel við svona verkefni og því nauðsynlegt að þau standi ekki ein að þessu. Mér finnst líka að munir sem fundist hafa í ákv. Landshlutum eigi að vera ÞAR til sýnis fyrir gesti þess landshluta, því ég veit að of mikið af gömlum hlutum eru í geymslum þjóðminjasafnsins, í stað þess að vera til sýnis á þeim stöðum sem þeir fundust á !!!Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?

Stóru burstabæirnir eru auðvitað fallegastir utanfrá séð. En gömlu bændabýlin eins og Miðhúsasel í Fellum, líta ekki vel út að utanverðu, þó það líti vel út að innanverðu. Hinsvegar má segja að sum endurgerð býli líti býsna vel út í nútímanum og mun betur en sjá má á gömlum myndum af slíkum „hokurbýlum.


Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?

Ég hef aðeins gamlar ljósmyndir til að styðjast við af gömlum torfhúsum og þau líta oft út eins og kofar, sem væru líklegri fyrir skepnur en fólk. En endurgerð hús, eins og t.d. á Jökuldalsheiðinni, líta nokkuð vel út og gaman að koma þar.


Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Það vill svo til að frændi mannsins míns vann í mörg ár við grjóthleðslur og endurgerð gamalla húsa, bæði á Héraði og á Seyðisfirði. Hann er tæplega 70 ára í dag og kann auðvitað enn þetta verklag. En hann vann með sér eldri mönnum sem eru látnir og það virðast því miður ekki neinir sem ég þekki, að taka við þeirra störfum. En vonandi helst þessi þekking meðal nógu margra Íslendinga, þó ég þekki það ekki lengur, því miður.Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Mér finnst sjálfsagt að einhver slík hús séu varðveitt, því við megum ekki alveg glata sögu fortíðar, þó nútíminn bjóði uppá það. Verst er áhugaleysið, sem virðist of algengt....Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Þetta verður ekki tæmandi upptalning, því ég er orðin gleymin og er vís með að gleyma ýmsu. En fyrst skal telja litla torfhúsið sem við systur eigum við Skálabrekku á Húsavík. Ég læt mynd fylgja með, þar sem gulmáluð framhlið kofans er auðséð til hægri á myndinni, næst húsinu okkar systra. Þessi kofi mun hafa verið byggður sem fjós eða fjárhús, því þar inni er steyptur flór og steinveggir upp að mitti á meðalmanni. Faðir minn notaði það lengst af sem veiðafærageymslu... Miðhúsasel í Fellum á Héraði er dæmi um gamalt býli sem gert var upp og notað sem gestahús fyrir þáverandi eiganda jarðarinnar. Það er hlaðið bæði úr grjóti og klömbruhleðslum. Tengdafaðir minn ... fæddist í Miðhúsaseli í Fellum, í gömlum torfbæ sem fékk að standa óhreyfður og síðasti íbúinn þar hélt bænum vel við á meðan hann var þar og heilsan leyfði. Við höfum gegnum áratugina skroppið þangað af og til og töldum s.l. sumar að nú væri bærinn að hruni kominn, því að búið var að strengja net yfir þakið, eins og sést á meðf. mynd. En þegar við brugðum okkur þangað s.l. sunnudag þá var eigandi jarðarinnar þar staddur og bauð okkur að líta inn í gamla bæinn. Það er einfalt að viðurkenna að andlitin duttu af okkur þegar inn var komið, því hann var þá búinn að endurgera allt húsið upp að innan, klæða það í hólf og gólf, leggja rafmagn fyrir ljós og hita og þessi fínheit sjást hreint ekki að utan, kannski sem betur fer. Það eina sem vantar er WC og vatn, að öðru leyti er þetta fínt gistihús, þótt ótrúlegt sé. Núverandi eigandi á engar rætur á þessum stað, þess vegna kemur það okkur ennþá meira á óvart hve mikla alúð hann hefur lagt í alla þessa vinnu á gamla bænum og gladdi það okkur ómælt. Á Mánárbakka á Tjörnesi byggði Aðalgeir eigandi jarðarinnar, skemmtilegt torfhús með 2 burstum sem hann notar sem safnahús og mjög gaman að heimsækja hann og skoða söfnin hans. Á Möðrudal á Fjöllum var byggt skemmtilegt gisti-og veitingahús sem er eins og gamall torfbær. Ég hef að vísu ekki skoðað hann nógu vel og get því lítið sagt um hann. En málið er að víða hafa verið byggðir svona litlir burstabæir eins og torfbæir, sem hýsa ýmsa þjónustu fyrir ferðafólk. Ég þekki bara ekki til þess, þó ég hafi séð þá á ferðum okkar, eins og t.d. í Eyjafirði, þar má sjá einn slíkan. Óbyggðasafnið í Fljótsdal er dæmi um fróðlegt og skemmtilegt safn sem allir ættu að heimsækja. Læt þessu hér með lokið og kveð að sinni.  


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana