LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiTorfhús
Ártal1943-1948
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurHáls
ByggðaheitiSkógarströnd
Sveitarfélag 1950Skógarstrandarhreppur
Núv. sveitarfélagDalabyggð
SýslaSnæfells- og Hnappadalssýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1936

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-84
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið12.8.2019/12.8.2019
TækniTölvupóstur

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Á stríðsárunum voru foreldrar hvattir til að koma börnum sínum til dvalar á sveitaheimilum vegna stríðshættu. Ég var send í sveit (ásamt systur minni, ári yngri) og við dvöldum í sex sumur á Hálsi á Skógarströnd, 1943-1948, þegar ég var 7-12 ára. Þar voru búskaparhættir fremur frumstæðir, jafnvel á þeirra tíma mælikvarða. Þótt íbúðarhúsið sjálft væri bárujárnsklætt timburhús voru ýmis önnur útihús á jörðinni torfhús: 1) Nokkra metra frá íbúðarhúsinu (sem var bárujárnsklætt timburhús) var gamalt torfhús með tveimur grasi grónum burstum. Sér inngangur var í hvort hús, annar að framan, en hinn á hlið. Veit ekki til hvers það var notað áður fyrr, en annað var alltaf kallað „gamla eldhúsið“ og notað til að sjóða slátur á hlóðum, geyma súrmat í tunnum og reykja kjöt.  Í hinu húsinu var jata eftir endilöngu húsinu (svo sennilega hefur það verið notað fyrir fé á sínum tíma), en á þessum tíma var þar geymdur dúnn úr eyjunum, sem fylgdu jörðinni. Þar var líka geymdur mór, því sjálft íbúðarhúsið var hitað upp með mó, sem settur var í eldavélina í eldhúsinu á neðri hæð.  2) Stutt frá íbúðarhúsinu var fjós úr torfi með básum fyrir 6 gripi. Það var ekki með burst. Í ranghala (úr torfi) inn í fjósið stóð stór trétunna sem í var safnað keitu, sem síðan var notuð við ullarþvott. Ullin var soðin í stórum svörtum potti úr pottjárni á hlóðum við þvottalækinn. Hrært var í pottinum með trépriki, sem líka var notað til að færa reifin úr honum yfir í þvottalækinn, þar sem þau voru skoluð. Að lokum var ullin breidd til þerris á grasbala við lækinn. 3) Köld kartöflugeymsla úr torfi (líka notuð til að geyma strokkað smjör og egg) var lengra frá íbúðarhúsinu og hlaðin upp við hól og kannski eitthvað inn í hann. Alla vega var hann grasi gróinn. 4) Þá var hesthúsið ennfremur úr torfi, en aðeins fyrir tvo til þrjá hesta. Það var byggt fast upp að hlöðunni, sem var úr timbri og bárujárni. 5) Enn fremur var lítið torfhús lengra frá íbúðarhúsinu, sem alltaf var kallað „hrútakofinn“. En á þessum tíma var það notað sem hænsnahús. 5) Að lokum eru ótaldar þrjár stórar tóftir úr torfi og grjóti, sem voru aftan við fjárhúsin, sem voru úr timbri en með þremur burstum. Innangengt var úr þessum þremur fjárhúsum úr jötunum í tóftirnar. Þegar tóftirnar voru fullar af heyi var tyrft yfir til að verja heyið fyrir veturinn. Heyið í tóftunum var fyrir sauðfé, en heyið í hlöðunni fyrir kýr og hross.   Við systur vorum viðstaddar mógröftinn og hleðslu hans í hrauka eftir þurrkun og líka þegar verið var að rista torf. Ekkert vatn var í íbúðarhúsinu, en það var sótt í brunn. Reyndar voru tveir brunnar á jörðinni, en aðeins annar notaður. Seinna var komin vatnsdæla inn í eldhúsið. Eldhúsið var á neðri hæð íbúðarhússins og inn af því var stórt búr, með einum skápi með hillum undir leirtau. Í búrinu var smjörið var strokkað í tréstrokki, skyr búið til og ostur (sem var ekkert ólíkur kotasælu). Áfirnar fórum við systur með í flöskum (í móróðum ullarsokkum sem voru hnýttir saman og bornir yfir axlirnar) á engjarnar til sláttumanna – og sumir fengu sýru við þorsta. Meðlætið var á diski, sem klúti var brugðið um og við héldum á í hendinni. Ekkert salerni var í íbúðarhúsinu á Hálsi fyrr löngu eftir að við vorum hættar að fara í sveit. Tvær baðstofur voru á efri hæð íbúðarhússins, í annarri sváfu konur og í hinni karlar. Rúmin voru meðfram veggjunum og í þeim þykkar fiðurundirsængur, sem maður sökk niður í og yfirsængur voru úr dúni. Á daginn var sængunum rúllað saman upp að vegg, ábreiður settar yfir, sem ýmist voru Álafossteppi eða salúnsvefnaðarteppi (í rauðum og svörtum lit) sem Sigurbjörg (yngri dóttirin á Hálsi) hafði ofið í Húsmæðraskólanum á Staðarfelli. Svo var setið á rúmunum á daginn. Tveir sváfu í hverju rúmi. Engir fataskápar voru í húsinu, en fatnaður geymdur í stórum trékistum í baðstofunum og átti hver sína kistu. Vinnufatnaður var ótrúlega stagbættur. Slegið var eingöngu með orfi og ljá í fyrstu, en Guðmundur á Dröngum, á næsta bæ, átti sláttuvél og sló eitthvað fyrir Háls, en að lokum dvalar okkar á Hálsi var komin sláttuvél, sem var dregin af hestum. Meðan við dvöldum á Hálsi upplifðum við að sjá fyrsta bíllinn aka um Skógarströndina (niður hálsinn fyrir ofan bæinn Háls). Í byrjun dvalar okkar var ekkert rafmagn á bænum, en vindmylla stóð á hlaðinu, sem dugði til ljósa. Sandur var sóttur í fjöruna. sem notað var til að hvítskúra timburgólfið í baðstofunum. Afi minn, sr. Jón N. Jóhannessen, hafði verið prestur áður á Breiðabólsstað (þarnæsti bær við Háls) og leysti stundum prestinn þar af meðan við vorum í sveitinni, en afi hafði valið Háls fyrir okkur systur til sumardvalar – vegna þess  hve heimilið þar var hreinlegt.   Afsakið að ég er komin langt út fyrir efnið – út og suður – við að rifja upp gömu dagana!   Þegar ég horfi til baka finnst mér það verðmæt upplifun, að hafa kynnst sveitalífinu eins og það var fram eftir 19. öldinni. Við systur vorum fluttar í sveitina með ferju frá Reykjavík upp í Borgarnes. Svo biðum við eftir rútu á Borg á Mýrum, sem flutti okkur í Stykkishólm. Þaðan fórum við með báti frá Stykkishólmi að Hálsi á Skógarströnd.   Á Hálsi bjuggu gömul hjón, Halldóra Kristjánsdóttir og Sigurður Ögmundsson, söðlasmiður, ásamt þremur fullorðum börnum þeirra, Guðfinnu, Kristjáni og Sigurbjörgu (öll ógift), en þau  sáu um búskapinn. Kristján átti grammafón, sem alltaf var notaður til að leika dansmúsik á böllunum í samkomuhúsinu á Dröngum (næsta bæ).   Við systur dvöldum við mikla umhyggju hjá þessu ágæta fólki og vorum ekki látnar vinna um of, eins og mörg frændsystkini okkar upplifðu, sem voru sannarlega látin þræla. Minningar okkar systra frá Hálsi eru okkur ljúfar.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.
Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?
Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Torfhúsin eru mikilvægur menningararfur. Svona bjó þjóðin í mörg hundruð ár í landi þar sem enginn skógur var eða timbur til húsagerðar. Þau voru séríslensk og voru hlý og ég held að baðstofur sem voru yfir fjósinu á mörgum bæjum hafi fleytt þjóðinni í gegnum kulda og harðindi – ásamt ullinni. Torfhúsin hafa því mikið varðveislugildi, því þau sýna hvernig þjóðin lifði af. Þessi húsagerð er einstök og það á varðveita þetta handverk til upplýsingar fyrir komandi kynslóðir – Íslendinga og ferðamanna.


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?
Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?
Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?
Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?
Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?
Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?
Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?
Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana