LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiTorfhús
Ártal1932-2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurSkógsmúli, Ytri-Þorsteinsstaðir
ByggðaheitiHaukadalur, Þverdalur
Sveitarfélag 1950Haukadalshreppur, Miðdalahreppur
Núv. sveitarfélagDalabyggð
SýslaDalasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1932

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-164
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/25.6.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Ég ólst upp í torfbæ til 5 ára aldurs. Bærinn hét Skógsmúli og var fram á Þverdal um klukkutíma gang frá bænum Köldukinn í Haukadalshreppi í Dalasýslu. Samt tilheyrði bærinn Miðdalahreppi. Ástæðan mun vera sú að beitarlandið hafði á miðöldum verið í eigu kirkju sem þá var í Þykkvaskógi (Stóra-Skógi) í Miðdölum og leifar þess ítaks virðast hafa haldist með þessum hætti. Hér mun upphaflega hafa verið selstaða en frá 1831 tók fólk að búa þar öðru hverju allan ársins hring og samfellt á árunum 1893-1937. Þangað hefur aldrei komið bílvegur. Foreldrar mínir voru seinustu ábúendur frá 1925-1937. Ég man sáralítið eftir veru minni í þessum bæ, sem var fremur lítill, en þó er minnisstætt hversu hlýtt og notalegt þar var. Ég man eftir viðarklæddri baðstofu með nokkrum rúmum, stofu og kokkhúsi þar sem bæði var eldavél og hlóðir. Ég man líka að vatnsleiðsla var komin í eldhúsið. Innangengt var í fjósið eftir gangi sem kallaðist rangali. Þar var oft bleyta á gólfinu. Ég man ekki eftir öðrum útihúsum, nema hvað ein jatan í fjárhúsunum var steypt og við enda hennar baðkar þar sem kindurnar voru baðaðar gegn fjárkláða einu sinni á vetri. Við fluttumst 1937 að Þorbergsstöðum í Laxárdalshreppi í eitt stærsta timburhús í sýslunni, reist 1904. Þar var miklu kaldara. Einangrunin mun hafa verið orðin uppþornuð og miðstöðin léleg sem afi minn og amma eða börn þeirra höfðu látið leggja í húsið. Útihúsin, fjós, fjárhús, hesthús og hlöður voru hinsvegar úr torfi og timbri með bárujárni á þaki. Líkt var að segja um hænsnakofa og brunnhús. Ég kom oft sem krakki á torfbæi í nágrenninu ef ég var sendur einhverra erinda. Flest húsin munu reyndar hafa verið orðin einskonar blendingar af torf- og timburhúsum. Oftast kom ég að Ytri-Þorsteinsstöðum í Haukadalshreppi því þar var vinafólk og leikfélagar. Þar var enn algjör torfbær, og þar var mjög notalegt inni. Ég veit að helsti gallinn við torfhúsin var rakinn í regntíð og þegar snjór lá á þekju, en ég upplifði það ekki sjálfur. Hreinlætisaðstaðan var einnig bágborin, en það átti líka við um fyrstu timburhúsin.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Ég mun snemma hafa smitast af því viðhorfi að torfhús væru moldarkofar sem helst ætti að losna við. Mér er minnisstætt þegar ég byrjaði sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn, aðallega þýska, kringum 1965, hversu ósáttur ég var við ásókn þeirra í að taka myndir af torfbæjum. Ég man til dæmis eftir bænum Laug rétt við Geysi. Mér fannst þeir ættu frekar að taka myndir af nútíma íbúðarhúsum, torfbæir væru menjar um gamla fátækt. Þetta sjónarmið tók varla að breytast fyrr en ég fór að vinna á Þjóðminjasafninu og Hörður Ágústsson byrjaði að opna augu okkar fyrir hinni sérstöku snilld sem fólgin er í gerð íslenskra torfbæja. Smám saman meðtók ég og féllst á sjónarmið Harðar og seinna Hjörleifs Stefánssonar og fleiri arkitekta. Ég efast um að ég hafi margt annað til málanna að leggja. Merkilegust er sú hagnýta útsjón sem birtist í notfæra sér það sem hendi var næst í fremur notarýru umhverfi fyrir byggingar. Og sú verkkunnáta virðist hafa verið nokkuð almenn þótt ugglaust hafi menn þá sem nú fæðst með misjafnt verksvit og sumir hjálpað nágrönnum. Sögulegt og pólitískt gildi felst einkum í sönnun þess að mannskepnan getur yfirleitt bjargað sér sjálf hvað sem  þeir besservisserar segja sem vilja hagnast á utanaðkomandi aðstoð. Þetta tengist því að Íslendingar virðast heilan þriðjung sögu sinnar hafa getað búið án erlendrar forsjár við öllu skárri lífskjör en alþýðustéttir annarra Evrópulanda, einmitt vegna þess að þeir bjuggu án skattkrefjandi konungsvalds og höfðu á þeim tíma heldur minna af fjárfrekum yfirstéttum að segja en flestar aðrar Evrópuþjóðir sem urðu að þola hatrama bændaánauð lénsveldis. Þessi vottur af frjálsræði birtist einna áþreifanlegast í því að Íslendingar skópu eigin bókmenntir á eigin tungumáli en ekki hinu alþjóðlega máli evrópskrar yfirstéttar.


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?
Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.
Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?
Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?
Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Auðvitað mæti reyna að fræða ferðamenn um ofangreind atriði, þótt skilningurinn yrði sjálfsagt ekki mikill nema hjá örfáum. Mín reynsla sem leiðsögumaður er sú að innanum ferðahópa leynist oft fólk sem er ekki einungis fróðleiksfúst á yfirborðinu og lætur sér nægja að segja ‚we‘ve done it‘, heldur hugsar dýpra og víðara. Hætt er hinsvegar við að hin markaðsrekna ferðaþjónusta hafi lítinn hug á að sinna slíku fólki. Það væri þarft verk að hressa við einhver af þeim fáu torfhúsum sem enn eru ekki of illa farin, helst í hverju byggðarlagi. Og hætta að kalla þetta ‚moldarkofa‘ í heimskulegu yfirlæti. Til þess þarf að leggja á löngu tímabæran komuskatt, sem ferðamanninn munar sáralítið um, hvort sem hann er erlendur eða íslenskur, og nýta hann í samgöngubætur, aðstöðubætur á áningarstöðum og viðhald menningarminja eins og torfhúsa. Eftirgerðir torfhúsa verður samt að gera af nákvæmri kunnáttu og gera greinarmun á híbýlum ríkra og fátækra. Æskilegast væri ef unnt reyndist að endurgera ýmsar gerðir torfhúsa og blendingshúsa sem voru breytilegar frá einni öld til annarrar, allar götur frá miðöldum til upphafs 20. aldar.


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?
Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?
Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?
Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?
Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana