LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiTorfhús
Ártal1953-2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurÁs, Bustarfell I
ByggðaheitiVatnsdalur, Vopnafjörður
Sveitarfélag 1950Áshreppur, Vopnafjarðarhreppur
Núv. sveitarfélagHúnavatnshreppur, Vopnafjarðarhreppur
SýslaA-Húnavatnssýsla, N-Múlasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1945

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-166
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/1.8.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Ég var í sveit í annað sinn í Ási, Vatnsdal sumarið 1953 og þar stóð "Gamli bærinn" með allri sinni pragt, algjörlega heill og mér þótti hann bæði merkilegur og mikið til hans koma. Mér fannst þetta mjög stæðileg bygging. Ég fór oft þangað inn, ekki síst vegna þess að í einn hluta hans sótti mjög gjarnan heimalningurinn sem ég sá um að gefa á pela. Bærinn stóð opinn á sumrin, eins og svo algengt var til sveita þá og lambinu fannst greinilega gott að vera þar. Ef það svaraði ekki kalli mínu þá fór ég inn að leita að því. Fyrir aftan og bæði áfast og innangengt var reykhús sem enn var í notkun, reykt var með taði. Baðstofan var alveg óbreytt frá því áður en nýi bærinn var tekinn í notkun svona um 1950. En svo kom ég í Vatnsdalinn sem fullorðinn maður og þá var gamli bærinn bara algjörlega horfinn. Húsfreyjan, hún Silla, hafði víst knúð á það í mörg ár að hann yrði rifinn, að sögn vegna þess að þar hafði hún orðið vitni að of mörgum slæmum veikndum af smiti, t.d. taugaveiki. Mér varð brugðið og mér þótti þetta veruleg mistök. Aðrir af yngri kynslóðinni hafa bent á að það fólk sem áður bjó í torfbæjum hafi fundið til skammar yfir fortíð sinni og að það sé ástæða þess að torfbæir, bæði í Ási og annars staðar, voru rifnir þó þeir hafi þá verið ansi heillegir.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Utan ofannefnds tímabils hef ég kannski komið í torfhús svona 5-7 sinnum og alltaf haft gaman að. Ég kom seinast í torfbæ, nánar tiltekið Burstafell í Vopnafirði, árið 2010. Pabbi minn stundaði af og til laxveiðar og við fórum þangað austur sennilega árið 1969, hann til þess að veiða og ég flaut með. Okkur var boðið í máltíð hjá hjónunum að Burstafelli og mér er sú upplifun minnisstæð, en þá var búið í torfbænum enda var ekki annað íbúðarhús þá á jörðinni. Við hjónin vorum í ferð um landið og litum inn á safnið að Burstafelli. Það var gaman að sjá að húsinu er bráðvel viðhaldið. Auk þess hef ég skoðað eitt eða tvö torfhús, ekki íbúðarhús, að utan síðan þá.Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Mér finnst stundum að ég líti á torfhús með öðrum augum en sumir/margir jafnaldrar mínir. Mér finnst ég mögulega vera jákvæðari gagnkvart húsunum, þó ég geri mér grein fyrir að mér kunni að skjátlast. Ég er kannski gjarnari á að finna til meiri tilfinninga gagnvart fortíðinni en aðrir hafa þá afstöðu að þetta sé "búið", horfið í tímanna sjó - ég hallast frekar í að halda í áþreifanlega hluti sem kveikja á minningum og skilning þar sem eigin reynslu skortir til minningasköpunar. Mér finnst þess vert að leggja á sig svolítið erfiði og óþægindi (kostnað líka) til þess að halda í "kveikjur" á minningum/skilningi þegar maður sér slíkt. Ég á líka enn ýmsa hluti úr fortíð minni sem margur hefði fleygt fyrir löngu. Ó, og ég er byggingaverkfræðingur.


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?

Merkilegast, þjóðin bjó í þessum vistaverum og varði búpening sinn þar fyrir veðrum í margar aldir. Við byggingu þeirra var sem mest notast við efni sem fyrirfannst í næsta nágrenni, hitt þurfti fólk að leggja á sig talsvert erfiði við að afla. Er ekki þess virði að vernda vitundina um hvernig lífið var ? Á ungt fólk bara að komast að þessu af slysni ef það skyldi ramba á myndir og lýsingar á Netinu ? Það hlýtur eitthvað að vera merkilegra en Facebook.

Ómerkilegast, mér dettur eiginlega ekkert sérstakt þess virði að nefna það í hug. Nema ef það væri að hér lifðu Jón og Gunna, ósköp venjulegt fólk sem lifði sínu lífi með erfiði, ætlaðist raunverulega til einskis og á okkar mælikvarða gerði engar kröfur. Þau eignuðust sína krakka, hörmulega mörg þeirra komust ekki á legg en þau sem lifðu af eignuðust hins vegar marga niðja sem sumir eru framáfólk á Íslandi í dag. Það fólk býr á Arnarnesi og víðar í stórum flottum húsum með sjónvarp og tölvu í öllum herbergjum nema baðherbergjum og klósettum. Þau aka um í stórum bílum og sagt er um þau að "þau eiga sko nógan pening". Ef flugi seinkar á leiðinni í fimmtu utanlandsferðina á árinu verða þau hálfbrjáluð af vonbrigðum. Þau vita ekkert um líf forfeðgina sinna Jóns og Gunnu.


Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Sjá að ofan


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?

Þegar ég var krakki og maður teiknaði hús, einkanlega í sveit þá var það undantekningarlaust burstabær þar sem reyk lagði úr strompinum. Ég veit ekki hvort nokkrir krakkar gera slíkt nú og það er sennilega skiljanlegt. Mig grunar að það sé komið nærri því að burstabærinn sé máður út í hug þjóðarinnar. Ég gekk í Menntaskólann að Laugarvatni og mér fannst burstastíll Héraðskólabyggingarinnar vera ósköp viðkunnanlegur, og ég held að ég hafi alls ekki verið einn um það. En ég er af "gömlu kynslóðinni". Hins vegar mundi ég benda fólki sem veltir þessum hlutum fyrir sér að torfbæir voru nokkurn veginn eina byggingarlagið til sveita í landinu, og landið var næsta eingöngu sveit hér áður fyrr, Miðað við aðrar Evrópskar þjóðir eigum sáralítið af gömlum byggingum og/eða öðrum mannvirkjum. Aðrar þjóðir leggja mikið upp úr því að hlúa að slíkum arfi, er slíkt óþarfi á Íslandi ?


Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?

Hmmmm, Veit ekki. Kannski eingöngu sem bitbein um fjármögnun og svo seinna meir sem einhvers konar þjóðernisbull í atkvæðaveiðaskyni. Kannski er ég líka tortrygginn ofan á allt hitt.


Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Þeir sem hafa tölur yfir fjölda gesta í þau fáu torfhús sem kynnt eru og fólk hefur greiða aðgang að geta betur svarað þessu en ég. Hins vegar hefði ég haldið að ferðafólk, innlent og erlent, mundi hafa talsverðan áhuga á að nýta tækifæri til þess að kynna sér gott/góð torfhús a.m.k. einu sinni.Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Ætli það sé ekki of lítið/takmarkað - þekki sennilega ekki nógu vel inn á þá hlið.


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?

Nú er ég sennilega ekki rétti aðili til þess að svara þessu - fólk tengt sagnfræðum, ferðaþjónustu o.s.frv. mundi standa mun betur að vígi en ég.


Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?

Óneitanlega fleiri, af öllu tagi og á sem flestum stöðum og dreift um landið. Hins vegar er spurningin hver fjármagnar slíkt, viðhaldsþörf er ekki sinnt kostnaðarlaust. Kirfileg skráning er það alminnsta.


Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Ó, já ég sá þetta fyrir að ofan. Ég held óhjákvæmilegt að hið opinbera þurfi að taka ríflegan þátt í öllum verkefnum varðandi varðveitingu torfhúsa, en hversu mikið og hvernig því yrði háttað er nokkuð sem ég hef ekki nógu gott vit á.Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?

Hér er ég á gati.


Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?

Og hér líka


Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Nei, ég þekki engan en ég held að það sé ekki óhugsandi að það megi læra mikið með því að rannsaka vel hús sem fyrirfinnast - þá er mikið hægt að einfaldlega apa eftir.Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Það er ekki síður ástæða til þess að varðveita slíkt en bragga úr síðustu heimsstyrjöld, þau sýna þróunina bæði í byggingalist og líka hvað síðar bauðst af byggingarefnum og aukningu velmegunar.Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Ég er skammarlega fáfróður, en sjá að ofan. Móðir mín fæddist í torfbæ í Vatnsdal, hann var rifinn fyrir mörgum árum, jafnaður við jörðu. Frænka mín bjó á bæ í Vatnsdal þar sem voru torfhús þangað til um 1980, það er lítið sem ekkert eftir af þeim.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana