LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiTorfhús
Ártal2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurGiljur, Hlíð, Hrútafell 1 og 2, Núpakot, Rauðafell 3, Skógar
ByggðaheitiFlói, Mýrdalur, Undir Eyjafjöllum
Sveitarfélag 1950A-Eyjafjallahreppur, Gaulverjabæjarhreppur, Hvammshreppur V-Skaft.
Núv. sveitarfélagFlóahreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra
SýslaÁrnessýsla, Rangárvallasýsla, V-Skaftafellsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1955

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-168
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/3.8.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Þekki ekki til torfhúsa af eigin raun.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Ég hef komið nokkrum sinnum í ,,"Íslenska bæinn" í Meðalholtum í Flóa. Þrjú ár síðan ég kom þar síðast.Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Menningarminjar sem fóstruðu þjóðina í gegnum aldirnar. Dapurlegt hve miklu af torfbæjunum hefur verið rústað, umhugsunarlaust. Hugsunin er jákvæð gagnvart torfhúsum. Byggingarsaga okkar er bundin í torfhúsum, það er sú saga sem við höfum til að sýna ferðamönnum og okkur sjálfum. Þess vegna mikilvægt að reyna halda upp á það sem þó er enn til.


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?

Þetta var það byggingarefni sem stóð til boða, snidda og grjót og timbur að hluta til. Menn björguðu sér með það þegar ekki var annað að hafa. Það er ekkert ómerkilegt við torfhús að mínu áliti.


Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Að sýna fram á að þetta var sá efnivður sem í boði var. Þau eru hluti af okkar sjálfsmynd. Við höfum ekkert annað að sýna. Menntunar- og fræðslugildið er að sýna kynslóðunum hvernig forfeður okkar komust af í ísaköldu landi í þessum húsum sem hafa nú ekki alltaf verið vistleg, saggafull og dimm. Og sýna fram á hversu stutt er síðan að flutt var úr torfbæjunum. Hvað þessar breytingar skeðu á ótrúlega skömmum tíma.


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?

Já, þar liggur sjálfsmyndin og við eigum ekki að skammast okkar fyrir söguna. Heldur að vera stolt af því hvernig forfeður okkar björguðu sér með það byggingarefni sem til var hverju sinni. Byggingarefnið, torf og grjót er forgengilegt, þess vegna er svo mikilvægt að bjarga því sem bjargað verður meðan eitthvað stendur uppi.


Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?

Það sem mér dettur helst til hugar er að þeir sem yfir fjármagni hafa að ráða átti sig á menningarsögulegu gildi torfhúsa og það þurfi að bjarga þeim núna. Eftir einhverja tugi ára gæti það verið of seint. Svo það er peningalega hliðin sem snýr að stjórnmálunum.


Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Þeir sem sækja okkur heim eru margir hverjir forvitnir um söguna og eru kannski hissa hversu litla byggingarlist við eigum. En torfhúsin eru það sem við eigum, það er það sem við getum sýnt og við eigum bara að vera stolt af því.Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Ég þekki það ekki svo vel. Veit þó að Skógasafnið er með á sínum snærum nokkur torfhús ( þökk sé Þórði í Skógum) og veit ekki betur en ferðamenn kunni vel að meta að geta gengið þar um og skoðað menjar okkar.


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?

Sjálfsagt væri hægt að nýta þau betur. Ég reikna með að það þætti kósý að nýta þau sem kaffi/veitingarhús. En þá kemur sjálfsagt til kasta Heilbrigðiseftirlitsins. Torfhúsin eru víða hluti af safnkosti og væntanlega er rekstrargrundvöllurinn erfiður. Svo aftur kemur að peningahliðinni að menn hafi skilning á mikilvægi þess að halda við sögunni, því hún verður ekki afturtekin ef hún glatast.


Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?

Reyndin er sú að mest af torfhúsum til sveita hafa verið jöfnuð við jörðu.Það er þó misjafnt eftir héruðum. Svo ég held að þessi ríka þjóð ætti að hafa döngun í sér og reyna að halda í það sem eftir er. Gömul, vel upp gerð bæjarhús eru til sóma, hverrar gerðar sem þau eru.


Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Ég held að böndin berist að opinberum aðilum og þá fyrst og fremst Ríkinu. Ég spái ekki vel fyrir sveitarfélögunum í því verkefni, í það minnsta ekki eins og sveitarfélögin eru í dag, þ.e. allur þessi fjöldi sveitarfélaga. Ég myndi ekki treysta á þau.Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?

Þetta þekki ég ekki nógu vel til að svara.


Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?

Já, ég tel mig sjá mun á eftirgerð og gömlu torfhúsunum, en samt finnst mér virðingarvert að reynt sé að halda í söguna þó um eftirgerð sé að ræða.


Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Nei, ég þekki engan.. Og það er kannski áhyggjuefnið hvað þessi þekking er algjörlega á hverfanda hveli.Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Þau eru hluti af byggingarsögunni, þróun sem varð í byggingarefnum á 20. öldinni. Já þessi hús hafa gildi þau sýna breytinguna sem varð í efnisvali og hvernig menn nýttu það.Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Hlíð, A-Eyjafjöllum, þar eru steyptar burstir með torfþökum.
Núpakot, A-Eyjafjöllum, þar eru fimm burstir með torfi, hleðsla í þili og einnig timbur í þili.
Hrútafell, A-Eyjafjöllum, þar er torfhús norðan vegar með timburþili.
Skarðshlíð, A-Eyjafjöllum, þar er torfhús upp í hlíðinni.
Rauðafell III A-Eyjafjöllum, þar eru burstir með torfi og steyptum stöfnum.
Raufarfell II A-Eyjafjöllum, þar eru torfhús.
Giljur í Mýrdal, þar er torfhús með tréþili.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana