LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiTorfhús
Ártal1980-2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurAtlastaðir, Byggðasafn Skagfirðinga, Háls, Laufásbær, Sænautasel, Uppsalir, Urðir
ByggðaheitiHöfðahverfi, Jökuldalur, Langholt, Svarfaðardalur
Sveitarfélag 1950Grýtubakkahreppur, Jökuldalshreppur, Seyluhreppur, Svarfaðardalshreppur
Núv. sveitarfélagDalvíkurbyggð, Fljótsdalshérað, Grýtubakkahreppur, Sveitarfélagið Skagafjörður
SýslaEyjafjarðarsýsla, N-Múlasýsla, Skagafjarðarsýsla, S-Þingeyjarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1963

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-172
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/8.8.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Norðan við bæinn Háls í Svarfaðardal stóð gamalt torffjárhús sem var að hruni komið þegar ég var barn (um 1970). Afi minn og amma bjuggu þarna og við heimsóttum þau oft. Okkur var bannað að fara inn í fjárhúsið, því húsið þótti hættulegt, en lékum okkur þá mest í kring og ofan á því. Nokkrum árum seinna var búið að jafna það við jörð og afmá ummerki.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

10-15 sinnum. Kom síðast í torfbæinn í Laufási við Eyjafjörð.Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Torfhús standa fyrir gamla menningu sem ríkti á Íslandi. Fyrsta hugsun eru gamlir glæsilegir torfbæir eins og Laufás í Eyjafirði og Glaumbær í Skagafirði. Einnig gamalt fjárhús hér í nágrenni okkar, við Atlastaði í Svarfaðardal. Þessi hugsun er afskaplega jákvæð, torfhús eru hluti af byggingasögu okkar og við eigum að minnast hennar með stolti.


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?

Merkilegast fyrir nútímamanninn er að sjálfsögðu þessi natni við að nota efni sem til voru. Grjót og torf var oft nálægt og menn spöruðu sér greinilega timbur, sem líklega var bæði erfitt að fá og dýrt í ofanálag. Auðvitað voru mörg torfhús ekki merkileg, gerð af miklum vanefnum og góðir smiðir ekki alltaf við höndina, því varð útkoman ekki glæsileg. Annað neikvætt við torfhús var myrkrið: gler var ekki auðvelt að fá og því mikið myrkur í þessum húsum. Einnig var loftun ekki upp á það besta og ég man eftir því að hafa heyrt um mikla saggalykt af fólki sem lifði í þeim.


Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Hér er um ákveðnar byggingaraðferðir að ræða sem voru að sumu leyti einstakar fyrir Ísland. Menn urðu að bjarga sér með efni sem fyrir var, grjót, torf, rekavið o.fl. Það er mikilvægt að fólk viti hvað þurfti til og hvernig þetta var gert. Oft var og er talað um torfbæi með lítilsvirðingu en að sjálfsögðu voru oft frábærir handverksmenn sem byggðu þá. Þetta má ekki gleymast og einmitt núna er svo mikilvægt að læra af sögunni því menn eru að átta sig á því að það er ekki sama hvernig maður byggir hús og úr hvaða efnum. Nátturuleg efni eru aftur að koma inn í byggingum eftir áratuga notkun plasts og gerviefna og þess vegna enn mikilvægara að læra af sögunni.


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?

Þegar maður talaði við eldra fólk hér áður fyrr var tilfinningin eins og það skammaðist sín fyrir að hafa búið í torfhúsi. Hús nútímans voru glæsilegri, bjartari, litskrúðugri, hlýrri og þurrari. Yngra fólkið var ekki betra, talaði torfhús niður eins og það hafi einungis verið fátæklingar og aumingjar sem bjuggu í þeim. Eftir því sem árin liðu finnst mér skoðanirnar hafa mildast og fólk sé tilbúið í dag að skoða þessa byggingarmenningu fordómalaust. Þar hjálpar til aukin vitund um umhverfisvernd og náttúrulegri byggingarmáta. Manneskjan virðist ganga í gegnum tímabil þar sem allt það gamla var vonlaust og lélegt og allt það nýja frábært. Þegar reynslan kennir okkur að fínu gerviefnin voru ekki eins frábær og við héldum, leitum við aftur til náttúrunnar. Íslendingar hafa því fulla ástæðu til að vera stoltir af þessari byggingasögu.


Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?

Torfhús minna okkur á að við verðum að líta meira til náttúrunnar þegar við byggjum hús. Sú stefna nær ekki til stjórnmálamanna ef við strikum alltaf út sögu okkar því okkur fannst sagan svo vesældarleg. Torfhúsin eru sá grunnur sem við ættum að byggja á og sem betur fer eru hönnuðir nútímans að grípa þessa hugmynd og hanna hús út frá gömlum aðferðum (torf- og grjóthleðslur kringum eða við hús, grasþök o.fl) Þetta síast smám saman inn í stjórnmálin og opinberar byggingar bera þá meiri keim af þessum byggingarstíl en áður var.


Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Þessi byggingarsaga er að mörgu leyti einstök. Bæði er því hægt að sýna ferðamönnum gömul torfhús, sem er vel viðhaldið, til að kynna byggingarsögu og -menningu og hvernig fólk lifði. Nýbyggð torfhús í gömlum stíl gætu hentað vel sem gistihús því það hlýtur að vera upplifun að hafa sofið í ekta íslenskum torfbæ. Sérstakt útlit torfhúsa grípur einnig augað og gefur ferðinni aukið gildi.Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Þar verð ég að lýsa fávisku minni en mér finnst vel að verki staðið í Laufási, Glaumbæ og Sænautaseli.


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?

Ég man eftir að hafa séð gamlar myndir af torfbænum að Urðum í Svarfaðardal. Þetta var fallegt hús en var rifið upp úr 1980. Fjölskyldan hafði byggt stórt og myndarlegt steinhús og flutti úr gamla bænum. Ég spurði fólkið á bænum hvað hafi valdið því að þau rifu gamla bæinn. Það sagði að fyrst hafi verið hugmyndin að halda honum við en kostnaðurinn óx því í augum og lítið um styrki á þeim árum og því fór sem fór. Það er því mikilvægt að skrá öll torfhús og athuga síðan hvað eigendur þeirra ætla sér með þau. Það ætti hiklaust að vera hægt að sækja um styrki við endurgerð og viðhald slíkra húsa, sérstaklega ef fólk hefur húsin opin fyrir almenning til að skoða, gista í, stunda veitingarekstur eða því um líkt. Þetta er þó ekki eins einfalt og það sýnist, að Atlastöðum í Svarfaðardal hefur gamalt torffjárhús verið gert upp, með styrkjum að ég held. Nú hefur þetta land verið selt ferðaþjónustufyrirtæki sem selur ferðir fyrir ríka ferðamenn. Ekki er enn vitað hvort það muni loka fyrir aðgang annarra en sinna viðskiptavina að þessu torfhúsi.


Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?

Torfhús sem hefur gildi fyrir fólk í landinu eða ferðamenn, á hiklaust að varðveita. Torfhús , sem hefur ekki bygingarsögulegt gildi og eigandi hefur engan hug á að sýna húsið öðrum, getur ekki fengið styrki til viðhalds eða uppbyggingar. Aðgengi er því lykilatriði, hús sem stendur bakatil engum til gleði eða gagns verður því miður að grotna niður. Þess vegna á að varðveita fleiri ef ofannefnd atriði eru höfð í fyrirrúmi.


Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Þarna ættu sveitarfélög og ríki í sameiningu að sinna þessu verkefni. Áðurnefnt dæmi um Atlastaði í Svarfaðardal er þó mikilvægt: í lögum þarf að vera skýrt að aðgengi fólks í landinu sé áfram tryggt þótt hús skipti um eigendur.Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?

Mér finnst notkun timburs og glers aukast þeim mun yngri sem húsin eru.


Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?

Erfitt að segja, torfhús hafa örugglega verið misjöfn að gæðum í gegnum tíðina. Það er oft erfitt að finna sama efni og var notað áður , t.d. gler.


Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Já, hér í Svarfaðardal eru nokkrir. Ég hef ekki tilfinningu fyrir stöðunni fyrir 25 árum en finnst einhvernveginn ástandið vera að skána aftur. Í dag er vakning fyrir notkun grjót- og torfhleðsla og ástandið gæti því batnað áfram.Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Þessi hús hafa sama menningarsögulega gildi og þau eldri. Einhverntímann verða þessi hús einnig ævagömul. Við lærum af sögunni og þess vegna verður að varðveita hvernig þróunin varð.Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Fjárhús við Atlastaði í Svarfaðardal, torfhús við bæinn Uppsali í Svarfaðardal, Sænautasel á Jökuldalsheiði, önnur hús eru öll í húsasafni Þjóminjasafnsins.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana