LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLoftslagsbreytingar
Ártal2019
Spurningaskrá125 Loftslagsbreytingar og framtíðin

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2018-1-122
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.10.2018/14.2.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Almennt

Hvað tengir þú helst við loftslagsbreytingar af mannavöldum? Hér getur þú látið hugann reika.

Ég tengi loftslagsbreytingar við ýmislegt tengt okkar daglega lífstíl, þar á meðal: bifreiðar, umferðateppur, bensínstöðvar, verksmiðjuframleiðslu af ýmsu tagi, álframleiðslu. Einnig tengi ég loftslagsbreytingar við neysluhyggju, græðgi, fáfræði og spillingu.Kafli 2 af 8 - Eigin upplifun

Loftslagsbreytingar eru hnattrænar en hækkað hitastig á jörðinni getur einnig haft miklar staðbundnar afleiðingar. Hefur þú upplifað einhverjar afleiðingar af loftslagsbreytingunum? Hvaða afleiðingar, hvar og hvernig? Hafa loftslagsbreytingar haft áhrif á líf þitt? Á hvaða hátt?

Bein áhrif loftslagsbreytinga sem ég tel mig hafa upplifað, upp að þessum punkti í mínu lífi, felast einna helst í breyttu veðurfari: mildari vetur ásamt öfgafyllra veðurfari. Hopandi jöklar er klárlega eitthvað sem ég hef orðið var við. Hugsanlega aukin fjölbreytileiki skordýrategunda og gróðurtegunda. Loftslagsáhrif hafa mikil áhrif á mína persónulega vellíðan, en ég upplifi oft á tíðum miklar áhyggjur, kvíða og vanmátt af völdum sinnuleysis okkar heimsbyggðarinnar gagnvart þessum vanda, og þeim mikla skaða sem lifnaðarhættir okkar valda vistkerfum jarðar. Ég hugsa oft um ábyrgð mína gagnvart þessum mikla vanda og ábyrgð mína gagnvart lífinu á jörðinni. Ég kvíði mikið framtíðinni, næstu áratugum, þær afleiðingar sem þessi vandi mun hugsanlega hafa á samfélög okkar.Kafli 3 af 8 - Hvað get ég gert?

Hefur þú gert eitthvað sjálf(ur) til að draga úr loftslagsbreytingum? Hvaða máli telur þú að daglegt líf þitt eða lífstíll skipti fyrir loftslagsbreytingar?

Ég reyni að ganga, hjóla og taka almenningssamgöngur eftir mesta megni. Ég hef reynt að draga úr neyslu dýraafurða. Ásamt því að minnka almenna neyslu á hinum og þessum vörum sem eru innfluttar.
Ég tel minn daglega lífstíl skipta gríðarlegu miklu máli fyrir loftslagsbreytingar en ég tel að þetta sé vandi sem leysist ekki á vilja einstaklinga til þess að breyta daglegu lífi sínu, nauðsynlegt er að stjórnvöld geri ýmsar grundvallarbreytingar.Kafli 4 af 8 - Upplýsingagjöf

Hvar hefur þú helst fengið upplýsingar um loftslagsbreytingar (sjónvarp, netmiðlar t.d.)?

Ég hef séð fréttaumfjallanir hjá innlendum og erlendum miðlum, bæði í sjónvarpi og á netinu. Ég hef lesið skýrslur, innlendar og erlendar sem snúa að loftslagsmálum.Kafli 5 af 8 - Úrræði

Telur þú að það sé hægt að takmarka hinar hnattrænu loftslagsbreytingar? Hvernig? Heldur þú að ný tækni, eins og t.d. rafmagnsbílar, skip og flugvélar, skipti máli fyrir loftslag í framtíðinni?

Já, ég tel að það sé hægt að takmarka hnattrænar loftslagsbreytingar.
Nauðsynlegt er að hætta allri notkun á jarðefnaeldsneyti, og framleiða alla orku með endurnýjanlegum leiðum, svo sem: vatnsafli, vindorku, sólarorku. Einnig tel ég að við verðum að nota kjarnorku í meira mæli. Öll notkun á orku þarf að verða skilvirkari.
Ég tel að að bylta þurfi samgöngukerfum okkar. Við verðum að hanna þéttbýli með þeim hætti að sem minnst þörf sé á notkun á einkabílum, og að auðvelt sé að komast í alla nauðsynlega þjónustu. Finna verður einhverja lausn á flugsamgöngum og skipaflutningum. Á meginlandi Evrópu, Ameríku og í Asíu væri hugsanlega hægt að ráðast í aukna uppbyggingu á lestakerfum til þess að draga úr notkun á flugsamgöngum.
Það þarf að draga úr almennri neyslu. Það þarf að breyta öllum hugsunarhætti varðandi endurnýtingu, og skylda alla framleiðendur til þess að hanna allar vörur með það í huga sé að hægt sé að endurnýta vöruna að fullu: raftæki, umbúðir, innréttingar, allt mögulegt.
Við þurfum að breyta matvælaframleiðslu, og neysluvenjum okkar á matvælum.
Landgræðslu og skógrækt tel ég vera mjög mikilvæga.
Kafli 6 af 8 - Aðrar ógnir

Eru einhverjar aðrar samfélagslegar ógnir að þínu mati sem eru uggvænlegri en loftslagsbreytingar? Ef svo er, hvaða?

Ég tel að loftslagsbreytingar séu stærsta ógn sem líf á jörðinni stendur frammi fyrir.Kafli 7 af 8 - Framtíðin

Flestir eða allir reyna að gera sér einhverja grein fyrir hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Við viljum gjarnan að þú segir frá hugmyndum þínum um framtíðina, væntingum, óskum eða áhyggjum. Frásögnin má bæði vera um nærumhverfi þitt og framtíð jarðarinnar, eða annað hvort, og hún þarf ekki endilega að vera um loftslagsbreytingar. Hvernig sérð þú framtíðina fyrir þér?

Ef heimsbyggðin heldur áfram á þeirri leið sem við erum núna, þá sé ég ekki fyrir mér bjarta framtíð.
Á heimsvísu sé ég fyrir mér skort á matvælum, takmarkaðan aðgang að drykkjarvatni, náttúruhamfarir af ýmsu tagi, átök um auðlindir, gífurlegan flóttamannastraum, hrun fiskistofna.

Óskir mínar eru þær að við á Íslandi tökum forystu í þessum málum. Oft koma upp þær raddir að við séum svo lítil þjóð og að við séum bara 350.000 og þess vegna eigum við ekki að vera að vera að glíma við þennan vanda. Aftur á móti þá búum við við eina mestu efnahagslegu velferð í öllum heiminum og við verðum að axla ábyrgð og vera fordæmi og lærdómur fyrir efnaminni þjóðir.Kafli 8 af 8 - Viðbætur og athugasemdir

Hér hefur þú pláss fyrir viðbætur eða athugasemdir við spurningaskrána.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana