Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiTorfhús
Ártal1965-2019
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

SýslaDalasýsla (3800) (Ísland)
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1959

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-115
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.6.2019/29.1.2019
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.

Ég hef komið í torfbæ eða burstabæ byggður úr torfi, grjóti og timbri nokkrum sinnum sem krakki, sá bær stóð á Leikskálum í Haukadal Dalasýslu. Það var búið í þessum bæ eitthvað fram yfir 1970 en þó ekki lengur en 1973, eitthvað á þessu bili leggst búseta af í þessum bæ. Seinna var hann rifinn og baðstofan úr honum sett upp á byggðasafni Dalamanna. Þá kom ég sem karakki tvisvar í burstabæ sem stóð á Hóli í Höfðahverfi Suður Þingeyjarsýslu, þar bjó bróðir afa míns og voru þeir uppaldir í þessum bæ, man bara eftir útlitinu að utan en mér fannst hann svipaður og í Laufási í minninguni, þessi bær var svo rifin eins og svo margt annað...Þá kom ég í torfhús í Búðardal sem hét Bjarnabær, það stóð aðeins fyrir utan þorpið og þar bjó fólk sem mamma mín þekkti, man óljóst eftir þessu en þetta er á árunum milli 1965 og 1967. Önnur torfhús þekki ég mjög vel eins og fjárhús og þess háttar. Ég flutti sem krakki með foreldrum mínum að Hróðnýjarstöðum (í) Laxárdal (í) Dalasýslu árið 1967. Þar stóð gamalt hús sem við bjuggum í til 1973, undir því að hluta var hlaðin manngengur grjótkjallari óupphitaður sem notaður var sem geymsla fyrir súrmat. hangikjöt og fl. Þessi kjallari var greinilega mun eldri en húsið sem byggt var (á) þessum grunni. Þá voru öll útIhús hlaðin úr torfi og grjóti og fjárhús mjög gömul. Þar sá maður rekavið í loftum sem pabbi sýndi mér og sagði að hefðu verið dregin norðan af Ströndum á hestum því endarnir voru tálgaðir niður. Þá var gömul skemma nokkuð stór með lofti undir súð, liklega 6 m x 4 m, vegggir hlaðnir úr torfi ásamt norður gafli en suður gaflinn var úr timbri með tveimur gluggum, á austur hlið miðri var inngangur með hurð og forláta læsingu með stórum lykli, væri gaman að vita hvaðan þessi skrá og lykil kom en ég á þetta í dag. Þessi skemma var rifin 1971 eða 1972 því á sama stað var nýtt íbúðarhus byggt. Þá var brunnhús eina 50 m frá gamla íbúðarhúsinu, þar var hlaðinn brunnur nokkuð stór og gott uppsprettu vatn, torfhús byggt yfir brunninn með hurð á gafli, annars leit þetta hús út eins og hóll að sjá nema að framanverðu þar sem gaflin var. Þá var fjárhúskofi út á túni kallaður Guðrúnarkofi, þar hafði gömul kona sem hét Guðrún nokkrar kindur en hún var vinnukona á bænum hjá fyrri ábúendum. Sá hluti hússins sem notaður var sem hlaða var niðurgrafinn og veggir grjóthlaðnir og ótrúlega vel gert. Þetta er núna allt horfið nema hjallurinn sem var fylltur upp og væri hægt að hreinsa út aftur. Í kringum 1980 kom fólk frá Kanada, afkomendur fólks sem flutti vestur og það fullyrti að í þessu húsi hafi forfaðir eða móðir búið og hafði aðeins lýsingu á því en að öllum líkindum hefur þetta hús verið mannabústaður áður en það fékk hlutverk fjárhúss seinna. Þá var enn eitt hús úr torfi sem var kallað Bjöllukofi. Hann var ein burst 6 til 7m á lengd með einni hurð á stafni. Í honum var jata í miðju og húsið tók um 30-35 ær. Við enda hans var heytóft svo kölluð með hlöðnum veggjum sem voru að falli kominir en pabbi hlóð þá upp með torfi, refti yfir þak og stækkaði kofan um þessa tóft, eftir það var hægt að hýsa þarna 70 til 80 ær. Seinna eftir að ný fjárhús voru byggð þá var Bjöllukofi notaður sem hesthús fyrir útigang þegar norðan hriðar skullu á. Það er af gömlu fjárhúsunum að segja að þau hrundu sumarið 1969 á góðviðrisdegi í júní. Þá var hafin bygging á hlöðu en húsin áttu að duga í eitt ár í viðbót en sem betur fór gerðist þetta á þessum tima.


Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Ég veit það ekki og fer eftir hvort það eru fjárhús eða íbúðarhús en hef komið nokkuð oft í svona byggingar. Síðast sem ég kom i burstabæ var sumarið 2018, sá bær stendur á jörðinni Galtará í Kollafirði (í) Barðastrandasýslu, þessi bær er tvær burstir með hlöðnum veggjum. Þessi klassiski burstabær, hann er nokkuð heillegur að sjá en veggir þurfa viðgerðir mjög fljótlega ef hann á ekki að falla, innan dyra er hann þiljaður og synd að sjá hvernig þetta mun fara á næstu árum. Nú, svo maður telji upp alla kofa úr torfi og grjóti þá eru það fjárhús Gísla á Uppsölum í Selárdal (í) Arnarfirði, þau eru orðin ílla farin, þakið fallið yfir fjárhúsum en veggir standa ennþá, hlaðan er reyndar úr steinsteypu, seinni tima verk en fjárhúsin mjög gömul. Ég er að brasa ýmislegt þarna í Selárdal og nú er hugmynd að fá þau leyfi sem þarf sem tekur sinn tíma og endurbyggja þessi fjárhús á næstu árum.



Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.

Torfhús er menningarsaga Íslendinga sem er að hverfa nema eitt og eitt hús sem eru varðveitt, aðallega burstabæir, en minna gert af að varðveita gömul fjárhús, fjós og hesthús sem ég myndi vilja að hugað verði að áður en öll þessi hús hverfa. Fyrir 1970 voru svona hús eitt eða fleiri á hverjum bæ. Í dag er þetta nánast horfið nema á eyðibýlum. Hugsunin er jákvæð því þessi hús segja mikla sögu um hvernig aðbúnaður skepna og manna var langt fram á 20. öld og hafði lítið breyst öldum saman, segir manni hvað við höfum það gott í dag.


Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?

Merkilegast er að mínu mati hvað þessu hús voru í raun góð og hlý þrátt fyrir enga upphitun, auðvitað voru hús misjöfn og fór eftir efnahag hvernig þeim var viðhaldið og lika skort á byggingarefni eins og timbri þar sem menn bjuggu ekki svo vel að hafa aðgang að rekavið enda var hann sóttur á klyfjahestum um langan veg eins og á Hróðnýjarstöðum, eins er góð lýsing á þannig klyfjalest í endurminningum Magnúsar Friðrikssonar er hann sótt rekavið á Strandir frá bændaskólanum í Ólafsdal, hvernig þetta var gert og erfiðið bæði fyrir hesta og menn.


Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.

Sögulegt gildi er mikið til að sýna komandi kynslóðum hvernig aðbúnaður var langt fram á 20. öldina, við hugsum kannski ekki mikið um þetta í dag eða mér finnst það, nokkrir burstabæir eru til sýnis við þjóðvegin en annað látið eiga sig og grotna niður. Það er öllum hollt að kynnast og sjá þetta með eigin augum en ekki bara lesa um það í bókum.


Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?

Auðvita hefur það gildi að vita eitthvað um uppruna okkar og lifshætti og Íslendingar eiga að vera stoltir af forfeðrum og mæðrum okkar að hafa lifað við þennan kost öldum saman.


Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?

Ég hef ekki hugmynd um það og tel best er að blanda ekki stjórnmálum eða pólutík við neitt hvað þessu við víkur.


Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Það getur verið mikið tækifæri í því t.d sá ég þátt á N4 um þýska konu sem býr í Sagafirði og er í ferðamensku og hestaleigu, hún byggði hesthús úr torfi og grjóti því alltaf þarf grunn undir torfveggi úr grjóti, það vekur mikkla lukka meðal ferðamanna að sjá og kynnast því sem fyrir augu ber og í húsinu er íslenski hesturinn og gestir komin aftur í aldir þarna í torfhúsinu.
Ég er viss um að það er viss markhópur sem myndi vilja gista í torfhúsum sem byggð væru með ferðaþjónustu í huga.



Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?

Ég veit ekki dæmi þess nema þetta með Þýsku konuna og hesthúsið hennar, svo eru jú þessir bæir Laufás, Glaumbær og fl. slíkir


Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?

Auðvita gætu torfbæir fengið hlutverk t.d sem sumarhús eða í ferðamennsku en sé ekki að torfbæir geti þjónað nútíma þörfum í daglegu lifi, það er bara viss hópur sem myndi byggja sér svona til afnota en örugglega einhverjir tilbúnir í það, en svo er verkþekking við að byggja torfhús í höndum örfárra manna þannig að svona byggibargmáti verður aldrei algengur.


Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?

Ég segi að það ætti að varðveita eins mörg hús og hægt er, koma af stað vakningu meða almennings og eigenda svona húsa hvort sem það eru gamlir bæir sem enn er nokkrir eftir og ekki síður útihúsa allskonar, jafnvel hvetja fólk sem komið er á eftirlaun en í fullu fjöri að taka hús í fóstur og ger þau upp út um allt land.


Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Einstaklingar ættu að taka það að sér og sveitarfélög gætu aðstoðað með leyfisveitingar, það má ekkert í dag nema tilkynna það og pappírsbullið virðis aðal málið eftirlit á eftirlit ofan, ef fólk fengi að gera upp og byggja eins og gert var öldum saman á afskipta verkfræðinga og röð að eftirlitsaðilum þá væri þetta ekkert mál..hægt að breyta gömlum moldarkofa í flott sumarhús með lámarks þarfir t.d án rafmagns.



Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?

Ég þekki það ekki.


Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?

Ég hef aldrei komið í eftirgert torhús s.s nýbyggt eða nýlegt.


Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Já ég hef öruglega þekkt marga sem höfðu þessa þekkingu fyrir 25 árum án þess að gera mér grein fyrir því, faðir minn hafði þessa þekkingu samber endur bygging á heytóftinn á Hróðnýjarstöðum þar sem hann hlóð upp hrunda veggi með grjóti neðst og svo torfi.
Í dag veit ég bara um Guðjón frá Dröngum en þeir eru fleir, ég bara þekki þá ekki.....



Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Öll gömul hús sem eru eldri en 100 eru friðlýst og auðvita á að halda sem flestu við, kannski gera upp strax en halda því í horfinu, gera við þök og glugga, það getur komið einnhver eftir 10 eða 30 ár sem vill taka að sér svona hús, það á að rífa sem minnst af húsum sem geta staðið og bíða uppgerðar.



Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana