LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


Fylgiskjöl

EfnisatriðiTorfhús
Ártal1900-2020
Spurningaskrá127 Viðhorf til torfhúsa

StaðurTungufell
ByggðaheitiYtrihreppur
Sveitarfélag 1950Hrunamannahreppur
Núv. sveitarfélagHrunamannahreppur
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1937

Nánari upplýsingar

Númer2019-2-250
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið20.4.2020/18.4.2020
TækniTölvuskrift

Spurningaskrá 127 Þjóðminjasafn Íslands Þjóðháttasafn (..1..)
Viðhorf til torfhúsa


Eigin reynsla
Ég er fæddur í torfbæ í Tungufelli, Árnessýslu, og átti þar heima til 8 ára aldurs. Bærinn var
byggður á fyrsta áratugi 20. aldar, niðurgrafinn að miklu leyti í gamlan bæjarhól svo að lítið
annað en framstafnar og þök stóðu upp úr jörð. Útveggir aðrir en framstafnar voru úr torfi og
grjóti en allt þiljað að innan með timbri nema bæjargöng að hluta, búr og hlóðaeldhús sem
voru með moldargólfi og tyrfðu þaki. Hlóðaeldhúsið var að stofni til eldra en önnur bæjarhús.
Það mun ekki hafa verið notað lengi sem aðaleldhús eftir að bærinn var byggður en síðan
lengi á haustin í sláturtíð við kæfugerð o.fl. Búið var í bænum til 1964 en hann var rifinn og
jafnaður við jörð nokkrum árum seinna. Teikningin hér að neðan sýnir húsin á bæjarhólnum
fyrir 1930. Torfveggur á milli baðstofu og bæjardyra var fjarlægður um það leyti og gerð þar
tvö samliggjandi íbúðarherbergi, annað með þakglugga. Ljósmyndir neðar á síðunni voru
teknar um 1940.

Fram yfir 1940 voru öll útihús í Tungufelli hlaðin úr torfi og grjóti en flest með bárujárnsþaki.
Í bæjarhólnum voru þá fjós með haughúsi, allt úr torfi og grjóti og með torfþaki, tvær hlöður
og geymsluskúr með járnþaki, hesthús, hrútakofi og smiðja. Innan túngirðingar voru 7 önnur
útihús, mjög misjöfn að stærð, þar af eitt með hlöðu. Tvö beitarhús voru lengra frá bæ, bæði

með lítilli hlöðu, „kumli“. Nálægt hvoru þeirra var lítill „tryppakofi“ þar sem útigangshrossum

var gefið þegar þurfti. Tvö fjárhúsanna í heimatúninu voru endurbyggð, annað fyrir
1940, hitt upp úr 1950, og þá breytt úr jötuhúsum með mjóum jötum við langveggi í garðahús.
Þessi hús bæði standa enn, því stærra var breyttt í vélageymslu. Hesthúskofi í heimatúni
stendur líka enn og veggir beitarhúsanna að hluta. Önnur torfhús hafa verið jöfnuð við jörð.

Eftir að ég flutti úr torfbænum í Tungufelli 1945 kom ég þar mjög oft á meðan hann var enn í
notkun og líka öðru hverju í önnur torfhús þar á meðan þau stóðu uppi. Á unglingsárum og
fram yfir tvítugt gisti ég nokkrum sinnum í afréttarkofum úr torfi og grjóti. Síðast kom ég í
slíkan kofa 2018, gamlan uppgerðan kofa í Hólaskógi á Gnúpverjaafrétti.

Skýringar við teikningu (sjá fylgiskjal)

Tungufell fyrir 1930
(Aftari hús eftir minni (SH),
kirkjugarður eftir mælingu)
Húsaröð frá vinstri:
Kamar og fjós m. haughúsi aftan við. Skúr,
baðstofa, bæjardyr, stofa með lofti yfir,
herbergi, hlaða, hesthús.
Að baki: Hlóðaeldhús m. eldiviðargeymslu,
búr (sést á torfþak), hlaða, hrútakofi, smiðja.
Fremst: Kirkja í kirkjugarði.

(Tvær ljósmyndir fylgja með frásögninni, sjá fylgiskjal)

Gildi torfhúsa

Í mínum huga standa torfhús fyrst og fremst fyrir þann tíma, allt frá upphafi byggðar í
landinu, þegar önnur betri byggingarefni voru yfirleitt ekki tiltæk. Mín fyrsta hugsun í því
sambandi er að þetta hafi oftast verið besta aðferðin til að koma upp nothæfu húsi.
Efniskostnaður var lítill og þykkir veggir úr jarðefnum voru góð vörn gegn vetrarkulda, t.d. í
samanburði við hlaðna steinveggi. Þetta finnst mér vera eitt það merkilegasta við torfhúsin,
fyrst og fremst þá við torfbæina en það á líka oft við um útihús. Afstaða mín til gamalla
torfhúsa er því fremur jákvæð. Byggingarlag torfbæjanna var mjög við það miðað að
vistarverur fólksins væru sem best varðar fyrir kulda með þykkum útveggjum og oft með
löngum bæjargöngum frá útidyrum að baðstofu þar sem heimilisfólkið hafðist mest við. Og
gluggar voru ekki hafðir fleiri eða stærri en nauðsynlegt var. Húsin voru því ekki vel björt og
loftgæði líklega oft ekki sem best. Aðrir gallar við torfbæi munu hafa verið að þeir þurftu
talsvert viðhald, einkum þar sem votviðrasamt var og torfþökum var hætt við leka. Torfhús
munu þess vegna yfirleitt hafa enst betur á Norðurlandi en á Suðurlandi.

Það sem hér hefur verið tínt til um torfbæi á ekki við um bæi sem byggðir voru þegar komið
var nokkuð fram á 20. öld og voru að litlum hluta úr torfi og grjóti. Torfhúsin voru ríkjandi
byggingarlag frá landnámi fram undir lok 19. aldar. Bæjarústir frá ýmsum tímum endurspegla
að nokkru lífskjör í landinu. Nefna má t.d. Sandártungu í Þjórsárdal bæ frá 17. öld þar sem
húsakynni hafa verið afar smá í sniðum. Varðveittir torfbæir sem eru ferðafólki til sýnis eru
með allt öðru sniði og vitna vafalaust ekki um húsakost alls almennings. Ef torfhús og þá
einkum torfbæir eiga að hafa sögulegt gildi er ekki nóg að varðveita byggingar stórbýla.
Torfbærinn í Eystri – Meðalholtum í Flóa mun vera nokkuð dæmigerður fyrir síðasta skeið
torfbæjanna, byggður skömmu fyrir aldamótin 1900. Bærinn í Tungufelli var af svipaðri gerð.
Eldri torfbæir hinna efnaminni verða líklega ekki varðveittir úr þessu en ýmsar heimildir eru
til, bæði rústir og ritheimildir. Sögulegt og fræðslulegt gildi felst ekki síst í því að halda sem
mestu af slíku til haga ásamt því sem varðveitt er.

Torfhús hafa varla teljandi gildi fyrir þjóðerni eða sjálfsmynd Íslendinga. Nú á tímum munu
líklega fáir telja að þessi arfleifð skipti máli fremur en margt annað frá fyrri tímum. Ekki
verður heldur séð að torfhús geti skipt máli á vettvangi stjórnmála.

Ferðamálatengt gildi torfhúsa og þá fyrst og fremst hinna varðveittu torfbæja felst í því að
hafa þá aðgengilega fyrir ferðamenn og er þá mikilvægt að hægt sé að fá leiðsögn og eftir
atvikum prentaða bæklinga til frekari upplýsingar. Einnig að húsbúnaður sé í samræmi við
það sem tíðkaðist þegar búið var í bænum þannig að gestir fái sem besta mynd af daglegu lífi
fólks á fyrri tíð. Dæmi um slíka nýtingu er gamli bærinn í Laufási sem tilheyrir
Minjasafnsininu á Akureyri. Þar hefur m.a. „…verið rekin Gestastofa Laufáss frá sumrinu
2014. Þar er lögð áhersla á móttöku ferðamanna og gesta, meðal annars með fræðslu um
sögu staðarins, náttúruna og nánasta umhverfi. Hægt er að fá kaffi og léttar veitingar og
njóta útsýnisins….“ eins og segir á heimasíðu Minjasafnsins á Akureyri.


Varðveisla og nýting
Ég hef ekki kynnt mér sérstaklega hvernig staðið er að nýtingu torfhúsa í þágu ferðamanna
nema í Laufási. Hef reyndar ekki mikinn áhuga á að þau séu almennt nýtt sérstaklega í þágu
ferðamanna. Óhófleg fjölgun ferðamanna hefur haft neikvæð áhrif á viðkvæm svæði og full
þörf á að fara að öllu með gát í þeim efnum.

Núna eru líklega ekki mörg torfhús uppi standandi og í svo góðu lagi að hægt sé að varðveita
þau nema með meiri eða minni endurbyggingu. Æskilegt væri að varðveita hús af
mismunandi aldri og gerð, en ekki endilega mörg hús af sömu gerð í hverjum landshluta. Ekki
væri þörf á að fjölga vernduðum húsum nema til að eiga varðveitt hús af sem flestum gerðum
sem stundum munu hafa verið mismunandi eftir landshlutum. Þetta á fyrst og fremst við um
bæjarhús.

Fram yfir 1980 stóð í Tungufelli fjárhús nánast í upphaflegri mynd. Það var jötuhús með
veggjum úr torfi og grjóti. Þakið var sperruþak með tyrfðu árefti úr þunnum basalthellum á
neðri hluta sperru en birkihrísi á efri hlutanum. Þetta mun hafa verið algengt byggingarlag,
a.m.k. þar sem hrísið var nærtækt. Hús af þessari gerð mætti gjarnan varðveita ef það er
einhvers staðar enn uppi standandi.

Eðlilegast væri að sveitarfélög (ásamt áhugasömum einstaklingum) hefðu forgöngu um
verndun torfhúsa og bæru kostnað af viðgerðum og viðhaldi.

Aldursmunur og eftirgerðir
Það sem hér fer á eftir á einkum við um uppsveitir Árnessýslu þar sem ég þekki best til.
Mikill munur er á torfhúsum eftir aldri. Mesta breytingin verður undir lok 19. aldar þegar
almennt er farið að nota bárujárn á þök og einnig að hluta sem klæðningu á veggi sem standa
upp úr jörð. Gömlu bæjarhúsin í Tungufelli voru af þeirri gerð og svipað lag er á bænum í
Austur – Meðalholtum í Flóa sem varðveittur er sem dæmi um vel heppnaðan torfbæ frá þeim
tíma. Um sama leyti var mikið um hlöðubyggingar með bárujárnsklæddum sperruþökum í
uppsveitum Árnessýslu. Veggir voru hlaðnir úr torfi og grjóti nema stafnar upp úr jörð sem
voru klæddir bárujárni á timburgrind. Svona hlöður voru bæði í Tungufelli (frá 1906) og í
Austur – Meðalholtum, á báðum bæjunum austan við bæjarhúsin með stafni fram á hlaðið.
Gömul fjárhús voru stundum endurbyggð úr torfi og grjóti, jafnvel fram yfir miðja 20. öld,
alltaf með bárujárni á þaki en að öðru leyti ekki frábrugðin eldri torfhúsum. Síðast man ég
eftir nýbyggingu afréttarkofa í Gljúfurleit á Gnúpverjaafrétti um 1955, veggir allir venjuleg
hleðsla úr torfi og grjóti en sperruþak með bárujárni.

Ég þekki ekki eftirgerðir torfhúsa nema endurbyggingu eldri útihúsa sem hér hefur verið lýst
og endurbyggingu kofans í Hólaskógi sem áður var nefndur. Hann var byggður eins og kofinn
sem þar stóð áður.

Ég þekki aðeins einn núlifandi mann sem ég veit fyrir víst að kann handtök við torf- og
grjóthleðslu. Fáeina aðra (varla fleiri en 4 – 5) þekki ég sem mér finnst afar líklegt að hafi
fengist eitthvað við slíkt á árum áður. Talsvert fleiri hafa þeir verið fyrir 25 árum en fjöldi
þeirra sem ég þekkti þá verður ekki annað en ágiskun (10 – 15?). Eftir 25 ár verður varla á lífi
nokkur hleðslumaður sem ég hafði þekkt. Þá verða líklega á lífi fyrst og fremst þeir sem lært
hafa handtökin við Fornverkaskólann í Skagafirði, (etv um 10 manns?).


Síðasta skeið torfhúsanna
Þegar kom fram á 20. öld voru stundum byggð bæjarhús sem voru að litlum hluta úr torfi og
grjóti. Til dæmis þannig að hlaðin var tóft á tvo eða þrjá vegu en timburgrind með innri
klæðningu þar innanvið. Framhlið var þá að öllu leyti úr timbri með bárujárnsklæðningu,
oftast með einhverri einangrun. Þak oftast með allbröttu risi, bárujárnslögðu, og geymsluloft í
risinu. Húsin voru yfirleitt upphituð og gátu verið sæmilega björt. Þetta voru ekki kallaðir
torfbæir en voru eins konar millistig á milli síðasta stigs torfbæjanna og íbúðarhúsa eingöngu
úr timbri eða steinsteypu ásamt bárujárni. Svona bær var t.d. í Háholti í Gnúpverjahreppi þar
sem ég var í mörg sumur frá 1947. Þar voru ytri veggir að mestu í jörð á tvo vegu (að norðan
og austan), hlaðnir úr torfi og grjóti. Innan við norðurvegginn var skúrbygging aftan við
eldhúsið. Skúrinn var með moldargólfi og án timburklæðningar á útveggjum. Útidyr voru á
skúrnum og einnig dyr þaðan inn í eldhúsið. Um skúrinn var þannig bakdyrainngangur í
bæinn sem var mikið notaður af heimilisfólki. Undir hluta af bænum var geymslukjallari með
moldargólfi hlaðinn úr torfi og grjóti. Bærinn var byggður um 1930 og mun þetta
byggingarlag ekki hafa tíðkast mikið lengur. Mér finnst varla ástæða til að varðveita svona
hús, þau eru líklega fyrst og fremst dæmi um hvernig efnaminni bændur gátu byggt þokkalega
yfir sig á þessum tíma (í kreppunni) með hóflegum tilkostnaði.


Upplýsingar um torfhús
Ég veit ekki um uppi standandi torfhús utan safna nema afréttarkofann í Hólaskógi og þrjú
útihús í Tungufelli. Þar eru tvö fjárhús í heimatúni Hlöðuhús, endurbyggt upp úr 1950, og
Innileguhús endurbyggt um 1938 og hlaða byggð við. Framgafl endurbyggður úr timbri og
járni eftir 1970 og húsið haft sem vélageymsla. Við endurbygginguna var báðum húsunum
breytt úr jötuhúsum (með mjóum jötum við langveggi) í garðahús. Báðar hlöðurnar hafa verð
jafnaðar við jörð. Þriðja húsið, Þýfiskofi, smákofi notaður sem hesthús um 1945, virðist
óbreyttur að mestu. Allir útveggir þessara húsa eru venjuleg hleðsla úr torfi og grjóti, þil milli
fjárhúss og hlöðu voru úr timbri, sperruþök með bárujárni.


Kafli 1 af 6 - Eigin reynsla

Þekkir þú torfhús af eigin raun? Ef svo er, með hvaða hætti? Hefur þú t.d. búið í torfbæ? Hvar voru/eru þessar byggingar staðsettar? Nefndu bæjarheiti.
Um það bil hve oft hefur þú komið í torfhús? Hve langt er síðan þú komst seinast í þannig hús?

Kafli 2 af 6 - Gildi torfhúsa

Fyrir hvað standa torfhús í þínum huga? Hver er fyrsta hugsun þín þegar þú hugleiðir þetta? Er hún jákvæð eða neikvæð? Vinsamleg færðu rök fyrir afstöðu þinni.
Hvað finnst þér merkilegast og hvað ómerkilegast við torfhús?
Í hverju felst sögulegt gildi torfhúsa einkum? En menntunar- og fræðslugildi? Segðu frá.
Hafa torfhúsin eitthvað gildi fyrir þjóðerni og sjálfsmynd Íslendinga að þínu mati? Ef svo er, hvers vegna? Ef svarið er neikvætt, hvers vegna ekki?
Geta torfhús haft gildi á vettvangi stjórnmálanna á einn eða annan hátt? Hvernig lýsir það sér, ef svo er?
Í hverju felst ferðamálatengt gildi torfhúsa? Nefnið dæmi.

Kafli 3 af 6 - Varðveisla og nýting

Hvað finnst þér um hvernig torfhús eru nýtt í þágu ferðamanna í dag?
Gætu torfhús nýst með öðrum hætti eða betur en þau gera í dag? Hvað er hægt að gera til að bæta úr þessu og hvað ekki? Hvað stendur helst í vegi fyrir breytingum?
Hvort ætti að varðveita fleiri eða færri torfhús en gert er? Ef fleiri, hvers vegna og þá hvernig hús (bæjarhús t.d.)? Ef nei, hvers vegna ekki?
Ef áhugi væri fyrir að fjölga vernduðum torfhúsum og nýta þau, hver ætti að bera kostnað af viðgerð og verndun þeirra að þínu mati (sveitarfélög, ríkið t.d.)?

Kafli 4 af 6 - Aldursmunur og eftirgerðir

Er mikill munur á torfhúsum eftir því hvenær þau voru byggð, svo sem á 19. öld, á fyrri hluta 20. aldar eða um miðbik aldarinnar? Hvernig lýsir sá munur sér helst, ef svo er?
Finnst þér eftirgerðir torfhúsa vera frábrugðnar gömlu torfhúsunum? Hver er munurinn að þínu mati?
Þekkir þú einhverja sem kunna handtök við torf- og grjóthleðslu? Ef svarið er jákvætt, hve margir voru þeir á að giska fyrir 25 árum? En í dag? Hver heldur þú að staðan gæti verið eftir 25 ár?

Kafli 5 af 6 - Síðasta skeið torfhúsanna

Nokkuð er til af byggingum sem kalla má síðasta stig torfhúsa, þar sem blandað er saman hefðbundunum og nýrri byggingarefnum (torfi, bárujárni og steinsteypu t.d.). Hvaða gildi finnst þér að þessi hús hafi? Ætti að varðveita þau og ef svo er, hvers vegna?

Kafli 6 af 6 - Upplýsingar um torfhús

Vinsamlega nefndu öll þau torfhús sem þér er kunnugt um og hvar þau eru staðsett á landinu (bæjarheiti, sveitarfélag). Hvaða nöfn bera þau (sérheiti)? Hvers konar hleðslur eru í þeim og viðbótarefni, ef eru? Ath. Hér er ekki verið að fiska eftir torfhúsum í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, eins og t.d. Keldum, Laufási og Burstarfelli.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana