LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiÍsbjarnarkoma, Ísbjörn
Ártal1960-2020
Spurningaskrá129 Ísbjarnarsögur

ByggðaheitiLanganes, Þistilfjörður
Sveitarfélag 1950Húsavík, Sauðaneshreppur, Sauðárkrókur, Svalbarðshreppur N-Þing.
Núv. sveitarfélagLanganesbyggð, Norðurþing, Norðurþing, Reykjavík, Svalbarðshreppur, Sveitarfélagið Skagafjörður
SýslaKjósarsýsla, N-Þingeyjarsýsla, Skagafjarðarsýsla, S-Þingeyjarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1947

Nánari upplýsingar

Númer2020-2-35
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið16.7.2020/30.8.2020
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 5 - Ísbjarnarkomur

Hefur þú, eða einhver sem þú þekkir, orðið persónulega var/vör við ísbirni hér á landi? Getur þú sagt frá þeirri reynslu, m.a. hvar sást eða heyrðist til dýranna, hvenær (hvaða ár), hvernig þau hegðuðu sér og hvernig þú eða aðrir brugðust við?

Á hafísárunum milli 1960 og 70 var ég heimilisföst á Sauðanesi á Langanesi. Þá var uggur í fólki vegna bjarndýrafregna og a.m.k. einu sinni fóru menn að leita vegna slóða sem fundust og hefðu getað verið eftir hvítabirni.
Gamall nemandi minn, sem ég þekki vel, skaut svo síðasta dýrið, sem álpaðist á þessar slóðir, við Ósland í Þistilfirði.
Flestir á norðausturhorninu töluðu um bjarndýr og notuðu sérkennilegan framburð á orðinu, sögðu eiginlega "bjanndýr."


Hefur þú haft afspurn af ísbjarnarkomum (þ.e. án þess að hafa verið á staðnum)? Ef svo er, hvernig fréttir þú af þeim og hvernig var þeim lýst?

Fréttir af bjarndýrum á ferli koma undireins í fjölmiðlum. Enda er ærin ástæða til að vara fólk við. Ég hef margoft heyrt þannig fréttir í útvarpinu.


Af hverju telur þú að ísbirnir komi til Íslands? Hefur það ákveðna merkingu í þínum huga? Hvaða merkingu?

Þeir villast eða hrekjast hingað þegar allt er samfrosta af miklum hafís og þeir komast ekki í sjó til að sækja sér sel, eða þegar hafís bráðnar undan þeim og þeir verða að synda til næsta lands. Þetta eru lífshættulegar skepnur og það þarf að hafa allan varann á ef af þeim fréttist.


Hvað finnst þér að gera eigi við ísbirni sem koma til landsins?

Fella þá hið allra fyrsta.Kafli 2 af 5 - Samskipti ísbjarna og manna

Hefur þú heyrt talað um að ísbirnir forðist manneskjur? Hvernig, ef svo er?

Þeir fælast fólk eins og önnur villt dýr, en ef þeir eru hungraðir, þá éta þeir allt sem þeir ná, líka fólk. Þeir sem hrekjast hingað eru hungraðir. Það eru kenningar í þjóðsögum um að bjarndýr forðist fólk undir vissum kringumstæðum en ekki myndi ég treysta þeim.


En að þeir drepi fólk og skepnur eða önnur dýr? Segðu frá því sem þú veist um þetta.

Ég veit ekki til þess á minni ævi en það eru sannar sagnir um það, ekki gamlar, bæði frá Eldjárnsstöðum og Læknisstöðum á Langanesi.


Hvaða tilfinningar vekja ísbjarnarkomur hjá þér eða öðrum í kringum þig (t.d. spenna, ótti eða hrifning)? Af hverju?

Hjá mér vekja þær ótta vegna hættunnar sem fólk getur sett sig í þegar bjarndýr eru á ferðinni. Sumt fólk æðir af stað til að reyna að sjá dýrin og hefur ekki vit eða lífsreynslu til að varast að koma nálægt þeim, skilur ekki háskann.


Kannast þú við frásagnir um ísbjarnardráp? Hvaða aðferðir voru notaðar við drápið? Komu önnur dýr við sögu? Hvað var gert við skrokkinn og feldinn?

Margar frásagnir hef ég lesið um bjarndýradráp og í þeim nýrri eru þau yfirleitt felld með skotvopni, enda varla mikið vit í því að fara að þeim með veigaminni vopn. Stundum koma hundar við sögu, stundum kindur, og hestar eru mjög hræddir við bjarndýr. Feldurinn var hirtur ef hann var fallegur en á síðari tímum hefur fólk ekki hirt kjötið, ekki eftir að vitað var um tríkínurnar í því.


Þekkir þú til uppstoppaðra ísbjarna eða annars konar leifa af þeim? Hvaða leifa og hvar eru þær varðveittar? Hvar og hvernig drápust þessi dýr?

Það er uppstoppaður hvítabjörn á Húsavík, annar á Sauðárkróki. Þeir eru þar á söfnum og til sýnis. Fleiri eru til en ég hef bara séð þessa tvo. Ég man ekki hvar þeir náðust, en þeir eru ekkert mjög gamlir.


Þekkir þú einhver ráð eða aðferðir til að vernda sig gegn ísbjörnum? Hvaða úrræði?

Halda sig innan dyra ef þeir eru á ferðinni og ganga þannig frá dyrum og gluggum að þeir geti ekki brotist inn.


Hefur þú heyrt um vinsamleg samskipti ísbjarna og manna? Hvernig lýsa þau sér, ef svo er?

Bara í þjóðsögum um gagnkvæma hjálp eða aðstoð og báðir fóru sína leið í friði. Allt er hugsanlegt en ég tæki ekki áhættuna.Kafli 3 af 5 - Ísbjarnar-örnefni

Þekkir þú einhver bjarndýrs-, ísbjarnar- eða hvítabjarnar- örnefni? Viltu telja þau upp og hvar á landinu þau eru? Hvaða frásagnir kannt þú um þessi örnefni?

Norðan við Gunnólfsvíkurfjall er Bjarnardalur en ég er alin upp austur á Héraði og bjarndýraörnefni munu flest vera við sjóinn.Kafli 4 af 5 - Þjóðlegur fróðleikur um ísbirni

Ýmsar sögur og sagnir um ísbirni eru þekktar hér á landi. Segðu frá því helsta sem þér er kunnugt um þetta efni. Frásögnin má gjarnan vera löng og ýtarleg. Hvað hefur þú t.d. heyrt um að það boði ógæfu að drepa ísbirni eða að þeir séu menn í álögum? En að ísbirnir skilji mannamál? Hvað boðar það að dreyma ísbjörn? Þekkir þú frásagnir um samskipti ísbjarna og ófrískra kvenna? Hvað er „bjarnylur“? Getur þú nefnt dæmi um nafngjöf sem tengist þjóðtrú um ísbirni (Björn, Bjarni t.d.)? Hvaða önnur trú eða trúarviðhorf tengjast þeim?

Í sögum getur allt gerst. Það er sagt að fólk á Melrakkasléttu og þar í kring hafi talið það ógæfumerki að drepa hvítabjörn og nefnd dæmi því til sönnunar. Í ævintýrum er algengt að birnir séu menn í álögum og stundum tala þeir mannamál. En hvort grænlenskir hvítabirnir skilji íslensku hingað komnir, það veit ég ekki. En sagt er að þeir átti sig á því hvort maður á ferð er vopnaður eða ekki. Það er fyrir góðu að dreyma birni, góðri heilsu og hreysti eða nýjum afkomanda. Þeir geta jafnvel vitjað nafns. Það er algengt í hvítabjarnasögum að björninn skiptir sér ekki af barnshafandi konum og barn sem fætt er á bjarndýrsfeldi hefur bjarnaryl, er heitfengt og verður ekki kalt. Bjarnarnöfn á fólki koma vafalaust af því að fólk hefur óskað börnum sínum þess að þau fengju eitthvað af góðum eiginleikum bjarndýra: styrk, hreysti, kuldaþol og kjark.


Þekkir þú vísur, brandara eða fleira í þeim dúr um ísbirni? Geturðu sagt frá þessu?

Kafli 5 af 5 - Ísbirnir í myndlist

Þekkir þú málverk eða önnur listaverk af ísbjörnum? En veggskreytingar eða veggjakrot af ísbjörnum? Hvar á landinu eru þessi verk? Hverjir eru höfundar þeirra? Átt þú sjálf(ur) listaverk af ísbirni? Þú getur valið um að lýsa þessum listaverkum eða að senda okkur ljósmynd(ir) af þeim á vefsíðunni sarpur.is. Einnig má notast við netfangið thjodhattasafn@thjodminjasafn.is.
Hefur þú í fórum þínum aðra gripi, muni eða myndir sem tengjast ísbjörnum? Hvað er hér helst um að ræða, ef svo er?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana