128 Lífið á dögum kórónaveirunnar
Kafli 1 af 8 - Upplýsingar um faraldurinn
Hvenær og hvernig fréttir þú fyrst af kórónavírusnum (COVID-19)? Hvar hefur þú helst sótt þér upplýsingar um veirufaraldurinn?
Um áramótin 2019/2020 þegar fréttir komu fyrst frá Wuhan.
Hvernig finnst þér að til hafi tekist við að upplýsa almenning um faraldurinn? Treystir þú upplýsingum frá stjórnvöldum og fjölmiðlum?
Mjög vel, ef ekki ofvel.
Kafli 2 af 8 - Viðhorf og líðan
Segðu frá því hvernig að þér leið og hvernig að þú brást við þegar veiran byrjaði að gera vart við sig hér á landi og á heimsvísu. Hefur líðan þín eða upplifun breyst í takt við stóraukna útbreiðslu veirunnar?
Stóð ekki á sama við fréttirnar, hef lokað mig meira af og fer minna út. Líðan hefur svosem ekki versnað, þar sem ég er dugleg við að halda mér upptekinni við að hugsa um eitthvað annað.
Hefur faraldurinn haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ert þú t.d. hrædd(ur) eða óróleg(ur)? Hvaða ráð hefur þú til að takast á við þetta, ef svo er?
Andleg heilsa mín er góð sem fyrr, enda er ég í mjög góðu andlegu jafnvægi. Hinsvegar vinn ég á vinnustað þar sem húsnæðið var sett á neyðarstig. Varð það þess valdandi að starfsfólk var sett á fastar vaktir og starfaði helmingurinn á dagvöktum og hinn helmingurinn á næturvöktum. Þannig að ég var í þeim helmingi sem tók 12 tíma næturvaktir á 2-2-3 kerfi. Það var erfitt að vinna á öndverðum sólarhring miðað við það sem samfélagið telur eðlilegt. Ég átti auðvelt með að vinna á þessu róli, en það var verra að reyna að ná svefni, búandi í blokk þar sem flestir íbúar voru heima og ákváðu að nýta tímann til framkvæmda. Þannig að það var verið að bora, negla, smíða, krakkalæti, hljóðfæri, tónlist á meðan ég var að reyna að ná svefninum mínum. Þannig að það var oft ekki mikið um svefn sem tekur verulega á andlega. Ég átti kærasta á þessum tíma, þannig að ég var oft að snúa sólarhringnum til þess að ná að hitta hann og það tekur líka á að snúa oft sólarhringnum í mánuði.Það hefur líka verið mikil áskorun að umgangast fjölskyldu og vini sem eru ekki á eins góðum andlegum stað og ég og hafa ekki eins gott jafnaðargeð. Slitnaði upp úr vinskap bestu vinkonu minnar, því hún var of hrædd, of paranojuð og hálf snappaði út af þessu. Ég þurfti að minnka mín samskipti við hana til að vernda mína orku og þá tók hún því svo að ég vildi ekki vera í hennar lífi og ákvað því að binda enda á okkar vinskap.Mín ráð eru að halda sér uppteknum í einhverju sem dreyfir huganum frá þessu ástandi. Ég stundaði nám í tveimur skólum ásamt því að starfa í 2 vinnum. Því hafði ég ekki mikinn tíma aflögu til að hugsa um þetta. Við eflum það sem við fókuserum á. Ef við fókuserum á fréttir og sökkvum okkur inn í þetta, þá verður þetta að okkar aðalumhugsunarefni og um leið styrkjum við óttann og aðrar lágar tíðnir.
Hefur lífsviðhorf þitt og trúarlíf hugsanlega breyst eftir að kórónaveiran gerði vart við sig með jafn afdrífaríkum hætti og raun ber vitni? Hvernig, ef svo er?
Að einhverju leyti, kannski lært að meta betur það sem ég hef og þá sem standa mér nærri. Njóta hvers augnabliks og lifa betur í kærleikanum.
Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu eftir að faraldurinn fór af stað?
Það er ótti, kvíði, reiði, óhamingja yfir því vita ekki fyrirfram hvernig spilast úr hlutunum. Það er í mannlegu eðli að þurfa að vera við stjórnvölinn og ef fólk er ekki við stjórnvölinn og ef það spilast ekki úr hlutunum eins og fólk hafði gert sér í hugarlund þá á fólk oft til að missa tökin á tilfinningum sínum og missir stjórn á sér.
Hvað finnst þér um að mega ekki lengur heilsa fólki með handarbandi eða að taka utan um það?
Bara fínt, ég þoli hvort sem er ekki að taka í höndina á fólki. Fæ yfirleitt vörtur á hendurnar eftir að hafa tekið í höndina á einhverjum, þannig að það er fínt að sleppa því. Verra með að knúsa fólk, því yfirleitt knúsa ég fólkið mitt.
Kafli 3 af 8 - Samskipti og einkalíf
Hver eru helstu áhrif faraldursins á fjölskyldu- eða einkalíf þitt? Hvaða áhrif hefur hann t.d. haft á umgengni þína við annað fólk, tómstundir, ferðalög, þátttöku í félagsstarfi o.fl.? Hafa samskipti í gegnum tölvu að einhverju leyti komið í staðinn? Hvernig, ef svo er?
Hef lítið getað stundað áhugamál mín, þar sem það eru hópastörf sem var lokað fyrir. Ég hef fullan skilning á því og mæti galvösk til leiks þegar opnar að nýju. Ég hef ekki ferðast mikið og verið mikið heimavið. Samskipti mín við vini voru fyrir að miklu leyti í gegnum tölvu/síma, svo að það er óbreytt. Eins og fram kom áðan, þá átti ég kærasta. Ég starfa á mjög viðkvæmum vinnustað, sem er mjög mikilvægur í almanna þágu, þannig að þar má ekkert klikka til að halda starfsemninni gangandi. Í upphafi 3ju bylgjunnar vildi hann að við myndum hittast og þar sem smit voru farin að aukast og í hans heimabyggð, þá neitaði ég að við myndum hittast. Ég heyrði ekkert meira frá honum og skömmu síðar var hann þotinn um landið þvert og endilangt í leit að grænni grösum og stakk af með annarri gellu. Ég á foreldra úti á landi sem ég hef heimsótt reglulega, en þurfti að hætta því.
Átt þú eða hefur þú átt ættingja eða vini á sjúkrastofnum sem þú hefur ekki fengið að heimsækja eftir að faraldurinn braust út? Hvernig hefur heimsóknarbannið haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?
Nei.
Hefur þú eða einhver þér nákomin(n) veikst af COVID-19 veirunni? Viltu segja frá því hvernig reynsla það er?
Nei, engin.
Þarft þú að vera heima vegna þess að þú ert í sóttkví, skólinn lokaður, vinnustaður þinn lokaður eða hálflokaður eða af öðrum ástæðum? Hvað gerir þú helst á daginn, ef svo er? Segðu frá því hvernig það er að vinna heima, ef það er inni í myndinni.
Nei, ég mæti til vinnu, en hluti af starfsfólki stofnunarinnar vinnur heima.
Kafli 4 af 8 - COVID-19 og börn
Hver eru helstu áhrif faraldursins á börn að þínu mati? Hafa þau börn sem þú þekkir verið frædd um hann og ef svo er með hvaða hætti?
Hef ekki börn í kring um mig.
Kafli 5 af 8 - Breyttar neysluvenjur?
Hvaða áhrif hefur faraldurinn haft á neysluvenjur þínar? Hefur þú verslað meira en venjulega eða öðruvísi vörur og ef svo er, hvað aðallega? Fæst allt í búðunum sem þú þarft á að halda? Getur þú sagt frá því hvernig það er að fara út og versla?
Versla meira af matvælum sem geymast lengi. Fer sjaldan í búð og versla þá meira í einu. Í upphafi og yfir hápunktinn af seinni bylgjunni byrgði ég mig upp af mat og fór helst ekkert í búð.
Kafli 6 af 8 - Vinnustaðurinn
Getur þú lýst því hvaða áhrif faraldurinn hefur á vinnustað þinn, ef að þú stundar vinnu?
Ég starfaði á tveimur vinnustöðum áður en þetta hóst. 100% starf á stofnun í almannaþágu og hlutastarf í ferðaþjónustunni. Ég hef ekki mætt til vinnu í ferðaþjónustustarfið síðan í mars. Mér var reyndar ekki sagt upp, þar sem ég var ekki með samning hjá þeim, en öllum öðrum var sagt upp. Það er náttúrulega leiðinlegt að missa af öllu því fólki og lífgaði mjög upp á tilveruna að fara í þessar ferðir og hitta túristana. Í hinu starfinu var okkur skipt upp í fastar vaktir í fyrri bylgjunni 2-2-3 og alltaf með sama fólkinu á vakt og var ég aðeins á næturvöktum. Í seinni bylgjunni erum við á föstum vöktum 4-4-5 þar sem róterað er dag og næturvöktum. 4-4-5 vaktirnar er skárri kostur að mínu mati. Húsnæðinu var öllu skipt upp og mötuneytinu og líkamsræktinni í húsnæðinu var lokað. Þetta hafði jákvæð áhrif á vinnustaðinn, þar sem við fengum þrektæki inn á stöðina. Hjól til að hjóla við borð, handlóð, upphífingastöng. Eins höfðum við alltaf fengið matinn fyrir næturvaktina í hádeginu og var hann hálf óætur þegar við hituðum hann upp. Úr þessu var bætt og fáum við núna ferskan kvöldmat
Kafli 7 af 8 - Eftir faraldurinn
Hvaða breytingar á siðum, vanabundinni hegðun eða íslensku þjóðlífi gæti faraldurinn hugsanlega haft í för með sér? Sérð þú eitthvað jákvætt eða neikvætt í spilunum og þá hvað, ef svo er?
Aukin notkun fjarfunda er jákvæð, hugsa að það verði meira í framtíðinni. Meiri umhyggja fyrir náunganum o.s.fr.
Kafli 8 af 8 - Sögusagnir og orðrómur
Töluvert hefur verið um orðróm og ýmsar sögusagnir eða flökkusögur, jafnvel brandara, í kringum kórónaveirufaraldurinn og er oft erfitt að greina í sundur hvað er satt og hvað ekki. Með þinni hjálp vill Þjóðminjasafnið gera tilraun til að safna einhverju af þessu efni og varðveita til framtíðar. Segðu frá því sem þér er kunnugt um í þessu sambandi og hvernig þér hafa borist upplýsingar um það.
Hef orðið vör við hrepparíg.