Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Ártal2018-2022

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1997

Nánari upplýsingar

Númer2022-1-717
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið29.11.2023

Kafli 1 af 6 - Lýsing á mataræði

Lýstu mataræði þínu í daglegu lífi. Taktu fram ef þú skilgreinir mataræði þitt á ákveðinn hátt, og hvað felst í þeirri skilgreiningu.

Ég er vegan/grænkeri. Ég borða engar dýraafurður, þar á meðal mjólk, egg og kjöt.


Hversu lengi hefur þú aðhyllst þetta mataræði?

Ég hef ekki borðað kjöt í 4 ár en varð vegan fyrir 2 árum.



Kafli 2 af 6 - Ástæður og upplifun

Hvað varð til þess að þú snerir þér að þessu mataræði? Hverjar eru helstu ástæðurnar að baki ákvörðuninni og hvers vegna heldurðu þig við það?

Ég hætti að borða kjöt eftir að hafa séð myndbönd úr verksmiðjuslátrun og brotnaði niður. Ég gat ekki hugsað mér að taka þátt í þessum iðnaði. Svo hægt og rólega yfir tvö ár tók ég út mjólk og egg og varð svo alveg vegan 1. janúar 2020.
Það er líka umhverfisvænna að vera vegan og betra fyrir mína heilsu, bæði líkamlega og andlega.


Hvar heyrðirðu fyrst um þetta mataræði? Hvernig átti breytingin sér stað? Skyndilega eða smám saman?

Ég komst fyrst að þessu matarræði í gegnum 9gag þar sem var verið að gera grín af fólki sem væri vegan. Svo fór ég í Vegan Ísland hópinn til að gera grín af grænkerum með vinum mínum, en svo varð ég vegan út af hópnum. Ég byrjaði að sjá myndbönd úr verksmiðjum þar inn á og um ári eftir að ég fór í hópinn varð ég grænmetisæta.
Ég hætti að kaupa kjöt fyrir mig en kláraði það sem ég átti í frystinum. Svo ári seinna byrjaði ég að taka út mjólkurvörur og minnkaði notkun á eggjum og þá aðallega í bakstur. Svo rúmu ári eftir það ákvað ég að taka þátt í Veganúar 2020 og hef ekki aftur snúið.


Hafa áherslur þínar eða viðhorf eitthvað breyst síðan þú byrjaðir á þessu mataræði? Geturðu gefið dæmi?

Ég horfi öðruvísi á dýraafurðir, dýragarða og aðra staði sem nota dýr til afþreyingar.
Núna þegar ég horfi á kjöt sé ég ekki mat heldur dýrið sem það var. Þegar ég horfi á mjólkurvörur hugsa ég stundum um kálfana sem voru teknir frá móður sinni. Þegar ég horfi á egg hugsa ég um myndböndin í brúneggsmálinu.


Hefurðu upplifað einhverjar breytingar á þér sjálfri/sjálfum/sjálfu í kjölfarið á breyttu mataræði? T.d. breytingar á líðan (líkamlegri eða andlegri), bragðskyni, hegðun, áhugamálum eða félagslífi? Ef svo er, geturðu lýst breytingunum eða gefið dæmi?

Ég gat hætt á bakflæðislyfjum. Ég var með slæmt bakflæði og oft daglega, en núna fæ ég kannski 2x í mánuði og þá oftast eftir að ég legg mig á daginn. Ég hafði ekki hægðir nema á 2-3 daga fresti þegar ég borðaði kjöt því ég borðaði svo lítið grænmeti. Núna hef ég hægðir 1-2x á dag.
Mér líður betur andlega að vita að maturinn sem ég borða hafi ekki valdið þjáningu.
Ég hef eignast fleiri vini í gegnum vegan samfélagið.
Ég hef meiri kvíða yfir að fara út að borða eða í matarboð því ég er með sérþarfir og finnst það stundum vera vesen. Dæmi um það er að ég var á Tenerife með vinum mínum fyrir stuttu og við gátum ekki borðað hvar sem er því það var ekki vegan kostur á öllum stöðum. Vinir mínir voru opnir fyrir því að leita af stað sem hentaði mér líka en mér fannst ég samt vera með vesen.



Kafli 3 af 6 - Mataræðið í daglegu lífi, hindranir og tækifæri

Hvar verslar þú í matinn dags daglega? Hvað ræður því hvaða vörur rata í innkaupakörfuna? (Skiptir t.d. verðlag máli? Uppruni vörunnar? En markaðssetning og auglýsingar? Upplýsingar á pakkningum? Uppröðun í búðinni?)

Ég reyni að versla mest í Veganbúðinni til að styðja við þau. Ég veit að sumar vörur eru ódýrari t.d. í Bónus eða Krónunni en ég vil frekar versla þær dýrar hjá verslun sem hefur sömu gildi og ég.
Ég hef það gott fjárhagslega en reyni samt að eyða minna en 50000 kr á mánuði í mat, þ.m.t. skyndibita. Ég fer aðra hverja viku í búðina og geri innkaupalista út frá vikumatseðlinum sem ég geri og hversu mikið ég mun vera heima þá vikuna.
Ég reyni að kaupa vörur sem eru Íslenskar og/eða með vottanir um gæði varanna, t.d. sjálfbærni og umhverfisáhrif.


Hvernig er aðgengi þar sem þú býrð að þeim mat eða hráefnum sem þú þarft til að geta farið eftir þínu mataræði?

Mjög gott.


Hversu mikinn áhuga hefur þú á mat og matargerð almennt? Er matur mikilvægur í þínu lífi? Hversu miklum tíma eyðir þú í að hugsa um, laga og neyta matar? Finnst þér gaman að prófa nýjar uppskriftir, eða jafnvel finna upp þínar eigin

Ég hugsa mikið um mat og nýt þess að elda. Ég elska að borða góðan mat. Ég geri alltaf vikumatseðil til að vita hvað ég ætla að elda út frá vöktunum mínum, skólanum, hvað ég á til í búrinu og frystinum og hversu miklum tíma ég mun vilja eyða í matargerðina.
Ég eyði örugglega meirihluta dagsins í að hugsa um, laga og neyta matar. Ég nýt þess mikið að taka 1-3 klukkutíma í að elda kvöldmat og dunda mér við það.
Ég hef mjög gaman að því að prófa nýjar uppskriftir og gera þær að mínum eigin með breytingum eða jafnvel "veganæsa" þær. Mér finnst gaman að horfa á myndbönd og þætti af fólki að elda, jafnvel þótt það sé verið að elda dýraafurðir en þá reyni ég að hugsa um hvernig ég gæti gert uppskriftina vegan.


Hvað einkennir góðan mat? (T.d. hvað varðar bragð, lykt, áferð, útlit eða aðra eiginleika).

Það er mismunandi hvað einkennir góðan mat hjá mér, en það sem ég aðallega get tengt er að góður matur lætur mig vilja dansa smá þegar ég borða hann.


Hvað einkennir gæða matvæli þegar kemur að þínu mataræði? Skiptir t.d. máli hvort varan er fersk eða unnin, með viðbættum efnum eða annað slíkt?

Ég reyni að nota frekar ferska vörur, eins og baunir og grænmeti en ég nota líka alveg unnar vörur.
Ég hugsa ekki mikið um viðbætt efni nema til að athuga hvort varan sé vegan. En ef varan sem mig langar í er laus við aukaefni þá er það bara plús.


Er eitthvað sem þú saknar sérstaklega mikið úr þínu fyrra mataræði? Hvers vegna?

Ég sakna aðallega kúaost því það er mjög auðvelt að finna góðan og jafnvel ódýran kúaost í hvaða búð sem er. Það er mun erfiðara að finna góðan vegan ost og í mörgum búðum er lítið úrval og oft bara vondir vegan ostar til. Það eru til góðir og fínir (fancy) vegan ostar í veganbúðinni en þeir eru mun dýrari en kúaostar.


Hversu oft eldarðu mat heima hjá þér? Hvað þarf að vera til staðar í eldhúsinu svo þú getir farið eftir þínu mataræði? (Sérstök áhöld eða tæki, ákveðið mikið pláss eða annað?)

Ég elda flest kvöld sem ég er heima og nenni því. Það gerist af og til að ég nenni ekki að elda og þá er bara reddað sér eða pantaður skyndibiti.
Til að elda þarf ég bara grunn áhöld og tæki. Stundum þarf ég t.d töfrasprota eða tofupressu, en það fer eftir hvað ég ætla að búa til.


Ferðu oft út að borða? Hvert þá helst? Er auðvelt eða erfitt að panta mat á veitingastöðum sem hentar þínu mataræði?

Ég fer mjög sjaldan út að borða þar sem ég sest við borðhald. Ég er meira í að kaupa skyndibita en það er þó líka sjaldan.
Ég fer oftast á Sæta Svínið. Það eru fáir staðir sem eru ekki með vegan valkost og ég forðast þá. Það er oft auðvelt að panta vegan mat nú til dags, það eru mun fleiri á Íslandi sem vita hvað það þýðir að vera vegan.



Hverjar eru helstu hindranir sem þú hefur rekist á í daglegu lífi þegar kemur að mataræði þínu? Hvað myndi gera þér enn auðveldara fyrir að fara eftir þínu mataræði?

D3, rautt litarefni og mjólkurduft í allskonar hlutum. Oft þarf ekki að vera mjólkurduft í vörunum, eins og t.d. papriku Pringles. Ég þarf oft að athuga hvort vörur séu vegan því það geta leynst efni í þeim sem eru það ekki.



Kafli 4 af 6 - Heimili/fjölskylda, hefðir og kynjasjónarmið

Lýstu heimilisaðstæðum þínum. (Hversu margir búa á heimilinu? Eru börn á heimilinu? O.s.frv.). Fara allir á heimilinu eftir sama mataræði og þú? Ef ekki, hvernig hefur það áhrif?

Ég bý með sambýlismanninum mínum og hann borðar allt (omnivore). Stundum hefur það áhrif á mína líðan að hann hugsi ekki eins og ég en við byrjuðum saman þegar ég borðaði kjöt. Ég reyni að láta það ekki trufla mig því tilfinningin líður hjá. Hann virðir mínar lífsskoðanir þannig ég virði hans.


Upplifir þú stuðning eða gagnrýni frá fjölskyldu, vinum eða vinnu/skólafélögum varðandi þitt mataræði? Skiptir það þig máli? Geturðu gefið dæmi?

Ég fæ mikinn stuðning frá tengdamömmu og systkunum sambýlismannsins míns. Þau eru öll mjög opin fyrir því að prófa nýjan mat og læra að elda vegan.
Honum fannst ég vera með vesen fyrst en svo sættist hann við þetta og er opinn fyrir að prófa nýtt. Honum finnst líka allt sem ég elda gott þannig það hjálpar.
Vinir mínir sýna mér stuðning þótt þau borði allt og passa alltaf að það sé eitthvað sem ég get fengið mér í partýum eða veislum.
Mér finnst gott að fá stuðning frá vinum og ættingjum.
Það helsta sem er erfitt er að reyna að útksýra vegan matarræði fyrir ömmum mínum, þær skilja það ekki alveg en þær eru forvitnar og reyna að læra hvað ég vil borða og hvað ekki.
Mamma sýnir þessu mikinn skilning því hún er sátt ef hún fær einhver til að elda fyrir sig. Pabba er sama á meðan hann má borða það sem hann vill.


Skipta matarhefðir þig máli, t.d. við hátíðahöld? Hefur þú þurft að aðlaga hefðir að mataræði þínu? Hvernig þá?

Ég þurfti að finna annan mat til að hafa á hátíðum því það var alltaf kjöt í matinn.
Dæmi um það er sprengidagurinn, ég þurfti að finna eitthvað annað en saltkjöt. Æðislega tengdamóðir mín gerir alltaf sér baunir fyrir mig án kjötsoðsins svo ég geti líka borðað með þeim.


Hvað með veislur og matarboð? Þarftu að gera sérstakar ráðstafanir því tengt? Hvernig viðhorf hefur þú upplifað frá gestgjöfum eða öðrum gestum? Nefndu endilega dæmi.

Ég hef lítið þurft að fara í veislur eftir að ég varð vegan út af Covid. Matarboð eru snúin, ég tala oft við gestgjafann mikið um matinn nokkrum dögum fyrir boðið og hef þurft að koma með eigin mat.
Seinast um jólin átti ég að fara í matarboð til ömmu og ég ætlaði bara að elda allt sjálf til að spara henni vesenið að finna út úr hinu og þessu. En svo forfallaðist ég.
Ég man ekki eftir að hafa fengið slæmt viðhorf frá neinum, gestgjafar spyrja mig oft hvort eitthvað sé vegan áður en þau kaupa það fyrir mig. Aðrir gestir eru oft forvitnir og ég er glöð að svara spurningunum þeirra.


Hefur þú tekið eftir sérstökum viðhorfum eða öðru tengdu mataræði þínu út frá kyni þínu? Ef svo er væri gagnlegt að fá dæmi.

Nei



Kafli 5 af 6 - Upplýsingaöflun og miðlun, sjálfbærni og heilsa

Hvert sækir þú helst upplýsingar, fróðleik, uppskriftir eða innblástur fyrir þitt mataræði? Endilega settu inn tengla á vefsíður eða samfélagsmiðla ef um slíkt er að ræða.

Ég er mjög dugleg að nota google til að finna uppskriftir og innblástur út fra hráefnum sem ég á. Svo á ég nokkrar uppskriftarbækur, sumar eru vegan en aðrar þarf ég að breyta eða nota til að fá innblástur. Ég er líka mikið á Facebook og fæ fróðleik og annað frá Vegan Ísland.
Annars nota ég mikið þessar síður:
veganistur.is
Sovegan.com
Tasty.co



Finnst þér mikilvægt að fræða aðra um þitt mataræði? Hvers vegna og hvernig? / Hvers vegna ekki? Nefndu endilega dæmi.

Já, til dæmis ef það er verið að elda fyrir mig eða kaupa eitthvað fyrir mig. Ég vil að fólk viti frekar að ég sé vegan svo ég geti borðað það sem er í boði.
Ég tala samt ekki mikið um það í vinnunni að ég sé vegan nema ef einhver spyr mig. Það eru enn nokkrir sem vita ekki að ég sé vegan eða lærðu það nýlega. Fólk þarf ekki alltaf að vita að ég sé vegan en ef það ætlar að gera fyrir mig mat þá vil ég að það viti það.


Hvað felst í þínum huga í sjálfbærni í daglegu lífi?

Kaupa árstímabundnar vörur, t.d. grænmeti sem er í uppskeru í þeim mánuði.
Athuga hvort vörurnar sem þú kaupir séu ræktaðar á sjálfbæran hátt.
Nýta það sem er núþegar til.


Hvað felst í þínum huga í heilsusamlegu mataræði? Hvað/hvernig er hollur matur?

Allt mataræði getur verið heilsusamlegt, það fer eftir hvað hentar hverjum og einum. Fyrir mig þá er það grænmeti, , ávextir, kornvörur og baunir.
Hollur matur er m.a. lítið unninn.



Kafli 6 af 6 - Að lokum

Sérð þú fyrir þér að halda áfram að fara eftir þessu mataræði um ókomna tíð?




Er eitthvað sem þú vilt bæta við sem hefur ekki komið fram nú þegar?
Við hvað starfar þú?

Hjúkrunarnemi á LSH


Hver er menntun þín?

Útskrifast með BS í hjúkrunarfræði í vor.


Hefur þú einhverjar athugasemdir við þessa spurningaskrá?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana