LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Ártal2016-2023

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1949

Nánari upplýsingar

Númer2022-1-722
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið29.11.2023

Kafli 1 af 6 - Lýsing á mataræði

Lýstu mataræði þínu í daglegu lífi. Taktu fram ef þú skilgreinir mataræði þitt á ákveðinn hátt, og hvað felst í þeirri skilgreiningu.

Ég hætti að mestu að borða dýraafurðir fyrir rúmum sjö árum. Þá útilokaði ég allt kjöt, mjólkurvörur, egg og annað slíkt. En ég hélt áfram að borða fisk, þannig að ég varð ekki fyllilega vegan. Síðan hafa ostar komið aftur inn í mataræði mitt.
Ég reyni að borða hollt.


Hversu lengi hefur þú aðhyllst þetta mataræði?

Rúmlega sjö ár.Kafli 2 af 6 - Ástæður og upplifun

Hvað varð til þess að þú snerir þér að þessu mataræði? Hverjar eru helstu ástæðurnar að baki ákvörðuninni og hvers vegna heldurðu þig við það?

Ég ákvað að borða veganfæði eina helgi. Mér leið svo vel í líkamanum af því, alls konar verkir minnkuðu eða hurfu, til dæmis liðverkir, þannig að ég ákvað að halda mig áfram að mestu við það, nema ég vildi halda áfram að borða fisk.


Hvar heyrðirðu fyrst um þetta mataræði? Hvernig átti breytingin sér stað? Skyndilega eða smám saman?

Ég hafði lengi vitað af veganmataræði og þótt það forvitnilegt. Breytingin átti sér stað á einni helgi.


Hafa áherslur þínar eða viðhorf eitthvað breyst síðan þú byrjaðir á þessu mataræði? Geturðu gefið dæmi?

Með árunum hefur mataræðið breyst að því leyti til að ég hef bætt inn ostum að vild.


Hefurðu upplifað einhverjar breytingar á þér sjálfri/sjálfum/sjálfu í kjölfarið á breyttu mataræði? T.d. breytingar á líðan (líkamlegri eða andlegri), bragðskyni, hegðun, áhugamálum eða félagslífi? Ef svo er, geturðu lýst breytingunum eða gefið dæmi?

Mér fór samstundis að líða miklu betur þegar ég gerði þessar breytingar fyrir rúmum sjö árum. Liðverkir minnkuðu/hurfu. Ég léttist svolítið til að byrja með.
Mér fannst ekki eins gaman að fara út að borða fyrst á eftir því venjulega var úr litlu að velja. En það var ekki vandamál og er reyndar hvergi auðveldara en á Íslandi. Það er næstum alltaf eitthvað vegan á matseðlinum. Stundum margt, en því miður stundum aðein veganborgarar.
Morgunverður á hótelum er auðveldur. Starfsfólk hefur stundum boðist til að gera ráðstafanir þegar ég gaf upp að ég væri vegan (áður en ég bætti ostinum inn aftur). Ég sagði þeim alltaf að þetta væri ekki vandamál, ég myndi borða brauð og sultu og setja appelsínusafa út á morgunkornið.
Ef ég var boðin í mat einhvers staðar lét ég vita hvernig venjur mínar væru og fólk brást vel við. Hafði góðan fiskrétt og notaði olíu í stað smjörs eða rjóma.Kafli 3 af 6 - Mataræðið í daglegu lífi, hindranir og tækifæri

Hvar verslar þú í matinn dags daglega? Hvað ræður því hvaða vörur rata í innkaupakörfuna? (Skiptir t.d. verðlag máli? Uppruni vörunnar? En markaðssetning og auglýsingar? Upplýsingar á pakkningum? Uppröðun í búðinni?)

Ég kaupi inn í lágvöruverslunum og fiskbúðum. Vel eftir gæðum en læt verðlag líka ráða. Vil helst velja vörur sem koma ekki of langt að. Skoða einnig út frá ferskleika, til dæmis grænmetis. Horfi ekki mikið á auglýsingar. Les á umbúðir, framleiðsludagsetningar og innihald.


Hvernig er aðgengi þar sem þú býrð að þeim mat eða hráefnum sem þú þarft til að geta farið eftir þínu mataræði?

Það er ágætt.


Hversu mikinn áhuga hefur þú á mat og matargerð almennt? Er matur mikilvægur í þínu lífi? Hversu miklum tíma eyðir þú í að hugsa um, laga og neyta matar? Finnst þér gaman að prófa nýjar uppskriftir, eða jafnvel finna upp þínar eigin

Ég hef eldað mat í 57 ár og eyði minni tíma en áður í matargerð, finnst nú orðið mikilvægast að seðja hungur. Áður fyrr var ég mikið fyrir að prófa uppskriftir en gerði svo tilraunir út frá þeim. Nú bý ég þær aðallega til eftir hendinni og finnst ég vita nokkuð vel af reynslunni hvað passar saman.


Hvað einkennir góðan mat? (T.d. hvað varðar bragð, lykt, áferð, útlit eða aðra eiginleika).

Hann er fallegur, hefur ferskt yfirbragð og er samsettur úr mörgu. Margir litir og áferð. Og svo er auðvitað nauðsynlegt að hann bragðist vel.


Hvað einkennir gæða matvæli þegar kemur að þínu mataræði? Skiptir t.d. máli hvort varan er fersk eða unnin, með viðbættum efnum eða annað slíkt?

Ferskleiki skiptir mestu málin. Fiskur, grænmeti, ávextir, hnetur, baunir. Ég forðast að mestu unnar vörur með viðbættum efnum.


Er eitthvað sem þú saknar sérstaklega mikið úr þínu fyrra mataræði? Hvers vegna?

Ekkert. Ég hélt að ég myndi sakna þess að borða ekki lambasteik, en það var ljóst frá fyrsta degi að ég sakna einskis. Hins vegar bætti ég ostunum við af því að ég saknaði þeirra. Nú er þetta alveg eins og ég vil hafa það.


Hversu oft eldarðu mat heima hjá þér? Hvað þarf að vera til staðar í eldhúsinu svo þú getir farið eftir þínu mataræði? (Sérstök áhöld eða tæki, ákveðið mikið pláss eða annað?)

Hér á heimilinu er borðað heima flesta daga. Oft er eitthvað til frá deginum áður og stundum bætt við það. Til dæmis fær afgangur af fiski grænmeti með sér á degi 2. Það þarf að vera til fiskur, kartöflur, sætar kartöflur, gulrætur, laukur, hvítlaukur, annað grænt grænmeti eftir árstíðum, olífuolía, tómatar, salat á sumrin. Einnig baunir og hnetur. Áhöld eru aðallega pottur til að sjóða í og panna til að svita matinn á. Svo handverkfæri eins og hnífar, sleifar, spaðar, ausur.


Ferðu oft út að borða? Hvert þá helst? Er auðvelt eða erfitt að panta mat á veitingastöðum sem hentar þínu mataræði?

Ég fer líklega út að borða einu sinni til tvisvar í mánuði. Helst á veitingastaðina í göngufæri við heimili mitt, og af þeim er gott úrval. Það er auðvelt að panta mat sem hentar mér.Og auðvitað veit ég orðið hvaða staðir hafa gott úrval.


Hverjar eru helstu hindranir sem þú hefur rekist á í daglegu lífi þegar kemur að mataræði þínu? Hvað myndi gera þér enn auðveldara fyrir að fara eftir þínu mataræði?

Helstu hindranir hafa verið á ferðalögum erlendis, en ég ferðast nokkuð mikið. Ef ég er í hópferð erlendis segist ég vera vegan, því ég vil ekki borða hvaða fisk sem er. Það hefur svo sem ýmislegt gerst, til dæmis var ég í nokkra daga á hóteli á suðurströnd Frakklands og fékk fyrsta kvöldið hraukaðan disk af frönskum kartöflum og brúnni sósu í aðalrétt. Fararstjórinn var fljót að fara og lesa yfir kokkinum, enda hafði verið látið vita af mataræði mínu með löngum fyrirvara og svo einnig þegar við komum á hótelið.
Annars eru hindranir ekki í frásögur færandi nú orðið.Kafli 4 af 6 - Heimili/fjölskylda, hefðir og kynjasjónarmið

Lýstu heimilisaðstæðum þínum. (Hversu margir búa á heimilinu? Eru börn á heimilinu? O.s.frv.). Fara allir á heimilinu eftir sama mataræði og þú? Ef ekki, hvernig hefur það áhrif?

Við hjónin erum tvö í heimili. Eiginmaðurinn elskar að borða kjöt. En við samræmum þetta með því að elda grænmeti sem hentar báðum og svo sitt hvort til hliðar ef hann er með kjöt. Börn og barnabörn borða reglulega hjá okkur og þá er alls konar fiskur í matinn. Einstaka sinnum kjöt en þá líka fiskur því margir aðrir borða ekki kjöt.Upplifir þú stuðning eða gagnrýni frá fjölskyldu, vinum eða vinnu/skólafélögum varðandi þitt mataræði? Skiptir það þig máli? Geturðu gefið dæmi?

Bara stuðning, aldrei gagnrýni. Stundum forvitni. Það skiptir mig engu máli, ég borða fyrir sjálfa mig.


Skipta matarhefðir þig máli, t.d. við hátíðahöld? Hefur þú þurft að aðlaga hefðir að mataræði þínu? Hvernig þá?

Já, matarhefðir skipta máli og ég er ekkert að breyta þeim fyrir aðra. Á aðventunni bý ég til birgðir af hnetusteik og borða hana eða góðan fisk þegar aðrir borða kjöt. Við höldum fjölmenna hangikjötsveislu á jóladag og þá er alltaf líka hnetusteik.


Hvað með veislur og matarboð? Þarftu að gera sérstakar ráðstafanir því tengt? Hvernig viðhorf hefur þú upplifað frá gestgjöfum eða öðrum gestum? Nefndu endilega dæmi.

Ef ég er boðin í mat læt ég vita af því mataræði mínu. En ég bið fólk að gera ekki mikið úr því og ég væri alveg sátt við að koma með einhvers konar aðalrétt með mér og fá meðlæti sem væri laust við smjör og rjóma.
Ég hef alltaf upplifað velvilja, en stundum veit fólk ekki vel um hvað ég er að tala.


Hefur þú tekið eftir sérstökum viðhorfum eða öðru tengdu mataræði þínu út frá kyni þínu? Ef svo er væri gagnlegt að fá dæmi.

Nei. En fólk á kannski ekki von á því að kona á mínum aldri hafi gert svona breytingar á mataræði.Kafli 5 af 6 - Upplýsingaöflun og miðlun, sjálfbærni og heilsa

Hvert sækir þú helst upplýsingar, fróðleik, uppskriftir eða innblástur fyrir þitt mataræði? Endilega settu inn tengla á vefsíður eða samfélagsmiðla ef um slíkt er að ræða.

Fyrst til að byrja með sótti ég upplýsingar á netið. Ég á líka bók um veganfæði. En matargerðin mín hefur lengi snúist um að kíkja á uppskriftir og búa svo til mínar eigin.


Finnst þér mikilvægt að fræða aðra um þitt mataræði? Hvers vegna og hvernig? / Hvers vegna ekki? Nefndu endilega dæmi.

Ég er alveg til í að tala um mataræði mitt og hvað það hefur gert fyrir mig. En ég er ekkert sérstaklega að halda því að öðrum. Finnst það bara vera orðið hversdagslegt.


Hvað felst í þínum huga í sjálfbærni í daglegu lífi?

Ég myndi vilja borða miklu meira af mat beint frá býli og stutt aðkominn. Í því væri falin góð nálgun að sjálfbærni. En það er ekki einfalt hér á Íslandi.
Skref mín til sjálfbærni í daglegu lífi varðandi matargerð eru helst þau að borða mat sem kemur stutt að og er í takmörkuðum umbúðum. Yfir sumarið ræktum við kartöflur, salat, rauðrófur, gulrætur og sitthvað fleira fyrir utan rabarbara og rifs. En það er dropi í hafið af öllu því sem við borðum.
Ég vil bera sem minnst heim af umbúðum utan um matvæli og finnst fúlt að geta aðeins fengið fisk í einföldum pappírsumbúðum í fáum fiskbúðum. Og ég hef til dæmis hætt að borða risarækjur því þær eru fluttar svo langt að.Hvað felst í þínum huga í heilsusamlegu mataræði? Hvað/hvernig er hollur matur?

Í mínum huga er létteldaður ferskur matur heilsusamlegastur og hollastur. Ferskur fiskur, nýuppteknar kartöflur, brakandi ferskt grænmetissalat með nokkrum dropum af ólífuolíu, salti og hnetum ásamt góðu brauði og olíu er minn uppáhaldsheilsusamlegur matur.Kafli 6 af 6 - Að lokum

Sérð þú fyrir þér að halda áfram að fara eftir þessu mataræði um ókomna tíð?

Já.


Er eitthvað sem þú vilt bæta við sem hefur ekki komið fram nú þegar?

Ég man ekki eftir neinu.


Við hvað starfar þú?

Ég er komin á eftirlaun.


Hver er menntun þín?

Sálfræðingur.


Hefur þú einhverjar athugasemdir við þessa spurningaskrá?

Nei.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana