Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


HeitiRör, óþ. notk., Vatnsveita
Ártal1935

StaðurSelfoss I
ByggðaheitiFlói
Sveitarfélag 1950Selfosshreppur
Núv. sveitarfélagSveitarfélagið Árborg
SýslaÁrnessýsla (8700) (Ísland)
LandÍsland

Nánari upplýsingar

NúmerBÁ-1391
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá
Stærð53 x 20 cm
EfniJárn, Viður
TækniTækni,Trésmíði

Lýsing

Vatnsrör. Bútur úr fyrstu vatnsveitu Selfoss frá árinu 1935. Leiðslan var gerð úr 6 tommu trépípu, vafin með járntein og vatnið tekið úr lindum við Ingólfsfjall.

Þegar fyrstu húsin voru reist á Selfossi var neysluvatn sótt í brunna sem teknir voru á nokkrum stöðum í plássinu, gjarnan í kjöllurum einstakra húsa. Var vatni dælt með handdælu í tunnu uppi á háalofti. Þannig fékkst sjálfrennsli í krana og hreinlætistæki. Allir urðu að taka brunn eða fara í brunn nágrannans. Stærsti brunnurinn var skammt frá Mjólkurbúi Flóamanna, austast í þorpinu. Þegar byggðin við Ölfusá fór að vaxa var farið að vinna að stofnun vatnsveitu. Fram til 1947 var Selfoss hluti af Sandvíkurhreppi en svo virðist sem hreppsfélagið hafi ekki komið að gerð vatnsveitunnar í þessum stækkandi þéttbýlisstað en veitti þó stofnendum hennar sjálfskuldarábyrgð að láni sem tekið var við framkvæmdina. Á stofnfundi árið 1935 var ákveðið að leggja vatnsveitu fyrir Selfossbyggð og virkja lind undir Ingólfsfjalli. Stofnendur voru væntanlegir notendur vatnsveitunnar með Egil Thorarensen, kaupfélagsstjóra Kaupfélags Árnesinga og stjórnarformann Mjólkurbús Flóamanna, í fararbroddi. Þessi tvö fyrirtæki áttu meir en helming í Vatnsveitufélagi Selfoss.

Smíðaðar voru sex tommu víðar trépípur sem snúnar voru saman með vír og vatnið leitt í þeim þriggja kílómetra leið frá rótum Ingólfsfjalls fram Hellismýrina, undir Ölfusárbrú og austur að Mjólkurbúi Flóamanna. Höskuldur Baldvinssson verkfræðingur sá um verkið og útvegaði verktaka.

Lögnin míglak í þrjá daga meðan hún þétti sig. Urðu einstaklingar sjálfir að sjá um heimæðar og kosta þær. Þá voru á Selfossi 27 íbúðarhús. Stærsti notandinn var Mjólkurbú Flóamanna sem mun hafa kostað þessa framkvæmd að hálfu, enda átti mestra hagsmuna að gæta. Síðan hefur margt vatn til sjávar runnið og plaströr hafa leyst gömlu trérörin af hólmi. Vatnsveita Selfoss gaf Byggðasafni Árnesinga lítinn bút úr einu vatnsröri árið 1979.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um þá byltingu í lífsháttum Selfyssinga vatnsveitan hafði. Komið var sjálfrennandi vatn úr tærri lind við rætur Ingólfsfjalls. Ekki þurfti lengur að dæla vatni úr brunni og vatnið úr brunnunum ófullnægjandi. Meðal annars var vatnið úr brunninum við mjólkurbúið mjög slæmt, blandað leir.

Þegar vatnsveitan var lögð í þessa ungu byggð við Ölfusá var það ekki sérstakt hreppsfélag. Stærsta fyrirtækið var Mjólkurbú Flóamanna sem starfaði við matvælavinnslu. Það var því mjög mikilvægt að mjólkurbúið fengi hreint vatn. Með samtakamætti forystumanna tveggja stærstu fyrirtækjanna og almennra íbúa í þorpinu var ráðist í þessa framkvæmd og skilaði samtakamátturinn miklu máli. Þessi litli trébútur úr vatnsveitunni á Selfossi er skýrt dæmi um safngrip sem hefur samfélaglega skírskotun.


Heimildir

Árvaka Selfoss. Þættir úr sögu Selfoss, fyrirtækja, félaga og stofnana. (Selfoss 1972), bls. 132.

Guðmundur Kristinsson: Saga Selfoss 2. bindi. Frá 1930 til 1960. (Selfosskaupsstaður 1995), bls. 171-173.

Lýður Pálsson: "Og lögnin míglak", Safnablaðið Kvistur, 5. tbl,  2018-2019, bls. 44.

Þetta aðfang er í Byggðasafni Árnesinga. Fjöldi færslna hjá safninu var í árslok 2022 sem hér segir: Fornleifar 916, safnmunir 7.418, ljósmyndir 6.788. Í þessum tölum eru safnmunir Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka og Tónminjaseturs Íslands.

Söfnun muna til Byggðasafns Árnesinga hófst árið 1953. Safnkosturinn er að stærstum hluta skráður í Sarp.

Allar leiðréttingar og viðbótarupplýsingar eru vel þegnar.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.