LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar


Landfræðileg staðsetning


HeitiKista, + hlutv., Kista, úr kirkju
Ártal1829

StaðurAkureyjar 1
ByggðaheitiSkarðsströnd
Sveitarfélag 1950Skarðshreppur Dal.
Núv. sveitarfélagDalabyggð
SýslaDalasýsla (3800) (Ísland)
LandÍsland

GefandiAndrés J. Johnson 1885-1965
NotandiSturlaugur Tómasson 1837-1920

Nánari upplýsingar

NúmerÁ-249
AðalskráMunur
UndirskráÁsbúðarsafn (Á)
Stærð106 x 53 x 57,3 cm
EfniEik, Fura, Járn
TækniTækni,Trésmíði

Lýsing

Kista, eik.

Kista, stór smíðuð úr eik, en lokið úr furu, með venjulegu lagi, eilítið niðurmjó, hvelft lok yfir á hjörum, skrá við miðja efri brún framhliðar, en efst við vinstri gafl handraði, máluð utan nema á baki. L. kistu þessarar er 1 m 6 cm, br. um 53 cm, h. 57,3 cm og mest þ. fjala 3,1 cm. Ein fjöl í hliðum öllum og geirugling við horn, í botni eru tvær fjalir, festar með trénöglum, en í loki þrjár fjalir. Skar úr eik undir báðum endum loks og þeir festir með nöglum úr tré. Á hjörunum, sem smíðaðar eru úr járni og negldar á með járnnöglum, eru langir sprotar skrautlegir í sniði og liggja þeir niður bak og inn eftir loki að neðan. Skráin, úr járni, er innan á framhliðinni, yfir henni kassi, negldur að með járnnöglum og ganga í hana tvær lykkjur á frambrún loks að innan, festar á járnspöng, sem skrúfuð er á. Lauf úr járni, l. 14,5, með skrautlegu sniði, er yfir skráargatinu, fest með tveimur járnnöglum. Striknn er á brúnum við op allt umhverfis og upp í innri brún oka að neðan er gert úrtak. Í handraðanum eru þrjár fjalir, eru fjalirnar í framhlið hans og botni felldar í langhliðar kistunnar, en lokið, sem er með strikhefllun á frambrún, leikur á typpum við endana. Við miðja kistugafla að utan eru höldur smíðaðar úr járni, einfaldar að gerð og ekki alveg eins báðar. L. mest 14 cm. Hanga þær í lykkjum úr járni, sem reknar eru í gaflana, en endar beygðir að innan. Settar eru all stórar beitar úr járni yfir öll horn á kistunni, tvær við hvert horn, nokkurt skrautsnir á og neglt með nöglum úr járni, eru þær all nýlegar. Grunnur er hafður ljósgrænn, þar sem málað er á kistuna, stuðlar þrír, með sveigðum útlínum, rauðir og rauðbrúnir, liggja þversum yfir mitt lokið og framhlið miðja og yfir brúnir við gaflana allt í kring, rósahnippi, litir þar hvítt, dökkgrænt og rautt, eru í bilunum milli stuðla á loki, en á framhlið eru sitt hvorumegin miðstuðuls tveir rósasveigar og hér sömu litirnir og á blómunum á loki, í sveignum til vinstri hefur verið áletrun, hún nú horfin, hinum megin er gert ártalið 1829.

Önnur fjalanna í botni er nýleg, greina má sprungur, járn er ryðgað, málningin hefur flagnað all mjög af, en skrámur víða og blettir.

Kista þessi er frá Sturlaugi Tómassyni, Akureyjum.


Árið 1981 var aflað eftirfarandi upplýsinga um gripinn:

Í Akureyjum var kistan notuð til að geyma í ýmislegt smáræði sem ástæða þótti til að loka niður, svo sem molasykur (sykurtoppa), ómalað kaffi, rúsínur, sveskjur o.fl. Var þetta haft í litlum pokum sem Sturlaugur raðaði vendilega í kistuna. Ennfremur mun hafa verið kornvara í kistunni. Kistan stóð við stigaopið í torfbænum, nokkuð innarlega á skörinni, en loft (loftpallur) var fyrir ofan baðstofuna, kölluð Bæjarstofa. Sturlaugur átti oft erindi í kistu sína eða var stundum að bauka við hana. Það var einnig timburhús í Akureyjum.

Sturlaugur Tómasson var alblindur síðustu æviárin en hafði samt eftirlit með búi sínu og var sístarfandi fram á dánardægur, t.d. fléttaði hann reipi úr hrosshári. Sturlaugur andaðist á loftskörinni við kistu sína eða fékk þar aðsvif sem leiddi hann til bana skömmu síðar. Var hann þá að sækja eithvað matarkyns til heimilisnota. Sðustu orð hans voru "viltu binda fyrir pokann fyrir mig", þ.e. einhvern af pokunum sem voru í kistunni.

Sturlaugur var fyrst bóndi í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd en seinna í Akureyjum. Hann var fæddur 1837 og lést 1920. Jarðsettur á Skarði á Skarðsströnd og er legsteinn hans framan við kirkjudyr.

Árið 1924 flutti ekkja Sturlaugs, Herdís Kristín Jónsdóttir, frá Akureyjum að Hnúki á Skarðsströnd ásamt Unni dóttur sinni og tengdasyni, Birni Guðbrandssyni. Þau fluttu til Keflavíkur 1929 og bjó Herdís áfram hjá dóttur sinni. Á Hnúki mun kistan hafa verið notuð sem eins konar forðabúr og í henni geymdur svipaður varningur og í Akureyjum. Segir Unnur að eiginmaður sinn hafi gefið kistuna á safn, sennilega haustið 1929, og án efa var það Andrés Johnson sem tók við henni enda er hún skráð sem hluti af Ásbúðarsafni. Unnur telur að viðgerð hafi ekki verið framkvæmd á kistunni.

Þessar upplýsingar til viðbótar voru færðar inn 30. mars 2006 og ennfremur 14. nóvember 2007. Ágúst Ólafur Georgsson.

Í handskrifaðri skrá (stílabók) frá Andrési J. Johnson, sem merkt er II, kemur fram að kistan hafi verið smíðuð á Hornströndum. (Freyja Hlíðkvsit, maí 2022).

 


Heimildir

Heimildarmaður. Unnur Sturlaugsdóttir, Faxabraut 18, Keflavík, kt. 0712012289. Munnlegar upplýsingar 7. maí 1981. Ágúst Ólafur Georgsson skráði.
Heimildamaður. Georg Breiðfjörð Ólafsson, Silfurgötu 13, Stykkishólmi, kt. 2603094639. Munnlegar upplýsingar 7. maí 1981 og oftar, síðast 14. janúar 2006. Ágúst Ólafur Georgsson skráði.
Heimildarmaður. Sturlaugur Björnsson, kt. 1507272359, Suðurgötu 4, Keflavík. Munnlegar upplýsingar 5. apríl 2006. Ágúst Ólafur Georgsson skráði.
Jón Guðnason, 1961. Dalamenn, æviskrár 1703-1961, II. bindi, bls. 257-258, 350-351. Reykjavík.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana