Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar



Landfræðileg staðsetning


HeitiHöggstokkur
Ártal1830

StaðurVatnsdalshólar
ByggðaheitiVatnsdalur
Sveitarfélag 1950Sveinsstaðahreppur
Núv. sveitarfélagHúnavatnshreppur
SýslaA-Húnavatnssýsla (5600) (Ísland)
LandÍsland

GefandiÁrni Árnason 1875-1941
NotandiGuðmundur Ketilsson 1791-1859

Nánari upplýsingar

Númer5411/1907-13
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð125 x 22 x 23,8 cm
EfniEik
TækniTækni,Trésmíði

Lýsing

Úr aðfangabók:
Höggstokkur sá er þau Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru hálshöggvin á 12. jan. 1) 1830 af Guðmundi Ketilssyni, bróður Nathans þess er þau höfðu myrt. - Aftakan fór fram í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu og lá höggstokkurinn þar síðan til þess er hann var sendur hingað suður af Árna Árnasyni frá Höfðahólum. - Hann er eikardrumbur, hefur verið röng í skipi, er 125 cm. að l., 20-22 að br. og 23,8 að h. um miðju, en 21,2 og 22,2 úti við endana. Nokkurn veginn ferstrendur, en brúnir þær, er upp hafa snúið, hafa verið höggnar af og skarð hefur verið höggvið í fyrir hökunni, svo að br. undir hálsinum er um 8 cm., en skarðið er hálfkringlumyndað, um 9,5 cm. að vídd yzt, myndað svo sem sú hliðin hafi átt að snúa upp, sem virðist hafa snúið fram. - Við aftökuna var höggstokkurinn klæddur rauðu klæði.  Hún var framkvæmd með böðulsöxi nýrri, er til þess var fengin; er nú blaðið af henni nr. 6320 í safninu; hefur hún ekki verið notuð til aftöku síðan, því að þessar eru hinar síðustu hjer á landi. -  Í þá hlið höggstokksins, er virðist hafa snúið upp við aftökuna, eru 2 stórar rifur og 1 lítil í milli. Sagt er að Guðmundur hafi höggvið af svo miklu afli að öxin hafi gengið nokkuð ofan í stokkinn; má vera að smárifan í miðju sje far eptir öxina, en í þeirri rifunni, sem næst er hökuskarðinu virðist jafnvel votta fyrir axarfari, miklu dýpra; sje það sönn sögn, að verið hafi tveggja manna tak að ná öxinni aptur úr stokknum hlýtur hún að hafa sokkið hjer í hann þá, en það var við fyrri aftökuna, Friðriks; hið smærra öxarfarið, ef það er svo, kann þá að vera eptir hina síðari.  - Í sögu Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu eptir Brynj. Jónsson, Rvík 1912, má nú lesa um alt þetta mál og aðdragandann að því, en frá aftökunum er sagt á bls. 120 o.s.frv.  Er þar sagt að öxin og höggstokkurinn hafi verið fengin frá Kaupmannahöfn.

1) Svo Ísl. árb. (Esp.) en 12. febr. Br. J. í Natans sögu, bls. 120.

Úr Gersemar og þarfaþing:  (Texti eftir Árna Björnsson)
Undir höggstokkinn var hlaðinn grjótbálkur og í kringum hann var grindverk með hliði.  „Utan þess stóð Björn Blöndal sýslumaður í embættisbúningi og hálft annað hundrað bænda í þrefaldri röð að boði hans.  Innan hliðsins stóð böðullinn og tveir aðstoðarmenn sem kallaðir voru „rakkaraknekt“.  Þeir áttu meðal annars að þrífa höggstokkinn og bálkinn milli atriða.  Tólf metra frá bálkinum var nýtekin tvíbreið gröf og tvær líkkistur hjá.  ...  Prestar fylgdu hinum dæmdu upp að höggstokknum og báðu fyrir þeim.  Eftir aftökuna hreinsuðu „rakkaraknektin“ til á bálkinum, grófu líkin og settu höfuðin á stengur sem voru yddaðar í þann endann sem rekinn var upp í strjúpann.  Stengurnar voru festar hvor sínum megin við bálkinn og andlitin látin snúa móti alfaraleið.“
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 24.8. 2010)


Heimildir

Árni Björnsson. „Höggstokkur og öxi.“ Gersemar og þarfaþing. Reykjavík 1994, bls. 100 - 101.
Brynjúlfur Jónsson. Saga Natans Ketilssonar. Reykjavík 1912, bls. 120-124.
Guðlaugur Guðmundsson. Enginn má undan líta. Reykjavík 1974, bls. 118-150.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana