LeitaVinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantarLandfræðileg staðsetning


HeitiÞórshamar
Ártal950-1050

StaðurFoss
ByggðaheitiYtrihreppur
Sveitarfélag 1950Hrunamannahreppur
Núv. sveitarfélagHrunamannahreppur
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer6077/1910-195
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð5 x 3 cm
EfniSilfur
TækniSilfursmíði
FinnandiElísberg Pétursson

Lýsing

Úr aðfangabók:
Þórshamar úr silfri, krossmyndaður og með vargshöfði á enda eins armsins en hnúðum á hinum þremur; vargshöfuðið er með gapandi gini, mun þar hafa verið í band eða festi og Þórshamarinn borinn á hálsi eða brjósti sem verndar- og skraut-gripur. Armarnir eru sívalir um 0,6 sm. að gildleika, - hnúðarnir 1 sm. að gildl. Lengd Þórsh. 5 sm., br. 3 sm. Gagnskorinn í kross í miðju og hefur máske verið smelt þar í. - Fundinn í moldarflagi skamt frá Fossi í Hrunamhr.; þar hafði að sögn fundist öxi áður. - Sbr. nr. 2033, sem er eins og nr. 659 í Danm. Olds. II.-; það er silfurhlutur, borinn á sama hátt, en með annari gerð; hefur þó getað átt að tákna Þórshamar. - Báðir eru gripir þessir frá landnámsöld vafalaust.

Úr Silfur í Þjóðminjasafni:
Hér kemur fram að Þórshamarinn er talinn erlend smíð (bls. 9)
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 1.11.2010)

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, nóv. 2011:
Í nóvember 2011 barst tölvupóstur frá Þór Magnússyni, fyrrum þjóðminjaverði:
„12. nóvember fór ég með fólk úr Leiðsöguskólanum um safnið, eins og stundum áður. Ég benti fólkinu meðal annars á „Þórshamarinn“ frá Fossi í Hrunamannahreppi.
Á eftir kom til mín maður úr hópnum, Ágúst Ragnarsson (sími 821-8100). Hann kvaðst hafa verið ungur maður á Bakkafossi Eimskipfélags Íslands, árið 1968. Þá var þar matsveinn í afleysingum, roskinn maður, Elísberg Pétursson, sem hafði verið matsveinn á Eimskipafélagsskipum, en var nú hættur. Ágúst var með þennan „Þórshamar“ um hálsinn, þá var nýfarið að gera afsteypur af honum, og Elísberg varð starsýnt á gripinn, spurði hvar Ágúst hefði fengið hann. Sagði hann jafnframt, að þennan hlut hefði hann sjálfur fundið er hann var drengur „fyrir austan.“ Hann hefði verið að reka kýr og hluturinn þá komið upp í klauffari einnar kýrinnar í moldarflagi. Hann kvað prestinn hafa skoðað gripinn, hann hefði verið veginn og sér hefði verið borguð fundarlaun fyrir hann.
Ég kannaði í reikningum safnsins, og mikið rétt: Safnið kaupir þennan grip 20. okt. 1910, Matthías hefur skrifað kvittunina og Elísberg kvittað fyrir móttöku  fundarlauna, sem voru 5 krónur. - Þar segir einnig, að þarna hafi, að sögn, fundizt öxi áður, en ekkert meira er um það.
Það er gaman, þegar maður fær svona frásögn löngu síðar, og hún stemmir við raunveruleikann.
Elísberg var fæddur 5. marz 1898 í Skrauthólum á Kjalarnesi, dáinn 3. sept. 1981.
Kveðjur. Þór.“


Sýningartexti

Krosslaga skartgripur úr silfri, sem borinn hefur verið í festi um hálsinn, oft kallaður „Þórshamar“. Líkur benda þó til að hluturinn sé frekar úr kristnum sið en úr heiðni, eins og lengi var álitið, enda líkist hann frekar kristnum krossi en hinum þekktu Þórshömrum víkingaaldar og gæti verið frá 11.–12. öld. Fundinn á víðavangi hjá Fossi í Hrunamannahreppi, en þar hafði að sögn fundist öxi á sama stað áður.

Spjaldtexti:
Krosslaga hálsmen, oft kallað Þórshamar, líkist þó frekar kristnum krossi en hinum þekktu Þórshömrum frá víkingaöld og gæti verið frá 11.–12. öld. Fannst hjá Fossi í Hrunamannahreppi. Þar hafði að sögn áður fundist öxi, sem gæti bent til þess að þar hafi verið kuml.

This cruciform pendant, often known as Thor’s Hammer, Þórshamar, in fact bears closer resemblance to a Christian cross than the known examples of Þórshamar from the Viking Age. It may date from the 11th or 12th century. An axe is said to have been found nearby, which may indicate that the artifacts were from a grave.


Heimildir

Kristján Eldjárn. Kuml og haugfé. Reykjavík 2000, bls. 383-384.
Kristján Eldjárn. „Þórslíkneski svonefnt frá Eyrarlandi.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1982. Reykjavík 1983, bls. 62-75.
Þór Magnússon.  Silfur í Þjóðminjasafni.   Reykjavík, 1996: bls. 9.
Vikingetidens Kunst.  (Udstillingskatalog). Redaktør Lise Gjedssø Bertelsen. Jelling, 2002.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana