LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiPrentmynd
Ártal1766

LandÍsland

GefandiSigurður Guðmundsson 1833-1874
NotandiEggert Ólafsson 1726-1768

Nánari upplýsingar

Númer774/1870-23
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð26,3 x 24,3 cm
TækniPrentun

Lýsing

Úr aðfangabók:
Málverk Íslenzkunnar 1766 og þess skýríng í móðurmáli, gert til að vera framan við Friðriksdrápu, eptir Eggert Ólafsson. Þar er Ísland myndað eins og kona með trafafald á höfði og barðastóran hatt þar ofan á með mjófum kolli 1) og skildi á hægri hlið, sem Eggert kallar í kvæðinu: Ísland með ermahnöppum þá fyrir laungu lagðan af. Hér er hempan sýnd alveg ólögð að framan á börmunum, og mun það hafa mikið tíðkazt framanaf 18. öld, eins og framanaf 17. öld: þar sést að eins lítil einskonar laufaleggíng yfir um handvegina. Hempan er og sýnd með stórum og víðum uppslögum, sem níu ermannappar hánga í: uppslögin eru af öðrum lit en hempan, og virðast helzt að vera laus, eins og í skiptabréfum, þar eru hempu-uppslög opt talin sérstök, og bendir það á hið sama: þau sjást og laus á treyjum á myndum frá 1772, og er þeim þar smokkað upp á ermina, yfir ermahnappana. 1) Sbr. Ofsjónir við jarðarför Lovísu drottningar 1752 í kvæðabók Eggerts, 108. bls.
Tvær samskonar myndir aðrar eru til hér í safninu, Þjms. 2004-73-1 og 2004-73-2 (FHÓ, ágúst 2007).

Gamlar þjóðlífsmyndir, mynd 151:
Hugmyndin um konu sem þjóðartákn var víða á kreiki á 18. öld, sbr. Germaniu þá þýsku og Marianne í Frakklandi. Hvað Ísland varðar mun þessi hugmynd fyrst hafa komið fram opinberlega hjá Eggerti Ólafssyni á mynd með kvæðisbrotum sem hét Ofsjónir við jarðarför Lovísu drottningar 1752.
Eggert segir, að fjárhagur „lærdómsiðkara“ í Kaupmannahöfn hafi ekki leyft „útfærslu málverksins“, þ.e. prentun þess, sem hefði kostað um 500 ríkisdali. Er það mikil missa, ef dæma skal af kostulegri lýsingu þess í níu köflum, sem prentuð var á latínu og dönsku, en síðar útlögð á íslensku með skýringum. þar segir í 4. kafla.
Lengst uppí dalnum, þar sem áin kemur fram, situr kona nokkur á steini. Yfir höfði henni stendur skrifað Island. Hún hefir yfir sér svarta kvenskykkju þrönga, undir stuttan niðurhlut og silfurbelti um sig, þunna skó á fótum, lítinn stinnan kraga um hálsinn, hulið höfuð með svörtu silki og kvenhatt með silfurskildi. Þessi kona hefir með öllu sorgliga ásýnd, styður vinstri hönd undir kinn og horfir upp til himins. Til hægri handar standa nokkrar kýr og blína á hana, sem þeim þækti hún að látum og limaburði óvenjulig.

Hjá þeim sést þessi yfirskrift:
Bragð er að, fyrst baulur þekkja líka,
að Íslandi bregður sínum sið,
svoddan nautin kannast við.

Við andlát Friðriks konungs 5. yrkir Eggert svo drápu, og nú hefur efnahagurinn leyft prentun myndar þeirrar, sem hér sést og fylgdi Friðriksdrápu. Myndin virðist einnig hafa verið gefin út á lausu blaði og Eggert þá ort annan texta við hana. Sú samsetning heitir Málverk Íslenskunnar 1766 og þess skýring á móðurmáli. Eggert var sér þess meðvitandi, að sum kvæði hans mundu nokkuð torskilin fyrir almúga og lét þá eigin skýringar fylgja þeim eins og í þessu tilviki. Myndskýringin er þannig í bundnu máli með tilvísunarmerkjum:
Ísland málað er í konu líki:
við er(a) Fátækt vinstri hlið,
við er hina (b) Þakklætið.

Landsins mynd er lituð (c) vetrar snjóum:
Móðir sjálf í miðið er,
(d) Milding ungan hylla fer.

En hún gleymir ei með Þökk að skoða
liðsins (e) Hilmis harma pent,
hjartað verður skipt í tvennt.

Þar er (f) Storkur Þakkar ættarfylgja:
Fátækt heldur Ísland í,
ekki vill hún sleppa því.

Friðriks (g) leifar Fósturjörð geymir.
(h) Barns í líking helför hans
Hugur grætur þessa lands.

Síðan koma skýringar við skýringuna, þar sem segir m.a. við (d):
Íslenskan er hér fram fallin á það hægra kné, mót miðju, fyrir hins ung konungs höfuðbílæti.

Ekki verður þó óyggjandi séð, að Eggert noti nokkurs staðar beinlínis orðið „fjallkona“ í rituðu máli. það gerðu hinsvegar mörg skáld eftir hans dag, og þekktust er „fjallkonan fríð“ í kvæði Bjarna Thorarensens Eldgamla Ísafold, sem hann orti á fyrsta áratug 19. aldar. Gunnlaugur Oddsson notaði orðið líka í skálarkvæði fyrir minni Valgerðar Jónsdóttur biskupsfrúar við vígslu Steingríms biskups Jónssonar í Kaupmannahöfn á jólum 1824. Í því kvæði segir m.a.:
Fannhvítum hreykti faldi hátt
Fjallkonan sköruglig.

Gunnlaugur var þá 38 ára styrkþegi Árnasjóðs í Kaupmannahöfn. Hann fékk dómkirkjuprestsembættið í Reykjavík, þegar það losnaði hálfu öðru ári síðar.
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 8.3.2011)

Sýningartexti

„Málverk Íslendskunnar og þess skýring í móðurmáli,“ innrömmuð prentmynd frá 1766 gerð til að vera framan við drápu Eggerts Ólafssonar, er hann orti við fráfall Friðriks konungs 5. og tileinkaði Kristjáni konungi 7. Þar er Ísland myndað eins og kona í dökkri síðhempu, með trafafald á höfði og barðastóran hatt þar ofan á. Einnig er brjóstmynd af hinum látna konungi og líkkista úr marmara, en undir langur texti til skýringar.
774

„Málverk Íslendskunnar og þess skýring í móðurmáli,“ innrömmuð prentmynd frá 1766 gerð til að vera framan við drápu Eggerts Ólafssonar, er hann orti við fráfall Friðriks konungs 5. og tileinkaði Kristjáni konungi 7. Þar er Ísland myndað eins og kona í dökkri síðhempu, með trafafald á höfði og barðastóran hatt þar ofan á. Einnig er brjóstmynd af hinum látna konungi og líkkista úr marmara, en undir langur texti til skýringar.
774

Spjaldtexti:
Innrömmuð prentmynd frá 1766, nefnd Málverk íslenskunnar. Þar er Ísland myndað eins og kona í dökkri síðhempu með fald á höfði og hatt. Einnig er brjóstmynd af Friðriki V og líkkista.

Framed print from 1766 AD. Named „The painting of Icelandic”. Iceland is depicted as a woman in a dark cloak with a traditional high headdress and hat. The picture also includes a bust of King Frederick V and a coffin.

Heimildir

Árni Björnsson, Halldór J. Jónsson. Gamlar þjóðlífsmyndir. Reykjavík, 1984.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana