LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiSpiladós
Ártal1856

Núv. sveitarfélagKaupmannahöfn
SýslaSjáland
LandDanmörk

GefandiElínborg Pétursdóttir Thorberg 1843-1925

Nánari upplýsingar

NúmerL-9
AðalskráMunur
UndirskráListiðnaðarsafn (L)
Stærð49,8 x 23,5 x 14,7 cm
EfniGler, Greni, Kopar, Laufviður, Palisander, Stál, Viður

Lýsing

Elínborg Thorberg, landshöfðingjafrú, Höfn, ánafnaði:

Spiladós sú, er prins Jerome Napoleon gaf dr. Pétri Péturssyni biskupi, föður gefanda, 1856.  Hún er (þ.e. kassinn) úr smágjörvum laufviði, með palisanderpoleringu að utan, og með 2 lokum, innra úr gleri í grannri umgerð yfir verkinu;  ytra með mjög skrautlegri spónleggingu úr ýmsum viðartegundum.  Vinstri gafl er tvöfaldur og innan við hinn er hálf, utan við verkið.

Lengd 48,4, breidd 21,7, hæð 14,7 cm, fyrir neðan lokið, það er að þykkt 1,1 og 49,8 x 23,5 cm.  Botninn er úr greni.  Verkið er úr kopar og stáli, fest í með skrúfum, sem ganga inn í gegnum hliðarnar, 2 í hvorri.  Kamburinn með tónfjöðrunum er úr stáli, 28,5 cm að lengd og eru fjaðrirnar um 160 að tölu;  hafa sumar sama tón, 2-4 saman.  Sívalningurinn, sem snýst fyrir framan þær, er með ótal smánöglum, sem snerta þær;  hann er úr kopar, jafnlangur kambinum og 8,3 að þvermáli.  Hann snýst með einskonar hjólverki, og er það knúið áfram af fjöður í stóru fjaðurhúsi við vinstri enda, en stilling og hraði temprast með hjólverki við hægri enda.  Undir eru járn, sem eru færð til vinstra megin, felast endarnir þar milli gaflanna og má taka hinn ytri frá.

Með því að færa þessi járn eða lykla má stöðva gangverkið eða hleypa því af stað, sé fjöðrin dregin upp, fá sama lag endurtekið og fá öll í röð.  Eru reglur um þetta á prentuðu blaði, sem er í hólfinu við hægri gafl.  Lögin eru 8, hvert á hálfum sívalningnum;  er skrifuð skrá yfir þau í hólfinu;  þau eru þessi:

1.  Jeanette, Polka, Mazurka - eftir Silbermann
2.  Impromptu, Polka - eftir J. Schülhoff
3.  Der Schmaragel Scottisch - eftr Mühner
4.  Ernani (Festa da Ballo) Ö came felisi - eftir Verdi
5.  Lucia di Lammermoor Cav. Ö toi parqui - eftir Donizettii
6.  Il Travatore, Vivra Cantende - eftir Verdi
7.  L'Elisir d'Amore, Cabaletta de Dtto - eftir Donizettii
8.  Valse brillante No.1 - eftir J. Schülhoff

Spiladósinni, kassanum, er læst með skrá og lykli.  Hún er algerlega óskemmd og spilar lögin vel.  Hún er með stimpluðum nöfnunum  Du-commun-Gibod og tölumerkinu 33106 fyrir ofan.  Sama tölumerki er skrifað á söngskrána og 968 neðan undir þar.  "Fabrique de Genève" stendur efst á söngskránni.  Sjálfsagt gerð þar um miðja öldina.

Þessi spiladós er óefað hin stærsta og fullkomnasta, sem komið hefur hingað með þessari gerð, og nú þekkjast þesskonar hljóðfæri hér fá og lítilfjörleg að eins.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana