LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


HeitiKaleikur

StaðurHelgafellskirkja
Sveitarfélag 1950Helgafellssveit
Núv. sveitarfélagHelgafellssveit
SýslaSnæfells- og Hnappadalssýsla
LandÍsland

GefandiHelga Bryde Vídalín Matzen 1861-1930, Jón Vídalín 1857-1907

Nánari upplýsingar

NúmerVíd-10-a
AðalskráMunur
UndirskráVídalínsafn
Stærð15,3 x 9,5 cm
EfniKopar, Silfur
TækniSilfursmíði

Lýsing

Úr aðfangabók: Kaleikur, með gotnesku lagi, frá Stykkishólmi.  Skálin er úr silfri og gyllt, fótur, miðkafli og stétt úr gylltum kopar.  Virðist hann vera forn.  Fótur, miðkafli og stétt er áttstrent, stéttin er með átta tungum allt í kring, óskreytt, að undantekinni einni tungunni (að framan), en á hana er grafin lítilshátttar skreyting, sem helst virðist vera landslag, og kross upp af.  Stéttin er 13,6 cm að þvermáli.  Miðkaflinn er talsvert skreyttur, 5,2 cm að þvermáli.  Skálin er 9,5 cm að þvermáli um barmana, en kaleikurinn er 15,3 cm að hæð.  Skálin hefur einhverntíma losnað af fætinum og hefur verið fest aftur fremur klunnalega með koparnagla; stéttin hefur einnig sprungið, og er hún spengd og kveikt saman. Kirkjur Íslands, 15.bindi, bls. 115: Kaleikur og patína (Þjms. Víd. 10 a-b) voru fyrr í Helgafellskirkju en síðar í Stykkishólmskirkju, sjá nánar um áhöldin þar. (Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 7.6.2011) Kirkjur Íslands, 15.bindi, bls. 305: ... Kaleikurinn er algylltur og með gotnesku lagi og virðist forn, en skálin er lítil í hlutfalli við kaleikinn að öðru leyti, og líklegast yngri. Hún er úr silfri og gyllt, hnúður úr silfri einnig og minni á hnúða á fornum kaleikum á Hólum í Hjaltadal og frá Melstað í Miðfirði og virðist vera af eldri kaleik. Fótur, miðkafli og stétt eru hins vegar úr gylltu látúni og áttstrendur. Stéttin er með átta tungum, á einni þeirra er grafinn kross sem stendur á smáhólum. Stéttin er spengd saman og skálin hefur losnað og verið fest með koparnagla. Smíðið er ekki vel gott, kaleikurinn gæti verið íslenzkur.  [...] ...   Áhöldunum er lýst í gömlum máldögum Helgafellskirkju. Í máldaga Gísla biskups Jónssonar frá um 1570 eða síðar segir: “Item annar kaleikur en er gylltur. Stéttin undir kopar.“ Virðast þessi áhöld tvítekin í máldaganum, því að síðan  segir: „Item sá gyllti kaleikur, sem hér var, er haldinn sjálfur [þ.e. sjálf skálin] silfur og patínan, en allt annað kopar.“ Í vísitasíu Steingríms biskups Jónssonar 7. ágúst 1831 segir um áhöldin: „Stór kaleikur af eiri með kúpu af silfri. þar til er látúnsbætt patína af silfri, hvort tveggja gyllt.“ En það mun önnur patína en þessi. (sbl, 14.6.2011)

Heimildir

Kirkjur Íslands, 15.bindi. Ritstjórar: Jón Torfason, Þorsteinn Gunnarsson. Reykjavík, 2010.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana