LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiStúdentagarður
Ártal2009-2012
Spurningaskrá116 Hvernig er að búa á Stúdentagörðum?

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2012-1-107
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.4.2012/26.4.2012
TækniTölvuskrift

Svörin eru aðeins aðgengileg á innri vef Sarps vegna tæknilegs umbúnaðar. Hafið samband við Þjóðháttadeild Þjms. eða bókasafn.


Kafli 1 af 6 - Íbúðin

Hversu lengi hefur þú búið á Stúdentagörðum?
Hvar bjóst þú áður?
Hvernig er að búa í stúdentaíbúð?
Hve miklum tíma eyðir þú/þið í íbúðinni?
Hvenær er gott að vera þar og hvenær ekki?
Hverjir eru helstu kostir íbúðarinnar? En gallar?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Ég hef búið á stúdentagörðum Félagsstofnunar Stúdenta í þrjú ár, eða síðan í maí 2009. Ég var þá að ljúka mínu fyrsta ári í jarðfræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Þar áður bjó ég í 2 ár á stúdentagörðum á vegum Byggingarfélags námsmanna þegar ég stundaði nám við Frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. Stúdentagarðurinn minn er staðsettur í miðbæ Reykjavíkur og staðsetningin er því mikill kostur, það er stutt að fara í Háskólann og einnig í vinnuna á Reykjavíkurflugvelli auk þess er þjónusta og skemmtun í göngufæri. Leigan er líka lægri en gengur og gerist a.m.k. í dag á almennum leigumarkaði fyrir þessa stærð íbúða . Gallar á íbúðinni finnst mér helst stærðin, hún er um 38 m2 og er stúdíó, ég myndi helst kjósa að hafa svefnherbergi. Eldhúsaðstaðan er mjög sérstök. Það er ansi lítið borðpláss og eldhússkáparnir eru mjög háir. En það sem vantar mest er ofn. Einhver hlýtur að hafa staðið í þeirri trú að háskólanemar borðuðu bara pizzur og elduðu ekki, en það er klárlega misskilningur. Ég hef hinsvegar notast við borðofn, en hann kemst ekki nálægt því að nýtast jafnvel og venjulegur ofn myndi gera. Ég eyði miklum tíma í íbúðinni, aðallega vegna þess hve gott mér finnst að vera heima. Ég vil helst vera heima þegar ég er að skrifa ritgerðir eða læra fyrir próf, en auðvitað er alltaf gott að skipta um umhverfi og fara í skólann þegar maður er búinn að vera of mikið einn með sjálfum sér heima. Ég held að ástæðan fyrir því að mér líður vel í íbúðinni er að ég hef gert hana að minni og mér finnst hún heimilisleg og hlý.Kafli 2 af 6 - Heimilið

Hvað var það fyrsta sem var gert þegar flutt var inn í íbúðina (t.d. þrifið, kveikt á kertum, loftað út, settar upp gardínur)?
Hvenær varð íbúðin að „heimili“ og hvað var það einkum sem gerði hana að því?
Finnst þér að heimilið segi eitthvað um þig/ykkur eða vera einkennandi fyrir þig/ykkur? Að hvaða leyti?
Hvað finnst þér vera heimilislegt (t.d. lykt, hljóð, birta/lýsing, tónlist)?
Gerir þú eitthvað til að skapa heimilislega stemmningu? Hvað, ef svo er?
Hvernig er draumaheimilið? Lýstu því hvernig þér finnst að hið fullkomna heimili eigi vera.
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Ég man þegar ég flutti úr 42 m2 í Grafarholti í 38 m2 hérna í miðbænum hugsaði ég strax, þetta er allt of lítið. Ótrúlegt hvað manni finnst tóm íbúð smá. Ég byrjaði á því að þrífa hátt og lágt, jafnvel þó íbúðin hafi verið hrein, þá fannst mér það mikilvægt svo íbúðin yrði hrein á minn hátt. Ég loftaði einnig vel út. Það tók mig stuttan tíma að koma þessum fáu stóru hlutum á sinn stað, enda s.s. ekki margir möguleikar um staðsetningu. Ég hengdi upp gardínur sem ég fékk frá ömmu minni og afa sem smellpössuðu fyrir svalahurðina og stofugluggann. Fyrir hinn gluggann notaði ég gardínur sem mamma saumaði fyrir mig fyrir fyrri íbúð. Hún saumaði síðan fyrir mig myrkrartjöld fyrir þann glugga enda verður mjög bjart inni yfir sumartímann. Mér fannst mikilvægt að gera íbúðina strax heimilislega og þess vegna tók ég strax upp þá hluti sem ég vildi hafa sem skraut auk þess að hengja upp myndir og kveikja á kertum. Mér fannst auðvelt að gera íbúðina að heimili mínu á stuttum tíma með persónulegum munum og myndum. Heimilislegt í mínum huga er að líða vel, hafa snyrtilegt í kringum sig, bjóða fólki í heimsókn og njóta þess að eiga fallegt heimili. Draumaheimilið mitt væri fallegt, bjart, rúmgott, með góðri eldunaraðstöðu og fallegum garði. Annars er það sem mestu skiptir fyrir mig að heimilið sé notalegt og að manni líði vel að koma heim og að vera heima. Einnig að fólki líði vel að koma í heimsókn.Kafli 3 af 6 - Nágrannarnir

Hvernig eru samskipti við nágranna? Á fólk mikið/lítið sameiginlegt (t.d. partý, barnapössun, heimsóknir)?
Hvernig er sameignin notuð?
Leika börnin (ef einhver) sér saman?
Um hvað snúast helstu ágreiningsmálin (t.d. hávaða, umgengni, vonda lykt)?
Reynir þú að kynnast nágrönnum þínum eða heldur þú ákveðinni fjarlægð frá þeim?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Samskipti milli námsmanna stúdentaíbúðanna er í miklu lágmarki a.m.k. hjá mér. Það er meira að segja sjaldgæft að rekast á fólk á ganginum en mest hef ég hitt fólk í þvottahúsinu. Þó eru allir mjög kurteisir. Ég hef hins vegar þekkt fólk sem hefur flutt inn á garðana og það er alltaf gaman þegar samskipti eru þar á milli, þó ekki sé nema einn kaffibolli og spjall. Sameignin er eingöngu notuð til að komast upp og niður annað hvort stiga eða með lyftunni. Sameignin er frekar hrá og mjög lítið spennandi. Ég hef aldrei orðið vör við börn og á ekki börn sjálf. Ágreiningsmál hafa aldrei að mér vitandi verið leyst milli nágranna, heldur sér  Félagsstofnun stúdenta um að leysa slík mál t.d. yfir rusli á svölum og yfir partýhaldi.Kafli 4 af 6 - Ljósmyndun, útlit heimilisins

Í þessum hluta ert þú beðin(n) um að taka ljósmyndir af íbúðinni. Í fyrsta lagi er um að ræða yfirlitsmyndir af hverju rými fyrir sig (eldhús, stofa, herbergi/alrými, bað) þar sem greina má glugga, hurðir, húsgögn og innréttingar (5-10 myndir). Í öðru lagi er um að ræða persónulegri nálgun þar sem þú ert beðin(n) um að taka myndir af hlutum, veggskrauti og húsgögnum sem þér eru mikilvæg og af uppáhaldsstaðnum þínum í íbúðinni (5-10 myndir). Þú ert beðin(n) um að merkja myndirnar með tölustöfum og segja frá vali á myndefni og því sem fyrir augu ber á hverri mynd fyrir sig. Mynd 1: Þetta er eldhúsið eins og það leggur sig. Mynd 2: Ónýtanlegt horn, skrifborð og sjónvarp. Mynd 3: Hinn helmingurinn af stofunni, sófi, og barnahorn. Mynd 4: Gangur, mynd af París frá ikea. Mynd 5: Klósettið, ekki mikið sem hægt er að segja. Mynd 6: Skiptidýna, það var allavega hugsað fyrir plássi fyrir henni. Mynd 7: Fjólublá útihurð í stíl við gólfið. Mynd 8: Svefnherbergið, tveir krummar sem hanga á veggnum. Mynd 9: Mynd 10: Mynd 11: Mynd 12: Mynd 13: Mynd 14: Mynd 15: Mynd 16: Mynd 17: Mynd 18: Mynd 19: Mynd 20:

Mynd 1: Baðherbergið Mynd 2: Baðherbergið Mynd 3: Forstofa Mynd 4: Forstofa Mynd 5: Svefnhluti alrýmis Mynd 6: Stofuhluti alrýmis Mynd 7: Stofusófinn Mynd 8: Rými milli svefnhlutans og fataskápa Mynd 9: Rými milli svefnhlutans og fataskápa Mynd 10: Eldhús Mynd 11: Eldhúsborð og stólar Mynd 12: Eldhúsborð og skrifstofustóllinn Mynd 13: Veggskraut á baðherbergi. Baðherbergið er mjög lítið og bíður lítið upp á að gera það kósí nema í mesta lagi með einu kerti eða tveimur. Því fannst mér tilvalið að líma þessa fallegu límmiða á vegginn til að lífga aðeins upp á baðherbergið í heild sinni.   Mynd 14: Berggrunnskortið mitt af Íslandi. Finnst það bæði fallegt og praktískt og tengir íbúðina áhugamálinu og vonandi framtíð minni á sviði jarðfræðarinnar.   Mynd 15: Undurfalleg skál sem mamma bjó til og gaf mér þegar ég flutti að heiman. Mér þykir sérstaklega vænt um hana og svo er hún prýði á hvaða borði sem er.   Mynd 16: Lítið skraut sem ég fékk að gjöf þegar ég kvaddi fjölskyldu og vini í Kaufman Texas þegar ég var þar skiptinemi árið 2004. Hef alltaf haft þetta upp á vegg síðan og minnir mig á eitt besta ár lífs míns.


Hvað hangir á veggjunum?
Hver saumaði gardínurnar?
Hvaðan koma húsgögnin? Eru þau ný eða notuð (t.d. frá nytjamörkuðum, skyldfólki, keypt sérstaklega fyrir þessa íbúð, voru í fórum þínum áður)?
Eru einhver húsgögn þér kærari eða mikilvægari en önnur? Hvers vegna?
Hvað með skraut og smámuni? Vekja þeir upp einhverjar minningar/sögur? Segðu frá þeim.
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla, nema þeirri fyrstu, í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Á veggjunum eru 5 myndir í römmum. Ég er með tvær litlar „franskar“ myndir fyrir ofan eldhúsborðið og tvær náttúrumyndir í stofunni. Á veggnum við rúmið er ég með svartan krumma úr tré sem ég fékk að gjöf og þykir mjög vænt um. Í andyrinu er ég með stóran ramma með svokölluðu berggrunnskorti af Íslandi enda er ég að læra jarðfræði og svo finnst mér það líka fallegt. Eins og áður kom fram fékk ég stofugardínurnar hjá ömmu og afa og mamma saumaði hinar. Ég hef keypt fæst húsgögnin mín. Eldhúsborðið var gjöf frá mömmu og pabba, eldhússtólana keypti ég notaða eftir að ég flutti inn. Stofusófinn var gjöf frá bróður mínum og mágkonu og stofuborðið var í eigu langömmu minnar. Rúmið keypti ég sjálf auk glerskápsins og flutti með mér úr fyrri íbúð. Skrifstofustólinn fékk ég í afmælisgjöf frá foreldrum mínum. Mér þykir mjög vænt um stofuborðið mitt enda er það gamalt og úr fjölskyldunni. Rúmið er mér líka kært, ekki bara hversu frábært það er heldur var það eitt af því fyrsta sem ég keypti mér sjálf þegar ég kláraði framhaldsskólann og fór að vinna fulla vinnu í fyrsta sinn. Skraut og smámunir spila ekki stóra rullu á mínu heimili. Ég hef reynt að velja vel það sem ég hef til sýnis á mínu heimili, sérstaklega vegna plássleysis. Langflest af þessum hlutum eru gerðir af móður minni sem er leirkerasmiður. Hlutirnir hennar eru uppáhaldið mitt, fallegir og vekja upp góðar minningar síðan ég var barn og hún var með verkstæði í skúrnum á æskuheimili mínu.Kafli 5 af 6 - Uppvaxtarheimilið

Segðu frá æsku- og uppvaxtarheimili þínu í grófum dráttum. Hversu margir voru í heimili? Hve stór var íbúðin eða húsið? Var oft flutt á milli staða? Ef svo er, voru sérstakar ástæður fyrir því?
Að hvaða leyti sækir þú fyrirmyndir til æskuheimilisins í sköpun eigin heimilis? Hvað reynir þú að forðast að taka til fyrirmyndar? Hvernig aðgreinir þú þitt heimili frá æskuheimilinu?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Ég hugsa til uppvaxtarheimilis míns með hlýju. Ég er alin upp í blokkaríbúð í Háaleitishverfinu sem var þá barnmargt fjölskylduhverfi. Íbúðin var fjögurra herbergja um 100 m2 á fjórðu hæð. Þar bjuggum við, pabbi, mamma, ég og eldri bróðir minn þar til ég var 16 ára, en þá fluttum við í einbýlishús í Garðabæ. Á mínu æskuheimili var mjög notalegt og hreint og fínt. Mikið lagt upp úr því að hafa fínt í kringum sig og mikið af myndum á veggjum. Húsgögnin voru að mestu heimasmíðuð af pabba sem gaf þeim persónulegan blæ sem ég væri til í að taka mér til fyrirmyndar. Ekkert sem kemur upp í hugann sem ég forðast að taka mér til fyrirmyndar enda smekkfólk á ferðinni. Ég hef aldrei borið mitt heimili sérstaklega saman við mitt æskuheimili en hef reynt að taka mér foreldra mína til fyrirmyndar í að hafa heimilislegt hjá mér og líða vel þar sem ég bý hverju sinni.Kafli 6 af 6 - Persónulegar upplýsingar

Viltu að svör þín verði varðveitt ópersónugreinanleg? Ef ekki er tekin afstaða til þessa er litið svo á að ekki sé óskað nafnleyndar.
Mikilvægt er að fá lágmarks upplýsingar um þá heimildarmenn sem óska nafnleyndar. Þeir sem þess óska eru vinsamlegast beðnir um greina frá eftirtöldum atriðum: Kyn: Aldur: Starf: Menntun/í hvaða námi: Fjölskylduhagir: Þjóðerni: Tegund íbúðar:

Kyn: Kvk Aldur: 27 ára Starf: Háskólanemi Menntun/í hvaða námi: Er með B.Sc próf í jarðfræði – núverandi M.S nemi í jarðfræði Fjölskylduhagir: Einstæð – barnlaus Þjóðerni: Íslensk Tegund íbúðar: Einstaklingsíbúð


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana