LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiStúdentagarður
Ártal2011-2012
Spurningaskrá116 Hvernig er að búa á Stúdentagörðum?

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2012-1-116
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.4.2012/26.4.2012
TækniTölvuskrift

Svörin eru aðeins aðgengileg á innri vef Sarps vegna tæknilegs umbúnaðar. Hafið samband við Þjóðháttadeild Þjms. eða bókasafn.


Kafli 1 af 6 - Íbúðin

Hversu lengi hefur þú búið á Stúdentagörðum?

Í u.þ.b. 8 mánuði


Hvar bjóst þú áður?

Ég bjó í foreldrahúsum í Vestmannaeyjum þangað til ég fór í háskóla haustið 2009. Veturinn 2009-2010 leigði ég herbergi í blokkaríbúð í Tröllakór í  Kópavogi. Veturinn 2010-2011 leigði ég íbúð í Furugrund í Kópavogi ásamt kærasta mínum. Á sumrin bý ég svo alltaf heima í Eyjum þannig að ég dvel aðeins í Reykjavík á veturna á meðan á skóla stendur. Ég fer líka að sjálfsögðu alltaf heim um jólin.


Hvernig er að búa í stúdentaíbúð?

Mér finnst bara alveg ágætt að búa í stúdentaíbúð. Hér er ró og friður og stutt í skóla og á æfingar. Íbúðin er lítil og notaleg og algjörlega nóg fyrir eina manneskju, ég held að maður yrði bara einmana á því að hafa hana stærri J. Mér líður vel í stúdentaíbúð og líkar vel að búa hérna.


Hve miklum tíma eyðir þú/þið í íbúðinni?

Ég eyði töluverðum tíma í íbúðinni. Ég fer í skólann á morgnana og þegar ég kem heim þá læri ég í íbúðinni yfirleitt fram að æfingu sem er seinnipartinn eða á kvöldin. Ég er þó oftast ekki heima á kvöldin og fer stundum heim til Eyja um helgar. En jú ég eyði stórum hluta sólarhringsins í íbúðinni og vil taka fram að mér finnst gott að læra í henni.


Hvenær er gott að vera þar og hvenær ekki?

Mér finnst yfirleitt alltaf gott að vera í íbúðinni. Ég get eiginlega ekki sagt hvenær er ekki gott að vera í henni, þegar ég leiði hugann að því hvenær sé gott að vera hérna og hvenær ekki kemur ekkert upp í hugann, ég hef líklega ekki pælt í því áður. Ég lít á íbúðina sem hvert annað heimili en ég gæti kannski nefnt að það sé ekki gott að vera í íbúðinni þegar ég sakna fjölskyldunnar, vina og kærastans sem mest en ég skelli skuldinni í því sambandi frekar á heimþrána eða söknuðinn heldur en á íbúðina sem mér líður yfirleitt alltaf svo vel í.


Hverjir eru helstu kostir íbúðarinnar? En gallar?

Helstu kostir íbúðarinnar eru þeir að í henni er stór og góð geymsla, gott fataskápapláss, góð sturta og baðherbergi Lýsingin er líka mjög góð. Íbúðin er björt og notaleg. Nálægðin við skólann er mjög mikill kostur þar sem að bensínkostnaðurinn lækkar gríðarlega við það að geta gengið í skólann. Gallarnir eru hinsvegar þeir að það er enginn bakaraofn hérna né eldhúsvifta. Eldavélin hallar líka þannig að það rennur allt á eina hlið á pönnunni þegar maður er að elda. Mér finnst eldhússkápaplássið heldur ekki nógu mikið og finnst einnig vanta meira skápapláss inni á baði, finnst að það ætti að vera skápur undir vaskinum þar sem maður gæti t.d. geymt handklæði en þau þarf ég að geyma í fataskápnum. Það eru líka gluggar alveg yfir heilan vegg hérna þannig að það gerir það að verkum að maður getur raðað á mjög takmarkaðan hátt inn í íbúðina og getur jafnvel ekki haft eins mikið af húsgögnum í íbúðinni og maður vildi geta haft. Einnig finnst mér dálítill galli að maður má ekki hengja hluti beint á veggina.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 6 - Heimilið

Hvað var það fyrsta sem var gert þegar flutt var inn í íbúðina (t.d. þrifið, kveikt á kertum, loftað út, settar upp gardínur)?

Það fyrsta sem ég gerði þegar ég flutti inn var að setja allt dótið inn í íbúðina og ganga frá því í skápa og hirslur og loftaði út á sama tíma. Það næsta sem ég gerði var að þrífa íbúðina hátt og lágt en ég þreif alla skápa og hillur áður en ég raðaði dótinu í þá/á þær. Það liðu svo nokkrir dagar áður en ég hengdi upp gardínur þar sem að það þurfti að sníða og sauma þær.


Hvenær varð íbúðin að „heimili“ og hvað var það einkum sem gerði hana að því?

Íbúðin varð heimili um svona miðjan október. Það sem gerði hana að heimili var það þegar ég fékk það dót til mín sem komst fyrir, þar á meðal stóllinn hennar ömmu. Mér fannst íbúðin líka vera eins og heimili þegar fjölskyldan mín kom til mín og gisti hjá mér eina helgi.


Finnst þér að heimilið segi eitthvað um þig/ykkur eða vera einkennandi fyrir þig/ykkur? Að hvaða leyti?

Nei, ég myndi nú ekki segja það þar sem að ég er ekki mikið heima þegar ég er ekki að læra. Ég er mikil félagsvera og er því ekki mikið ein og við vinkonurnar reynum að hittast í stærri íbúðum svona oftast nær. Það sem heimilið segir kannski mest um mig er að það ber á öllum takkaskónum mínum og skíðadótinu í geymslunni sem segir kannski að ég hef mikinn áhuga á íþróttum og allri hreyfingu.


Hvað finnst þér vera heimilislegt (t.d. lykt, hljóð, birta/lýsing, tónlist)?

Það sem mér finnst vera heimilislegt er lykt, umgangur, tal og að heyra í börnum. Mér finnst svona hamagangur (þá meina ég svona heimili þar sem að maður tekur vel eftir því að það er einhver í kringum mann, ekki svona heimili þar sem er alveg þögn og maður verður ekki var við neinn umgang) vera dálítið heimilislegur (kannski vegna þess að ég ólst upp á stóru heimili). Mér finnst líka ljósmyndir af heimilisfólki og fjölskyldu gera allt dálítið heimilislegt.


Gerir þú eitthvað til að skapa heimilislega stemmningu? Hvað, ef svo er?

Já, stundum. Þá reyni ég að elda kannski góðan mat og hlusta á tónlist. Mér finnst líka heimilislegt að kúra mig upp í rúm með eitthvað snakkerí og horfa á sjónvarpið. Svo finnst mér líka frekar heimilislegt þegar kærastinn minn kemur til mín.


Hvernig er draumaheimilið? Lýstu því hvernig þér finnst að hið fullkomna heimili eigi vera.

Draumaheimilið mitt er stórt, fallegt og bjart hús með stórum og fallegum garði. Það myndi ekki skemma fyrir að í því væri stórt fataherbergi. Ég myndi vilja hafa fallega hluti í kringum mig sem væru einkennandi fyrir mig, mikið af kertum og skapa þannig notalega heimilisstemningu. Ég hefði myndir af nánustu vinum og ættingjum á veggjum eða í hillum og svo fallegt uppstillingardót. Ég myndi vilja helst vilja hafa þar hjá mér góða fjölskyldu og svo er alltaf gott að hafa börn í kringum sig.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 6 - Nágrannarnir

Hvernig eru samskipti við nágranna? Á fólk mikið/lítið sameiginlegt (t.d. partý, barnapössun, heimsóknir)?

Ég þekki nágrannana eiginlega ekki neitt. Ég heilsa flestum þeim sem ég veit að búa í kringum mig á ganginum þegar ég sé þá (sem gerist sjaldan) en meira er það ekki. Ég get ekki sagt til um hvort að ég eigi mikið sameiginlegt með þessu fólki þar sem að ég þekki það ekki neitt.


Hvernig er sameignin notuð?

Það eina sem ég nota af sameigninni er þvottahúsið, en í húsinu er sameiginlegt þvottahús fyrir alla með fjórum þvottavélum og tveimur þurrkurum.


Leika börnin (ef einhver) sér saman?

Ég bý í einstaklingsíbúð og ég held að allar íbúðirnar í húsinu séu slíkar þannig að ég veit ekki til þess að það búi nokkur börn í húsinu.


Um hvað snúast helstu ágreiningsmálin (t.d. hávaða, umgengni, vonda lykt)?

Það hafa til allrar hamingju ekki komið upp nein ágreiningsmál í húsinu. Brunakerfið fer þó oft í gang en þá hjálpast fólk bara að í góðu svo að það er ekkert mál J


Reynir þú að kynnast nágrönnum þínum eða heldur þú ákveðinni fjarlægð frá þeim?

Ég er kannski ekkert að leggja mig mikið fram við það að kynnast þeim en ég segi samt ekki að ég sé að halda ákveðinni fjarlægð frá þeim. Ef ég hitti fólk í þvottahúsinu þá spjalla ég við það um daginn og veginn og þess háttar.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 6 - Ljósmyndun, útlit heimilisins

Í þessum hluta ert þú beðin(n) um að taka ljósmyndir af íbúðinni. Í fyrsta lagi er um að ræða yfirlitsmyndir af hverju rými fyrir sig (eldhús, stofa, herbergi/alrými, bað) þar sem greina má glugga, hurðir, húsgögn og innréttingar (5-10 myndir). Í öðru lagi er um að ræða persónulegri nálgun þar sem þú ert beðin(n) um að taka myndir af hlutum, veggskrauti og húsgögnum sem þér eru mikilvæg og af uppáhaldsstaðnum þínum í íbúðinni (5-10 myndir). Þú ert beðin(n) um að merkja myndirnar með tölustöfum og segja frá vali á myndefni og því sem fyrir augu ber á hverri mynd fyrir sig. Mynd 1: Þetta er eldhúsið eins og það leggur sig. Mynd 2: Ónýtanlegt horn, skrifborð og sjónvarp. Mynd 3: Hinn helmingurinn af stofunni, sófi, og barnahorn. Mynd 4: Gangur, mynd af París frá ikea. Mynd 5: Klósettið, ekki mikið sem hægt er að segja. Mynd 6: Skiptidýna, það var allavega hugsað fyrir plássi fyrir henni. Mynd 7: Fjólublá útihurð í stíl við gólfið. Mynd 8: Svefnherbergið, tveir krummar sem hanga á veggnum. Mynd 9: Mynd 10: Mynd 11: Mynd 12: Mynd 13: Mynd 14: Mynd 15: Mynd 16: Mynd 17: Mynd 18: Mynd 19: Mynd 20:

Mynd 1: Yfirlitsmynd Mynd 2: Yfirlitsmynd Mynd 3: Yfirlitsmynd – Geymsla Mynd 4: Yfirlitsmynd – Geymsla 2 Mynd 5: Yfirlitsmynd Mynd 6: Yfirlitsmynd Mynd 7: Yfirlitsmynd Mynd 8: Yfirlitsmynd Mynd 9: Yfirlitsmynd Mynd 10: Yfirlitsmynd Mynd 11: Yfirlitsmynd – Baðherbergi Mynd 12: Myndir af skóhillunni minni. Valdi þessa mynd þar sem mér finnst hún dáldið lýsandi fyrir mig. Þarf alltaf að hafa skóna til taks J Mynd 13: Mynd af veggskrauti. Þetta er englaveggkertastjaki sem ég fékk í fermingargjöf og þykir mjög vænt um Mynd 14: Mynd af veggskrauti. Þetta er málverk sem ég fékk að gjöf fyrir árangur í myndmennt þegar ég var í grunnskóla. Mér þykir einnig vænt um það þar sem listakonan gaf mér það í eigin persónu. Mynd 15: Mynd af veggskrauti. Kertastjakann fékk ég í fermingargjöf og hefur alltaf fundist hann flottur enda logar oft á honum. Myndina fékk ég í útskriftargjöf og mér finnst hún alltaf mjög flott. Mynd 16: Þetta er litla, krúttlega læruhorni hér. Þarna eyði ég mjög löngum tíma og fannst því viðeigandi að setja mynd af því. Mynd 17: Mér fannst líka viðeigandi að sýna ykkur sjónvarpið. Það er eldgamalt en virkar fínt og ég vippa því bara upp á skrifborðið þegar ég ætla að horfa á það og ligg í rúminu og horfi. Mynd 18: Baðherbergisskápurinn. Ég vildi setja þessa mynd þar sem að ég legg upp úr því að hafa allt snyrtilegt í kringum mig og vil helst hafa eitthvað sem einkennir mig sýnilegt á öllum stöðum. Mynd 19: Stóllinn hennar ömmu. Ég vildi setja mynd af þessum stól þar sem að mér þykir mjög vænt um hann og finnst það gera íbúðina hlýrri að hafa hann hjá mér.  


Hvað hangir á veggjunum?

Það eru tvö málverk og tveir kertastjakar sem hanga á veggjunum. Svo er eitt málverk í viðbót sem ég á eftir að hengja upp.


Hver saumaði gardínurnar?

Amma


Hvaðan koma húsgögnin? Eru þau ný eða notuð (t.d. frá nytjamörkuðum, skyldfólki, keypt sérstaklega fyrir þessa íbúð, voru í fórum þínum áður)?

Húsgögnin koma koma bara frá mér. Þetta eru húsgögn sem ég átti áður og flutti með mér frá Eyjum.


Eru einhver húsgögn þér kærari eða mikilvægari en önnur? Hvers vegna?

Já, ég myndi segja að stóllinn sem ég erfði frá ömmu sér mér kærastur þar sem að hún saumaði hann sjálf og afi smíðaði stólinn.


Hvað með skraut og smámuni? Vekja þeir upp einhverjar minningar/sögur? Segðu frá þeim.

Ég er með nokkra hluti sem ég hef stillt upp í glugga og á náttborðið. Þeir vekja fæstir upp minningar eða sögur nema einn kertastjaki sem ég fékk að gjöf þegar afi dó en hann minnir mig ósjálfrátt á afa.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla, nema þeirri fyrstu, í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 6 - Uppvaxtarheimilið

Segðu frá æsku- og uppvaxtarheimili þínu í grófum dráttum. Hversu margir voru í heimili? Hve stór var íbúðin eða húsið? Var oft flutt á milli staða? Ef svo er, voru sérstakar ástæður fyrir því?

Ég ólst upp í einbýlishúsi í vesturbænum í Vestmannaeyjum. Húsið mitt er staðsett nálægt skóla, íþróttahúsi og knattspyrnuvöllum. Það voru 6 manns í heimili þannig að það var alltaf líf og fjör á heimilinu. Húsið er u.þ.b. 230 fermetrar og er á einni hæð. Við fluttum aldrei á milli staða og foreldrar mínir og systur búa þarna enn.


Að hvaða leyti sækir þú fyrirmyndir til æskuheimilisins í sköpun eigin heimilis? Hvað reynir þú að forðast að taka til fyrirmyndar? Hvernig aðgreinir þú þitt heimili frá æskuheimilinu?

Þær fyrirmyndir sem é sæki til æskuheimilisins er að hafa hluti í kringum mig sem gera íbúðina ekki eins hráa. Ég reyni líka að raða upp húsgögnunum þannig að það sé snyrtilegt, ekki allt á rúi og stúi. Það sem ég forðast að taka til fyrirmyndar er að hafa hluti á borðunum sem drasl getur safnast í, hluti sem freistandi er að setja t.d. blöð og þess háttar í. Ég aðgreini heimili mitt frá æskuheimilinu þannig að það er allt miklu rólegara hjá mér, enginn umgangur og alltaf allt hljótt. Það er líka erfitt að bera þau saman þar sem að æskuheimili mitt er 230 fm hús með stórri fjölskyldu á meðan að mitt heimili er 29 fm íbúð þar sem ég bý ein.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 6 - Persónulegar upplýsingar

Viltu að svör þín verði varðveitt ópersónugreinanleg? Ef ekki er tekin afstaða til þessa er litið svo á að ekki sé óskað nafnleyndar.
Mikilvægt er að fá lágmarks upplýsingar um þá heimildarmenn sem óska nafnleyndar. Þeir sem þess óska eru vinsamlegast beðnir um greina frá eftirtöldum atriðum: Kyn: Aldur: Starf: Menntun/í hvaða námi: Fjölskylduhagir: Þjóðerni: Tegund íbúðar:

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana