LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiStúdentagarður
Ártal2012
Spurningaskrá116 Hvernig er að búa á Stúdentagörðum?

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2012-1-120
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið13.4.2012/26.4.2012
TækniTölvuskrift

Svörin eru aðeins aðgengileg á innri vef Sarps vegna tæknilegs umbúnaðar. Hafið samband við Þjóðháttadeild Þjms. eða bókasafn.


Kafli 1 af 6 - Íbúðin

Hversu lengi hefur þú búið á Stúdentagörðum?

3 mánuði


Hvar bjóst þú áður?

Leiguíbúð í 130 ára gömlu timburhúsi í miðbæ Reykjavíkur.


Hvernig er að búa í stúdentaíbúð?

Frábært. Það er gott að búa innan um stúdenta í svipaðri stöðu og maður sjálfur þar sem við búum á fjölskyldugörðum.


Hve miklum tíma eyðir þú/þið í íbúðinni?

Mjög miklum. Um það bil 15-18 klst.


Hvenær er gott að vera þar og hvenær ekki?

Alltaf jafn gott að ver hér. Heyrum ekkert í öðrum íbúum né umferð eða slíku svo ástandið er nær alltaf eins.


Hverjir eru helstu kostir íbúðarinnar? En gallar?

Hún er ný, björt og útsýnið er æðislegt. Rýmið nýtist vel og íbúðin er vel hljóðeinangruð. Baðherbergið og svefnherbergið er ég mjög ánægð með. Mér finnst alveg vanta skáp fyrir ofan borðið á baðherberginu, núna geymum við alla smáhluti ýmist á borðinu eða í skápunum undir því (þar sem mér finnst eiga  heima klósettpappír, handklæði og þvottaefni, ekki snyrtivörur og smádót). Annars er ég ánægð með skápana í svefnherberginu og baðherberginu. Í stofunni er einn veggurinn skakkur (endahornin eru ca 120° og 60°)  sem mér finnst vera galli. Erum ekki enn búin að finna fullkomna uppröðun fyrir það svæði. Uppröðunin á eldhúsinnréttingunni finnst mér ekki frábær. Það er lítið borðpláss til að vinna á.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 6 - Heimilið

Hvað var það fyrsta sem var gert þegar flutt var inn í íbúðina (t.d. þrifið, kveikt á kertum, loftað út, settar upp gardínur)?

Íbúðin var vel þrifin þegar við fengum afhent svo við byrjuðum bara að flytja inn dót. Ég tók með mér stóra plöntu til að sækja lyklana og fara með í íbúðin áður en flutningar hófust. Og já, ég loftaði út.


Hvenær varð íbúðin að „heimili“ og hvað var það einkum sem gerði hana að því?

Við fengum okkur stóra hillu fyrir alla lausamuni í stofunni (Expedit úr Ikea). Þá fannst mér flest allt vera komið með „sinn stað“ og íbúðin orðin að ágætis heimili.


Finnst þér að heimilið segi eitthvað um þig/ykkur eða vera einkennandi fyrir þig/ykkur? Að hvaða leyti?

Auðvitað segir heimili heilmikið um þá sem þar búa. Að hvaða leyti finnst mér erfitt að segja. Eldhúsáhöldin sýna t.d. áhuga okkar á matargerð og kaffigerð. Mér finnst nauðsynlegt að hafa lifandi plöntur í íbúðum og er illa við gerviblóm. Ég veit samt ekki hvað það segir um mig.


Hvað finnst þér vera heimilislegt (t.d. lykt, hljóð, birta/lýsing, tónlist)?

Lykt er alltaf sérstök á hverju heimili og hef ég oft velt því fyrir mér hvað veldur þessari og hinni lyktinni. En þó þekkir maður ekki sína eigin heimilislykt. Ég man þegar vinkona mín sagði einu sinni „Hérna er svona lykt eins og er heima hjá þér“ og ég vissi ekkert hvað hún var að tala um. Ég vissi ekki hvaða lykt það var. Einnig skiptir lýsing miklu máli (fyrir mig) og þess vegna er ég ekki alveg búin að koma mér fyrir hérna. Hér eru flúorljós í loftinu og við eigum bara tvo lampa. Flúorljósin eru ekki á neinn hátt heimilisleg og er mér frekar illa við þau. Það stendur þó til bóta og fljótlega ætla ég að finna betri ljós fyrir loftið.


Gerir þú eitthvað til að skapa heimilislega stemmningu? Hvað, ef svo er?

Taka til (yfirborðstiltekt ef ekki er tími fyrir meira). Kveiki á kertum. Kerti eru eitt það mest „heimilislega“ sem ég veit. Mér finnst eitthvað sérstaklega heimilislegt við hreint eldhús og uppþvottavél í gangi. Við eigum reyndar ekki uppþvottavél svo þvottavél og þurrkari verður að koma í staðin. Síðan auðvitað tónlist. Norah Jones og Enya eru eitthvað sem mamma og pabbi spiluðu oft þegar þau voru með hreingerningsdag og finnst mér mjög gott að spila það. Bakstur er mjög heimilslegur og baksturslykt. Það gerði ég í síðustu íbúð þar sem lykt fór í taugarnar á mér (verið var að mála á efri hæðinni og lykt barst niður til okkar). Lykt af nýbökuðum kanilmúffum eða öðru sem ilmar vel er frábær og ætti að vera oft í viku!


Hvernig er draumaheimilið? Lýstu því hvernig þér finnst að hið fullkomna heimili eigi vera.

Ríkt af sögu fjölskyldunnar; mikið af myndum og heimagerðum hlutum. Öll rými eiga að nýtast vel og mikilvægt að hafa gott sameiginlegt rými þar sem allir njóta sín. Mikilvægt er að hafa gott borðstofusvæði fyrir góð matarboð, þarf ekki endilega að vera mjög stórt, en þó þannig að nógu margir vinir komast fyrir í gott boð (morgunmat, bröns eða kvöldmat). Heimilið skal vera bjart og fallegt. Allir verða líka að eiga sinn uppáhalds stað, ákveðinn stól, horn í sófa eða eitthvað svæði þar sem þeir una sér vel. Áhugamál eiga líka að hafa gott pláss, myndlist, föndur, bjór/víngerð, tónlist eða hvað sem er. Og þannig að auðvelt sé að ganga í verkið og þægilegt að taka til eftir sig. (Ji hvað ég hlakka til að vera stór og gera svona fínt heimili!)


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 6 - Nágrannarnir

Hvernig eru samskipti við nágranna? Á fólk mikið/lítið sameiginlegt (t.d. partý, barnapössun, heimsóknir)?

Við erum tiltölulega nýflutt og þekkjum enga nágranna okkar vel. Við erum með Facebook hóp þar sem sumir hafa óskað eftir að fá lánað straujárn, hjólapumpu eða gefa pakka af bleium sem voru orðnar of litlar. Einnig voru líka mömmur að plana leikdag fyrir strákana sína (ein óskaði eftir strák á ákveðnum aldri og hin svaraði). Nú stendur til að hafa tiltektardag með pulsum og bjór bráðum eftir próf.


Hvernig er sameignin notuð?

Þar sem hér er mest „úti-sameign“ er hún lítið notuð. Börn og foreldrar leika hér úti á leiksvæðinu.


Leika börnin (ef einhver) sér saman?

Já þau gera það.


Um hvað snúast helstu ágreiningsmálin (t.d. hávaða, umgengni, vonda lykt)?

Umgengni. Fólk á það til að geyma rusl og bleiupoka fyrir utan hurðarnar sínar eða á svölunum og stundum fýkur það til. Þá kvartar einhver á Facebook hópnum og aðrir taka undir. Nýlega missti einhver barnamatskrukku úr gleri á leiðinni úr bílakjallaranum og það var ekki þrifið í tvær vikur! Annar missti svo mjólk í lyftunni og lyktin þar var hræðileg. Kvartað var undan báðu á Facebook og svo kom áminning frá Félagsstofnun Stúdenta.


Reynir þú að kynnast nágrönnum þínum eða heldur þú ákveðinni fjarlægð frá þeim?

Frekar hið fyrra en seinna. Ég er ófeimin að tjá mig á Facebook hópnum en hef lítið gert svosem til að kynnast þeim vel. Ég býð góðan daginn ef ég hitti nágrannana í lyftunni eða bílakjallaranum. Ég mun eflaust gera meira til að kynnast þeim þegar ég verð hér heima með lítið barn meirihluta dags (er komin 38 vikur á leið).


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 6 - Ljósmyndun, útlit heimilisins

Í þessum hluta ert þú beðin(n) um að taka ljósmyndir af íbúðinni. Í fyrsta lagi er um að ræða yfirlitsmyndir af hverju rými fyrir sig (eldhús, stofa, herbergi/alrými, bað) þar sem greina má glugga, hurðir, húsgögn og innréttingar (5-10 myndir). Í öðru lagi er um að ræða persónulegri nálgun þar sem þú ert beðin(n) um að taka myndir af hlutum, veggskrauti og húsgögnum sem þér eru mikilvæg og af uppáhaldsstaðnum þínum í íbúðinni (5-10 myndir). Þú ert beðin(n) um að merkja myndirnar með tölustöfum og segja frá vali á myndefni og því sem fyrir augu ber á hverri mynd fyrir sig. Mynd 1: Þetta er eldhúsið eins og það leggur sig. Mynd 2: Ónýtanlegt horn, skrifborð og sjónvarp. Mynd 3: Hinn helmingurinn af stofunni, sófi, og barnahorn. Mynd 4: Gangur, mynd af París frá ikea. Mynd 5: Klósettið, ekki mikið sem hægt er að segja. Mynd 6: Skiptidýna, það var allavega hugsað fyrir plássi fyrir henni. Mynd 7: Fjólublá útihurð í stíl við gólfið. Mynd 8: Svefnherbergið, tveir krummar sem hanga á veggnum. Mynd 9: Mynd 10: Mynd 11: Mynd 12: Mynd 13: Mynd 14: Mynd 15: Mynd 16: Mynd 17: Mynd 18: Mynd 19: Mynd 20:

Mynd 1: Yfirlit af eldhúsi Mynd 2: Mynd tekin af helmingi stofunnar: kaffiborði og „skrifstofunni“ (lærdómsaðastaða [...]) Mynd 3: Hinn  helmingur stofunnar, sófinn stóllinn og stóri stofuglugginn. Mynd 4: Yfirlit af baðherberginu Mynd 5: Indversku vínglösin Mynd 6: Leirstyttan sem [...] gerði Mynd 7: Marmara-skartgripaboxið Mynd 8: Vaggan með vöggusettinu sem ég saumaði og teppi sem amma [...] prjónaði Mynd 9: Svefnherbergið Mynd 10: Uppáhaldsstaður minn, prjónastóllinn Mynd 11: Málverkið sem [...] málaði „You are the apple of my eye“ Mynd 12: Nærmynd af sængurfötunum með upphafsstöfum okkar


Hvað hangir á veggjunum?

Íslandskort, málverk eftir frænku kærasta míns, glerkúlur (3 saman), klukka, málverk af afa kærasta míns, fjölskyldumynd og málverk eftir kærasta minn (gjöf til mín)


Hver saumaði gardínurnar?

Ef bara við værum með gardínur! Það stendur þó líka til bóta en við erum ekki búin að ákveða hvernig gardínur við ætlum að hafa. Það gæti vel verið að ég myndi sauma gardínurnar.


Hvaðan koma húsgögnin? Eru þau ný eða notuð (t.d. frá nytjamörkuðum, skyldfólki, keypt sérstaklega fyrir þessa íbúð, voru í fórum þínum áður)?

Eldhúsborðið, heill marmari, átti frænka mín og þykir mér mjög vænt um það. Það sem við höfum keypt notað er: stólarnir, kaffiborðið, ullarteppið og þurrkarinn. Annað áttum við áður. Kaffiborðið og Expedit hillan (ný) má kannski segja að hafi verið keypt sérstaklega fyrir þessa íbúð.


Eru einhver húsgögn þér kærari eða mikilvægari en önnur? Hvers vegna?

Eins og ég sagði held ég mikið upp á borðið okkar. Ég á góðar minningar frá Danmörku þar sem frænka mín bjó og var þetta eldhúsborðið þar. Það er líka bara svo flott og því má breyta í lágt borð (kaffiborð). Önnur húsgögn eru ekki sérlega ómissandi (irreplaceable).


Hvað með skraut og smámuni? Vekja þeir upp einhverjar minningar/sögur? Segðu frá þeim.

Mér þykir mjög vænt um alla  hluti sem ég og [...] höfum gert. Ég óf ullarteppi sem [...] notar mikið, saumaði sængurföt og vöggusett og þykir mér mjög vænt um þessa hluti. [...] málaði mynd handa mér í jólagjöf fyrir nokkrum árum. Hún minnir mig því á þann tíma í sambandi okkar. Svo eigum við ýmsa smámuni sem við höfum keypt á ferðalögum og eðlilega minna þeir því á þau ferðalög. Þar má nefna vínglös sem við keyptum á Indlandi. Þau voru frekar dýr og dálítið sérstök (skrítin) fjárfesting fyrir okkur á þeim tíma. Við bjuggum ekki saman þá en ég man hvernig ég hugsaði til framtíðar að við sætum og drykkjum úr þessum glösum og myndum rifja upp þegar við keyptum þau á Indlandi þegar við vorum tvítug. Svipað má segja um marmarabox sem ég keypti á Indlandi og mér þótti frekar dýrt. En ég keypti það með það nákvæmlega í huga að hafa inni á baði og geyma helstu skartgripina mína. Einnig höfum við leirstyttu sem [...] gerði þegar  hann var yngri. Hún var alltaf höfð inni á baðherbergi í húsum foreldra hans (hafa búið í 2 mismunandi á meðan við höfum verið saman) en núna er hún á okkar eigin heimili. Hún minnir mig á það að nú erum við komin á okkar eigið heimili.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla, nema þeirri fyrstu, í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 6 - Uppvaxtarheimilið

Segðu frá æsku- og uppvaxtarheimili þínu í grófum dráttum. Hversu margir voru í heimili? Hve stór var íbúðin eða húsið? Var oft flutt á milli staða? Ef svo er, voru sérstakar ástæður fyrir því?

Ég og mamma vorum bara tvær fyrst og bjuggum í kjallaraíbúð hjá ömmu og afa. Það voru bara við fjögur og ári seinna bættist maður mömmu við. Íbúðin var ágætlega stór fyrir okkur 3, sér svefnherbergi fyrir mig og baðherbergi í íbúðinni. Ég man eftir stórri bókahillu sem skildi að hjónarúmið og stofuna og líka kompu sem var innaf eldhúsinu undir stiganum. Þar var oft gaman að fela sig og gramsa. Úr eldhúsinu var op inn í stofuna, eins og á bar. Næst bjuggum við í tvíbýli og þá með garði þar sem var leikkastali og sandkassi. Þá hafði bróðir minn litli bæst við og ég var ca 5-6 ára þegar við fluttum. Við bróðir minn deildum herbergi og lékum okkur mikið í garðinum.   


Að hvaða leyti sækir þú fyrirmyndir til æskuheimilisins í sköpun eigin heimilis? Hvað reynir þú að forðast að taka til fyrirmyndar? Hvernig aðgreinir þú þitt heimili frá æskuheimilinu?

Ekki að neinu leyti svo ég viti.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 6 - Persónulegar upplýsingar

Viltu að svör þín verði varðveitt ópersónugreinanleg? Ef ekki er tekin afstaða til þessa er litið svo á að ekki sé óskað nafnleyndar.

Já.


Mikilvægt er að fá lágmarks upplýsingar um þá heimildarmenn sem óska nafnleyndar. Þeir sem þess óska eru vinsamlegast beðnir um greina frá eftirtöldum atriðum: Kyn: Aldur: Starf: Menntun/í hvaða námi: Fjölskylduhagir: Þjóðerni: Tegund íbúðar:

Kyn: Kona Aldur: 21 Starf/ menntun/í hvaða námi: Umhverfis- og byggingarverkfræði Fjölskylduhagir: Í sambúð og fyrsta barn á leiðinni Þjóðerni: Íslensk Tegund íbúðar: Fjölskylduíbúð, Skógargörðum í Fossvogi


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana