LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiEldiviður, Fráfærur, Sjór, Skrímsli, Tímaviðmið, Vísa
Ártal1906-1918
Spurningaskrá8a Fráfærur II

StaðurHvallátur
Sveitarfélag 1950Flateyjarhreppur A-Barð.
Núv. sveitarfélagReykhólahreppur
SýslaA-Barðastrandarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1904

Nánari upplýsingar

Númer15117-a/1976-10-3
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráViðtal: Stúdentasöfnunin 1976
Sent/Móttekið29.5.2007/1976
TækniSkrift
Nr. 15117

Heimildarmaður: Jón Daníelsson, Hvallátrum, Flateyjarhreppi.

p1.
Fjárbúskapur í Breiðafjarðareyjum.
Hér á mínu æskuheimili þá voru um 200 fjár á fóðrum og af því voru um 170-180 ær sem voru látnar eiga lömb. Gemlingar voru um 30 - 40 og þeir voru ekki látnir bera. Venjulega voru þeir fluttir af heimaeyjunni og í úteyjar áður en sauðburður byrjaði til að rýmka hér um heima því að heimalandið var ákaflega takmarkað og heimaeyjan er lítil og lítið annað en túnið. Aftur eru hér margar aðrar smáeyjar, svokölluð heimalönd sem fjarar í og fjárbeitin var aðallega í þessum eyjum. En þetta eru litlir hólmar og graslitlir og aðalbeitin var fjörubeit. Hún var afar góð fyrir stórstaumana og sauðburður byrjaði alltaf snemma hér svona snemma í maí í annarri sumarvikunni eða um hálfan mánuð af sumri. Sauðburður byrjaði hér svo snemma til þess að hægt væri að losna við féð úr varplandinu. Það var flutt á land strax þegar gróður var kominn það mikill að það þótti fært að sleppa fé. En á meðan þurfti að hafa lambærnar hér heima og þær voru hafðar hér í pössun. Þá var ákaflega mikil sinning á þeim því þær sóttu mikið út í þessa hólma og þeim var ekki einu sinni óhætt með útföllum vegna þess að ærnar vildu vaða því þetta eru straumharðir álar út í þessar eyjar um stórstraumana og þá vildu þær vaða, kannski í síður á þeim og þá sóttu lömbin á eftir þeim og þá varð það til ráða að við krakkarnir sem vorum alltaf mörg hérna í Hvallátrum vorum látin sitja við þessa strengi til þess að passa að engin skepna færi fyrr en var orðið svo grunnt að lömbunum væri óhætt. Þá gat féð rásað um þessi heimalönd eins og það vildi þangað til fór að falla að aftur. Þá varð að smala þessu öllu saman og reka það aftur heim á heimaeyna áður heldur en að flæddi aftur því allt varð að láta inn og gefa annað hvort í hús eða nátthaga. Hér var fé frjósamt og venjulega 2/3 hlutar af því tvílembt og það þurfti mikla sinningu. Svo þegar gróður kom undir eins þá var flutt á land, venjulega fyrst það sem einlembt var. Þessu var í öllum sæmilega góðum vorum lokið um mánaðarmótin maí júní. Hér í Hvallátrum var féð alltaf flutt í sama bæinn og það var að Djúpadal í Gufudalshreppi og það hefur alltaf tekið

p2.
fyrir mig fé.
En hér áður fyrr var þetta ekki metið til peninga. Það var greiðasemi á báðar hliðar. Þegar ég var unglingur hér var það oft mitt hlutskipti að fylgja þessu fé á land. Þá var það venjulega meðan féð var svona margt að þá var venjulega það sem siðbærast var það var flutt óborið á land. Og þá var það oft ég sem fylgdi því á land og passaði um sauðburðinn á landi. Minni vinnu á landi var ekki lokið fyrr en búið var að taka ullina af. Fólkið sem tók féð til pössunar og sá sem fylgdi því úr eyjum, þeir unnu það verk. Þá var reynt að gæta þess að engin kind slyppi í ull því þá var ullin verðmæt. Féð var flutt á stórum bátum, Egill teinæringur að stærð en var þó aldrei nema áttróinn. Þessi bátur var það stór að hægt var að flytja með honum 100 fjár á haustin. En á vorin varð að hafa þetta miklu rýmra. Það var venjulega ekki flutt nema 30 kindur í einu og þá varð að taka svo mikið pláss úr skipinu fyrir lömbin, þau voru höfð sér. Þau voru merkt, númeruð, og sama númer á ána, og svo var leitað að lömbunum og hverri kind gefin sín lömb þegar hún kom á land. Þá kom það oft fyrir þegar hvert lamb var búið að vera svona saman í hita. Það tók oft langan tíma að komast í land og þá voru ekki vélbátarnir þetta fór fram með árum og seglum eftir veðri. Þá var komin svo ólykt af lömbunum að ærnar börðu þau. Þá varð maður að standa yfir þeim langan tíma. Þá gafst það stundum vel að væta lömbin, þvo þau bara upp úr sjó og engri kind var sleppt fyrr en þau voru búin að kannast við sín lömb og þau voru búin að sjúga. Svo var litið eftir þessu svona fyrstu dagana, eftir því sem hann gat, að lömbin týndust ekki. Svo þegar þessu var lokið og búið var að rýja þá var ekkert skipt sér af fénu þangað til aftur í réttum á haustin. Þær voru venjulega um 20. sept. Þá var farið héðan í leitir, þá var farið á þessu skipi. Þá fóru allir héðan sem gátu, svona 8 - 9 menn. Þá var alltaf farið á laugardegi en leitir voru alltaf á sunnudegi í 20. viku sumars og þá helst á sunnudegi og gist á þessum bæ. Þá var

p3.
venjulega sofið í hlöðu og svo var alltaf hafður matur með í þessar ferðir sem var venjulega harðfiskur, brauð og hangikjöt og þ.h. Hann var hafður í skrínu sem var kistill eða koffort með hallandi loki og drykkurinn sem var hafður (það var aldrei farið svo á sjó í þessar ferðir að ekki væru hafðir blöndukútar, 1 - 2, og af honum drukku allir og fengu sér sopa eftir þörfum undir árinni, menn voru oft þyrstir. Hann var eins og lítil tunna. Smalað var á mánudeginum og réttað á þriðjudaginn og þá gátum við komist af stað með eitthvað af okkar fé hingað heim. Þá fóru einhverjir af okkar mönnum heim með þeim en hinir voru eftir til að klára réttirnar og passa það fé sem eftir var. Það var oft um 500 - 600 fjár sem þurfti að flytja hingað og það tók langan tíma eftir því hvernig viðraði. Féð var aldrei bundið. Pappamiða bundum undir óstina á lömbunum en svo voru venjulega nöfn á ánum, þær voru venjulega ekki númeraðar en sumir gerðu það líka. Þessi ær var no. 2 og lambið no.2. Með einlembinga höfðum við oft lágu númerin og ef við fundum lamb með númeri t.d. undir 20 þá var það einlembingur. Lömbin voru mörkuð heima jafnóðum og þau fæddust í fjárhúsunum. Það var aldrei safnað saman ómarkað. Aldrei var gengið um hagann og markað. Það þótti miklu verra því bæði blæddi meira úr eyrunum, eyrun skemmdust minna ef lömbin voru mörkuð strax. Fjármaðurinn sá um að marka. Oft gerði húsbóndinn það. Hann átti hvatrifað hægra og geirsýlt vinstra. Ég átti sneitt framan og fjaðrað aftan hægra og sýlt og gagnbitað vinstra. Við áttum aldrei nema eitt mark. Fjármaðurinn hafði þann sið að skrifa niður hvenær kindin átti að bera og svo þegar hún bar hvort það var gimbur eða hrútur og hvernig voru lit. Það var alltaf skráð í bækur. Þegar féð var flutt aftur út á haustin var það ekki flutt hingað á eyna heldur í heimalöndin og það eru aðallöndin. Það eru fjöldamargar eyjar. Talið er að hér í Hvallátrum séu um 200 - 300 hólmar og fjarar í þá alla. Um stórstraumana varð að passa þetta, smala þessu saman.

p4.
Og það var venjulega önnur vikan sem varð að vera í pössun en hina vikuna var það haft sjálfrátt um smástraumana. Það lánaðist venjulega og stórstraumana var það ómögulegt þá vorum við tveir strákar látnir vera yfir því og vorum í seli sem var í Seley og sá eldri var venjulega um fermingu og sá yngri var með honum. Við vorum látnir hafa þessa ábyrgð að passa féð og smala um aðföll og passa það í nátthaga á kvöldin. Svo urðum við að láta féð aftur út á nóttunni þegar var fallið fyrir skerin. Aldrei mátti parraka í nátthaga en með þurfti. Við urðum að láta það í nátthagann meðan var það bjart að við gátum haldið því saman þegar best til fengum við að hafa gamla konu til að elda fyrir okkur. Það voru náttúrulega hátíðisdagar því eldamennskan hjá okkur var nú ekki góð. Við vorum látnir hafa kaffi en við nenntum aldrei að hita það. Þegar við suðum okkur fisk þá helltum við bara soðinu upp á kaffið. Nátthaginn var hlaðinn úr torfi og grjóti og rúmaði mörg hundruð kindur. Hann var ágætis tún og var sleginn. Þetta var erfiðast meðan lömbin voru enn með ánum á haustin þetta fé var nú orðið kannski 500 - 600 og þá var farið að fækka því, þá byrjaði sláturtíðin. Auðveldara var að passa ærnar þegar búið var að taka frá þeim lömbin. Það var alltaf komið yfir til okkar ef við þurftum einhvers með. Ef okkur vantaði eitthvað sérstakt þá reistum við upp flagg og það sást vel heiman að og þá var alltaf komið til okkar. Flaggið það var tuska sem við útbjuggum sjálfir. Það var hóll þarna á eynni sem hét Kallhóll í sambandi við þetta kallmerki. Upp á þessum hóli reistum við flaggið. Þarna var þetta fé haft fram í miðjan desember, þá var það tekið aftur heim og tekið á hús þegar fengitími byrjaði. Eftir það var féð haft á húsi fram á sauðburð. Hér var ákaflega góð beit á veturna þegar það var íslaust og fé gat komist í fjöruna. Svo þegar ísar komu þá fraus fjaran svo féð komst ekki í fjöru og þá var þetta fé alið eingöngu inni. Annars var siður þá að nota útbeit meir en áður. Aðallega voru það sölin sem það sóttist eftir. Það voru græn og rauð blöð. Aðalkjarninn var þessi söl.

p5.
Þegar féll frá var þeim hleypt í fjöru og þær fylgdu sjónum. Kjarnmesti gróðurinn var neðst. Þær fengu alltaf best við stórstraumana. Það bar víða á því að það kom fram fjöruskjögur í lömbunum, þau voru máttlaus og vantaði kalk í beinin. Þau voru máttlaus þegar þau fæddust. Það kom hér um bil aldrei fyrir hér. Þá hefur vantað kjarnfóður með fjörubeitinni.
Selið í Seley. Áður fyrr hafði fóstri minn þarna fólk á veturna og það var heyjað þar að. Þá var venjulega eitthvað húsfólk, það voru oft hjón sem voru þá með 1 - 2 börn sem þurftu ekki mikla mjólk. Ég man eftir í 1 - 2 ár voru hafðar þarna nokkrar geitur sem hjónin höfðu til að hafa mjólk úr. Mjólk flutt heiman að. Oft voru þetta líka barnlaus hjón. Svo gátu þetta líka verið 2 karlmenn. En þessu var hætt nokkuð snemma, að hafa fólk í þessu seli. Síðasta fólkið sem var að vetri til þar var árið 1914 man ég. Hann hét Jóhannes og Oddný kona hans. Nátthaginn í Seley mun hafa verið gerður á árunum 1906 - 1907. Áður en hann kom var féð passað og smalað nótt sem dag og bælt. Það var gert þannig að féð var rekið saman í hnapp og verið hjá því þar til það var lagst og þá lá það kyrrt á blettinum meðan dimmt var. Vissi ekki til að sungin væri yfir þula. Dregið var oft í eyra með einstök lömb. Ef krakkar eða einhverjir áttu kind en átti ekki mark og þá varð að auðkenna með því að draga í eyra rauðan eða grænan og svo var það skráð. Að draga í eyra. Hér í eyjum var það venja líka með þetta sama fé að það sem aðrir áttu en húsbóndinn að það var saumuð bót ofan í bakið á kindinni í ullina með stöfum mannsins sem átti kindina, þá fékk hver sá sitt reyfi. Kvenfólkið, ef það átti kind saumaði það stafina sína í dulu og festi það í bakið á kindinni. Þetta var geymt og notað ár eftir ár ef þær fengu reyfið. Notuð var stoppunál, stungið í gegnum eyrað og svo var bundið hnútar á eða snúið. Gróf eyrnamörk voru kölluð soramörk, það var oft sagt með uppmarkaða kind að hún væri með soramarki.

p6.
Fjörulalli var líkur kindum. Ég sá hann aldrei. En það voru ekki gamlir menn sem þóttust verða varir við hann. Hann kom í féð og hann var kannski búinn að vera nokkra daga í fénu þegar þeir tóku eftir honum. Þetta var eitthvað skrímsli. Hann gerði ekkert af sér. Það voru til hérna skrímsli sem menn þóttust sjá. Ég sá aldrei skrímsli. Skrímslisríma er til í Breiðfirskum sögnum. Í Flatey var maður sem hét Matthías Eyjólfsson, hann sá skrímsli oftar en einu sinni.
Lýsingin á því var:
Langar voru og krepptar klærnar
til ára duga þær.
Tennur átta töldust mér
trýnið grátt sem öskuker.
Og á hryggnum hátt það ber
horn sem blátt á litinn er.

Þessi bragur er í Breiðfirskar sagnir. Þetta voru einhver óþekkt kvikindi sem áttu að skríða úr sjónum og á land.
Svo var karl hér sem hét Júlíus og var á Svefneyjum lengi. Ég man eftir vísu um skrímsli sem hann sá.
Skrímsli sem bjórinn
skjöldóttur skrölti á fjórum loppum.
Hausinn stór og hnöttóttur
sterturinn mjór og aflangur.

Þeir þóttust sjá förin eftir þetta í sandinum. Þau voru eins og tunnubotnar. Þessi skrímsli voru ekki mannskæð. Skrímslið sem sást í Flatey var í rauninni bátur á hvolfi sem hafði lent um veturinn og verið hvolft.
Steina í hasti þreif ég þá
þess nam hasta hausinn á
Hátt við gnasti í heilakrá
krukku rastarveg þar frá
þegar buldi í bátnum.

Þessi skrímsli voru nú venjulega eitthvað svona lagað.

Klukka:
Komnar voru klukkur en það voru eyktamerki. Skerin hérna á móti heita Dagmálasker og þegar sólin var yfir þeim þá voru dagmál kl. 9 að morgni. Svo hóllinn hérna hann heitir Nónhóll, þegar sólin var frá þessum bæ yfir þessum hól þá var nón (kl. 3). Ekkert sérstakt var á hádegi. En svo eru í vestur tangar sem heita Miðaftanstangar.

p7.
Svo var hérna hóll sem hét Náttmálahóll, þá var kl. 9 að kveldi. Náttmálahóll er til í Skáleyjum. Hádegishóllinn í Flatey. Þegar ekki sást til sólar þá var þetta ágiskun. Hér í Hvallátrum voru tvær strengjaklukkur, gamlar, sem voru aðaltímamerkin hér. Þær klukkur voru góðar og eru til enn. Þær gengu furðurétt. Það bar ekki saman á öllum heimilum. Eftir að símaklukkan hún var seinni en sveitaklukkurnar. Farið var fyrr hér á fætur eftir klukku. Hún var eitthvað 1 - 1½ tíma á undan. Þær voru upprunalega stilltar eftir sólinni. Loftskeytastöð var sett hér í Flatey árið 1918. Það var fyrsti sími hér í eyjar og þá komu réttar fregnir af tíma. Maður gat oft séð á háttum skepnanna um veðurbreytingar. Til dæmis á hænsnunum. Hænsnin hópuðu sig og fóru kannski í skjól ef von var á rigningu og á veturna hópaði æðarfuglinn sig ef von var á áhlaupi og hélt sig þeim megin við eyjarnar sem skjól var er veðrið skall á. Maður gat vitað af hvaða átt myndi hvessa. Léttrækar ær sérstaklega voru tregar á að fara frá húsunum ef þær vissu fyrir vont veður.
Við vorum með vekjaraklukku úti í seli. Þá var féð fúsara að fara heim í nátthagann ef það var von á vondu veðri og tregara að fara frá. Hér í eyjum var alltaf eldiviðarskortur. Á vorin var gerður klíningur sem kallað var. Kúamykjan úr fjósinu var venjulega borin út á veturna í smáhauga úti um móa og þúfur og á vorin þegar fór að þiðna þá var þetta bleytt upp og gerð lella. Svo var tekin smá lella og sett á þúfurnar eins og pönnukaka að stærð, sléttað út með spaða og þurrkað á móti sólinni. Það var margt fólk í þessu dag eftir dag. Fyrstu vorverkin voru oft að gera klíning. Svo var þetta þurrkað og tekið inn. Þetta var þurrkað upp og snúið. Þegar þetta þornaði þá bretti skánin upp á og losnaði við jörðina. Þá var henni snúið við í einn dag og þá var hún orðin glerhörð og þurr, þá var hún tekin inn og

p8.
hlaðið í stafla. Þetta var notað til eldiviðar. Þessi eldiviður var góður því hann logaði vel en hann var hitalítill, þ.a. þurfti mikið af honum. Því var gert mikið af því að þurrka þang og hafa það til eldiviðar. Það var borið þang inn í húsin til kindanna þar sem ekki voru grindur og svo voru kindurnar látnar liggja í því og skíta í það meðan það var þurrt. Svo var þangið tekið út og borið út á tún og þurrkað. Þetta var kallað skítaþang sem var tekið inn og notað til eldiviðar. Það þurfti mikinn eldivið til að hita dúninn. Aðkeyptur eldiviður var mór. Það var alltaf farið héðan suður á Skarðsströnd og keyptur mór. Hann var sóttur á Agli. Hann var mældur í botnlausum tunnum sem var kippt upp af er hún var orðin full. Báturinn tók um 200 tunnur af mó. Töluvert verð var af þessu, stundum var farið í skóg og hann höggvinn og kurlað niður í hæfilega bita. Farið var í Teigsskóg á Hallsnesi. Á stríðsárunum fyrri þegar ekkert var að hafa í eldinn fóru Eyjamenn hér allir í kurlferðir. Kol var ekki hægt að fá. Farið var vestur í Skor og náð í surtarbrand. Þar var sett upp verksmiðja frá Ríkinu. Var gert í neyð. Önnur var á Tindum á Skarðsströnd. Hér voru kindur ekki á taði, taðið undan lömbunum var notað í eldivið. Það var borið á túnin, stungið með skóflu í hnausa svo var því fleðað í sundur í flögur. Svo var þeim raðað á túnið og gaf töluverðan áburð á meðan það var að þorna. Þetta var besti eldiviður sem völ var á, lambataðið. Öllu moði úr jötunum var notað undir lömbin. Allt sem rak á fjörur var notað í eldinn. Eins kúahlössum á sumrin út um eyjar. Allt var nýtt í eldinn og allt notað til matar sem hægt var að éta. Hér voru engar leiguær en það var víða hérna. Leigan eftir jörðina var eingöngu dúngjald, það voru 40 kg. Þessar eyjar Svefneyjar, Skáleyjar, Hvallátur og Flatey voru allar metnar á 40 hundruð að fornu mati og það var greitt eftir þessar jarðir 1 kg. af dún fyrir hvert jarðarhundrað, sem sagt 40 kg. af dún var afgjaldið af jörðinni og sennilega

p9.
hafa þetta verið dýrustu skuldajarðir landsins. Aldrei lambahöft hér. Það sá ég aðeins tíðkast í sambandi við fráfærur. Eins sá ég hesta með hafti. Við áttum lengi vel einn kerruklár. Síðasti hestur fór í sjóinn.
Engin örnefni voru hér í sambandi við kvíarnar því þær voru hér aðeins í eitt ár nema þetta væru kallaðar kvíar þetta byrgi sem notað var til að mjólka í. Lömbin voru flutt á land undan þessum ám en það var aldrei hægt að hafa hér í eyjum fé neitt af ráði því hér var alltaf vatnsskortur og flæðahætta. Spakt fé nefndist spakt. Styggt fé fálur, fjallafálur. Nátthaginn hér á eynni hann var notaður ef að fé var tekið heim á haustin í góðri tíð þá var það ekki hýst heldur látið í þennan nátthaga meðan grasbeitin var nóg. Hausttíðin var oft góð alveg fram að áramótum þá var það ekki látið á hús. En nátthaginn var miklu meira notaður á vorin í sambandi við lambféð þá var húsakostur ekki það mikill að hægt væri að hýsa lambféð þegar á annað hundrað ær voru bornar. Þetta fé var látið í nátthagann og því var bara gefið þar. Það voru búnar til jötur og hey borið til þeirra og fóðurbætir. Í selið höfðum við alltaf með okkur brauð og harðfisk en svo áttum við sjálfir að elda grauta og hita kaffi. Við gátum sjálfir náð okkur í eldivið. Þarna var kamína ef við nenntum að kveikja upp og við höfðum með okkur olíulampa. Við kölluðumst smalar. Túnvargar, fé sem sótti í tún. Hér var ekki hægt að villast í þoku. En það gátu verið töluverð vandræði að finna fé í fjörunni ef að var þoka. Svo við urðum að gæta okkar sérstaklega að fara nógu snemma ef það var þannig veður. Engar sagnir um þoku. Fengum ekki sérstaka viðurkenningu en við fengum gott atlæti. Við fundum okkur oft prik sem við höfðum til að ganga við. Féð okkar gat farið út í Svefneyjalönd er var fjara og farið þar saman við féð og það urðum við að passa að gerðist ekki.

p10.
Sama þurftu þeir í svefneyjum að passa. Urðum alltaf að vera eftir fénu í 4 - 5 klukkutíma um að föllin fara heldur fyrr í fjöru. Þekkir ekki smalaspor. Hér var fé yfirleitt ekki styggt og þegar var búið að taka undan þeim lömbin voru þær ekki styggar. Ég sá að 3 rollur voru hábundnar í rekstrum sem voru óþekkar. Ef það voru ónánar kindur. Sérstaklega þær kindur sem var verið að flytja í fyrsta skipti hér út í eyjar. Þá var bundið fyrir ofan konungsnefið um hásinina á afturlöppum, þá höltruðu þær. Svo var þetta tekið af þeim er komið var áleiðs. Sá aldrei að stygg ær væri tengd spakri. Við vorum látnir gera ýmislegt annað í selinu. Á Kvöldin vorum við látnir hnoða mör. Þá var hann brytjaður niður og hnoðaður í trogi í smátöflur og geymdur þannig. Svo ef hlýtt var framan af hausti þá vorum við látnir slétta smábletti. Við lásum bækur og stöguðum skóna okkar. Ef gamlar konur voru þá gerðu þær nú við skóna. Varaðir við að vera að fikta við sjóinn. Máttum ekki hafa bát. Misjafnlega kostgóð beit var hérna. Það voru sérstakir hólmar sem féð sótti stíft í. Hólmar sem lundar voru í og melhólmar. Svo voru til álagablettir hérna sem huldufólk var í. Þá mátti ekki slá og þeim reglum var fylgt. Einn hólma mátti ekki slá. Það var nú ekki mikið slægnaland. En þar var þó loðinn blettur sem oft var litið hýru auga til. Þá átti eitthvað slys að henda hér. Skepnuhöldin áttu að verða verri. Hér var steinn í túninu sem hét Grásteinn. Þar bjó huldufólk. Við honum mátti ekki hreyfa. Við urðum að fara í hvaða veðri sem var. Þá voru farin að koma olíuborin strigaföt, kápur og skinnsokka höfðum við alltaf, bundnir fyrir neðan hnéð. Hunda þótti ekki gott að hafa hér vegna fuglsins. Kettir voru ekki hér, ef þurfti að hafa þá vegna músa voru þeir fluttir á land á vorin eða lógað. Engin þjóðtrúarráð til að spekja fé.

p11.
Ekki signt yfir fé áður en farið var með það til lands.
Engar þulur.
Amma mín, Steinunn Sveinbjarnardóttir í Skáleyjum. Hún var ágætur hagyrðingur. Hún var oft að yrkja.

Upptalning á krökkum hér í Látrum.
Aðalsteinn og Eyjólfur
ýta fleyi að sjónum
Gísli, Bergsveinn, Guðmundur
gagnið að tveimur Jónum.

Er hér Lára Ágústa
einnig Guðlaug Hallþóra
Sigurborg mín síkáta
og sómastúlkan Andrea.

Faðir minn bjó tvö ár í Neðri-Gufudal. Þá gerði amma mín vísu um okkur.
Ungur ríður Ólafur
undir sínum sokka.
Ríða þá í réttirnar
röskir bændasynir.

Um J.D.
Hinna þegar hófaljón
hlaupa á engi grónu.
Varla eftir verður Jón
vænni ríður Skjónu.

Guðmundur fer geyst á Storm
grundir, holt og móa. (botn)

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana