Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1911

Nánari upplýsingar

Númer8387/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8387

p1
Tegundin: Hér var talað um hunda, en t.d. þegar kallað var á hund sem menn vissu ekki hvað hét var vanalega sagt, héppi eða seppi. T.d. þegar kallað var á hund í mat, var sagt, thépp,hépp, eins og sagt var kis,kis þegar kallað var á ketti. Ég hef aldrei heyrt orðin deli eða búadeli, en öll hin kannast ég við og heyrði þau notus s.s. hvutti, grey, garmur, rakki, seppi, skinn og héppi. Orðið klódýr heyrði ég aldrei notað sem samheiti um hunda og ketti, nema í nátturufræðinni. Hrædýr eða hrækvikindi heyrði ég stundum notað um hunda sem sóttust eftir að éta hræ sem þeir fundu út um hagann. Hundakyn: Ég held að menn hafi litla rellu gert sér út af hundakynjum hér áður, minnsta kosti man ég ekki eftir neinu umtali um það. En þá var ekki orðið eins mikið um kynblöndun frá alls konar útlendum hundum eins og síðar varð þó nú sé farið að hugsa um að rækta upp gamla íslenska fjárhundastofninn og þykjast menn kunna nokkur skil í því. Heimilishundur: Hér áður var það sjálfsagður hlutur að hvert sveitabýli um allt land ætti sína heimilishunda og það oft fleiri en einn og fleiri en tvo, t.d. á dalajörðum áður en girðingar komu til sögunar. Víðast var þörf á og smalarnir gátu varla heitið nema hálfir menn ef þeir voru hundlausir.

p2
Það kom fyrir að hundar "lögðust í flæking," vanalega upp úr tíknasnuðri, annað hvort rötuðu þeir ekki heim, eða þá líklega ekki kært sig um það þegar þeir voru búnir að flækjast lengi að heiman. Það var oft gripið til þess að gelda þá, heldur en eiga á hættu að tapa þeim alvel. Það voru vissir menn sem fengust við það. Margir hlífðust við að láta gelda hunda sína, þeir urðu þyngri á sér og latari, sóttust oft á að safna fitu. Vitanlega breyttist hundahald hjá mönnum þegar hætt var að færa frá og þörfin fyrir hunda minnkaði. Og nú eru til margir sveitabæir sem eru orðnir bæði hundlausir og hestlausir og kann ég því illa. Ekki þekki ég málsháttinn: "svo er hundur sem hann er hafður," og ekki heldur um hest. Verð á hundum: Þegar ég var að alast upp, heyrði ég aldrei talað um að hvolpar væru seldir. þar sem tíkur voru féllust til hvolpar, meira en menn kærðu sig um og urðu lifandi fegnir að geta komið þeim út. Auðvitað var meira sóst eftir hvolpum undan vænum tíkum. Margir höfðu trú á að tíkur væru vænni fjárhundar. En svo kom annað viðhorf, þegar hundapestir gengu og kannski flestir hundar í heilum héruðum dráðust. Á þessum árum gátu menn varla hundlausir verið og það var til að menn keyptu hunda á háu verði og lögðu mikið á sig til að

p3
útvega sér þá. Það hefur líklega verið kringum miðja öldina sem leið að það gekk hundapest hér í Eyjafirði, sem drap flesta hunda. Þá var það að nokkrir bændur tóku sig saman og gerðu út leiðangur suður á land, til að útvega hunda. Það voru fengnir til fararinnar fjórir duglegir menn, tveir af þeim vanir og harð duglegir ferðagarpar. Þetta var einhvern tíma á útmánuðum og þeir fóru gangandi suður Kjöl og komu niður í Hreppa. Þá lifði svo mikil útilegumannatrú, að sunnlendingar urðu hræddir við þá, þar sem þeir komu fyrst til bæja. Þeir voru spurði að nöfnum og einn sagðist heita Randver og vera frá Jökli, (hann var langafi minn), en Randvers nafn höfðu þeir aldrei heyrt og svo átti hann heima á Jökli, en svo hét einn af fremstu bæjum í Eyjafirði. Ég man ekki hvað marga hunda þeir fengu en suma urðu þeir að kaupa dýrt, sérstaklega vænar tíkur. Eitthvað af hundunum misstu þeir á norðurleið, en annars gekk ferðin stórslysa laust þó þetta væri nokkur dyrfskuför, þar sem hvergi var sæluhús eða neitt afdrep. Sennilega hefur þótt best að fá sér hvolpa seinni part vetrar, að þeir væru orðnir færir þegar farið var að nota hunda við smalamennskur að vorinu. Stundum voru menn að koma hvolpum í tamningu til þeirra sem áttu óvenju góða smalahunda. Ég held að hvolpar hafi oftast verið látnir burtu þegar þeir fóru að geta gengið sér að mat, étið hvað sem var og lapið.

p4
Hundur verður til: Hér heyrði ég alltaf talað um að tíkur væru í hundalátum, þegar þær beiddu eins og hryssur í hestalátum, kýr yxnar, ær og geitur blæsma. Líka var talað um lóðatíkur og lóðahunda, líka var talað um hunda í tíknasnatti. Það þótti stór galli við að eiga tíkur. Þessar óhjákvæmilegu hunda sem komu tvisvar, þrisvar á ári. En það var við ekkert ráðið þó verið væri að reyna að loka tíkurnar inni, hundarnir flykktust að, flugust á, geltu og spangóluðu uppi á bænum þar sem þeir vissu um tík, jafnvel grófu þeir sig gegnum torfþekjurnar ef þær voru ekki því þykkari eða þeir rifu sig gegn um gáttir meðfram bæjarþiljum. Þetta mátti heita plága. Víðast hvar reyndu menn að bægja þessum ófögnuði frá en gekk misjafnlega. Það var reynt að skjóta á þá púðurskotum, binda blikkdósir í skottið á þeim eða eitthvað sem hringlaði í þeim var verst við það. Hér heyrði ég bara talað um hvolpafullar tíkur. Fæðing: Hér var talað um að tíkur gytu og ég held að þær hafi undir flestum kringumstæðum verið látnar einar um ljósmóðurstarfið. Því var trúað að hvolpar fæddust stundum sjáandi en ég vissi ekki dæmi til þess. Ég man reyndar ekki hvað það átti að tákna, en ég held að

p5
það hafi ekki þótt gott. Ég man að sumum var illa við að ala upp hvolp sem fæddist fyrstur, sögðu að þeir stæðu alltaf framan í kindum sem þeir ættu að reka. Ég man ekki til að ég heyrði neitt um að tekið væri mark á hvernig hvolparnir lágu á spenunum. En það er ekki að marka, við áttum svo sjaldan tíkur, okkur leiddust þær. Margir drekktu nýgotnum hvolpum en aðrir hjuggu þá með beittum hníf eða öxi. Auðkenni: Ég man að ég heyrði talað um að hundar hefðu "fjáraugu," en man ekkert fyrir víst við hvað það átti. En mér dettur í hug hvort það hefur átt við þann lit á hundum þegar þeir voru svartir með gulleitar lappir og kvið, (botnóttir), þá höfðu þeir æfinlega gula gómstóra bletti yfir augunum, en þetta er reyndar ágiskun. Þegar menn voru að velja sér hvolpa skoðuðu menn lappirnar á þeim, þeir þóttu efnilegri ef þeir voru sporaðir, helst alsporaðir þ.e. auka kló, helst á öllum löppum, þó var betra en ekki að þeir væru hálfsporaðir. En sporarnir voru venjulegri á afturlöppum. Þjófaljós þekkti ég ekki, en það voru nefndar týrur þegar hundar höfðu hvítan blett í skottbroddi. Það var talað um geltna hunda, sem stóðu opnir í tíma og ótíma og svo voru eltnir hundar líka og þótti hvorugt gott, þeir stukku í

p6
skepnur og eltu þær og gegndu ekki þó þeir væru skammaðir. Litir hunda og nöfn: Menn gerðu meira af því hér áður að nefna bæði hunda og hesta eftir lit, en eftir að þessar skepnur urðu sport og leikföng, leggja margir sig fram við að finna sem furðulegust nöfn og eru engin takmörk fyrir hvað fólki dettur í hug. Það voru nokkur nöfn hér áður, sem mjög mikið voru notuð ein og Vaskur, Vígi, Santi, Tryggur, Lappi, Bási, Kátur, Fjára og Brana, tíkur. Strútóttur hundur nefndist Strútur, hundur með hvítan hring um háls Hringur, Lappi, Týri, hundar með hvítt í rófu og Týra, tíkur. Kjói voru oft nefndir hundar með mikið hvíta hringi. Kolur, gulkolóttir hundar með svart trýni og Trýna tíkur með þeim lit. Hárafar: Ég held að ekki hafi verið mikið um að hundar væru nefndir eftir hárafari. Þó kom fyrir ef þeir voru óvenju loðnir að þeir voru nefndir Lubbi. Ég heyrði ekki talað um að hundshár væri notað og ekki heldur talað um hundasnoð. Rödd hunda: Öll þessu orð um að hundar ýlfri, ýli, urri, bofsi, gelti, gjammi, góli, spangóli voru þekkt hér og algeng, en orðatiltækið að "sjóða grottann," hef ég ekki heyrt. Það var talað um gestagelt í hundum, þeir geltu allt öðru vísi þegar þeir voru að gelta að gestum, en þegar

p7
þeir voru að gelta að skepnum. Ratvísi, þefskyn: Allir sem hafa verið samtíða hundum komast við hið ótrúlega þefskyn þeirra. Það er til á prenti fjöldi af sögum bæði af hundum og hestum, sem segir frá ratvísi þeirra og þefskyni. Spádýr: Hér áður var það kærkominn viðburður á fámennum afskekktum sveitabæjum að fá gesti, þess vegna tók fólk eftir öllu sem talið var að boðaði gestakomu og það var ýmislegt. Sagt var að hundarnir væru að "bjóða gest," þegar þeir lágu fram á lappir sínar inni á baðstofugólfi og snéru sér til dyra og lögðu trýnið fram á aðra hvora framlöpp, ef þeir lögðu trýnið fram á hægri löpp, buðu þeir höfðingja, en einhverjum lægra settum ef þeir lögðu trýnið fram á vinstri löpp, en ef þeir snéru afturenda fram að dyrum buðu þeir óþokka. Þá spáðu kýrnar gestakomu þegar þær "hristu úr klauf," sem kallað var þ.e. hristu annan afturfót aftur undan sér þegar þær stóðu á básunum. Svo voru það gestaflugurnar (mölflugur) sem vissu á gestakomu eins og gamla vísan bendir til um, höfundur er víst ókunnur: Flugan gesta flýgur hér, falleg alla vega. Þar á frestur enginn er, að einhver sest í kvöld hjá mér.

p8
Ég þekki enga þjóðtrú varðandi tíkarmjólk. Lækningar: Ég kannast við málsháttinn: "kattartungan særir, hundstungan græðir." Annan málshátt þekki ég líka: "það er heilnæm hundstungan." Það er engin fjarlæg þjóðsaga að hundafeiti væri notuð til lækninga og það fram á þessa öld. Mig minnir að ég heyrði eða læsi frásögn um að Hallgrímur Jónasson kennari, landskunnur maður, væri læknaður í hné þegar hann var barn, með því að vefja hundsnetju um hnéð og láta það sitja þannig einhverja daga. Þá var hundafeiti borin á mar og alls konar meiðsli og ég þekkti konur, sem vitað var að áttu alltaf hundafeiti til alls konar lækninga. Hundsbit: "Hann verður að hafa þetta eins og hvert annað hundsbit," var gamall málsháttur um þá sem urðu fyrir einhverjum skakkaföllum. Á seinni árum var nú held ég farið að telja sjálfsagt að farga hundum sem tóku upp á að bíta fólk, en ég vissi til að klipnar væru vígtennur úr hundum sem fóru að bíta fé. Ég heyrði að sú þjóðtrú hefði þekkst að ef hudnur biti mann ætti að reyna að slíta af honum hár og leggja við sárið, sem þá átti að gróa vel.

p9
Ef margir hundar stukku saman í áflog var besta og fljótlegasta ráðið að skilja þá, að skvetta á þá vænni gusu af köldu vatni, en færu tveir hundar saman var gjarnan gripið sinni hendi í hnakkadrambið á hvorum hundi og þeim kastað svo langt sem hægt var sínum í hvora áttina. Það var reyndar ekki áhættulaust því grimmdin var svo mikil að þeir gátu bitið til skaða. Hrælykt: Það orð var ekki notað hér um vonda lykt, sem stundum kom af hundum, en hér var það nefnt útilykt. Ég man ekki eftir að ég heyrði neina skýringu á því hvernig stóð á þessari lykt sem stundum kom af hundum. Hún kom minnsta kosti ekki ævinlega af því að þeir hefðu leigið í heyjum, ég held að fólk hafi talið að hún stafaði af vissu loftslagi úti. Hundaþúfa: Ég hef aldrei heyrt nein önnur nöfn á hundaþúfum, en nú eru þær eins og margt fleira sem áður var, að hverfa úr sögunni, emð breyttum aðstæðum. Hér áður voru allar alfaraleiðir varðaðar fagurgrænum hundaþúfum, sem engri skepnu datt þó í hug að grípa sér tuggu af, þá voru allir gangandi eða ríðandi á ferð og hundar með. Ég kannast við orðtakið: "Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér." Svo er annað: "Það er sitthvað Hólastóll eða hundaþúfa." Hundur í mannaferð: Hér var sagt: " að vera eins og hundur í hverri herferð," þetta var oft sagt við krakka þegar þau vildu alls staðar fá að vera með og um þá sem trönuðu sér fram og vildu vera með í öllu. Enda er það hundaeðlið að vera í sem nánustu sambýli við manninn og helst að fylgja þeim sem þeim þykir vænt um hvert fótmál. Oft þurfti að loka hunda inni, þegar þeir einhverra hluta vegna máttu ekki elta húsbændur sína, en sumir voru svo magnaðir að rekja slóðir að þeir fóru bara hvenær sem þeim var sleppt út. Flestir lokuðu hunda inni þegar farið var til kirkju. En stundum sluppu þeir út eða var ekki hirt um að loka þá inni og kom þá fyrir að þeir gerðu messuspjöll. Það brást ekki að þeir fóru að spangóla þegar farið var að syngja, þá kom meðhjálparinn til sögunnar og fjarlægði þá, en það gátu stundum orðið vafningar við að ná þeim. Ég man þegar ég var krakki að mér fannst það góð uppbót á messuna þegar meðhjálparinn lagði af stað til að fjarlægja hunda, en þeir héldu sig gjarnan undir peysupilsum húsamæðra sinna. Bæli hunds: Víðast munu hundar hafa átt sér visst bæli, oft í bæjardyrum eða í skoti, sem oft gengu út úr göngunum. Algengt var að búa til gat á bæjarþil mátulegt fyrir hund að smjúga um og var nefnt "hundagat." oftast var lok fyrir þessu gati, það var á völtum að ofan svo þar gekk hvort sem var út eða inn, gátu þá hundarnir gengið um að vild. Margir létu hunda liggja úti á sumrin.

p11
Lágu þeir þá oft upp á bæjarþökum eða utan við baðstofuglugga, til að heyra til fólksins. Það var algengt orðtakið: "að ekki væri hundi út sigandi," um vont veður. Þetta var notað um versta veður sem gat komið, að ekki væri einu sinni hægt að lofa hundi að hlaupa út, þannig skildi ég þetta orðtak eins og það var notað hér. Hundadallar: Auðvitað áttu allir hundar sín matarílát. Ekki held ég það hafi víða verið siður að smíða eða kaupa sérstaka hundadalla, það féllust til alls konar ílát sem notuð voru handa hundum og köttum. Matarskálar sprungu eða brotnaði úr barmi, ef þær sprungu voru þær boraðar og spengdar og notaðar til einhvers. Þá voru mikið í notkun emileraðar blikkskálar og diskar. Þegar gat kom á þessar blikkskálar var oft dregin drusla gegn um gatið svo ekki læki og hundum gefið í þessu. Annars áttu hundar til að kroppa druslurnar úr ef eitthvað gott hafði verið látið í skálina. Hundamatur: Víða var siður að lofa hundum að vera inni meðan borðað var og hrukku þá oft bitar til þeirra og sjálfsagt þótti að gefa hundum öll bein, sem þeir gátu átt við, einnig úrgang úr harðfiski, "eins og snúið roð í hund." Þegar slátrað var á haustin þótti sjálfsagt að hirða handa hundunum allt sem ekki var talinn mannamatur og setja í súr handa hundum og köttum þar sem þeir voru. Fjárhundar: Hundar, eins og allar skepnur og mannskepnan líka, voru og eru mjög

p12
misjafnir að útliti, gáfum og kostum. Það var mikið vandaverk að "venja" hvolpa svo þeir yrðu góðir fjárhundar, en góður hundur var hér áður ómetanleg búmannseign. Móðir mín þekkti bónda þegar hún var ung, sem átti svo væna tíka ð hún sparaði honum að hafa smala, karlinn sendi hana úr slægjunum hjá sér til að smala á kvöldin, hann stjórnaði henni með bendingum og hún kom alltaf ein með allar ærnar á kvíaból. En hún þurfti að hafa mat sinn en engar refjar, hún fékk vel smurða flatköku og sjálfsagt mörk eða meira af volgri nýmjólk þegar hún kom með ærnar. Auðvitað hafa breyttir búskaparhættir haft áhrif á hundahald um allt land. Þeirra er ekki að verða þörf lengur, nema á stöku stað þar sem þarf í lengsta göngu á haustin og hef ég þá heyrt að nú fari margir hundlausir í þær göngur. Það er ekki gott að lýsa hvernig hundum var sigað, því það fóru ekki allir eins að, en þeim var mikið kennt að hlýða bendinum. Ég hef aðeins heyrt skammaryrðið "þú hefur étið folald," en hér var það ekki algengt. Oft var erfitt að venja hunda af að elta bíla, helst var að skjóta á þá hunda úr byssu úr bíl. Hundafár: Hundapest gekk öðru hverju og mátti segja að hýn ylli búsyfjum, því oft drápust flestir hundar í heilum héruðum og þeir sem tórðu urðu að litlu gagni, náðu sér aldrei og engin lækning var til. En það mátti segja að hundlausir gátu menn þá varla verið, meðan sauðfjárbúskapur var aðallega stundaður og hvergi girðing til vörslu. Enda lögðu menn mikið á sig til að útvega sér hunda aftur.

p13
Hundahreinsun: Þegar ég man fyrst eftir var farið að hreinsa hunda á hverju hausti. Það var ekki gert fyrr en eftir sláturtíð þegar þeir voru hætti að "ná í hráa." Hér í Hrafnagilshreppi voru tveir hundakofar, annar hjá Litla-Hóli, hinn einhvers staðar neðarlega í hreppnum. Það voru kosnir hundahreinsunarmenn og .... ekki að komast undan, þó það væri ekki eftirsótt embætti. Hundarnir urðu að koma í kofann daginn áður en átti að "gefa þeim inn." Svo voru þeir allir baðaðir um leið og þeim var sleppt út og þeir tóku enga útúrdúra á leiðinni hver heim til sín. Þegar ég man fyrst var farið að passa að brenna alla sulli, sem koma úr fé þegar slátrað var. En áður en menn þekktu sullaveikina var ekkert hirt um sulli, þeim bara hent. Ég vissi hvergi til að hundar væru látnir sleikja matarílátin. Hundar í draumi: Ég man að ég heyrði fólk tala um að því væru hundar í draumi fyrir fréttum og þá helst einhverjum slæmum fréttum. Ég heyrði konu segja frá því að hana dreymdi þannig fyrir stríðinu að hún sá hóp af ljótum grimmum útlendum hundum, sem hlupu snuðrandi og urrand
i milli bæja og

p14
öllum stóð stuggur af þeim. Margir trúa að eitthvað fylgi öllum, er þá nokkuð undarlegt þó hundar fylgi húsbændum sínum áfram þó þeir skipti um svið? Enda óteljandi sögur um fylgjur bæði manna og dýra, sem skyggnir sjá og ekki verður hrakið. Og hafi mannskepnan sál, hafa dýrin það líka ----- Dauði: Þegar ég var að vaxa upp var farið að skjóta hunda og ketti og stórgripi, en fé var rotað með helgrímu, en ég heyrði ljótar sögur um hvernig hundar og kettir höfðu verið hengdir en stundum settir í poka og steinn með og kastað í vatn. HUndsskinn held ég oftast hafi verið hirt og líka kattaskinn á þeim árum var engu hent sem eitthvað var hægt að nýta. Þegar ég var unglingur kom upp sú tískualda að nota hundsskinn á kápukraga og í lausa loðkraga. Stúlkur voru að fá sér svarta snögghærða hunda, ala þá vel svo belgurinn gljáði, lóga þeim svo og hafa þá um hálsinn. Að vera eins og útspýtt hundsskinn, heyrðist oft og var notað um þá sem voru gefnir fyrir að ferðast og vera alls staðar með, það var í svipaðri merkingu eins og að vera "hundur í hverri herför." Maður og hundur: Það voru glögg skil milli manns og hunds hér áður, þar hæfði ekki að tala um munn, nef og fætur á hundi en oftar heyrði ég talað um augu í hundum en glyrnur, aftur á móti var oftast talað um glyrnur í köttum. Það var kjaftur trýni og lappir, bæði á hundum og köttum.

Ég kannast ekki við að "gera hund að manni." Alltaf passað að reka hunda fram þegar átti að fara að lesa húslestur, þeir máttu ekki hlusta á "guðsorðið," og það var tekið til þess ef of mikið þótti dekrað við hunda.

p15
Kveðskapur, sagnir: Það er furðu lítið til af skáldskap um hunda miðað við það sem til er af lausavísum og kvæðum um hesta. Var þó sagt að milli manns og hests og hunds, héngi leyniþráður. Það eru til á prenti margar sögur um vit og tryggð hunda, sem jafnvel björguðu lífi húsbænda sinna. Í gömlu kvæði er lýst hundstryggð, ég man ekki nema eina vísuna: Hann er bæði trúr og tryggur, trýnið svart og augun blá. Fram á sínar lappir liggur, líki bóndans hjá. Vísu kann ég síðan ég var smá krakki, hún mun vera upprunnin hér í Eyjafirði, en um höfund veit ég ekki: Heitir Valur hundur minn hann er falur varla. Einatt smalar auminginn upp um sali fjalla. Orð og málshættir: Flest þau orð og málshættir sem taldir eru upp s.s. "Erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja," og "veit hundur hvað étið hefur," lifa enn í mæltu máli út um sveitir landsins, minnsta kosti hér þar sem ég þekki best til, ég kannast vel við þetta allt, reyndar býst ég við að þeim fari nú fækkandi sem taka sér þetta í munn í daglegu tali. Því miður er tungan að týna svo mörgu úr málinu sem tengist lífi fólks hér áður út á landsbyggðinni.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana