Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1912

Nánari upplýsingar

Númer8461/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8461

p1
Tegundin: Algengustu nöfnin sem ég þekki eru þessi: hundur, rakki, seppi, hvutti, helst um hvolpa, grey og héppi. Afleiddu orðin eru hundsspott, haft í niðrandi merkingu um greyskinn og greyskarn í vorkunar merkingu. Greyskömm var líka til. Hundskinn og garmskinn þekki ég ekki. Klódýr var óþekkt á mínum slóðum . Hrædýr og hrækvikindi voru stundum viðhöfð og einnig hræ. Hundakyn: Í minni æskusveit voru hundar mikið blandaðir útlendum hundum. Ég hygg að mjög fáir hafi verið af hreinu kyni. Þó var talað um íslenska hunda ef þeir voru með uppstandandi eyru og mikið hringaða rófu. Stubbhundar voru þeir kallaðir sem voru með stutta rófu eða stubba. Hundar sem voru með lafandi eyru og lítið hringaða rófu voru nefndir útlendir hundar eða af útlendu kyni. Annars held ég að fólk hafi lítið vitað um einstök hundakyn. Ekki man ég til að hundsbein hafi komið úr jörðu. Heimilishundar: Alltaf var talað um heimilishundinn eða heimilisrakkann. Hann var alltaf kenndur við heimili sitt eins og flestar aðrar skepnur. Ef hundar lögðust í flakk hétu þeir flökkuhundar. Það var almennt álit fólks að hægt væri að marka heimilisbrag af útliti hundanna. Ekki var það álitið gott heimili þar sem hundar voru horaðir og ljótir. Svo var og um aðrar skepnur einkum hesta. Ekki vissi ég til að hundar væru geltir þó þeir væru gefnir fyrir flakk. Hundar voru áður

p2
hafðir til þarfa. Fyrir kom að hundum úr kaupstöðum var komið í sveitina. Ekki gafst það alltaf vel, stundum urðu þessir hundar til vandræða. Verð á hundum og hvolpum: Hundar eða hvolpar voru yfirleitt ekki seldir. Margir hvolpar voru aldir upp á æskuheimili mínu. Þeir voru aldrei seldir. Um eitt dæmi veit ég þó. Bóndi einn gaf fullorðinn sauð fyrir ungan vaninn hund og þótti mikið. Þetta var eftir hundafár. Hvolpar voru eins til tveggja mánaða þegar þeir voru teknir frá tíkinni, oft eldri. Hvolpar voru aldir upp á öllum árstímum. Hundur verður til: Alltaf var talað um að tík væri lóða þegar hún gaf sig að hundum. Annað orð var ekki notað. Hundar í þessu standi voru kallaðir lóðahundar. Þegar margir hundar söfnuðust saman um eina tík sem algengt var kallaðist þetta lóðafar eða lóðarí. Ekki vissi ég til að lóðahundar væru hraktir, þó þeir væru ekki neinir auðfúsugestir. Þegar tík gekk með hvolpa var hún kölluð hvolpafull. Fæðing: Oftast var sagt að tíkin ætlaði að fara að leggja þegar hún var komin að því að fæða hvolpana. Það var algengara en að gjóta. Ekki var hirt um það að fylgjast með í hvaða röð hvolparnir fæddust. Að hvolpar fæddust sjáandi var talinn skröksaga enda kom það aldrei fyrir. Nýgotnum hvolpum var alltaf drekkt. Þeir voru látnir í poka með steini og kastað í vatn. Auðkenni: Fjáraugu þekki ég ekki. Talað var um hringspora eða alspora og einnig hálfspora. Alspora hundar áttu að verða vænir fjárhundar. Hvítir blettir yfir augunum hétu þjófsaugu.

p3
Hvítur rófubroddur hét þjófaljós. Sumir töldu að hundar með hvíta bletti yfir augunum væru skyggnir. Ekki mynnist ég þess að neitt sérstakt væri bundið við þjófaljósið. Ég man ekki eftir neinum einkennum í sambandi við hvort hundur var geltinn eða ekki. Þá þótti frekar ókostur ef hundar voru mjög geltnir. Litir hunda og nöfn: Litir á hundum voru fjölbreyttir. Þeir voru: gráir, gulir, kolóttir, mórauðir, svartir, hvítir, gulkolóttir og fleiri litir hafa eflaust verið til. Flestir hundar voru með hvíta bletti á bringunni. Fáir voru alveg einlitir. Svo voru þrílitu hundarnir, strútóttir, svartir, gráir og móstrútóttir, botnóttir, flekkóttir og kápóttir. Oft voru nöfn dregin af lit, t.d. Strútur, Flekkur og Gulur. Svo voru líka nöfn sem dregin voru af hegðun þeirra og upplagi s.s. Kátur, Sámur, Hvatur, Vaskur, Tryggur, Busla og Lúpa. Nöfn sem dregin voru af ytra útliti: Stubbur, af stuttri rófu, Lubbi af loðnum belg, Krummi af svörtum lit. Auk þess Seppi, Kjammi, Týra, Kolur, Flekkur, Móri og mörg fleiri. Snoppóttan hund hefi ég aldrei heyrt nefndan. Hárafar: Loðnir hundar voru sagðir lubbalegir eða lubbar. Líka var talað um loðlubba ef hundar voru mikið loðnir. Ekki veit ég til að hundshár væru til nokkura nota. Hundahár oftast notað en snoð var líka til. Oftar að hundurinn væri að fara úr hárum. Líka heyrði ég sagt að hundurinn væri að ganga úr snoðinu. Rödd hunda: Öll þessi nöfn á hljóðum sem hundar gáfu frá sér kannast ég við s.s. ýlfra, ýla, urra, bofsa, gelta, gjamma, góla, spangóla. Líka var sagt að hundar vældu, það mun

p4
merkja sama og að ýla. Hundar ýlfruðu þegar þeir voru óánægðir. Vældu þegar þeir meiddu sig. Urruðu þegar þeir voru reiðir eða hræddir. Bofsuðu þegar þeir ráku upp eitt og eitt gelt. Geltu þegar þeir voru að reka skepnur eða gelta að gestum. Gjamma þegar þeir geltu án nokkurs tilefnis, oft þegar þeir voru orðnir þreyttir á að gelta. Spangóluðu þegar þeir voru leiðir eða langaði í flakk. Ekki kannast ég við að orðtakið að sjóða grottann. Sjógól eða nágól þekki ég ekki heldur. Gestagelt var algengt mál og var haft um gelt hunda þegar þeir fóru að gelta að tilefnislausu að því er virtist. Var þá sagt að þeir væru að spá gestakomu. Eins var það líka haft um gelt hunda þegar þeir geltu að gestum sem voru að koma. Ekki þekki ég orðið gjárifur um geltna og hávaðasama hunda en stundum voru þeir kallaðir kjaftaskar t.d.: "Þetta er nú meiri kjaftaskurinn." Ratvísi, þefskyn: Þefvísi hunda er undra mikil eins og kunnugt er. Þeir gátu rakið spor manna og hesta, jafnvel þó þau væru ekki alveg ný. Um það eru mýmörg dæmi sem of langt mál er að segja frá. Ratvísi þeirra er líka óbrygðul, þeir voru ekki í neinum vandræðum með að rata, hvorki í þoku og myrkri, né í stórhríð. Spádýr: Ef hundurinn fór allt í einu að gelta í vissa átt var sagt að hann væri að spá gestum og myndu þeir koma úr þeirri átt að bænum. Þetta reyndist oft rétt. Gestur kom úr þeirri áttinni sem hundurinn gelti í. Ekki man ég til að talað væri um að hægt væri að marka af gelti hunda á hverjum væri von. Hundar vissu á sig veðurbreytingar eins

p5
og önnur dýr. Þeir voru krumpnir og vildu halda sig inni, undir vond veður. Mér finnst mjög trúlegt að hundar hafi séð feigð á fólki þó ég viti ekki dæmi um það. Tíkarmjólk: Ekki get ég munað eftir að neinu sérstöku í sambandi við tíkarmjólk, hvorki þjóðtrú né annað. Lækningar: Um þá hluti er ég afar fáfróð. Þennan málshátt þekki ég vel: "Kattartungan særir, hundstungan græðir." Líka þekki ég til þess að gott þótti að láta hund sleikja skeinur sem illa greru. Var þá borin feiti á skeinuna til að fá hundinn til að sleikja hana. Ég heyrði líka sagt að gott væri að nota hundafeiti til að bera á tognun og mar. Hundsbit: Grimmir hundar þóttu ekki eigandi og urðu sjaldan langlífir, sérstaklega ef þeir sýndu sig í að vilja bíta menn. Ef fyrir kom að menn yrðu fyrir hundsbiti átti að láta hundinn sem beit sleikja sárið. Það var að sjálfsögðu ekki alltaf hægt. Venjulegast var látið joð eða annað sótthreinsandi við sárið og bundið um. Hundsbit þóttu gróa seint. Ekki veit ég til að hundshár væri brennt til að bera á hundsbitið. Þegar hundar smáurruðu svo sá í tennurnar var það nefnt að sýna tennur. Þegar þeir skelltu saman skoltunum án þess raunverulega að bíta hét það að glefsa. Ef hundur bitu svo að blæddi var það kallað að bíta. Hælbítur, sá sem beit í hala á stórgripum. Ef sá á kindum eftir hunda voru oft klipptar úr þeim vígtennur. Áflog hunda:

p6
Algengt var að hundar rykju saman með urri og hávaða án þess að vera verulega vondir. Nægði þá oftast að skamma þá eða slá til þeirra til að fá þá til að hætta. Ef þeir voru reglulega vondir gat verið erfitt að skilja þá. Ekki var óhætt að taka í hnakkadrambið á þeim, það gat orsakað bit. Helsta ráðið var því að draga þá sundur með því að taka í rófuna á þeim og draga þá þannig sundur. Til var að nota vatn ef það var til staðar en það kom ekki alltaf að gagni. Hrælykt: Þegar hundar voru blautir og hraktir kom af þeim sérstök lykt. Var það kölluð hrælykt. En þegar þeir voru þurrir og hreinir var bara af þeim hundalykt. Þeir hafa sína lykt eins og önnur dýr. Hundaþúfa: Þar sem hundar áttu leið um höfðu þeir þann sið að pissa utan í vissar þúfur. Þær hétu hundaþúfur. Ekki hef ég heyrt neitt annað nafn á þúfum þessum. Þetta var mjög algengt orðtak: "Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér." Var þetta oft haft um menn sem voru miklir á lofti og vildu sýnast meiri en þeir voru að annara áliti. Hundur í mannaferð: Þetta ortak: "að vera eins og hundur í hverri hofferð," var mjög algengt. Það var haft um það fólk sem alls staðar var viðstatt þar sem eitthvað var um að vera og þar sem fólk kom saman. Hundar fylgdu húsbændum sínum næstum hvert sem þeir fóru frá bæ hvort sem þeir fóru á aðra bæi eða eitthvað annað. Það var algeng sjón í sveitum hér áður

p7
fyrr að sjá þrenninguna á ferð á milli bæja. Mann, hest og hund. Reynt var að komast hjá að láta hundana fylgja sér til kirkju. Þá voru greyin lokuð inni þó þeir væru ekki alls kostar ánægðir með það. Ef margir hundar fylgdu fólki til kirkju vildu þeir vera með gelt og hávaða meðan á messu stóð. Fólki þótti leiðinlegt, þó ekki væru bein messuspjöll. Hundsbæli: Þar sem ég þekki til áttu hundar sér bæli einhvers staðar í bænum. Strigapoki eða slitur úr rúmábreiðum var haft í bælinu, til að gera það hlýrra. Ekki man ég til að neins staðar væri til sérstakur hundakofi. Hundar lágu oftast inni, nema þegar best og blíðast var á sumrin. Ekki þekkti ég til þess að hundum væri sigað út úr bæ undir nótt til að liggja úti. Orðtakið: "Ekki hundi út sigandi," held ég að eigi við að veður væri svo vont að hundar gætu ekki einu sinni rekið frá. Þar sem tún voru girt var þess ekki þörf. Hundsdallur: Víðast hvar á bæjum voru sérstök ílát sem hundunum var gefið í. Hét það hundsdallur. Ekki kannast ég við hundatrog og ekki heldur hundastein. Hundamatur: Ekki vissi ég til að hundum væri ætlaður neinn sérstakur matur. Alls konar matarúrgangur, reiður og bein var hundunum. Lungu og garnir úr slágurfé var soðið, síðan látið í súr og gefið hundunum. Grautarleifar fengu þeir líka og oftast mjólkursopa um mjaltir. Ég þekki orðtakið: "Að mæna eins og hundur á bita," en hitt þekki ég ekki: "að horfa til augna." Ekki vissi ég til að hundslap væri miðað við ákveðið magn.

p8
Smalahundur, fjárhundur: Hvolpar voru oft vandir með eldri hundi. Það þótti líka gott að venja hvolpa við fé um sauðburðinn og þegar lömbum var smalað. Ef þeir voru frakkir héldu ærnar þeim í skefjun. Sumir hvolpar vöndu sig sjálfir. Það var eins og þeim væri í blóð vorið að fara vel að fé. Aðrir voru alltaf bjánar og aldrei góðir fjárhundar. Fólksfækkun í sveitunum hefir eflaust áhrif á hlutverk hunda. Það má segja að þeir séu orðnir nærri óþarfir og allt of lítið notaðir. Einstaka menn fengu sér skoska fjárhunda. Þeir reyndust misjafnlega. Sjálfsagt hafa menn ekki kunnað með þá að fara. Alltaf var kallað á hunda með nafni. Þegar hundum var sigað var sagt irriðd eða irriddann. Það var nóg að benda sumum hundum án þess að segja neitt. Frekar var það notað þegar verið var að smala fé en hundum sigað þegar rekin voru hross. Þegar hundi var bannað var sagt: svei þér, þeigiðu eða skammastu þín. Stundum voru óþekkir hvolpar rassskeltir ef þeir vildu ekki hlíða. Ég heyrði hund skammaðan með þessum orðum: "Þú hefur étið folald." Það var furðulegt hvað hundar urðu skömmustulegir þegar þeir voru skammaðir á þennan hátt. Lítið var um að hundum væru kenndar kúnstir. Það þótti spilla þeim sem fjárhundum. Ekki þekki ég neitt ráð til að venja hunda af að elta bíla og gelta að þeim. Það virtist ógerningur að venja þá af þessum ósið ef þeir tóku upp á því á annað borð. Hundafár: Hundafár gekk tvisvar í sveitinni í mínu mynni.

p9
Það fyrra gekk skömmu eftir 1920. Fár þetta drap um helming hunda í sveitinni. Nokkrir lifðu þó af þó þeir veiktust. Ekkert læknisráð var við þessum sjúkdómi að ég best veit. Talið var að hvolpafullar tíkur fengju ekki hundafár. Síðara fárið kom upp á síðari stríðsárunum. Þá var refarækt byrjuð í sveitinni. Var þá útbreiðsla þess heft og mjög lítið varð úr því. Ekki veit ég um aðra hundasjúkdóma. Hundahreinsun: Hundum var gefið inn einu sinni á ári. Helst á haustin eftir sláturtíð. Áður fyrr vissi fókk ekki um hættuna sem stafaði af bandorminum. Sögur gengu um fólk sem lét hundinn sleikja askinn sinn og blés svo í kross yfir, þá var askurinn hreinn. Þessar sögur voru orðnar að skrítlum eftir að ég man eftir. Vel var passað að hirða alla sulli sem komu úr sláturfé. Þeir voru alltaf brenndir. Hundar í draumi: Það boðaði gestakomu að dreyma hund eða hunda. Helst góða gesti. Annað hef ég ekki heyrt um það. Hundar sem fylgjur: Margir töldu að hundar fylgdu eigendum sínum eftir dauðann. Skyggnir menn sáu þá á undan komu þeirra. Aðeins einn hund hef ég heyrt getið um sem ættarfylgju. Það var Tindstaðatíkin, kennd við Tindstaði á Kjalarnesi. Mann hef ég þekkt sem segist hafa séð hana. Andi og sál: Oft kom fyrir að hundar geltu að því sem enginn sá. Var þá talið að þeir sæju eitthvað sem var ósýnilegt

p10
venjulegum mönnum. Margar sögur eru til um þetta eins og sjá má í þjóðsögum. Enga þekki ég þó um þetta af eigin raun. Margir töldu að hundar hefðu sál eins og menn. Svo voru aðrir sem töldu þetta hegilju. Dauði: Þessar aðferðir heyrði ég helst minnst á. Algengast var að hengja hunda. Líka var þeim drekkt eða skornir á háls. Ekki veit ég um neitt örnefni sem að þessu lítur. Hundskinn voru stundum hirt. Þau voru þurrkuð á þili eða vegg og teigð vel. Það hét að spíta skinn. Af því mun orðtakið, eins og útspýtt hundskinn, vera komið. Hundskinn voru notuð í húfur, kraga, smokka og ef til vill til fleiri hluta. Maður og hundar: Það voru glögg skil þar á milli. Alltaf var talað um trýni, kjaft, lappir og glyrnur á hundum. Annað mátti helst ekki segja. Það þótti ekki eiga við að tala um munn eða fætur á hundi. Helst mátti tala um augu. Þetta hef ég aldrei heyrt, að gera hund að manni. Ekki man ég til þess. Það þótti fallegt að vera góður við hundinn sinn og að bera umhyggju fyrir honum. Ekki man ég eftir vísum eða þulum um hunda sem ekki eru alkunnar og víða til á bókum. Margar sögur eru til um vit hunda. Á mínu æskuheimili var tík sem var mjög vitur. Hún var undarlega rösk að finna það út ef fólk ætlaði til kirkju og átti þá von á að vera lokuð inni. Ég tala nú ekki um ef hún fékk hugboð um að móðir mín ætlaði en henni fylgdi hún hvert fótmál sem hún fór út af heimilinu. Faldi hún sig þá í tæka tíð og kom

p11
ekki í ljós fyrr en fólkið var komið nokkuð á leið. Aldrei var hægt að komast að hvernig hún vissi þetta því stundum var reynt að leika á hana. Ég hugsa helst að hún hafi skilið mannamál. Þegar til kirkju kom laumaðist hún inn í kirkjuna og lagðist undir bekkinn þar sem mamma sat og lét ekki á sér kræla. Fleiri sögur væri hægt að segja af K.., en svo hét tíkin en ég læt þessa nægja. Orð og málshættir: Það þætti mesta skammaryrði um menn að kalla hund, hundsspott. Hundaart var líka haft í niðrandi merkingu sem var þó ekki sanngjarnt, ekki gagnvart hundunum. Hundslegur var sá sem var stuttur í spuna og vildi lítið við aðra tala. Talað var um hvolpavit í strákum þegar þeir fóru að líta á stelpur. Ekki þótti það hrós um neinn að hann lægi hundflatur fyrir öðrum. Ef menn voru reiðir eða móðgaðir út í nágranna sína var sagt að það væri í þeim hundur. Um þann sem varla heilsaði eða þakkaði fyrir sig þegar hann kom á bæi var sagt að hann kæmi eins og hundur og færi eins og hundur. Ef menn voru óánægðir með líf sitt töluðu þeir um hundalíf. Líka var talað um hunds- og kattartíð í niðrandi merkingu. Sá sem beið ósigur fyrir einhverjum eða vissi upp á sig einhverja skömm var eins og halaklipptur hundur. Ekki þótti skemmtilegt að vera með tíkarspena. Veit hundur hvað étið hefur var haft um þann sem vissi upp á sig einhverja skömm. Að erfitt sé að kenna gömlum hundi að sitja merkti að erfitt sé að kenna

p12
þeim sem farinn er að eldast nýja siði. Hundaklyfberi var notað sem versta skammaryrði. Hundslappadrífa var mjög stórgerð logndrífa. Hvolpaburður hét það þegar börn voru að bera ýmsa hluti og færa úr stað. Að hafa ekki hundsvit á hlutunum var haft um þá sem þóttu fara með einhverja vitleysu. Menn nota þetta líka um sjálfa sig ef þeir þykjast ekki færir um að leggja dóm á það sem talað er um. Fleira má sjálfsagt tína til en ég læt þetta nægja. Mér finnst ósanngjarnt að hafa þetta allt í neikvæðri merkingu. Hundarnir eiga það ekki skilið að flest sem við þá er kennt sé til skammar. P.S. Ég bið afsökunar á hvað dregist hefur lengi að senda þetta.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana