LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1907

Nánari upplýsingar

Númer8405/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8405

p1
Inngangur: Já, milli manns og hests og hunds hangir leyniþráður, sagði sá góði maður og hann vissi hvað hann sagði. Svo þó allt sé breytingum undirorpið í henni veröld og þjóðstjórnir reyni að útrýma hundinum en efla hestarækt þá mun enginn sem átt hefur góðan hund gleyma honum sem vini og félaga. Tegund: Upptalin samheiti, hundur, hvutti, garmur, grey, rakki, seppi, skinn, héppi hef ég öll heyrt nema búadeli, það hef ég aldrei heyrt og deli ekki fremur um hunda heldur en t.d. um feita menn í líkri merkingu og dólpur í dólpungur, stór, of þungur, latur. Sem sagt meir sem lýsingarorð. Hvutti og seppi voru einu orðin sem notuð voru sem ávarp í gælutón við ókunna eða gestahunda, sem þurfti að kalla á eða lokka í mat ef ekki var vitað um nafnið. Klódýr heyrði ég aðeins ketti kallaða er þeir voru að hvessa klær sínar á húsgögnum. Hrædýr voru þeir aldrei kallaðir en auðvitað vissu allir að þeir eru það ef í nauðir rekur og strangur var var tekinn fyrir að trassa að brenna sulli af ótta við að hundar kæmust í þá og vitað er að hundar grafa hráæti til öryggis ef hart yrði í búi hjá þeim. Það er þeirra eðli, fyrirhyggja og greind. Heima var oft Hjúbbi notað um nafnlausa hvolpa sem vantaði nafn frá væntanlegum eiganda.

p2
Hundakyn: Ég tel að hundakyn hérlendis muni mjög blandað, til þess liggja tvær ástæður. Skipshundar hafa alltaf verið algengir og íslenskir sjávarbændur t.d. á skútuöldinni sóttust eftir þeim eða afkvæmum frá þeim. Því hreinræktaði íslenski hundurinn í eðli sínu er ekki veiðihundur þó hægt sé að kenna honum að elta tófur þá er hann tregur til sjósóknar og hræðist skothvelli. Hann efur skömm á veiðiskap. Það er hrein unun að sjá hann sitja dreyminn og mæna út í bláinn og þykjast ekkert sjá þegar á að senda hann eftir skotnum sjófugl. Hann átti samúð mína og aðdáun fyrir afburða leiklist og vitsmuni að beita henni. T.d. var auðséð að vel var fylgst með þó horft væri í aðra átt því um leið og síðasta skotið reið af og skotmaður stakk byssunni niður þá stóð hinn viðutan veiðihundur og leikari upp geyspaði svo sá ofan í lungu á honum og labbaði til bæjar, bjóst sýnilega ekki við aðdáun húsbónda síns en heima beið hljóðlátur skilningur. Hundakynum ætla ég ekki að reyna að lýsa en bendi á hina miklu bók hundavinarins Watsons þess er gaf okkur dýraspítalann. Þá bók fékk Tóta tík sem Guðmundur sonur minn átti í verðlaun á hundasýningu í Eden fyrir mörgum árum síðan, sem fallegasta íslenska tíkin, man ekki hvaða ár það var en það kom mynd af henni í dagblöðum. En fallegasti íslenski hundurinn var þá á Ólafsvöllum. En ég er hrædd um að flestir þeirra afkomendur hafi verið seldir til Ameríku. Litur þeirra var ljós, mest gulur, hringað skott en eyrun

p3
svo lifandi að þau voru líkust talfærum, þau túlkuðu hverja hugsun og titruðu nánast meðan tekin var ákvörðun. Lundin ljúf, glöð og gáfuð. Hún yfirgaf ekki barn sem hún átti að passa og virtist skilja allt sem við hana var sagt. En hún lagði aldrei stund á veiðiskap eða sundíþróttir. Hún var angistin uppmáluð ef barn sem hún passaði fór að gráta eða óhreinkaði sig. Tárin sleikti Tóta og óhreinindi af höndum og fótum en fötin lét hún eiga sig. Ef hún sjálf kom inn hrakin og óhrein þá beið hún á mottunni eftir aðstoð og þurrkun þegar börnin voru búin að fá sína aðstoð. Heimilishundur: Á æskuheimili mínu voru alltaf þrír til fjórir heimilishundar. Afi t.d. átti tvo franska hunda sem alltaf eða oftast fylgdu honum, heima og heiman. Sá fyrri var gulbrúnn Gínó að nafni. Síðan svartan kafloðinn meðalstærð "Napoleon" að nafni, e.t.v. ekki eins gáfaður eða fjölhæfur og fyrirrennari hans en gætinn og góður svo og held að nafni hans hefði mátt ýmislegt af honum læra. Heimilishundar verða eins og einn af fjölskyldunni svo það má segja að út á við sé hann tákn heimilisins, hann kann ekki að sýnast. En það er líka auðvelt að misskilja hann, því í eðli er hann tortrygginn og grimmur. Aumingja Napoleon gat aldrei lært að líða sauðkindina og það endaði með því að honum var sýndur alblóðugur afturfótur á kind sem hann hafði bitið, svo var þar á staðnum klipinn beittasti oddur af vígtönnunum hans, eftir það beit hann enga kind en hann geispaði átakanlega

p4
ef honum var sagt að reka kind úr túni, hann fór ekki langt en læddist inn til ömmu eða annara góðvina sem skildu viðbjóð hans á þessum skepnum. Málshátturinn: "svo er hundur sem hann er hafður," þekki ég en af flökkuhundum höfðum við lítið að segja. Jú, einu sinni kom hundur í tíkaleit til okkar en við bundum bara dós með smásteinum sem vel glumdi í við skott hans, svo enginn tík leit við honum og þannig lagði hann á flótta heim til sín. Verð á hundum og hvolpum: Þessari spurningu vísa ég til frásagnar um hann Lárus ríka (hunda Lárus) eins og hann var kallaður. Ég hef þó frásögn frá síðari hluta 19. aldar man ekki hvar, en veit hún er sönn, því þessi Lárus varð síðari maður langömmu minnar í móðurætt. Sagt var að þá hefði geysað hundpest um all Austur og Norðurland. En Lárus var víst Húnvetningur og þar á ferð, festi hann kaup á öllum hvolpum sem fáanlegir voru og fékk þá flesta gefins eins og venja hefur verið hérlendis. En er hann kom til baka seldi Lárus þá að sagt er á lambsverði og fóðrun á þeim til vors. Síðan leigði hann ærnar þar til hann sjálfur fékk jarðnæði og setti saman bú. Hundur verður til: Já, lóðatík og lóðahundar voru einu orðin yfir það hundastand og þótti leitt ef báðar tíkur voru hvolpafullar í einu ef á göngum stóð vor og haust. Hjá okkur var ekki ætlast til að tíkur yfirgæfu hvolpa sína til að sinna störfum fyrstu 4-5 dagana.

p5
Fæðing: Gjóta var eina sjálfstæða orðið er tík var að fæða hvolpa, en oft var líka sagt "hún er nú að eiga hvolpana sína blessunin." Ekki man ég til að fæddust sjáandi hvolpar og ekki fengist um ráð við fæðingu. En fæddist tvíspora hvolpur þótti það merki fjárhunds. Ekki vildi amma sem var ljósmóðir að við færum út í sólskin með hvolpana fyrr en nokkrum dögum eftir að þeir voru orðnir sjáandi og ekki einu sinni að láta olíulampaljós skína í augu þeirra. Þetta sama rakst ég svo á í hinni stóru fræðibók Watsons um meðferð hunda, "alls ekki láta sól skína í augu hvolpa fyrr en hálfs mánaðar eða eldri." En svo halda blessaðir læknarnir okkar að þeir megi skoða nýfædd börn í sterkum fluorsent ljósum, þvílíkir bjálfar. Hver er afleiðingin? Árið 1964 sat ég í prófum yfir landsprófunum, níu af sextán voru með gleraugu. Það er afleiðingin. Auðkenni: Aldrei heyrði ég talað um fjáraugu en það var mjög misjafnt hvað hvolpar fóru snemma að fylgjast af áhuga með aðferðum eldri hunda við fjárgæslu og þá talið nauðsynlegt að hafa þá sem mest í starfi með besta fjárhundi heimilisins. Barnaleikir þóttu mér nú ekki glæða gáfur þeirra. Og víst var töluverður vandi að temja góðan fjárhund, ekkert síður en góðan veiðihund (sjóhund). Ekki batnar það er fé fækkar. Alla þessa spora hef ég ekki heyrt nefnda en oftast er bara ein kló aftan á fótunum og er þær voru tvær var sagt tvíspora og þá mátti hugsanlega sega að honum væri meira gefið en hinum,

p6
en það getur tæplega staðið í sambandi við heilann eða hæfileika. En hver veit? Nú sama er með ljós hár í skotti, nafnið er án efa dregið af því að þjófar hampa aldrei venjulega ljósi, þó gott sé að gregða því upp ef blinda á aðra. Hundur dregur líka ljóstýruskottið, sést ekki nema þegar hann er að læðast eða þegar hann skammast sín. Týra smalatíkin mín heima var með hvít hár í skotti og dró það á eftir sér ef hún var hrædd eða leið. Geltinn hvolpur þótti ekki vel gefinn, það var mun verra að kenna honum fjármennsku. Honum skildist seint hvaða þýðingu það hafði að hlaupa þegjandi fyrir kindina eða hópinn og geta þá ómóður rifið sig og snúið hópnum á rétta leið. Litir hunda og nöfn: Öll nöfn sem þið nefnið þekki ég s.s. strútóttur, móstrútóttur, mórauður, flekkóttur, kápóttur en ekki snoppóttur, það hef ég ekki heyrt og oft eru nöfn dregin af lit. En þó held ég að nöfn séu mun oftar dregin af öllu mögulegu öðru, eiginleikum, atvikum, skapgerð og ekki síst mannanöfnum, því óneitanlega minna þeir eins og mörg önnur dýr á góða vini þína eða eitthvað annað t.d. í framkomu þeirra og háttalagi. T.d. Skúmur, það nafn var ekki af því hann var brúnn eins og skúmur heldur af því að allar hans hreifingar voru svo þungar og klunnalegar, ef t.d. hann ætlaði að kyssa eða sleikja ennið á yngri börnum gerði hann það svo snöggt og fast að lávið svima eða rothöggi og ef hann ætlaði að fagna og flaðra upp um okkur stærri börnin áttum við á hættu að falla um koll, þó stærðin væri ekki mikið yfir meðallag, þá voru allar hans hreyfingar

p7
svo snöggar og þungar. Og t.d. Hrefna mín blessunin hlaut ekki nafn sitt fyrir svarta gljáandi litinn. Nei, það voru þessi fögru djúpu augu, sem alltaf minntu mig á fallega unga stúlku í næsta húsi við mig þegar ég var 6 ára á Vopnafirði. Alltaf er ég horf í augu Hrefnu minnar þá minnti hún mig á Hrefnu með fallegu augun á Vopnafirði. Hárafar: Öll þessi orð lubbi, loðlubbi lo. lubbalegur voru notuð er hundar gengu úr hárum og víst einhver fleiri, þegar úr hófi gekk útlit þeirra í háralosinu og verið var að reyna að kemba þá og strjúka af þeim, tjásurnar, truslurnar og sneplana. Rödd hunda: Öll þau nöfn sem þið nefnið eru mér kunn s.s. ýlfra, ýla, urra, bofsa, gelta, gjamma, góla, spangóla og fleiri eins og væla, veina, vola. Að "sjóða grottann" hef ég aldrei heyrt. En sjógól og nágól var ekki alveg sama og spangól. Það var venjulega á undan gestakomu og sat þá hundur og horfði til vegar hinn rólegasti. Sjógól virtist meira eyrðarleysi, tyllt sér niður og horft til hafs. Það virtist benda til hafáttar, sama var að segja um nágól, nema þá var oft að farið var að hvína í "Bæjartindinum," og "Egginni," sem sagt veðurhvinur til fjalla. Hundar eru afar veðurglöggir og veðurhræddir. Ég held ég verði að segja smá sögu í sambandi við þetta. Hrefna mín blessunin spangólaði aldrei og lét sig gestakomur engu skipta. En eitt kvöld skýst hún eins og píla inn í timburhúsið

p8
innst inn í horn, undir rúm þeirra pabba og mömmu. Þetta hafði aldrei áður gerst og hundar lágu og áttu bæli frammi í torfbænum. Við reyndum að ná henni fram með kústinum en hún haggaðist ekki og gaf ekkert hljóð frá sér, talað var um að ná í hrífu. Þá tók nú pabbi af ráðin og sagði að Hrefna væri ekki að fæða af sér hvolpa og hún hlyti bara að vera svona veðurhrædd, það myndi líklega hvessa í nótt, en alveg var blæja logn um kvöldið. Um nóttina skall yfir aftaka hvassviðri og Hrefna hreyfði sig ekki fyrr en það var alveg um garð gengið, þá læddist hún út mjög skömmustuleg. Ratvísi, þefskyn: Hundar hve heimskir sem eru rata alltaf heim. Um þefskyn er erfiðara að ákveða. Þó held ég að eina sögu muni ég sem ekki geti heyrt undir neitt annað en þefskyn. Ég sat yfir kvíánum inn á Fagradal, klukkutíma leið frá bæ. Það var alveg svarta þoka og kominn tími til að halda heim með ærnar. Ég knappset þær og tel. En mér til skelfingar sé ég að tvær ær vantar, ég hleyp inn með ánni og öll gil og lægðir í kring. Ég var miður mín, settist reið niður og grét. Að láta vanta af ánum var óhugsandi smán. Hrefna sat við hlið mér og krafsaði með framlöppinni í mig svo sleikti hún tárin af augum mér og kinn en ég grét áfram. En nú tek ég eftir því að Hrefna er horfin, ekki minnkaði gráturinn við það. Góð stund líður. Allt í einu kemur Hrefna vingast öll, sleikir mig alla í framan og hoppar upp á herðar á mér og ræður sér ekki fyrir gleði. Hún er þá þarna komin með ærnar. Eftir tíma

p9
að dæma hafa þær verið komnar inn og upp í eitt af giljunum innar í dalnum. Hún hlýtur að hafa rakið slóð þeirra og þekkt kvíalyktina því nóg var þarna af öðru fé. Í þetta sinn gaf ég hrefnu alla mína ást og volga mjólk er heim kom. Spádýr: Ég hef getið um hæfileika hunda að spá fyrir um veður og gestakomur. En eins er um jarðhræringar, þeir eru næmari fyrir þeim. Það er eins og þeir greini þær áður en við eða mælarnir verða þeirra varir. En um feigð á ég ekki nein dæmi. Tíkarmjólk: Um tíkarmjólk veit ég ekkert, en mér finnst nú tími til kominn að háskólamenntaðir efnafræðingar fræddu okkur um það. Eitt er víst að ég hef aldrei séð hvolp sem komist hefur á spena sem ekki hefur vaxið og dafnað eins og hann væri pumpaður út, þeir vaxa svo ört. Lækningar: Þetta get ég ekkert sagt um, nema
ég held að öruggt sé að hundstungan sé græðandi. Það reyndist hún okkur börnunum, hvort sem var á höndum eða fótum. Oft var ekki mikil heil brú í skónum að kvöldi eftir fjallgöngur allan daginn. Smalahundurinn bara sleikti allar mínar ..... og það var eins og hætti að blæða og allt greri. Annars voru öll græðismyrsl unnin úr jurtaríkinu, amma sá um það. Hundsbit: Ég held að ekki hafa hjá okkur nema Napoleon

p10
leyft sér að hælbíta og það var með klípitöng tekið ofan af vígtönnum hans og hann hætti þeim ósið. Áflog hunda: Ef karlmenn voru viðstaddir sá ég þá taka sinn í hvorn hnakkadramb en annars var skvett á þá köldu vatni. Hrælykt: Ég hef aldrei heyrt nefnda hrælykt af hundi en auðvitað gæti það átt sér stað ef þeir kæmust í úldið hræ en ég held þeir geri það ekki nema svangir. Eða ef þeir grafa það. Hundþúfa: Ég hef aldrei heyrt annað nafn og ekki heldur þennan málshátt: "Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér." Hundur í mannaferð: Málshátturinn: "Eins og hundur í hverri hofferð," var notaður um þá sem alls staðar vildu vera og mikið láta á sér bera. Í skemmtiferðum og kirkjuferðum var reynt að hafa hunda ekki með. Svo menn sátu einir að málshættinum. Bæli hunds: Ekki veit ég til að hundahús hafi yfirleitt verið á bæjum meðan voru framhús, geymslur og eldiviðarskot, þá var algengast að hundar ættu þar bæli á vel þurrum stað og þá poki eða hey til að liggja á. Þeir voru látnir liggja inni, því annars mætti búast við að þeir færu að gelta að einu eða öðru, t.d. hver að öðrum í leik og þá vekja fólk af værum blundi.

p11
Hundsdallur: Heima voru hundadallar fleiri en einn, hver átti sinn og þeir sleiktu þá svo vel að ekki hefðu þei verið þvegnir betur. Hundstrog: Þau sá ég líka, þau gat hver smíðað sem átti smá fjalrabúta og hafa sjálfsagt víða verið. Hundssteinn: Hann hef ég hvergi séð en eflaust hafa þeir verið til, t.d. á héiðabæjum þar sem lítið var um smíðavið. Ekkert úr sjó og langt að flytja úr kaupstað, en steinar allavega. Hudnsmatur: Hann var geymdur í súr og þá í sérstakri tunnu. Eins er eldaður var miðdegisverður, þá var oft stráð haframjöli eða öðru í soðið. Á sumrin þótti gott að saxa heimulanjóla í hunda og kálfamat, sagt að ungviðin yrðu gljáandi í hárabragði og þryfust vel. Já, orðtakið að "mæna eins og hundur á bita," var sagt við okkur börnin er við vorum of nærgöngul og með nefið í því sem verið var t.d. að sauma. Hundslap: Heyrði ég aldrei notað um mjólk, heldur um grauta eða súpur, sem þóttu of þunnar (of lítið útákast) eins og gamla fólkið sagði stundum. Smalahundur, fjárhundur: Það er ekki gott að greina frá því, ætli hver maður hafi ekki notað sína aðferð. Mér skilst að

p12
nú læri allir kennarar í sama kennaraskóla til að fá réttindi. En börnin segja að engir tveir kennarar kenni eins. Það er svo gott að læra hjá þessum, sem þau segja að ómögulegt sé annað en læra hjá og taka eftir hverju orði sem hann segir. Sama gildir með hvolpa, þeir verða að skilja. Mér virðist þeir verði að vera á réttu þroskastigi þegar eigandi hvolps tekur hann sem félaga, hann verður að tala mikið við hann, skýrt og fáort, sem sagt, kenna honum það mál sem með þurfti, bæði með orðum og augnaráði og best að hafa vel þjálfaðan eldri fjárhund með, láta þá ganga í hæfilegri fjarlægð til hliðar við fjárhópinn, svo hann rynni í fallegum hóp í ró og næði og enginn bofs nema ef einhver kind reyndi að taka sig út úr. Nú veit hann hvernig húsbóndi hans vill hafa hópinn sinn. Þetta er afar áríðandi áður en annað stig er tekið, að smala kindum saman í þennan hóp e.t.v. úr fjalllendi, þá koma orð og bendingar og sigað (arvd)! uppyfyrir, til hægri, til vinstri og bendingar. Ef kind stappar fæti og stendur framan í (eins og sagt er og oft kemur fyrir), þá koma til hjálpar og með frekju að gelta og gera sig líklegan til að hlaupa snöggt á kindina, það stenst hún ekki og lömbin ekki heldur. Og afar nauðsynlegt er að hæla hundinum þegar fjallið er tæmt og hjörðin komin í hóp. Klappið hvolpinum og um fram allt horfist blíðlega í augu við hann, þá skilur hann þig bel og skiljið, þið eruð félagar og hann gregst ekki. Hundapest: Ég man aðeins eina á þessari öld. Þeir fengu

p13
hita og forðufelldu, margir dóu e.t.v. flestir. Þeir voru grafnir. En hvolpum var drekkt í poka með steini í. Það var þröngur djúpur vogur heima, sem hét Hvolpavogur. Ég hef fyrr sagt að sullir voru brenndir. Hundahreinsun: Mér er sagt að hún sé að leggjast niður, en áður var hún dyggilega framkvæmd árlega. Hundar í draumi: Getur verið fyrir góðu en fer þó eftir efni draumsins. Hundur sem fylgja: Já, þeir hafa oft sést á undan komu húsbónda síns. Andi og sál: Auðvitað hafa þeir sál. Þeir hafa oft sést löngu látnir. Dauði: Þeir voru skotnir í svefni, ef þeim var ekki hugað lengra líf, t.d. sökum elli. Maður og hundur: Voru sem fóstbræður. Útspýtt hundsskinn = maður sem vildi vera sem víðast og sem stærstur. Kveðskapur og sagnir: Það eru til svo margar vísur um hunda sem ég býst við að allir kunni að ég sleppi þeim, nema þá einni frá afa. Gínó hans var þekktur fyrir margt. Framkoman var örugg - aldrei hik. Sem gestur gekk hann rakleitt

p14
til stofu með afa og settist við hlið hans til borðs. Hann var það stór að er drukkið var eða borðað kom höfuðið upp fyrir borðbrún. Annars lagði hann hausinn á hné afa. Eitt sinn á ferðalagi varð húsbóndinn sem hét Árni svo hrifinn af Gínó að afi gerði vísuna sem raunar varð aðeins innskot í löngum ferðabrag: Gínó upp á endann var sestur, Árna þótti hann kærkominn gestur. Bravó, sagði hann, blessaður sértu, bestur því að vinur minn ertu. Sem skuthundur var Gínó rómarður fyrir vitsmuni. Þeir sögðu að hann teldi föllnu fuglana, þó skotið væri af 80-100 metra háum hömrum. Um leið og skotmaður stakk niður byssunni þá þaut hann af stað og færði að fótum hans hvern fugl og beið ekki þakklætis fyrr en hann hafði lagt þann síðasta að fótum skotmanns (í þetta sinn 14 fugla). Þá lagðist hann aftur bak við skotmann. Hann þurfti ekki að gægjast fram af bakkabrúninni svo viss var hann. Ég hygg að Gínó hafi sett met í sundi. Hann var eitt sinn lokaður inni því pilta þurfti í kaupstað á Vopnafjörð - þriggja tíma róður frá Fagradal. Afi réri ekki en stýrði, þrír sátu undir árum, svo þeir sáu aftur fyrir bátinn en afi ekki (aðeins fram). Er þeir höfðu róið sem svarar 11/2 km, segja piltar að það sé alltaf selur á eftir bátnum, hvort þeir eigi ekki að skjóta hann. Þeir hætta að róa og taka upp byssuna, afi lítur aftur til að sjá hvað skeður. En hrópar á þá að skjóta ekki, en róa til baka, þetta gæti verið Gínó sloppinn

p15
út. Og svo var, en það var komið blóð í munnvikin og hann náði sér aldrei til fulls fyrir brjósti og var upp frá því hlíft við hlaupum og miklu sundi. Hinn hundur afa, sem ég man eftir Napoleon (Nap, eins og hann var tíðast kallaður) var líka franskur, en mjög ólíkur, hrafnsvartur og svo loðinn að eitt sinn í ofsa hitatíð tók afi sig til og klippti hann, skildi eftir aðeins topp í skottinu og var kominn fram á bóga, þá kom gestur, svo afi hætti í bili en Nap gat þá ekki hlaupið því afturendinn var svo léttur að hann stakkst alltaf á hausinn svo verkinu varð að ljúka er maðurinn var farinn. En reifið var svo mjúkt að um haustið var það spunnið og prjónaðir vettlingar úr því. Það voru mýkstu og hlýjustu vettlingar sem afi hafði eignast. Benedikt Gíslason minntist þeirra í grein, sem ég las einhvern tímann. Kvöld eitt að haustlagi kom afi innan af Vopnafirði. Það var orðið koldimmt er hann steig af baki í hlaðinu heima, þó sér hann að öðrum vettlingnum hefur hann týnt. Hann sýnir Nap hinn svarta vettlinginn og segist hafa tínt þessum góða grip, hvort hann geti fundið hann. Nap sest niður og horfit á beru höndina og þýtur svo af stað en afi bíður á hlaðinu. Hann hafði farið af baki á fjallsbrún og gengið bröttustu brekkuna. Þetta voru tveir km. En Nap brást ekki þó það tæki tíma. Hann kom með vettlinginn og lagði við fætur afa. Hann fékk víst góðan mat og mjólkursopa er inn kom. Tryggur hundur er traustur vinur.

p16
Gáta: Hver er sú tík sem töltir, -töltir og víðast röltir. Geltir og kjaftinn glennir, -glennir þó engu nennir. Gleypir allt gor og stelur, -stelur og þýfi sitt felur. Vart mun hún tryggðir virða, -virða hvern rétt að hirða.
Viljið þið segja mér ráðninguna? Hringið í mig er þið hafið lesið þetta spark mitt.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana