Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1909

Nánari upplýsingar

Númer8400/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8400

p1
Ég vil nú til að byrja með, biðjast afsökunar á því hvað hefur dregist að svara eða réttara sagt endursenda þessa spurningaskrá sem er viðvíkjandi hundum. Því miður get ég engu svarað sem spurt er um, sem nokkru nemur, því ég hef aldrei átt þess kost að kynnast hundinum eða háttalagi hans. Í sveit hef ég aldrei búið eða verið og þess vegna ekki verið samhliða hundum. En ég hef heyrt flest þau nöfn sem hundar hafa eins og t.d. Seppi, Hjeppi, rakki, hundsspott, hvutti, grey o.s.frv. En hrædýr eða hrækvikindi hef ég ekki heyrt sagt um hunda og ekki heldur klódýr. Nafnið Klói er til á köttum. Þegar hundr hurfu af heimilum sínum og lögðust á flakk, voru þeir sagðir vera í lóðaríi eða tíkarrægi og almennt var talað um að tíkin væri að gjóta þegar að hún var að eignast hvolpana orðið að leggja, heyrði ég aldrei. Nöfn á hundum hafa orðið til með ýmsu móti, bæði af lit þeirra og öðrum auðkennum. Hundstryggð er alþekkt og mun nafnið Tryggur vera dregið af því og nafnið Móri af mórauðum hundum, einnig kemur til greina háralag hundsins, þeir sem eru mikið loðnir og lubbalegir, eru kallaðir Lubbar o.s.frv. Öll þau orð og málshættir sem tengjast hundum eru oft í daglegu tali heimfærðir upp á fólk t.d. er sagt að þessi og þessi sé eins og sneyptur hundur og halaklypptur hundur og hundlegur. Allt sem hér er spurt um, orð og málshættir þekki ég allt úr mæltu

p2
máli. Það voru glögg skil á því hvort talað var um hund eða mann hvað líkamshluta snerti. Það var aldrei talað um augu, nef og munn á hundi heldur trýni, kjaft og glyrnur og lappir en ekki fætur. Lækningar: Eftir því sem gamlar sagnir herma frá fyrri öldum voru hundarnir látnir sleikja innan askana sem borðað var úr. Það var álitið að holl væri hundstungan en lækningarmátt af skrokk þeirra eða líffærum hef ég aldrei heyrt neitt um, nema máltækið: "Kattartungan særir, hundstungan græðir." Andi og sál: Það eru margir sem vilja halda því fram að hundar hafi sál og skyggnigáfu og finni á sér ef einhver hætta er á ferðum og því til sönnunar ætla ég að segja frá atburði sem skeði fyrir mörgum árum norður í Þingeyjarsýslu. Kona nokkur sagði mér þá sögu að einu sinni hefði hundurinn hennar sýnt þau viðbrögð eins og hann væri að láta vita að eitthvað væri að, en því miður hefði því ekki verið sinnt. En svoleiðis var að þarna var fólk á ferð, sem ætlaði á einhvern vissan bæ, en var farið að villast og eiga í miklum erfiðleikum, en komst svo loks við illan leik til bæja, með hjálp þeirra sem leitaði að því. Mátti víst ekki tæpara standa að verr færi. Þetta hefur Seppi séð og fundið á sér. Þær upplýsingar sem ég hef fengið um hvernig hundum var lógað var drekking algengust, en á hvern hátt það var gjört er mér algjörlega ókunnugt um.

p3
Að vera eins og útspýtt hundskinn, er sagt um fólk sem er alstaðar og lætur sér allt koma við, að hann eða hún sé eins og útspýtt hundskinn. Ég þekki ekki hvort hundskinn voru nýtt, en tel þó fullvíst að einhver hafi viljað eiga skinnið af hundinum sínum sem honum var kær. Þegar búið var að flá skinnið af dýrinu með öllum skönkum og skæklum, var það einhvers staðar neglt upp úti á þil og spýtt út sem kallað var og látið þorna. Hundur í mannaferð: Ég kannast ekki við orðtakið - eins og hundur í hverri hofferð. En alla tíð hefur það verið eðli hundsins að elta húsbændur sína, bæja á milli og á öll mannamót og eru kirkjuferðir ekki þar undanskildar. En reynt var að sjá til þess að þeir trufluðu ekki messuna, með því að loka þá úti, en þó gat það komið fyrir að þeir slæddust inn í kirkjurnar, á eftir kirkjugestum en ekki hef ég getað aflað mér upplýsinga um það hvort þeir hafi valdið messuspjöllum. Ef fólk vildi koma í veg fyrir að þeir eltu það voru þeir skildir eftir heima og lokaðir inni. Hundabæli og hundadallar er mér sagt að hafi verið alþekkt. Annaðhvort hafi bæli þeirra verið inni í bæjargöngum eða í útihúsum og einnig að hundar væru látnir liggja úti að vori til, til þess að passa túnin fyrir ágangi gripa. En orðtakið: "Það er ekki hundi út sigandi," það má vera að það sé til orðið í sambandi við þessar athafnir, en þetta orðtak er líka notað í annari merkingu

p4
t.d í sambandi við vond veður, sérstaklega úrhellis rigningar. Þá er sagt að það sé ekki hundi út sigandi og þá er líka talað um að maður verðu hundblautur. Ég hef verið að reyna að spyrja fólk um þetta og hitt varðandi hundinn en lítið orðið ágengt í þeim efnum. Fáir kannast við spora á hundum, sem spurt er um, en segja það vera einhver einkenni á afturlöppum hundsins sem séu þó ekki á öllum hundum. Þjófaljós nefndist hvítur rófubroddur á hundi en ekki hef ég heyrt um neina trú í sambandi við það. Ratvísi og þefskyn hunda hefur lengi verið viðbrugðið enda haft því hlutverki að gegna að leyta að týndu fé og fólki og sennilega mörgum manninum bjargað frá villu á vegum úti og gert viðvart ef hætta var á ferðum, sennilega eru til margar sögum um það, þótt ég því miður kunni enga. Mér er sagt að það hafi verið nokkur vandi að ala upp góðan smalahund eða fjárhund. Þeir voru misjafnir að gerð og gáfum rétt eins og við mennirnir. Hundum var sigað með einhvers konar "irrbi" og "urri" ef hann átti að koma. Þá var sagt: "komdu greyið," um leið og fólk klappaði á lær sér eða hið gagnstæða að þeim var sveiað í burt með orðunum: "svei þér, greyið mitt," og ef þeir voru ávílaðir þá var þeim sagt að skammast sín og þá löbbuðu greyin í burtu með skottið á milli fótanna. Hundum hafa alltaf verið kenndar ýmsar kúnstir, t.d. að setjast, heilsa, sækja ýmsa hluti og síðast en

p5
ekki síst voru þeir vandir á að sækja dauða fugla, sem menn voru að skjóta, ýmist á sjó fram eða á landi. Hundsdallur og hundsmatur: Ég tel að alstaðar hafi verið hafður hundsdallur eða sér ílát fyrir hundamatinn og í það hafi verið safnað matarleifum sem til féllu, en þeim hafi ekki verið neinn sérstakur skammtur ætlaður, hvorki í fljótandi eða fastri fæðu, heldur allt sem þeir gátu lapið í sig. Ég hef heyrt orðtakið að mæna eins og hundur á eftir hverjum bita. Ekkert vita þeir sem ég hefi spurt, um þjóðtrú varðandi tíkarmjólk eða áhrif hennar. Nú fer að verða fátt um svör hjá mér og vona ég að aðrir heimildarmenn sem eru mér fróðari bæti úr því sem ég get ekki svarað, en ef mér á eftir að áskotnast meiri fróðleikur í þessum efnum, mun ég skrifa það niður og senda það til ykkar. Að endingu biðst ég velvirðingar á því hvað þetta er ófullkomið og illa af hendi leyst og dregist lengi.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana