LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1914

Nánari upplýsingar

Númer8358/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið25.5.1987
Nr. 8358

p1
Æska mín leið á Eskifirði. Þá var varla sá húseigandi sem ekki átti kindur og var markaskráin stærsta bók heimilisins enda náði hún yfir alla Suður Múlasýslu o.fl. Þar voru að sjálfsögðu mikið af hundum, heimilisvinir og góðir við börn. Þeir voru vandlega hreinsaðir á hverju ári og sérstakur maður sem bar ábyrgð á því. Margar sögur gengu af hundunum og hver hélt sínum hundi fram. Eru mér minnisstæðar komur sveitabænda í kaupstaðinn og þá var mikið rætt um hundana. Voru oft ótrúlegar sögur sem þeir sögðu af ratvísi þeirra. Ég man eftir bónda úr Vöðlavík sem sagði að hann þyrfti engan áttavita ef hundurinn væri með í ferð. Þegar þeir fóru að heiman að vetri til sagði hann að hundurinn hefði skilið hvert förinni væri heitið og það stóð. Ég man að hann sagðist ekki hafa hikað við að leggja af stað í éljagangi ef ekki var þeim mun verra veður og allt gekk vel. Hundstryggðinni er viðbrugðið. Þar eru um margar sögur sem lifa. Húsbónda sínum fylgdi hundurinn hvert sem hann fór. Ég man eftir einu atviki. Það var maður úr sveit sem réri á bát frá mínu heimili. Hann fylgdi alltaf þeirri venju að taka hundinn með sér. Svo töluðust þeir eitthvað saman þegar leystar voru festar og hundurinn fór upp bryggjuna, en var kominn svo næsta dag til að heilsa upp á húsbónda sinn. Ég man grimman hund sem varði húsbónda sinn ef á hann var ráðist. Ég man eftir drykkfelldum bónda sem átti hund og ég veit að oft bjargaði hann húsbónda sínum með því að láta vita hvar hann var niður kominn. Um nótt átti hann til að banka á glugga þar sem sofið var og þá vissu menn að eitthvað var á seiði. Um tryggð hundsins sagði afi að ef mennirnir væru eins tryggir mætti margt betur fara í heiminum. Hundurinn bregst ekki, sagði afi og mat tryggð hans mikils og ekki dró amma úr því.

p2
Tegundin: Ég man eftir þessum samheitum um hunda, hvutti, deli, búadeli, grey, garmur, rakki, seppi, skinn, héppi, einnig man ég eftir manni sem kallaði alltaf hundinn sinn fóstra, en aldrei heyrði ég minnst á hund sem klódýr. Það var notað um ketti. Hundsspott og hundsskinn heyrði ég nefnt, einnig heyrði ég talað um hund ræfilinn og garmurinn og var það hjá eldri mönnum. Hundakyn: Það var á tungu manna í mínu ungdæmi og sérstaklega hvaðan þetta kyn og kyn væri. Man eftir að hundar voru sóttir eða hvolpar í aðrar sýslur ef kynið var gott eins og einn sagði og hældi sér mjög af ferð til framandi staða í þeim tilgangi að ná í hvolp. Menn fóru norður í land í kaupavinnu og komu þá með hvolp til baka. Heimilishundur var á hverju sveitaheimili og jafnvel tveir og þrír, en í kaupstúnum voru færri. Ekki man ég annað en þessir heimilishundar hafi verið eðlilegir í viðskiptum við aðra hunda. Fóru í flakk til að svala sínum fýsnum. Ég man líka eftir tík sem var heima og átti vingott við ýmsa nágranna sína og svo komu hvolparnir á sínum tíma. Þótt hundur hyrfi í bili var því ekki skeytt, menn vissu að hann kom aftur. Áður var alltaf talað um þarfahunda en nú eru þeir aðeins hér sem gæludýr og kanski of mikið af þeim. Verð á hundum og hvolpum: Ég man aldrei til þess að hundar eða hvolpar væru seldir heldur alltaf gefnir og það þótti gott að geta gefið hvolpa svo ekki þyrfti að drekkja þeim. En það var alltaf gert ef margir voru og aðeins einum gefið líf. Hvað gerist nú er mér ekki kunnugt en þó held ég að hér í Hólminum sé maður sem ræktar hunda og hefir markað fyrir sölu á þeim.

p3
Hundur verður til: Lóðatík var alltaf nafnið um tík sem var tilbúin en ekki man ég eftir að hundurinn væri afgreiddur með slíku. Þó heyrði ég talað um hunda á lóðaríi. Ég heyrði um tík sem alltaf vissi á sig veðrið þegar hundur var í nánd. Þá hvarf hún og oft var rekist á hana með hundi á bak við kletta þar sem ástarleikir fóru fram. Hafði hún einu sinni verið ferlega ónáðuð í þeim stellingum er hún var föst við hundinn og þá ekki tekið á mjúkum höndum og vildi ábyggilega ekki eiga þetta oftar á hættu. Man hana jafnvel ofan í gamalli mógröf í þessum látum. Hvolparnir komu svo á sínum tíma. Ekki minnist ég þess að illa væri farið með hunda á þessum tíma. Þó man ég eftir að járnbútur var festur í skottið á einum til að fjarlægja hann. Man líka að tík var lokuð inni þegar svona stóð á. Þetta var í sveitinni þegar ég var þar, (á Mýrum í Hornafirði). Fæðing: Það var alltaf talað um að tíkin væri að gjóta þegar hvolparnir voru á ferðinni. Fæðingin tók misjafnlega langan tíma og mér virtist fara eftir hve margir hvolpar fæddust. Þegar fæðingu var lokið var af húsráðendum bæði móður og afkvæmum færð næring sem var aðallega mjólk fyrstu dagana. Eftir viku eða hálfan mánuð var einn hvolpur valinn úr til lífs. Hinum var drekkt. Settir í poka og steinn með og sökkt í sjó út. Auðkenni: Ég man eftir að sagt var: Þetta verður góður fjárhundur. Hann ber öll einkenni þess, en hvað átt var við með því var ekki útskýrt. Þegar tveir eða þrír höfðu borið sig saman og urðu sammála fékk hvolpurinn að lifa. Oft fannst mér sárt að sjá þessum litlu krílum sökkt og vildi ekki vera við þá athöfn. Ég man eftir alla vega blettum á hvolpum en hvort þeir voru álitnir hafa eitthvað gagn að gera man ég ekki. Nöfn og litur: Ég man eftir flekkóttum hundum, brúnum og svörtum, mórauðum o.s.frv.

p4
Liturinn hafði oft sitt að segja við nafngift. T.d. man ég eftir Surtur, sem var nokkuð algengt. Tappi, Frakkur, Hnjóti, Blesi. Svo var skírt eftir þjóðhöfðingjum. Man eftir Napóleon, Neró, Plató o.fl. o.fl. Þá var líka tekið eftir hvort hvolpar voru líflegir og einum man ég eftir sem Kappi var kallaður og Spíttari, Fótfrár, einnig tík sem hét Glenna, Grotta, Glóeyg, Harpa, Harka, Glóa, ég man einnig eftir einni sem kölluð var Svartasót o.s.frv. Hárafar: Ég man eftir lubbalegum, kindarlegur, niðurlút þ.e. minna var af hárum á maga en vanalega. Ekki man ég eftir að hundshár væru til nokkurs notuð, jafnvel ekki þegar þeir gengu úr hárum. Rödd hunda: Ég man ekki til þess að því væri veitt eftirtekt nema þegar hundar voru rámir, en margir höfðu ráma rödd og bassarödd en það þótti ekki mikið til þess koma. Skærar raddir voru taldar til tekna. Nágól var talað um þegar sársauki var í röddinni. Sumir töldu það vita á verra veður. Spangól hunda töldu sumir verða fyrir einhverju erfiðu og sérstaklega þegar sláttur stóð yfir. Ratvísi. Um það eru margar sögur og man ég eftir því að gamlir menn sem ég kynntist sögðu um það sínar sögur sem enginn gat rengt. Hundar voru þeirra áttavitar. Spádýr: Eirðarleysi hunda sagði oft til um gestakomur. Ég man eftir að þegar hundur færði sig stað úr stað var sagt að nú kæmi gestur og var það oft rétt. Tíkarmjólk: Man ekki eftir að ég heyrði talað um eitthvað í sambandi við hana. Lækningar: Margir höfðu ótrú á að láta hunda sleikja sár sín og töldu að á tungunni væru græðandi blettir og varð að trú sinni. Hrein er hundstungan og hún græðir sár.

p5
Ég man eftir manni sem sagði að feiti af hundum væri gott meðal en við hlógum að því. Hundsbit: Þau voru talin hættuleg ef hundurinn var í þeim ham, reiður og úrillur og þau gátu verið stór og sumir sögðu banvæn ef ekki væru þegar gerðar ráðstafanir. Ég heyrði talað um að fjarlægja vígtennur hunda en sá aldrei gert. Yfirleitt sýndu hundar ekki tennurnar fyrr en þeim hafði verið stór misgert. Áflog hunda: Áflog hunda frá sitt hvorum bæ voru algeng. Meðan þau voru svona vinaleg var ekkert um þetta hirt, en gamanið gat kárnað og þá var hastað á þá og ef það dugði ekki var þeim hent í sundur og jafnvel þurfti að loka annan inni. Hrælykt: Heyrði aldrei um það talað. Hundar voru skotnir þegar þeir höfðu lokið sínu ætlunarverki og jarðaðir og síðan ekki söguna meir. Hundaþúfa: Þær voru margar bæði með réttu og röngu. Litlar þúfur með grænum kolli voru alltaf nefndar hundaþúfur í mínu ungdæmi. Hundur í mannaferð: Hundar fylgdu manninum vel hvert sem hann fór. Ef maðurinn vildi ekki hafa hann með varð að loka hann inni þar til öruggt var talið að maðurinn væri kominn nógu langt en þó fór stundum svo að hundurinn fann slóðina og þá var ekki að sökum að spyrja. Bæli hunds: Þeir áttu alltaf sérstakt skot skammt frá útidyrum, enda þuftu þeir að fylgjast með komu manna á bæ. Ekki man ég eftir að hundum væri sigað út. Heyrði sögu af því að hundur braust út í byl og hvarf um tíma, kom og flaðraði upp við húsbóndann og vildi hann með sér. Kom síðar í ljós að þarna var maður á ferð og að þrotum kominn. Hundar voru alltaf notaðir til að reka úr túnum og þurfti ekki að minna suma á það. Hundsdallur var á hverjum bæ. Vanalega skál emileruð eða trébytna.

p6
Hundstrogi eða hundasteini man ég ekki eftir. Hundsmatur: Hann var oftast nær leyfar manna, en þó kom fyrir að eldar var handa hundi þegar hann kom úr svaðilsförum. Stundum fékk hann ósoðinn fisk og hrært rúgmjöl. Af kjöti fékk hann að naga bein og er það í gegnum tíðina og margir hafa sagt sögur og kveðið ljóð um. Ég man vel eftir: Að mæna eins og hundur eftir bita. Smala- og fjárhundur: Um það hafa margar drápur verið ortar. Góðir smalahundar og fjárhundar voru aðall hvers sveitaheimilis. Hundur rak fé af natni. Gat þá stundum orðið heitt í hamsi ef féð var óþægt. Ég man eftir hundum sem bitu kindur og jafnvel unglömb og oft varð að slátra þeim eftir það. Hundsbit voru illa séð og kæmi það fyrir fot að hundur réðist á lömb varð það hans bani. Man ég einn slíkan hund þegar ég var á Mýrum. Stóðum við hann að þessu. Hundar eltu bíla og man ég ekki annað en þeir hafi gert það óáreittir. Hundafár: Heyrði talað um það en aldrei varð vitni að því, en það var mjög vont og menn töluðu um það sem plágu. Hundahreinsun fór fram árlega þar sem ég vissi til. Var þetta gert af mikilli árverkni. Vitað að hundar sleiktu matarílát og heyrði ég aldrei að það hefði komið að sök. Man ég gamalt fólk sem hafði mikla trú á hreinni hundstungu. Heyrði talað um sullaveika hunda en þeim var lógað og allt gert til að þetta hefði ekki alvarlegar afleiðingar. Hundar í draumi: Ég man eftir manni sem hafði trú á draumum. Hann sagði að ef hann dreymdi hund í góðu skapi væri það boði góðs vors. Ef hann væri hlaupandi í hringi boðaði það góðan heyskap eða veiði. Ef hann sýndi tennur ætti maður vona á einhverju ekki góðu frá nágranna eða svo og ýmislegt annað kom hann með. Hundar sem fylgjur: Það fór ekki milli mála að menn áttu sér dauða hunda að fylgju og sáu menn þá á undan komu þeirra. Þetta var algeng trú í æsku minni.

p7
Andi og sál: Það er alveg rétt að hunda hafa skyggnigáfu og maður gat lært af hundi. Sögðu menn að ef hann lægi fram á lappir sínar og horfði upp í loftið væri hann að spá manni gæfu. Hundar hafa sál. Því var trúað. Tóku eftir tali manna og ég man hund sem hvarf af því að talað var um að hann væri ekki nema til að skjóta hann. Dauði: Hundum var alltaf drekkt var mér sagt áður en byssan kom en hún var komin löngu áður en ég man eftir og eins og áður segir voru hundar grafnir og með viðhöfn eftir því hvað þeir voru húsbændum sínum kærir. Ekki man ég eftir að hundsskinn hafi verið nýtt, en þó var sagt eins og útspýtt hundskinn um þá sem voru alltaf á ferðinni fyrir þennan og hinn. Maður og hundur: Það var tryggðin sú mesta sem um getur og því innilegri sem hún var þeim mun græddi maðurinn á því. Hundskjaftur var talað um ef maður var óorðvar. Hundstrýni heyrði ég um. Margir dekruðu meira við hund en hest, því man ég eftir.
Vísa um hund:
Hundur mesta hefir tryggð
hundur ætíð fylgir mér.
Hundur enga hýsir lygð
hundur af öllum dýrum ber.

Orð og málhættir: Þetta hef ég heyrt: Að liggja hundflatur. Að koma eins og hundur og fara eins og hundur. Hittast eins og hundar á tófugreni. Að vera eins og halasneyptur hundur. Tíkarspenar. Veit hundur hvað étið hefur. Erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja. Hundaklyfberi. Hundslappadrífa. Nógu gott í hundskjaft heyrði ég í æsku talað um ef maður fúlaði við mat sínum. Ekki meira að sinni. Kærar kveðjur.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana