Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1908

Nánari upplýsingar

Númer8538/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8538

p1
Hundurinn. Tegundin: Samheiti um hunda eru alveg óteljandi. Þessi dýr hafa svo mikið saman við mannin að sælda og eru honum svo kær, að alltaf eru að myndast ýmis konar gælunöfn bæði á einstaka hunda og líka samheiti. Eitthvað af þeim algengustu get ég talið: Rakki (virðulegt nafn), hundur, héppi, grey, garmur, hundsspott, hundsskinn, hundtík, seppi, hvolpur og svo nöfn á einstökum hundum, svo sem Serkó, Sámur, Týri, Mosi, Mosa, Lappi, Spori, Flekkur, (þér ferst ekki Flekkur, að gelta), Tryggur, Snati, Kolur, Krummi, Kjammi, Neró, Kómes, Týra, Trína, Hvítingur, Vaskur, Valur, Kópur og ýmsum nöfnum annara dýra og jafnvel manna. Gömul hundsnafna-vísa: Snati, Kolur, Vaskur, Víji, Vindill, Brúsi, Bliki, Kátur, Hringur, Hosi, Haukur, Lubbi, Kampur, Mosi. Hundakyn: Íslenski hundurinn var með fremur lítil uppstandandi ayru og hringað skott, ekki loðinn, en samt ekki mjög snöggur, ekki mjög stór og gat verið með ýmsum litum, held ég: Gulur, svartur, mórauður, flekkóttur, strútóttur, kolóttur og hvítur. Tæpast finnst hreinræktaður íslenskur hundur framar hér á landi og sennilega lítið um hreinræktaða hunda af öðrum kynjum. Stundum sér maður flekkótta hunda, stóra eins og stálpaða kálfa, sem sagðir eru skoskir. Íslenski hundurinn, eða hundar skyldir honum, eru gefnir fyrir að gelta og reka fé. Það er vandi að venja hunda, það má ekki öskra á þá og ekki nota mörg orð. Samt þarf að tala við þá líkt og menn, þeir skilja orð, líta æfinlega upp ef verið er að tala um þá, eða nefna nafn þeirra eða húsbónda þeirra. Þeir eiga auðvelt með að láta tilfinningar

p2
sínar í ljósi við þá sem þeir treysta. Upplag hunda er misjafnt eins og manna, þó er sennilega ekkert dýr til (nema kannski einhver eiginkonuvesalingur eða fylgikona) sem hefir slíka tryggð til að bera og sáttfýsi. Heimilishundur: Heimilishundar í sveit litu (gera það kannski enn) þó nokkuð stórt á sig og voru vitandi um skyldur sínar. Þegar þeir höfðu ekkert að gera lágu þeir gjarna uppi á húsaþökum, sem bar hátt, til að fylgjast með mannaferðum eða því sem gerðist í sjónmáli þeirra. Ef þeir sáu til gesta, sem oft bar við áður en sími var lagður um sveitir, þá hófu þeir að gelta með dálítið sérstöku hljóði, alls ekki æstu eða grimmilegu, sem kallað var gestahljóð. Eins var það ef hundar voru vanir að verja tún, þá fóru þeir að gleta, ef þeir sáu hross eða fé koma í túnið, en það var æstara gelt. Hundar höfðu, og hafa eflaust enn, ákaflega gaman af að gerðast með húsbónda sínum. Ef þeir voru lokaðir inni þá fóru þeir að spangóla. Þeir settust á rassinn, teygðu upp trýnið og sungu sorgarlag og þar var mikið um ó. Eiginlega er spangól eintóm ó borið fram í fleiri tóntegundum og misjafnlega langdregið. Það er ekki ljótur söngur og minnir dálítið á jóðl. Sumir hundar eru ratvísir, þó kemur fyrir að hundar rata ekki heim og lenda á flækingi og þá eru þeir illa komnir, því félaga- og húsbóndalausir geta hundar ekki lifað og verða þá jafnvel grimmir og til vandræða. Einnig lenda hundar oft á flakki í sambandi við lóðafar, en þeir fara heim í milli, enda allstaðar illa séðir nema heima hjá sér.

p3
Ef tík verður lóða er engu líkara en öllum hundum í nágrenninu sé skrifað til. Nú eru sumir farnir að hafa dálitla stjórn á hundum og loka tíkur sínar inni, þegar svona stendur á. Einu sinni meðan hundar voru látnir frjálsir á þessu sviði skeði það, að merk og ágæt kona skrapp í kaupstaðinn með bónda á næsta bæ, sem átti jeppa. Þegar í kaupstaðinn kemur og hún stígur út úr bílnum í mesta sakleysi, þá mætir hún heimilistíkinni sinni mjög vinalegri, en henni fylgdu 12 hundar, sem höfðu slegist í förina. Þessi hersing fylgdi konunni hvað sem hún hreifði sig milli húsa og búða þennan dag. Ýmsar sögur þekkjast um það, hvernig hundar haga sér í svona tilfellum í því skini að ganga í augum á tíkinni og koma sér vel við eigenda hennar, einnig hvaða brögðum þeir beita hver við annan. Til er að hundar séu vanaðir, svo þeir tolli heima, en það er fátítt. Að sjálfsögðu var og er hundur tákn heimilisins bæði ástand hans og háttalag, því oft svipar hundinum til húsbóndas, að svo miklu leyti, sem dýr getur líkst manni. Sagt er að Baldvin Halldórsson, á sinni tíð þekktur hagyrðingur, hafi ort þessa vísu um hundinn sinn: Best mér skín á baki þínu vinur, í ótal myndum uppmálað, eðallyndi konunnar. Ekki þekki ég dæmi þess, að kaupstaðafólk sendi eyðilagða hunda sína upp í sveit til uppeldis. Það er ekki hægt að hafa skaðlega hunda við skepnur, og í sveit eru líka börn og meira að segja stundum börn sem kaupstaðurinn er búinn að skaða. Ég kannast ekki við málsháttinn: "Svo er hundur sem hann er hafður". Réttara er: "Fjórðungi bregður til fósturs", því sérhvert hundakyn hefir sitt sérstaka eðli, sem með lagi er hægt að temja að einhverju leyti en ekki nema brott.

p4
Þótt við sé brugðið tryggð hunda og fylgispekt þá eru flestir þeirra tortryggir við ókunnuga og spéhræddir og líka frábitnir því, að ókunnugir snerti þá eða kjassi. Kaupstaðabörn halda að óhætt sé að káfa á hundum og leika sér að þeim, en slíkt er mjög varhugavert. Það er annað en með kettina, sem aldrei rífa lítil börn, en reyna bara að flýja ef illa er farið með þá. Verð á hundum og hvolpum: Ekki hefi ég vitað hunda eða hvolpa selda. Í seinni tíð hefi ég samt heyrt um það, að vissir menn væru að ala upp einhver sérstök hundakyn og seldu hvolpana. Ekki veit ég um verð. Áður fyrr var það svo, þegar tíkur gutu, að eigendurnir hlífðust við að deyða alla hvolpana, því þá verður sorg mæðranna svo skelfileg og litlu skepnurnar eru auk þess ótrúlega fallegar. Þegar hvolparnir eru orðnir stálpaðir og farnir að bjarga sér sjálfir, voru þeir bara gefnir einhverjum sem vantaði hvolp. Fæðing: Það var sagt að tíkin væri hvolpafull og gyti. Gömul vísa: Kötturinn níu, tíkin tíu, tuttugu ærin, fjörtíu konan og kýrin, kapallinn dregur lengstan vírinn. Kýrin gengur með 41 viku. Tíkur eru ákaflega viljugar og þægar og það kemur fyrir að þær gjóta fyrsta hvolpinum í smalamennsku eða fjarri heimkyni sínu. Þá grípa þær afkvæmið í kjaftinn og æða heim, ansa engum köllum, en fleygja sér niður og halda áfram að gjóta. Einu sinni tókst svo illa til, að tík gaut í göngum á Kúluheiði. Það var fyrir aldamótin 1900. Þá voru ekki önnur ráð en farga öllu saman og um þetta

p5
var gerður bragur. Fremur var hann hráslagalegur og kannski að vonum. Lítið man ég úr honum enda meir en mannsaldur síðan ég nam.
Einu sinni átti ég tík,
ofur spræk var hún á velli.
Nú er hún sem liðið lík
og liggur undir Kúlufelli.

Til að bana tíkonum,
tók hann Björn á kröftonum,
þolgóður í þrautonum,
Þorgrímur hélt fótonum.

Aldrei hef ég vitað að hvolpar fæddust sjáandi eða því væri veitt eftirtekt hvernig þeir lægju á spena. Það er kostur á hundum að þeir séu geltnir. Hvítur rófubroddur var kallaður tíra. Ekki er regla að hundar séu nefndir eftir lit. Rödd hunda: Í kaflanum um heimilishunda gerði ég grein fyrir gestahljóði og spangóli, en að sjálfsögðu gefa þeir frá sér mörg fleiri hljóð. Þeir urra stundum lágt, stundum hátt og grimmilega, ef þeir meiða sig ýlfra þeir og líka ef þeir eru óþreyjufullir. Ef eitthvað óvænt kemur fyrir þá reka þeir upp bofs (stundum). Ef skepna, sem þeir ætla að reka fer ekki, þá standa þeir fyrir henni og gjamma. Hundar geta tjáð sig vel bæði með ýmsum hljóðum og líkamlegum tilburðum, augnaráði og andlitssvip. Hundsaugum er viðbrugðið fyrir hvað þau eru talandi. Ratvísi, þefskyn: Það er eins með hunda eins og menn og aðrar skepnur, þeir eru misjafnlega skynsamir og að sjálfsögðu líka hafa ólíkt lundarfar. Sumir hundar eru sérlega ratvísir, oftast eru þeir þá nokkuð fullorðnir og lífreyndir. Allt frá því að sögur hófust hafa

p6
hundar bjargað mönnum með ratvísi sinni. Í seinni tíð hefir lítið reynt á slíkt sökum breyttra lífshátta. Meðan fé var rekið í kaupstað til slátrunar, en ekki flutt með bílum, þá kom fyrir að hundar flæktust frá húsbændum sínum og rötuðu ekki heim, einkum ef það voru fávísir hvolpar. Gamlir hundar lágu hjá reiðskapnum. Alkunna er þefskyn hunda og kemur það sér vel, ekki síður í nútíð en fortíð. Samt er eins og þessi hæfileiki dofni hjá dýrunum ef ekki er þörf fyrir að nota hann. Í gamla daga voru Sankti-Bernharðs hundar frægir fyrir að grafa menn úr snjó. Eftir stórhríðar voru þeir sendir, með litla matartösku um hálsinn, út í fönnina að leita í fjallaskarðinu og þeir björguðu mörgum mannslífum. Um þetta las ég í landafræði, sem kennd var í barnæsku, þegar ég var barn, að mig minnir. Ýmsar sögur eru til um þetta og margar á prenti. Spádýr: Helst held ég, að hundar hafi spáð fyrir gestakomu þannig, að þeir settust niður og störðu í þá átt sem gesturinn svo kom úr. Eins kom það fyrir, að hundar geltu og hömuðust í því, sem enginn sá þó hvað var. Gjarnan var þá haldið, að fylgjan væri ekki góð, eða það sem hundurinn sá. Ekki hefi ég heyrt sérstakar sögur um það, að hundar spái um veður, en yfirleitt virðast dýr vita fyrir ef vont veður eða hríð er í aðsigi. Ég hefi ekki heyrt nágól til hunda, En orðið er algengt, svo það hefir við eitthvað að styðjast. Hundar vita vel um dauðann og raunar öll tamin dýr, það má ekki tala um förgun þeirra, svo þau heyri. Þó er hitt verra,

p7
að hundar og kettir virðast skynja jafnvel úr fjarlægð, ef hugsað er til að farga þeim. Þeir fela sig, og ef þeir sjá byssu vita þeir að nú á að farga einhverju dýri og þá verða þeir hræddir og æða jafnvel inn undir eldhúsborð, þótt þeir annars komi aldrei inn í eldhús. En þess ber að geta, að hundar eru ekki allir eins. Ekki hefi ég verið vitni að því að hundur finni feigð á manni, en einu sinni kom ég á bæ, þar sem bóndinn var nýlega látinn, það átti að fara að kistuleggja hann. Í ganginum gekk ég framhjá heimilishundinum, sem aldrei hafði skipt sér af mér fyrr, en nú leit hann á mig og sýndi tennur. Ekki leyndi sér að hann var á verði og í æstu skapi. Tíkarmjólk: Ég veit ekkert um tíkarmjólk nema tíkur hafa sex spena og mjólka talsvert fyrst og þurfa mikla mjólk að lepja meðan þær hafa hvolpa á spena. Nýlega var sýnd í sjónvarpi tík, sem lamb eða lömb höfðu verið vanin undir og hún leyfði þeim að sjúga sig og sýndi þeim móðurlega blíðu. Lækningar: Heyrt hefi ég málsháttinn: "Kattartungan særir, en hundstungan græðir", en hitt er vitað, að hann er ekki sannur, því hundsbit er hættulegt og kjaftur hundsins hlýtur að vera með sýkla. Sennilega er þessi trú komin til af því, að hundar sleikja sár sín og virðast halda þeim hreinum og þau gróa, hvernig sem því er nú annars varið. Aldrei hefi ég heyrt líffæri hunda sett í

p8
samband við lækningar, eða neitt slíkt. Nú er alveg hætt að tala um sullaveikina, en í gamla daga fórst fjöldi manna af sullaveiki. Á fyrri hluta aldarinnar var börnum bannað að snerta hunda eða láta þá sleikja sig. Hundsbit: Hundsbit er óhapp, sem ekki verður aftur tekið, hvort sem orðið er notað í eiginlegri merkingu eða óeiginlegri. Búið var þannig um hundsbit, að fyrst var sárið þvegið úr soðnu vatni, síðan var joð eða áður en það þekktist kreolín (lýsol) borið á götin. Alltaf var reynt að láta blæða fyrst. Síðast var bundið um með soðinni léreftsræmu eða gasbindi, eftir að þau komu á markað og fest með heftiplástri, en þar áður var grisjan bundin eða saumuð föst. Engar kerlingabækur hefi ég heyrt í sambandi við hundahár. Til var það að vígtennur væru dregnar úr grimmum hundum, en fátítt var það. Hund þekkti ég sem var bæði duglegur og ákaflega tryggur, en sá var ljóður á ráði hans, að hann var afbrýðissamur við hesta húsbónda síns, og hafði það til, þegar húsbóndi hans var aðeins kominn í hnakkinn, þá glefsaði hundurinn í afturfót hestsins, sem rauk að sjálfsögðu á æðisgenginn sprett. Álfog hunda: Algengt var að hundar flygjust á. Þeir voru misjafnlega herskáir. Áflogin komu af svipuðum ástæðum og missætti hjá mönnum. Sumir hundar vildu vera húsbændur hinna og höfðu lag á að sína þeim fyrirlitningu, sem þeir vildu kúga, og svo voru það ástamálin,

p9
sem komu við sögu og einnig maturinn. Best var að skvetta köldu vatni á hundana. Hrælykt: Ef hundar lágu í hræum kom að þeim hrælykt, hundar eru alveg æstir í hrátt ket og jafnvel æstari ef farið er að slá í það. Ég hefi heyrt haft eftir lækni, að hundar þurfi að hafa smávegis af úldnu keti til að halda heilsu, en það er ekki á boðstólnum nema ef þeir finna hræ. Svo er stundum útilykt af hundum. Hún er ekki mjög vond. Heyrt hefi ég, að útilykt sé af japönskum verkamönnum. Ekki er þetta samt sama lykt og er af þvotti, sem hefir þornað úti á snúru, hún er mjög góð. Hundaþúfa: Ég kannast við orðtakið: "Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér". Og líka vísu eftir Steingrím Thorsteinsson: Hundaþúfan hreykti kamb hún var nóg með þurradramb, skamma tók hún hefðar fjall, hafðu skömm þú ljóti kall. Fjallið þagði, það ég skil, það viss'ei að hún var til. Sem barn var undirrituð hrædd við hundaþúfur, því þær voru kamrar hundanna. Nú eru þær úr sögunni, annað hvort að því að víðast er búið að slétta, eða reglusemi hjá hundum er aflögð. Hundar í mannaferð: Áður gat ég þess, að hundar voru afar glaðir að ferðast með húsbændum sínum og fengu það venjulega, jafnvel þótt farið væri til kirkju, en aldrei fékk hundur að koma inn í kirkjuna. Heyrt hefi ég að það hafi komið fyrir, en ég held að það hafi verið í skáldsögu.

p10
Bæli hunds: Sumstaðar var sérstakt bæli útbúið fyrir hunda, en þeir völdu sér gjarna sjálfir samastað í gömlu bæjunum og þá í skoti við tröppur, í hlóðaeldhúsi eða nálægt bæjardyrum, því þeir vildu alfarið fylgjast með mannaferðum. Lítið var um hundahús hér á landi, og sumstaðar sváfu þeir úti á sumrum, ef ekki var hætt við, að þeir færu á flakk. Sumir höfðu þann sið, að siga hundum út seint að kveldinu, kalla síðan á þá að vörmu spori. Þetta var gert til að þeir "léttu á sér", fyrir nóttina. Ef veður var þannig að hundar voru alveg inni, var þeim stöku sinnum sigað út eða þeir vildu fara út, og þannig hefir orðtakið orðið til sennilega: "Ekki er hundi út sigandi". Hundsdallur: Að sjálfsögðu var sérstakur hundadallur á bæjum, sumstaðar var trédallur, annars staðar emileruð skál eða lítið fat, allt eftir því sem til var. Stein hef ég séð með holu, sléttri og vel gerðri, en ég hélt vera gamlan hlautbolla, en vel getur verið að þetta hafi bara verið óvirðulegur hundasteinn. Hundsmatur: Á æskuheimili undirritaðrar var hundum alltaf skammtað þegar fólkið var búið að borða. Þeir fengu matarleifar svo sem velling og ýmsan graut og mjólk, kjötbein og fyrst og síðast slátur. Sagt var að þrír hudnar þurftu karlmannsfæði. Ekki er ég viss um að máltíðir hunda séu svona reglubundnar nú á dögum. Nýlega er komin út bók um fæði hunda og þar er boðið að gefa þeim einu sinni á dag.

p11
Á æskuheimili undirritaðrar var í gamla daga sérstök tunna staðsett í hljóðeldhúsi, sem var kölluð hundatunna, vegna þess að í henni voru geymd soðin kindalungu súrsuð í skyrmysu. Á fátækari bæjum voru lungun notuð í bjúgu, en heima var nóg að borða og kjöt var notað í bjúgu, en súr lungu voru brytjuð niður í hundana. Smalahundur, fjárhundur: Ekki get ég lýst hvernig hundur var vaninn. Að venja þá svo vel sé er held ég á fárra færi hér á landi. Mér er sagt að í útlöndum sæki hundar féð eins og menn, nema hvað þeir eru færari um að klifra kletta og fjöll. Hér er hundum sigað og bent og sagt: "Sæktu hana", eða því um líkt. Svo er sagt: "geltu", ef hundur á að reka á eftir fé með manni. Sumir hundar taka lömb og jafnvel ær með því að fella þær, en aðrir bíta og það er ekki gott. Við hunda er sagt: "Þegiðu, haltu kjafti, skammastu þín, svei þér, kondu greyið". Svo er þeim hælt og klappað á kollinn, ef þeir gera rétt. Til var það að krakkar kenndu hundi að heilsa og sitja með beint bak og láta hendur lafa. Það er enginn leikur að fá hunda til að sjá bíla í friði. Þeim er að sjálfsögðu bannað að fara í veg fyrir bíla, en ekkert dugar nema loka hundana inni eða hafa taum á þeim. Sumir eru farnir að ala hunda upp við það, að hafa hálsól og vera í bandi ef þörf er og það er undur hvað þeir sætta sig við það, ef þeir venjast því nógu ungir. Hundafár: Eitt sinn er kíghósti, var að ganga, veiktist hvolpur af hundafári, hann hljóðaði, skrækti, æddi um og dó. Kíghósti, er sama veikin og hundafár.

p12
Hundahreinsun: Sullir sem komu í ljós við slátrun sauðfjár voru brenndir. Þeir gátu verið í heilanum og af hræðslu við þá, hættu flestar konur að hirða heila, en í fyrstu útgáfum af Kvennafræðaranum er uppskrift af heilastöppu. Raunar leyndi sér ekki, ef kind var með sull í heila, hún hallaði á og var augsýnilega þjáð og ráfuleg. Sagt var að kindin hefði höfuðsótt, henni var slátrað og heilinn var brenndur. Allt fram á þriðja tug aldarinnar var vissast að athuga vel lifrar úr kindum áður en þær voru skornar sundur og hakkaðar í lifrapylsu, til að ganga úr skugga um hvort sullhús væri í þeim. Einnig gat sullur verið í mörnum, svo ekki mátti brytja hann án þess að skoða áður. Enn í dag skelfist ég ef ég sé hunda reka tunguna framan í börn, eða sleikja hendur þeirra. Kjöltu-hundahald er ósiður og hrein tukthúsvist fyrir aðra hunda en þá sem hafa eðli til þess, kannski hafa þeir það þessir pínu litlu og snöggu. En maðurinn með sitt ráðríki fyrirgang og mislyndi, þráir eitthvað sem getur umborið hann, dáð og fyrirgefið, án þess að hann verðskuldi það, en það gerir hundurinn. Hann kemur skríðandi og biður fyrirgefningar á því sem ekkert var, hann mænir döprum augum á húsbónda sinn, ef illa liggur á honum, hann flaðrar og hann "glóir", á hann með aðdáun hvernig sem hann eða hún er. Hvenær farið var að hreinsa hunda veit ég ekki, en held að það hafi verið upp úr aldamótum og er það gert árlega ennþá og er það vel. Hundahreinsunar auglýsing var lengi í minnum höfð,

p13
sem hljóðaði á þessa leið: "Allir hundaeigendur í Lýtingastaðahreppi, skulu hreinsaðir verða, (þá kom staðarnafn og mánaðardagur). Flækings hundar eru vinsamlegast beðnir að koma, ella skuli þeir drepnast". Hundar í draumi: Dýr í draumi eru að jafnaði fyrir gestakomu: mýs, fuglar, kettir og þá trúlega hundar. Tarfar eru heldrimanna fylgja, en hvítt fé er fyrir snjó, hlaupandi hestar fyrir stormi. Ekki hefi ég heyrt talað um hunda sem fylgjur, en það má vera að svo sé, og heyrt hefi ég talað um að þeir komi fram á miðilsfundum, ekki þó að jafnaði. Hér kemur lítil saga um framliðinn hund: Það mun hafa verið um 1930, að svartur hvolpur var til heima á Guðlaugsstöðum og var kallaður Sjolli. Systir mín Árdís var þá um fermingu og hélt mikið upp á hvolp þennan, en hún var afar mikill dýravinur. Nú kemur upp sá kvittur að aftur af hvolpinum gengur bandormakeðja. Allir urðu skelkaðir nema Dísa, taldi að öruggt væri ef hann væri hreinsaður. Nú fer hún eitthvað að heiman, annaðhvort á sundnámskeið eða garðyrkjunámskeið. Þegar hún er farin er hundurinn óðara skotinn, (sofandi) og grafinn. Þegar systir mín kemur heim sér hún hvergi hundinn og verður ekki rótt. Enginn þykist neitt vita. Samt sofnar hún um kvöldið að venju, en dreymir þá, að Sjolli kemur til hennar og er illa útleikinn um höfuðið. Hann segir henni hvar hann sé grafinn og biður hana ásjár. Hún fer á fætur, vekur aðra vinnukonuna, sem líka var mikill

p14
dýravinur og biður hana að koma með sér. Þær fara og grafa upp hvolpinn, veita honum umbúnað og grafa hann á sérkennilegum og fallegum stað út með Blöndu. "Talaði hundurinn", spurði ég. "Já", sagði hún. Ég hafði ekki vitað neitt um þetta, en Magga vinnukona hafði vitað um það, svo þarna gat verið um hugsanaflutning að ræða á milli stúlknanna. En hver veit? Andi og sál: Hundar hafa mikið meiri skyggnigáfu en menn, því það er leitun á fólki, sem hefir skyggnigáfu, en margir kannski allir hundar hafa hana að haldið er af flestum. Ótal sagnir eru af því, einkum áður fyrr. Ef að menn hafa sál, sem sálfræðingar hvað efast um, þá held ég að dýrin hafi það líka, því þau hafa furðulegt vit, ef við aðeins látum svo lítið að taka eftir því, þá sjáum við það. Dauði: Ég held að hundar hafi verið skotnir sofandi, öðruvísi var það ekki hægt, þeir eru svo varir um sig og lesa hugsanir ef þær koma þeim sjálfum við, a.m.k. Nú eru þeir svæfðir áður. Að vera eins og "útspýtt hundskinn", er að hlýða skylyrðislaust og vera alltaf reiðubúinn líka hugsunarlaust. (Sumar konur voru eins og "útspýtt hundskinn", fyrir menn sína í gamla daga, en ekki allar og ekki lengur almennt). Maður og hundur: Aldrei hefi ég heyrt talað um munn á hundi en kjaft, hvoft og gin. Líklega er oftar sagt löpp en fótur og ekki nef, en trýni,

p15
augu og eyru. Ekkert hefi ég heyrt um "þrjá bita". Ef einhver dekraði við hund var auðvelt að eyðileggja hann, rétt eins og ofdekruð börn verða óþolandi. Orð og málshættir: Ég kannast við allt sem upp er talið í spurningalistanum, en lítið fleira held ég. Svo vel sem hundurinn hefir reynst manninum, þá er undarlegt hvað maðurinn talar mikið niður til hundsins, svo sem: hundspott, táknar sama og skömmin þín, hundslegur, sama og skömmustulegur og afvísandi. Hundflatur sama og auðmjúk og skylyrðilaus uppgjöf. Ef hundur er í einhverjum þá er það dálítið lúmskt. Meinlausir hundar ráðast ekki á óvini sína eða eigandans, en þeir sniðganga hann og hafa skömm á honum, þurrka hann út. (Gott). "Ég kann mig ekki fremur en hundur", er játning um að maður kunni ekki mannasiði og bendir líka til þess hversu miklar kröfur við gerum til hunda, að nefna þá í sömu andrá og menn. Þegar hundur hittir hund á tófugreni þá eru vonbrigðin eins mikil og hjá tveim vísindamönnum sem uppgötva eitthvað merkilegt í sömu andránni. Að vera eins og halaklipptur hundur er að skammast sín, því hundar eru alveg miður sín af skömm, ef rófa þeirra er klippt. Máltækið hefi ég heyrt svona: "alla mína hundstíð og kattarævi", segir gjarna sá er þykist hafa farið heldur halloka í lífinu. Hundslappadrífa er bara stórgert flyksufjúk. "Veit hundur hvað étið hefur", er gott dæmi um vitsmuni hunda og að þeir kunni að skammast sín, þótt þeir hafi ekki siðferðisþrótt til að standast freistinguna.

p16
Kveðskapur, sagnir: Það sem kveðið hefir verið um hunda er alveg ótæmandi og ætla ég að rita hérna það fallegasta sem er eða verður kveðið um hund:

Rakki.
Sá er nú meir en trúr og tryggur
með trýnið svart og augun blá,
fram á sínar lappir liggur,
líki bóndans hjá.

Hvorki vott né þurrt hann þiggur,
þungt er í skapi, vot er brá,
en fram á sínar lappir liggur,
líki bóndans hjá.

Ef nokkur líkið snertir, styggur
stinna sýnir hann jaxla þá,
og fram á sínar lappir liggur
líki bóndans hjá.

Til dauðans er hann dapur og hryggur,
dregs ei burt frá köldum ná,
og hungurmorða loks hann liggur
líki bóndans hjá.
Grímur Thomsen

Hundurinn (austurlenskt ævintýri).
Þegar voru Adam og Eva
Edens burt úr garði rekin,
en frelsið skammtað fagra'úr hnefa,
og frið þeim besta gleðin tekin,
dýrin eftir saklaus sátu,
sælu fyrri notið gátu.

Eitt sér þar eigi undi lengi,
aftur og fram það hljóp um sviðið,
sinnti engu sældargengi
seppi, en klóraði í Edens hliðið,
Kerúb sagði: "Farðu í friði,
og fylgdu Adams skylduliði.

Frá því, hvar sem flæktist maður,
í funa Serklands, Grænlands í,
honum fylgir hundur glaður,
hundsins þar er Paradís,
hinn eini vinur aumingjans,
aldrei bilar tryggðin hans.
Grímur Thomsen

Tryggur.
Í vorri stóru veröld oft
er vont að átta sig.
Þó hlæ ég, hvað sem mætir mér,
á meðan ég hef þig.
Ég skil þitt hjarta, hvutti minn,
þitt hjarta skilur mig.

p17
Og hversu tæpt sem tá ég stíg,
þín tryggð ei bregðast kann.
Í ystu myrkur eltir þú,
hinn auðnulausa mann,
og stendur jafnan eftir einn,
er aðrir svíkja hann.

Í angist mæna augu þin,
er út af leið mig ber,
en takist mér að rata rétt,
þín rófa dillar sér.
Og ef ég sofna veginn við,
þú vakir yfir mér.
Jóhannes úr Kötlum.

Tómas Guðmundsson birti á sínum tíma, grátfagurt erfiljóð eftir hundinn sinn Stubb, í Lesbók Morgunblaðsins, ég finn ekki blaðið, á það þó, en svona eru síðustu vísurnar:

Í kvöld að lágu leiði Stubbs mig bar,
því legstað kaus ég vini mínum þar,
sem bernsku minnar fossar fegurst sungu
og fyrstu stefin lögðu mér á tungu.

Hve allt varð hljótt. Í rökkursýn ég sá
þar sjálfur mína ævi ganga hjá,
sem kæmi hún að kveðja í hinsta sinni.
Og kulda haustsins lagði að vitund minni.

Og þannig, Stubbur kæri, ég kvaddi þig.
Ég kvíði engu, hvorki um þig né mig.
Ég treysti góðum guði okkar beggja,
þeim guði er lítur jafnt til okkar tveggja.

Tómas hallast greinilega að því, að hundar hafi sál og ég hygg fremur að allt sem lifir hafi einhverja vitund eða sál og matthías hafi rétt fyrir sér er hann kemst svo að orði: "Í hverju foldarfræi byggir andi, sem fæddur er á ódauðleikans landi". Ég ætla að enda á vísu eftir Halldór Laxnes, hann bjó til fræga tík, eins og kunnugt er, en hunda er getið í eldfornum sögum.

Blessaður hjarta- hundurinn
sem hundar flestir lofa
svífðu með hunda- englum inn
í engla hundakofa.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana