LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1912

Nánari upplýsingar

Númer8478/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8478

p1
Tegundin: Öll þessi samheiti voru kunn hér, hvutti, deli, búadeli, grey, garmur, rakki, seppi, skinn, héppi. Aldrei heyrt um að hundar væru nefndir klódýr og ekki heldur hrædýr. Þeir eru það ekki nema villtir. Hundakyn: Hundar voru mjög ólíkir í vexti, sumir litlir og lubbalegir, þó með hringaða rófu og uppsperrt eyru, einkenni íslenska hundsins. Aðrir stærri og snögghærðir. Áreiðanlega hafa komið upp bein hunda en verið hent. Heimilishundur: Þeir voru kenndir við bæina. Flökkuhundar settust stundum upp á heimilum er tóku þeim vel með matgjöfum. Stundum týndust ungir hundar, þannig kom Smali til okkar og varð eftirlæti allra, því aldrei kom eigandinn í leitirnar. Það var talið lélegt heimili, sem átti magran og illhærðan hund. Víst kom það fyrir að hundar voru geltir, heyrði talað um það. Hunda ætti ekki að hafa í þéttbýli. Býst við að það hafi komið með Dönum og þeirra hunda dálæti. Hundar voru sendir í sveit, en aðeins á seinni árum. Þekki málsháttinn, "svo er hundur sem hann er hafður."

p2
á hundum og hvolpum: Við áttum aldrei tík, en heyrði ég oft talað um að hvolpar væru gefnir, þótti það betra en að lóga þeim.

Sonur minn einn á tík, sem heitir katla og honum eru boðnar 800.00 kr fyrir hvolpinn, hún er af fjárhundakyni og líkist Lassý. Ég heyrði að einu sinni fyrir löngu gekk hundapest í Skagafirði. Voru eftir það fengnir hundar úr Eyjafirði. Saga um karl, sem var mjög auðtrúa. Strákar sögðu honum að hundurinn hans fengi hundapest eða fár, ætti hann að skella af rófunni. Karl sagði síðar: "Ég skellti af rófunni en hann lá steindauður um morguninn!" Hvolpar fæddust á öllum tímum. Þeir voru mánaðar gamlir þegar þeir voru látnir til annarra eigenda, eða þegar þeir gátu lapið. Hundur verður til: Tík í hundalátum var oftast sagt. Var þá svipað ástand og hjá Sveik, hundar eltu tíkina og flugust á, var eins og tíkin tæki einn fram yfir hina, festust þau oft saman o.s.frv. Já, það heyrðist um hunda í tíkarsnatti. Frekar var skotið á þá púðurskoti og hreif það oftast vel. Tík var hvolpafull.

p3
Fæðing: Alltaf nefnt að gjóta. Stundum drekkt held ég eða skotnir. Hvolpahylur var til. Auðkenni: Pálína á Skarðsá á hund með fjáraugu. Díla við augun, ljósari og sýnast eins og fjögur augu. Hef aldrei heyrt um sporana. Hvítur blettur á skotti var nefndur týra. Átti að vera gott að fylgja þeim hundi er hafði týru í skotti. Geltinn hvolpur þótti betri sem fjárhundsefni. Litur hunda og nöfn: Orðin strútóttur, móstrútóttur, mórauður, flekkóttur, kápóttur voru orð notuð um lit hunda. Aldrei snoppóttur. Aldrei talað um snoppu á hundi í gamla daga, þó það heyrist núna. Vaskur hét hundur heima, hann sótti spýtur sem við hentum í sjóinn og kom með þær og lagði við fætur manns. Snati okkar gerði það aldrei, en var tryggur. Þegar ég vakti yfir vellinum frá átta ára til sautján ára, þá var girt. Sigaði ég Vaski á undan mér, hann hristi döggina af stráum svo ég var ekki blaut í fætur. Þá voru engin stígvél til.

p4
Hárafar: Loðnir hundar hétu oft Lubbar. Mamma mundi eftir að hundshár var notað í smábandssokkana, er voru útflutningsvara um og fyrir aldamót. Rödd hunda: Hundar ýlfra, ýla, urra, bofsa, gelta, gjamma, góla og spangóla. "Að sjóða grottann," hef ég aldrei heyrt, en nágól átti að vita á lát einhvers á bænum. Spangól var með ýmsu móti, tungl, spangól langdregið. Gestagelt var boð um gestakomu. Hávær hundur var nefndur kjaftaskur eða kjaftaglúmur. Ratvísi, þefskyn. Já, ég sá hundana heima rekja slóð og rekja slóð til baka ef þeir voru skildir eftir. Spádýr: Smali átti bæli í göngunum, oft rauk hann upp með gelti, en ekki alltaf eins, stundum grimmu og urri. Stundu seinna var svo barið. Einn mann var honum illa við og beit hann, ef ekki var að gáð, aðeins einn. Nágól boðaði feigð.

p5
Þekki ekki neitt um tíkarmjólk. Lækningar: Aldrei heyrt um hundsmör eða feiti. En gott þótti að láta hunda sleikja sár, t.d. fótasár, sagði mamma mér. Hundsbit: Þessu svarar vísa Páls I. Árdals: Nú hef ég snotrað Snata minn og snilldarlega vanið. Hafði lengi hundskjaftinn hann til skammar þanið. Þú mátt góla og gelta að sólu gamli Snati, en úr þér tennur einhver brýtur, ef þú menn til skaða bítur. Áflog hunda: Til dæmis við kirkjur gengu menn að og gripu í hnakka hundanna og drógu þá hvern frá öðrum. Ef vatn hefur verið við höndina hefur það verið notað. Hrælykt: Hér var það kallað útilykt, er þeir komu úr raka eða utan. Hundaþúfa: Þær voru auðþekktar, lortarnir voru hvítir og allt í kringum þúfuna. Tvær hundaþúfur voru frá Ártúni út í Hofsós.

p6
Hundar í mannaferð: Sá sem alltaf vildi fara með eða elta. Var eins og hundur í hverri hofferð. Hundar sátu um að elta eða fara með. Vaskur var á varðbergi þegar hann sá einhvern tígja sig af stað. Stundum lokaður inni, en þefari stór og kom er hann slapp. Stundum var hundaþvaga við kirkjur og allt í báli og brandi. Voru meðhjálparar kirkna stundum í vandræðum með að missa þá ekki inn. Bæli hunds: Heima voru hundarnir í göngunum, fengu sjaldan að koma inn. Áttu gamalt garnskinn að liggja á. Þeir voru oft úti á sumrin og vöktu yfir vellinum með mér. Hundsdallur: Ég hugsa að það hafi verið til sérstakt ílát ætlað undir hundsmat. Heima áttu þeir hundadall. Það var
emeleraður spítubakki, sem fenginn var úr gamla samkomuhúsinu í Hofsósi. Sumir hafa haft smátrog, hundstrog. Enginn hundssteinn í mínu hverfi. Hundsmatur: Þeir fenu allan matarúrgang, sem þeir átu, þeir átu aldrei kartöflur t.d. en voru æstir í sætindi og sykur. Gripu mola á lofti. Orðtakið "mæna eins og hundur á bita," þekktist.

p7
Hundslap: Heima fékk hundurinn fullan dall tvisvar á dag graut og undanrennu auk þurrætis roð og bein og barinn ...... Smalahundar, fjárhundar: Unghundar hafðir með í smalaferðir og látnir læra af þeim eldri. Vaskur okkar var aldrei fjárhundur, var veiðihundur. Smali var heldur betri fjárhundur, meinlaus, ég sá hunda bíta í hæla á hrossum og kindum. Katla sækir kindur og kemur með þær heim. Geltir aldrei að þeim, en laumast kringum þær, líkt og hundarnir á sýningunni í sumar. Hundi var sigað, "irr", sæktu það t.d. Skammaður "skammastu þín." "Farðu heim." Prestur sá hund pissa á hurð, þá sagði hann: "Svei yður skepnan yðar." Margir voru æfðir í hundakúnstum, heilsa, þakka fyrir sig. Grípa mola á lofti o.fl. Hundafár: Stundum drápust allir hudnar í sveitinni, en fyrir mitt minni.

p8
Ég held aldrei hafi fundist neitt læknisráð. Stundum ældu hundar allt í einu og voru með ræpu, sást það á þúfunum. Hundahreinsun: Ef sullir fundust voru þeir brenndir. Ég sá gamla konu með sull á handarbaki. Stundum sprakk hann, en kom svo aftur. Hundar í draumi boðaði helst gestakomu. Hundar sem fylgja: Synir mínir tveir unnu í Sigló eitt sumar. Með þeim vann skyggn maður og piltur úr Fljótum. Sá skyggni sagðist sjá fylgjur þeirra. Bræðrunum fylgdi stórt ljós, en piltinum hundur, lýsti hann dýrinu um vöxt og lit. Næstu helgi frá kom pilturinn með mynd af hundi og passaði þar lýsingin. Andi og sál: Ég held allar skepnur hafi sál, þær hugsa og eru misjafnlega greindar. Jafnvel kýr eru greindar. Hvað þá hundar og hestar. Dauði: Líklega hafa þeir verið hengdir, en í mínu minni skotnir.

p9
Sögn er um að maður hafi ætlað að drekkja fjórum hvolpum. Einn komst úr pokanum og synti til lands, tók maðurinn hann heim og kallaði Ófeig. Hundskinn voru verkuð, spýtt á torfveggi og notuð í kraga á utanyfirflíkur. Maður og hundur: Aldrei talað um nef á hundi, en augu og fætur, trýni. Ekki kannast ég við bitagjöfina. Kannski þetta nágranna nöldur. Kveðskapur, sagnir: Snati, Krummi, Vaskur, Vígi, Valinn, Ganti, leika sér á hartar hlöðum hundarnir á Svaðastöðum. Heitir Valur hundur minn hann er falur varla. Alltaf smalar auminginn upp um sali fjalla.
Heitir Valur hundur minn hefur bol úr skinni. Alltaf volar auminginn inni í holu sinni. Ég þekkti hund, sem aldrei þorði út á svell, veit ekki af hverju.

p10
Orð og málshættir: Við segjum halaklipptur hundur, ekki halasneyptur hundur. Það var þarna um árið þegar hundarnir fengu fárið, (er sagt hér). Gátur: Hvað hét hundur karls, sem í afdölum bjó? Nefndi ég hann í fyrsta orði, en getur hans aldrei þó. Svar-Hvað. Ingimundur og hans hundur sátu báðir og átu. Nú nefndi ég hundinn en ekki Ingimundinn. Svar-Nú.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana