LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1911

Nánari upplýsingar

Númer8477/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8477

p1
Ég veit ekki mikið um hunda, þó ákvað ég að endursenda ekki spurningaskrána um hundinn sem ég fékk þ. 22. maí. Það hefur þó dregist að ég athugaði hana nánar. Ég hafði þá nýlega sent Ásgeiri Bl. Magnússyni hundanöfn sem ég þekkti úr Fljótum. Ég læt þau þó fylgja þessu og segja ögn frá þeim hundum sem ég þekkti. Við krakkarnir máttum aldrei kjassa hunda eða snerta ókunnuga hunda og hundar fengu aldrei að vera inni hjá fólkinu. Þó var farið að hreinsa alla hunda árlega. Pabbi var sjúklega hræddur við sullaveiki (bandorm). Þrátt fyrir hundahreinsun voru alltaf sullir í einstaka fé og í fólki fram um síðustu aldamót. Eitthvað mun hundahreinsun hafa verið ábótavant sums staðar. T.d. kom einu sinni lamb frá Krakavöllum (einhvern tíma eftir 1930) úr haustgöngum í rétt uppi í Deildardal eða þar nálægt. Lambið var sent í bæjarrekstri heim að Krakavöllum að minnsta kosti yfir þrjá hreppa. Bæjarrekstur hét það þegar óskilafé var sent il heimkynna sinna. það var kvöð á bændum að reka eða flytja óskilafé til næsta bæjar og þannig áfram þar til það komst heim. Þessi hrútdilkur var svo lítill og rír að ekki þótti gerlegt að lóga honum. Hann var því alinn um veturinn og gekk úti næsta sumar. Svo var honum lógað en hafði lítið stækkað. Hann var svo sullinn innvortis að ekkert var hægt að hirða af honum.

p2
Á sínum bæjargangi haustið áður hefir hann einhvers staðar náð á bandormsegg. Komu sullir fyrir í slátri, helst í mönnum eða utan á lifur, voru þeir brenndir. Vel þurfti að athuga allt innvortis og þeukkla lifur vel. Í henni gátu verið hærðir hnúskar einhvers konar mein kannski uppþornaðir sullir. Öllu grunsamlegu var brennt. Allt þetta fór svo inn í barnsvitund mína að ég hef aldrei snert hund. Umsögn pabba í "Einu sinni var." "Þó að ekki væri gælt mikið við hunda á Krakavöllum eða börn látin handsama þá eða kjassa, var hundurinn á bænum ekki hafður út undan eða farið illa með hann." Hundurinn hjá okkur fékk aldrei að vera inni hjá fólki. Það mun hafa verið til samþykkt af sýslufundi Skagafjarðarsýslu að ekki mætti hafa hunda inni í hýbýlum manna. Hún held ég hafi verið illa haldin. Trúað gæti ég (hef ekki látið athuga það), að pabbi hafi borið þessa tillögu upp þegar hann var í sýslunefnd, veit þó ekkert um það. Sullaveiki hvarf þó í fólki smám saman. Enginn veiktist í Fljótum eftir að ég man til. Óneitanlega báru hundar oft merki heimila sem þeir voru frá. Væru þeir horaðir og litu illa út var áreiðanlega fleiru ábótavant. Eins hve þeir voru vel eða illa siðaðir, gat gent á ástand heimilisfólksins. Að vera eins og útspýtt hundsskinn var að reyna að fá eitthvað eða ná í eitthvað (t.d. vinnu) hvar sem var þó að langt og víða þyrfti að leita.

p3
En hvernig stóð á því að talað var um útspýtt hundsskinn, get ég ekki skilið. Hundaskinn voru auðvitað spýtt og hert eins og önnur skinn, en ég trúi varla að hægt hafi verið að teygja meira úr þeim en öðrum skinnum. Varla hafa hæklar og skankar á þeim verið lengri. Ég heyrði sagt í óeiginlegri merkingu um fólk að hann væri í tíkarsnatti en hún eins og lóðatík. Tíkur voru hvolpafullar og fæðingin hét að gjóta. Heyrt hef ég að menn hafi látið hunda sleikja sár sín. Ég þekkti konu sem sauð smyrsli úr hundafeiti og átti að vera allra meina bót að bera það á eða nudda upp úr því. Hundar voru kallaðir héppi, seppi, hvutti, rakki og greyið, kanski fleira. Stundum notuð í óeiginlegri merkingu um fólk, svo sem greyskarnið, greyskinnið. Þegar sigað var, var sagt: "urr eða urridan." Þegar þeir áttu að hætta var sagt: "svei þér eða sveiattan og komdu karlinn." Ég heyrði menn segja (þó fáa) einkum ef sigað var í hross, bíttann, þá bitu þeir hundar í afturfæturnar á þeim sem sigað var á, þeir sem bitu á annað borð. Voru þó ekki margir sem ég vissi um. Frekar munu sumir hundar hafa glefsað í lappir. Að taka einhverju eins og hverju öðru hundsbiti = að sætta sig við eitthvað sem var ófrávíkjanlegt, bendir til þess að hundsbit hafi

p4
ekki verið óalgengt áður fyrr. Yfirleitt eltu hundar fólk sem fór af bæ í ferðalag. Líka í kirkjuferðir ef þeir voru ekki lokaðir inni. Fóru reyndar á eftir því stundum er þeir sluppu út. Ég heyrði talað um hunda sem komust inn í kirkju um messutíma og gerðu messuspjöll. Meðhjálparinn náði þeim og dró þá út. Stundum tvo í einu. Þurfti þá aðstoð. Þetta gerðist fram á mína daga og fóru miklar sögur af. Sumir hundar voru þó svo hlýðnir að þeir snéru heim ef þeim var sagt það, þegar þeir náðu ferðafólkinu. Þegar farið var yfir vatnsföll, kipptu sumir hundinum upp á hnakknefið á meðan. Þó vissi ég um, því miður, að hundur sem elti og var nokkuð langt á eftir, fór í Sandósinn sem var óbrúaður. Hann rennur úr Hofsvatni til sjávar. Um rifrildi hunda úr smáþætti sem ég skrifað um göngur, óprentað: Það voru gangaskil heima á Krakavöllum, (þ.e. mönnum raðað í göngur), sem er fremsti bærinn í Flókadal. Þess vegna komu oft margir menn á sunnudagskvöld og gistu, aðrir eldsnemma á mánudag, sem var gangnadagur. Gangnamönnum fylgdu auðvitað hundar. Stundum lennti þeim saman í slag. Það var ófögur sjón að sjá þegar allir hundarnir voru komnir í eina þvögu og börðust upp á lífið. Þá fóru karlarnir að reyna að skilja þá og notuðu til þess svipur með löngum ólum. Aldrei vissi ég til að hundar legðust út

p5
en það gerðu kettir og urðu mjög grimmir. Hundar voru taldir tryggs manns fylgja og þóttu góðir í draumi, þó fór það eftir atferli þeirra í draumnum. Hundar heima geltu alltaf mikið þegar gestir komu. Byrjuðu oft að gelta löngu áður en gestir komu nærri. Minnisstæðast er mér hvernig Kola lét ef pabbi var á heimleið. Oft byrjaði hún löngu áður en nokkur von var til að hún sæi til hans eða finndi lykt af honum. Jafnvel um það leyti sem hann lagði af stað heim (kannski dagleið). Hún sat fyrir utan bæ og gelti stöðugt. Fólk trúði því að hún sæi fylgju pabba sem átti að vera bjarnsdýrshúna. Seinna dreymdi hann líka. Hundar tóku misjafnlega á móti gestum þó þeir þekktu þá ekkert fyrir. Virtust finna á sér hvernig fólkið var. Aldrei vissi ég hunda aflífaða öðruvísi en skotna. Það gekk þó oft erfiðlega að komast að þeim. Þeir virtust þekkja byssur. Heyrði ég margar sögur af þessu. Ekki veit ég hvernig hvolpar voru aflífaðir á öðrum bæjum. Heima voru þeir settir í stóran tréstamp (þá farnir að stækka) og skotnir einn og einn ofan í höfuðið með riffli. Eitt af erfiðustu skilduverkum þessa tíma. Kaupstaðahundar sem voru þó sannarlega ekki kjölturakkar. Þegar ég var krakki á Ísafirði 1922, var þar danskur apótekari. Hann var bara kallaður apótekarinn, svo apótekarafrúin, apótekarafrökenin og apótekarahundurinn. Apótekarafrökenin

p6
teymdi apótekarahundinn með sér úti alla daga. Þetta var gríðarlega stór skoskur (eða dökkur) hundur, einkar háfættur og langur, ekki sver, snögghærður. Aldrei gekk hann laus eða gerði fólki mein. Um svipað leiti og næstu ár voru tveir útlendir heimilishundar á Siglufirði, gjörólíkir Surti. Þeir voru litlir, nokkru stærri en stór köttur, hvítflekkóttir, snögghærðir, fjörugir og gengu lausir. Voru kallaðir rottuhundar. Ekki þótti ráðlegt að börn stríddu þeim. Þeir voru svipaðir þó ekki eins. Annar hét Dáti. Hvað hundur Guðmundar læknis hét man ég ekki. Kjölturakka sá ég ekki fyrr en löngu seinna þá hér á Akureyri eftir 1950. Nokkur hundanöfn úr Fljótum: Í Fyrirbarði var hundur þegar pabbi var krakki, á næsta bæ, sá hét Fidel = Tryggur, býsna skrítið nafn (latína á kotbæ). Kópur, Taska, Dimma, Vart, Vígi, Brami og allir herrarnir, Neró, Hitler, Stalín, Mússolini. Finnst það vafasamur heiður fyrir hunda að heita þessum nöfnum. Ég veit að Hitler var kennt að sækja hluti, líka að heilsa. Eigandinn sagði að hann myndi geta bjargað sér ef hann dytti í vatn. Einn hundur hét Brynjar, hann var grár, eins og allur í hringum af því nafnið. Frændi minn átti þennan hund og kenndi honum að sitja á rassinum og rétta manni loppuna, heilsa og gera fleiri kúnstir. Hann var líka góður fjárhundur og fylgdi húsbónda sínum hvert sem hann fór. Á næsta bæ við Krakavelli var svört tík, nokkuð stór, snögghærð, sögð af ítölsku kyni. Hún hét Típ. Hún hafði það til að bíta í fæturna, líka fólk, stundum. T.d. beit hún mig í hendi í fyrsta sinn er ég fór þar hjá. Ekki varð það þó til skaða. Var með tvenna þykka vettlinga og líka mun hafa verið klipið af vígtönnum hennar. Það mun hafa verið gert á hundum sem bitu. Eftir var bara mar. Undan Típ var til ......... stærri hundur, gljásvartur. Oftast kallaður barallos hundur. Hann var vitur en gat verið grimmur. Sumir fullorðnir menn gátu verið blóðhræddir

p7
við hann. Einn forðaði sér upp á tunnu og varðist þaðan þar til einhver kom sem hundurinn þekkti og róaði hann. Líklegast þykir mér að þessi maður og fleiri hafi einhvern tíma barið hann eða gert honum eitthvað. En honum var kennt að sækja hluti út í Hofsvatnið eða í sjóinn og fullyrt var að hann væri fær um að bjarga fólki. Hundarnir á Krakavöllum: Fyrsti hundur sem ég man eftir heima hét Ekkó. Hann var orðinn gamall og lá mest inni í hlýju. Hann var móleitur, dálítið loðinn og lubbalegur. Hafði verið góður fjárhundur. Þá var til Kaskur, man ekki eftir honum. Hafði verið frábær fjár- og smalahundur. Þurfti bara að segja honum að sækja heimaféð og benda honum, þá sótti hann það einn. Síðan hétu hundar Snati, hver á eftir öðrum. Man lítið eftir þeim. Þó einum gráum, meðalstórum, loðnum. Síðasti hundur heima var lítil tík af íslensku kyni, þó ekki hreinræktuð, því eyrun slöpptu aðeins, en rófan var hringuð. Hún var fallegasti hundur sem ég hef séð, fríð í framan. Við systkynin héldum því fram að hún hefði grátið tárum þegar mamma sneypti hana, eitthvað í sambandi við matarvenjur. Hún hét Kola. Hún hafði hlýtt pláss til þess að vera í inni, en gat oftast komist sjálf út að vild. Á sumrin kaus hún oftast að sofa uppi á bænum. Þá var henni gefinn maturinn úti þegar gott var veður. Reyndar borðuðum við líka oft úti. Kola átti bara sérstakan disk og skál. Aldrei borðaði hún þó með fólkinu. Nú ætla ég að skrifa lýsingu pabba á Kolu í "Einu sinni var." "Hún var flekkótt, ljósbrún og hvít. Augun voru móbrún, vökul og gáfuleg, líkt og greindu barni. Eyrnabroddarnir voru slapandi. Hún var ekki alveg snögghærð en ekki heldur svo hárug að hún gæti talist loðin. Hún var hreinleg og snyrtileg, hvar og hvernig sem á hana var litið, álíka og barn sem á góða að eða vel tilhöfð heimasæta." Pabbi segir miklu meira um Kolu. Ég ætla að enda þetta á einni frásögn hans.

p8
"Einu sinni var," eftir Sæm. Dúason: "Ég var að kenna krökkum í húsi Sveins Stefánssonar í Haganesi. Þá er það einn dag um hádegisbilið að Kola er komin þangað niður eftir. Ég hélt einhver hefði komið heiman að og Kola fylgt honum. Það var ekki, Kola hafði komið ein síns líðs. Þetta var á mánudegi. Ég hafði verið heima um nóttina áður en fór seinnipart nætur eða snemma um morguninn að heiman, gakk á skíðum. Kola hafði komist á slóðina mína og rakið hana að Haganesi. Þetta hafði Kola aldrei gert fyrr. Hjá Sveini Stefánssyni var ekkert pláss til handa hundi. Þar var enginn hundur á heimilinu. Kola þurfti endilega að komast heim samdægurs. Ég reyndi að senda hana eins og þegar við sendum hana heim úr smalamennsku. Hún gegndi undir eins þegar ég sagði henni að fara heim. En hún fór ekki nema nokkurn spöl suður á Hófsvatnið, líklega þangað til hún heyrði ekki lengur til mín. Þar settist hún og beið. Þegar ég var kominn inn til krakkanna kom hún aftur. Er kennslu var lokið um daginn lagði ég af stað með hana. Ég ætlaði ekki nema að Eystri-Hól, biðja Frímann að ljá mér með hana dreng það sem eftir var leiðar heim að Krakavöllum. Ekki hafði ég fyrr nefnt þetta við Frímann en hann sagði það væri sjálfsagt og velkomið. En Kola var ekki á sama máli. Um leið og hún varð þess vör að hún ætti að fara með öðrum skreið hún á maganum til mín, vafði sig þétt utan um fæturna á mér og tróð sér milli þeirra. Það var engin leið til þess að fá hana til að standa á fætur, hvað þá meira. Ég var engu nær en í Haganesi að koma henni heim öðruvísi en að fara með hana sjálfur. Enda varð það úr. Ég fór ekki heiman fyrr en snemma morguninn eftir. Þá var Kola búin að gjóta. Ég sá ekki eftir ómakinu. Nú fór betur um hana litla skinnið en orðið hefði ef hún hefði gotið áður en hún komst heim. Það er ögn til marks um vinsældir Kolu á heimilinu að Kalli (Kalli var sonur Sæmundar) lét gera af henni eftirlíkingu úr silfri og festa á bindisnælu sem hann átti og notaði." Sérstök lykt er af hundum, var kölluð útilykt. Okkur krökkum var sagt að hún kæmi af útfjólubláum geyslum sem hárin yrðu þrungin af, svipað og útilykt af þvotti sem var samt öðruvísi. Svipuð lykt gat verið af fólki sem var mikið úti. Þá snerist nafnið við og var kallað hundalykt.

p9
Ég man ekki til að hafa heyrt um hunda sem dáið hafa af söknuði eftir húsbónda sínum. En til er saga úr Fljótum um það. Ég ætla að skrifa upp frásögn pabba af þessum atburði, þó það sé í "Einu sinni var." Dúi afi minn mundi þennan atburð, einnig pabbi, þá tíu ára. "Upp úr áramótum 1899 lagði bátur af stað frá Haganesvík til Hofsóss. Á bátnum voru 8 menn. Þennan dag brast á hörkuhríð með mikilli veðurhæð og frosti. Hún stóð svo mörgum dögum skipti. Ekki var vitað um afdrif bátsins fyrr en gengið var á reka undir Bökkum. Þá varð ljóst hver afdrifin hefðu orðið. Hundur sem einn skipsverjanna átti, Ásmundur í Nesi, hafði fylgt honum til sjávar um morguninn. Talið var víst að hann hefði fylgt eftir bátnum á landi. Hann kom heim að Nesi eftir þrjá sólarhringa, illa á sig kominn en hvarf fljótlega aftur. Eftir nokkra daga fannst hann dauður í einhverjum útikofa (fjárhúsi). Töldu menn að hann hefði soltið í hel, eftir að hafa orðið vitni að afdrifum húsbónda síns." Pabbi hélt frekar að hann hefði veikst af lungnabólgu eftir slarkið og dáið af því. Mér finnst aftur á móti ótrúlegt að hafi hann verið veikur, skildi hann fara aftur út í kulda og leggjast í fjárhúsgarða til að deyja, nema að hann hafi verið vanur að fylgja húsbónda sínum í þetta hús.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana