LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1902

Nánari upplýsingar

Númer8416/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8416

p1
Tegundin: Ég kannast við flest þau nöfn sem upp eru talin, deli og búadeli kannast ég ekki við. Ekki man ég heldur eftir að ég hafi heyrt orðið klódýr. Hundakyn: Talað var um íslenska og útlenda hunda. Íslensku hundarnir með upprétt eyru og hringað skott. Sem var öfugt við útlendu hundana. Líka var eitthvað um kynblöndun. Ég man eftir hundum með mjög stutta rófu. Voru þeir sagðir rófulausir. Ekki man ég eftir að hundsbein hafi komið úr jörðu, ekki var talað um það. En hundar voru grafnir í jörðu svo það gæti vel hafa komið fyrir. Heimilishundur: Hundur var kenndur við heimili sitt. Ef hundar litu illa út voru horaðir þótti það ekki góð meðmæli með húsfreyjunni á þeim bæ. Hundar voru oft geltir, þá fóru þeir ekki á flakk. Á seinni tímum hefur hundum fækkað í sveitinni. Komið hefur fyrir að hundum út þéttbýli er komið í sveit. Tilefnið stundum það að eigendurnir hafa flutt í nýtt húsnæði og þá var ekki hægt að hafa hundinn. Ég kannast við málsháttinn: Svo er hundur sem hann er hafður.

p2
Verð á hundum og hvolpum: Ekki veit ég um sérstakt verð á hvolpum eða hundum. Það var nokkuð lengi tík á mínu heimili en aldrei voru hvolpar seldir. Það var víst slæmt hundafár sem gekk fyrir síðustu aldamót. Þá var sagt að haustlamb hefði fengist fyrir hvolp. Tíkur eiga hvolpa tvisvar á ári. Þá var venjulega einn hvolpur látinn lifa, því ekki þótti fallegt að farga þeim öllum. Ekki man ég hvað hvolpar voru gamlir þegar þeir voru látnir í burtu en þeir voru nokkuð stálpaðir, voru hættir að sjúga móðurina. Hundur verður til: Það var sagt að tíkin væri lóða, mig minnir að líka væri talað um að hún væri með hundagangi. Það var algengt að hundar hópuðust þegar þannig stóð á og var ekki vel séð. Eitthvað var um það að ýmsir hlutir væru bundnir í skottið á þeim. Sagt var að tíkin væri hvolpafull um meðgöngutímann. Fæðing: Sagt var að tíkin væri að gjóta. Ekki vissi ég til að fylgst væri með í hverri röð hvolparnir fæddust. Og aldrei vissi ég til að hvolpar fæddust sjáandi eða að fylgst væri með því í hvaða röð þeir lægju á spenum. Ég held að hvolpum væri drekkt. Ekki þekki ég nein örnefni sem minna á það.

p3
Ég man ekki eftir að talað væri um fjáraugu. En sporar voru á sumum hundum og talin kostur. Hvítir blettir við augu voru kallaðir týrur, hvítur blettur á rófubroddi var kallaður þjófaljós. Líka var talað um geltinn eða ógeltinn hund og þótti hið fyrrnefnda betra. Litir hunda: Ég kannast við að hundar fengu oft nöfn eftir lit þeirra. En mjög algengt var nafnið Tryggur, líka Sámur eftir hundi Gunnars á Hlíðarenda. Svo þekkist líka Týri, Spori og víst margt fleira. Hárafar: Hundar sem voru mikið loðnir voru sagðir lubbalegir. Ekki vissi ég til að hundshár væru nothæf. Ekki minnist ég þess að haft væri neitt sérstakt orð yfir það þegar hundar fóru úr hárum. Rödd hunda: Ég kannast við öll þau nöfn sem upp eru talin. Líka nágól og spangól. Hundar geltu alltaf ef mann bar að garði. Ratvísi og þefskyn: Ég kannast við hvoru tveggja. Ég hef séð hunda rekja spor eftir mann svo hvergi skeikaði. Og líka eru hundar mjög ratvísir. Og get ég sagt sögu af því. Á mínu heimili var það um vor að maður fór héðan að reka lömb á fjall og með honum var ungur hundur. En með þessum

p4
manni voru tveir menn sem gerðu sér leik að því að hrekkja og stríða svo hundinum að hann yfirgaf manninn sem hann átti að fylgja. Svo kom maðurinn hundlaus heim en daginn eftir kom hann og þótti merkilegt að hann skyldi rata þar sem hann var svo ungur og leiðin mjög löng. Spádýr: Þegar hundur lá fram á lappir sínar sem kallað var, þá þótti það boða gestakomu og ef önnur löppin kom lengra fram þá átti það að boða að gesturinn væri þjófóttur. Tíkarmjólk: Hef ekki heyrt um neina þjóðtrú í því sambandi. Lækningar: Ég hef heyrt málsháttinn: Kattartungan særir, hundstungan græðir. Hef ekki heyrt að hundsfeiti hafi verið borin á sár eða beinbrot. En ég veit um mann sem notaði hundafeiti til að bera á aktygi, beisli og hnakka. Hundsbit: Grimmir hundar eru alltaf illa liðnir. En ég man nú ekki að mikið væri um þá. Ég var nú nýlega bitin af hundi, læknir saumaði sárið saman og sprautaði mig líka. En það hefur nú ekki tíðkast fyrr á árum. Áflog hunda: Þau þekktust helst á mannamótum. Og skárust menn í leikinn. En aldrei vissi ég til að vatni væri hellt yfir hundana.

p5
Hrælykt: Þegar hundar voru mikið blautir var talað um hrælykt af þeim. Þekki ekki önnur orð yfir lykt af hundum. Hundaþúfur: Þær eru efst á háum hólum. Málsháttinn: Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér, kannast ég við. Hundur í mannaferð: Sjálfsagt hef ég heyrt þetta orðtak: Eins og hundur í hverri hofferð. Ég gæti trúað það hafi verið notað um það fólk sem ekki lét sig vanta ef eitthvað var um að vera. Það var algengt að hundar fylgdu fólki á milli bæja á mannamót, líka í kirkjuferð og trúlegt að það hafi valdið ónæði við messur ef margir hundar hafi komið saman. Bæli hunds: Ég held að hundsbæli hafi oft verið í eldiviðarkofum eða í bæjardyrum, ég held lítið hafi verið um hundahús en þó var það til. Hundar lágu alltaf inni hérna. Ef að stórhríð var, var sagt að hundi væri ekki út sigandi. Ég man ekki að hundar lægju úti á sumrin en þó getur verið að það hafi átt sér stað. Hundsdallur, hundstrog: Sérstakt ílát var haft handa hundinum, var það djúpur emeleraður diskur eða skál en það er trúlegt að smíðaðir hafi verið trédallar eða skálar fyrr á tímum. Hundsteinn: Ekki þekki ég það.

p6
Hundsmatur: Ekki man ég eftir að hundum væri ætlaður sérstakur skammtur. En þar sem margt fólk var í heimili voru oft matarleifar, líka var sláturmatur gefinn, mjólk og grautar. Ég kannast við orðtakið að mæna eins og hundur á bita. Ekki þekki ég að talað væri um ákveðið magn mjólkur sem hundum væri gefið. Smalahundur: Ég get ekki lýst því hvernig hundar voru vandir. Það var víst með ýmsu móti, en ekki þekkist það að hundar tækju kindur, en nú á tímum eru sumir hundar vandir á það. Ég veit nú varla hvernig ætti að lýsa því hvernig hundi var sigað, ég verð bara að segja að err hljóðið var óspart notað. Á hund var alltaf kallað með nafni. Ég kannast við að sagt var "þú hefur étið folald." En það hafði víst lítil áhrif. Ekki þekkti ég það að hundi væru kenndar ýmsar kúnstir. Hundafár: Ég man ekki eftir hundafári. Hundahreinsun: Hundar vour alltaf hreinsaðir einu sinni á ári. Og ekki þekkist að hundar væru látnir sleikja matarílát. Ef sullir fundust í sauðfé við slátrun var þeim alltaf brennt.

p7
Hundar í draumi: Hef ekki heyrt neitt um það. Hundur sem fylgja: Ég hef heyrt það að hundar hafi fylgt eigendum sínum, en ekki um ættarfylgjur. Andi og sál: Ég held að sumir hundar hafi skyggnigáfu. Skyggn kona sem var nákomin mér sá alltaf hund sem fylgdi manni áður en hann kom í heimsókn til hennar, hún þekkti hundinn á meðan hann lifði. Segi meira af honum hér á eftir. Dauði: Eftir að byssur komu voru þeir alltaf skotnir, ég man ekki eftir öðru. Að vera eins og útspýtt hundskinn. Ég held að það hafi átt við þá sem fóru oft að heiman þó lítið væri erindið. Maður og hundur: Oftast var talað um kjaft, trýni og lappir, en oftar um augu en glyrnur. Ekki heyrði ég að ekki væri við hæfi að gefa hundi þrjá bita. Kveðskapur og sagnir: Ég kann nú ekki margar vísur um hunda. Ég kann kvæði eftir Þorstein Erlingsson, "Heyrðu snöggvast Snati minn." Og annað eftir Grím Thomsen, "Sá er nú meir en trúr og tryggur." Ég man ekki fleira.

p8
Kveðskapur og sagnir: Ég ætla að lýsa tryggð og viti hunds sem var á mínu heimili. Það var fyrir mörgum árum á mínu heimili maður sem var mikill dýravinur. Hjá okkur var hundur sem hét Tryggur og var hann sérstaklega hændur að þessum manni. Eitt sinn fór hann sem vetrarmaður á heimili nokkru fjarri, það var klukkutíma gangur á milli bæja. En hundurinn tók upp á því að vera hjá honum í viku og svo aðra vikuna heima. Svo seinna fór þessi maður til Reykjavíkur, var þar um tíma og stundaði vinnu við uppskipun. En þegar voraði kom hann heim. Hundurinn hefur vist heyrt talað um að Runki (það var hann kallaður), kæmi heim á morgun. En hvernig sem hægt er að útskýra það, þá fór hundurinn alltaf á móti honum þangað sem bíllinn stoppaði sem hann kom með. Og eftir að hundinum var fargað gerði hann alltaf vart við sig þegar vinur hans kom í heimsókn til systur minnar sem bjó í Reykjavík og var skyggn. Orð og málshættir. Ég kannast við allt sem hér er talið upp. Illt er að kenna gömlum grepp og gömlum hundi að sitja rétt, var haft á orði og heyrist enn.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana