Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1905

Nánari upplýsingar

Númer8372/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið3.6.1987
Nr. 8372

p1
Íslenski fjárhundurinn: Ég setti upp hundshaus en kemst ekki í sporin hans. Íslenski fjárhundurinn, frekar lítill og grannvaxinn. Alla vega litur, loðlubbi eða snöggur, með sperrt eyru og hringað skott. Hrædýra tegund því lítið hafður innanhúss vegna hrælyktar og bandorma smithættu. Hans aðal hvíldarstaðir voru upp á bæjarburst eða á stéttinni við útidyr. Hann átti bæli eða fleti inna útidyra í óveðrum ef ekki var hundi út sigandi eins og sagt var, þegar menn treystu sér ekki til útiverka. Annars fylgdi fjárhundurinn gegningarmanninum oftast á daginn og alltaf þegar fénaði var beitt. Hundsævin var stutt enda sagt að hvert ár væru tvö hundsár. Ungir hundar voru sí hlaupandi en löttust fljótt og entust fá ár, þá var þeim fargað. Það var talin mannúð, þótt allir söknuðu góðs þjóns og vinar. Margir voru svo hyggnir að vera búnir að fá sér hvolp til að smalahundurinn hjálpaði fjármanninum við tamninguna. Ekki tel ég að fólksfækkun til sveita eigi þátt í að hlutverk og mikilvægi hunda við búskap hafi minnkað heldur að enginn kann lengur að temja þá til fjármennsku né nota hans vit og góðu eiginleika í sína þjónustu.

p2
Einnig þurfti að venja hundinn á að sníða vankantana af, sem eru grimmd og aðrir ókostir sem fylgja ótömdum hrædýrum til sjálfsbjargar. Ég get ekki séð að hundar hafi verið vandir af að elta og flækjast fyrir bílum. Enn eru hundar tamdir til sérþarfa og reynast þarfir þjónar, sökum allra góðra hæfileika sem vel tömdu dýri eru áskapaðir í þjónustu mannsins ef menn hafa vit til að notfæra sér þá. Hundar voru jafnan hreinsaðir árlega í þar til gerðum kofum. Fynndist sullur í kind í sláturtíð var hann brenndur. Hundar ekki hafðir á blóðvelli. Ég trúi þeim sem sjá fylgjur manna að þeir sjái leyniþráðinn milli manns og hests og hunds, það er svo nefnt sálarlíf. Þeim er nóg sem trúir að skyggnir sjái hunda sem fylgjur og að skynlausar skepnur, kallaðar svo, hafi sál, meðan sköpunarverkið er ekki alfarið gert af manna höndum. Það var einn þáttur tamningar að sýna alvöru því annars gátu dýr ekki skilið mann. Einnig þurfti að hrósa þeim fyrir góða hegðun. Þeir kunnu að gleðjast og hryggjast eins og menn og vera eins og hugur manns. Flækingshundar voru illa tamdir og oft illa með farnir. Enginn vildi hæna þá að sér því voru þeir skammaðir og bundið í skottið á þeim, það reyndist gott ráð til að losna við þá frá bæ.

p3
Orð og orðasambönd: Hundar nefndir öllum mögulegum nöfnum, nema mannanöfnum, Kolur, Kjammi, Smali, Vaskur, Lubbi. Snoð hét hárið. Hundar létu í ljós skapbrigði sín með öllum mögulegum tónum. Gleði með gjammi og gelti. Einnig við smalamennsku á búpeningi. Ýlfring, ýl, spangól og bofsi þegar hann var ósáttur við tilveruna. Urr, var grimmdar tónn, manna- eða gestagelt í hundum er best bar að garði. Hundar höfðu marga eiginleika sem menn höfðu ekki, gátu því fundið feigð á mönnum. Hundum var aldrei slátrað, svo sem lækningamátt tengdan hundalíffærum er ekki að ræða. Orðin deli og búadeli heyrði ég ekki en orðið deli var blótsyrði, djöfsi átti ekki við smalahundinn. Hvaða hundakúnstir eru þetta? var sagt við krakka og ef fólk lét fíflalega eða fann upp á einhverjum óþarfa. Það var niðrandi að vera líkt við óæðra dýr. Menn sýndu það í allri framkomu og aðbúð hunda sem lágu í fleti eða bæli við ystu dyr, nöguðu bein og lifðu á úrgangi og molum af borðum manna að launum fyrir þjónustu sem ekki var hægt að meta að verðleikum. Hann lagði líf sitt í sölurnar í þjónustu við manninn sá tryggi þjónn. Það var ekki siður í minni sveit að selja hund né hvolp. Hvolpar voru gefnir ef góðan granna vantaði hund. Óþarfa hundar ekki til á betri búum. Hvolpum drekkt nýgotnum sem ekki átti að ala.

p4
Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér, var sagt um eða við almúga (mann) fólk sem frekar var litið niður á en fann upp á að hækka sig í tign með uppátækjum heldri manna ofl. í slíkum dúr. Hundspottið litla, gæluorð um krakka og hvolpa eða ef þau gerðu smávegis skammarstrik. Hundur í honum eða milli manna, þótti eða ósætti. Hann fór eins og halaklipptur hundur, var sagt í niðrandi merkingu um gest sem ekki þótti sýna tilhlýðilega kurteysi og hlaupa burt frá borði í flýti. Börnum og hvolpum voru kenndir mannasiðir svo snemma að þau þekktu ekki annað en vera eins og hugur fullorðinna. Þá voru barnabrek og villt hvolpalæti ekki til fyrirstöðu að læra þáttöku í lífsbaráttunni og sætta sig við tilveruna sem var sameign manns, hunds, hests og fénaðar. Fyrir öllu þurfti að sjá án véla og hjálpartækja nútímans því voru menn og hundar eins og útspýtt hundskinn við verkin sín eða á þönum allan daginn. Orðtakið átti einnig við menn sem flökkuðu bæ frá bæ án erinda. Hundi sigað með irr, irr, hott. Hundur, köttur, maður var sagt til að fá lítil börn til að borða þrjá bita eða skeiðar og verða að manni. Börn vanin strax af mótþróa. Ég kannast við orðin í ýmsum samböndum en hefi engu við að bæta. Lítil saga um hundinn sem gleymdist að taka með heim. Hann lagðist utan dyra og beið og beið eitt ár, þá kom eigandinn. Þar sem hundur lá þarna í hnipri lengi dags og hreyfði sig ekki fór ég að athuga

p5
hvort hann væri slasaður eða veikindalegur, sá ekkert athugavert. Færði honum mjólk og smávegis glefsu í svanginn sem hann þáði. Ekki sýndi hann á sér fararsnið en lá áfram. Um kvöldið opnaði ég kjallaradyr að skúr við innganginn, setti strigapoka fyrir ból og sagði að hann mætti liggja þarna í nótt. Hann fór og lagðist þarna niður, þetta var hans verustaður og bæli árið út. Afskiptalaus af öllum og engum til ama. Ég hafði alltaf opið svo hann gæti farið ef hann vildi og færði honum hundamat, ekki á silfurfati. Hann gerði sér allt að góðu. Var alltaf jafn hreinlegur án þjónustu. Eitthvað hefir seppi fylgst meira með mannaferðum en ég hélt því eitt sinn eftir langa bið veit ég ekki fyrr en hvutti er kominn og labbar með mér í búðarráp. Ekki fór hann alla leið í kaupstaðinn heldur fór á grasbala og lagðist þar og beið mín en kom svo með mér heim og hefði borið fyrir mig vöruna ef hann hefði átt hundaklyfbera. Þetta gerði hann svo daglega meðan hann dvaldi í bæli sínu sem hann vildi ekki fara úr þegar eigandinn kom að sækja hann. Ég spurði hann þá hvort hann vildi ekki lofa honum að liggja þarna áfram. Þá var hann svo ómissandi fjárhundur að karlinn bað mig að reyna að fá hann úr bælinu. Blessað dýrið stóð strax upp þegar hann sá mig en þegar hann sá bílinn sem karlinn kom á neitaði hann að fara, þá fyrst skildi ég hátterni vinarins sem var hræddur við tæknina, en var tekinn með valdi. Sagan gerðist á Þórshöfn.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana