LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHundur, Kyn
Spurningaskrá66 Hundurinn

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1919

Nánari upplýsingar

Númer8668/1987-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1987
Nr. 8668

p1
Oftast voru hundar hér á Saurum í Laxárdal. Það voru líka alltaf einn og tveir hundar í Grænumýrartungu þegar ég var barn. Í nokkuð mörg ár hefur enginn hundur verið hér. En eftir að hætt var að hafa hunda hér fórum við að hafa hund sem gæludýr. En hættum því þar sem þeir hundar sem voru hér voru alltaf að fara í bílana með gelti og látum. Það var sérstaklega gremjulegt á vorin, því ærnar sem komnar voru að burði hrukku svo við og þutu beint af augum, ég veit ekki hvert. Ekki hef ég heyrt að hundar eða hvolpar hafi verið seldir. Hvolpar voru teknir frá sínu heimili þegar þeir voru hættir að sjúga. Sem sagt farnir að lepja mjólk og éta. Það var alltaf sagt að tík væri að gjóta þegar hún var að eiga hvolpana sína. Ég held að hvolpum hafi verið drekkt. Þannig eins dags gamlir voru þeir teknir og settir í poka og bundið fyrir. Allt sett svo í fötu með vatni í og torfusnepill settur yfir, svo þeir köfnuðu sem fljótast, og grafnir næsta dag. Hundar sem ég þekkti í Hrútafirði voru ekki loðnir, þeir voru snöggir á hár með sperrt eyru

p2
og hringað skott, ýmsir litir, t.d. svartir, mórauðir og flekkóttir. Hundar ýlfra, urra, gelta og spangóla. Hundar spáðu fyrir gestakomu með því að liggja flatir á kviðnum með hausinn ofan á framfótunum. Það var algengt að hundar fylgdu mönnum á bæi. En helst ekki til kirkjunnar, þó kom það fyrir og var vont að koma þeim út úr kirkjunni ef þeir komust inn með húsbónda sínum. Hundar áttu sér bæli sem var oftast skot eða afsíðis krókur með heydýnu. Það var sérstakt ílát undir mat fyrir hundinn og var hann þveginn þegar þurfa þótti. Hundum var skammtaður matur tvisvar á dag. Man ég það vel þegar ég var 6 ára, var tík heima og þrír hvolpar. Ég var svo sjálfboðaliði að gefa hvolpunum. Eitt sinn var ég að gefa þeim og hafði þá sett smá slurk af rjóma út í dallinn þeirra. Þá kemur mamma og segir: "Hvað ertu að gera? Gefurðu hvolpunum rjóma?" "Já," var svarið. "Þykir ykkur ekki líka góður rjómi?" Með því féll málið niður.

p3
Ég get ekki lýst því hvernig hundar voru vandir til að vera góðir fjárhundar. En einu sinni eða oftar kom Guðmundur Ásmundsson frá Krossi í Haukadal, norður til að sækja fé. Og kom þá með tvo skoska hunda, sem hann talaði við á erlendu tungumáli. Síðan benti hann þeim og hundarnir ráku þá féð sem leið lá vestur í Dali. Guðmundur þessi var búinn að vera í nokkur ár í Skotlandi við landbúnaðarstörf og þaðan hefur hann eflaust komið með þessa hunda. Hundar voru alltaf hreinsaðir og baðaðir einu sinni á ári. Ef sullir fundust er fé var slátrað voru sullirnir teknir og brenndir, passað vel upp á það að sullirnir brynnu. Ekki veit ég hvað hundur í draumi þýðir, en ég vildi að ég vissi það. Ég hefi heyrt að dauður hundur fylgi manni. Heyrt hefi ég að hundar hafi skyggnigáfu, en ég kann ekki að segja um það neitt. Því miður kann ég ekki margt um þessar spurningar að segja.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana